Sýnir færslur með efnisorðinu umhverfi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu umhverfi. Sýna allar færslur

06 júní, 2020

Nokkurskonar gestur í eigin landi

Ég þurfti að sinna erindi í Laugarási í dag. Þetta var aldeilis ágætur dagur til þess arna og þorpið í skóginum skartaði sínu fegursta, að stórum hluta (meira um það síðar), enda sá tími ársins þegar gróðurinn er nánast að missa sig í vaxtarþrá. Það var gleðilegt að sjá yfirfull bílastæði við og í nágrenni við Slakka, íslenskir túristar kynntu sér söguna við söguskiltin góðu, fuglar af ýmsu tagi sýndu sínar fegurstu hliðar. 
Sem sagt, gott.
Það verð ég nú að segja, að tilfinningin sem vaknaði við að koma í Laugarás, var harla sérstök og ég er ekki enn búinn að ákveða hvernig best er að láta hana vera, en þykist viss um að ég finn þann farveg sem best hentar. Ég sá útundan mér hvar nýir ábúendur í Kvistholti voru í óða önn að koma sér fyrir..
Ég er viss um að við munum kíkja á þau áður en alltof langt um líður, en sá tími er hreint ekki kominn enn. Við vonum að þeim auðnist að hefja þann góða stað til vegs og virðingar, eins og hann á skilið.
Við höfum nú gert talsvert af því fD og ég að iðka heilsubótargöngur í og í nágrenni Laugaráss. Við gátum ekki annað en rifjað upp fyrri takta þarna, úr því við vorum nú komin á svæðið á annað borð. 
Það er gaman að ganga framhjá stöðum sem er vel við haldið og þar sem snyrtimennska og metnaður fyrir eigin hönd og þorpsins eru höfð í hávegum.  
Af einhverjum ástæðum hefur þeim stöðum farið fjölgandi í Laugarási, sem hefur farið verulega aftur undanfarin ár. Fyrir þessu eru sennilega og stundum örugglega, gildar ástæður, en þó ég búi nú í öðrum hreppi leyfi ég mér að hvetja Laugarásbúa til að gera sitt til að það fólk sem á leið í eða um þorpið fái það á tilfinninguna að þar sé gott samfélag fólks, sem leggur metnað í umhverfi sitt. Það skiptir máli, miklu máli.

Ég veit vel, að ég á ekki að vera að skipta mér af því sem mér kemur ekki lengur við, en almennt séð held ég, að á stað þar sem kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í talsverðum mæli, svona eins og náttúran segir til um, sé það ásýndin sem skiptir harla miklu máli, skiptir jafnvel sköpum hvernig til tekst, svo ekki sé nú meira sagt.

Ég vona að mér fyrirgefist afskiptasemin.



26 desember, 2019

Hún rís víst

Nú erum við komin framhjá því heilagasta og tökumst á við fyrsta daginn þagar maður má fara að gera eitthvað, yfirleitt, annað en belgja sig út af mat, sofa eða lesa, nú eða sinna andlegum málefnum af einhverju tagi.
Kvisthyltingar hafa átt hin rólegustu jól fram til þessa, enda ekkert fjölmenni í kotinu, þó segja megi að fiðruðum fjölskyldumeðlim hafi vel tekist að hafa ofan af fyrir fólkinu.

Við hefðum sannarlega getað sinnt kristilegum verkefnum í meiri mæli en raunin var; létum nægja að þenja raddböndin í jóladagsmessu í gær. Þar lýsti sóknarpresturinn því yfir, að Skálholtskórinn væri besti kirkjukór á landinu. Stór orð, en það er fjarri mér að draga í efa að hann hafi þarna hitt naglann á höfuðið. Mér þykir sýnt að eftir þessa yfirlýsingu prestsins hafi kórfélagar gefið allt sitt í sönginn sem fylgdi, í það minnsta tel ég tenórana þrjá hafa lagt sig fram um að staðfesta hana.

Sóknarpresturinn hafði einnig allmörg orð um einsöngvarann í messunni, Maríu Sól Ingólfsdóttur, sem um þessar mundir stundar nám í Den Haag í Hollandi. Ég get tekið undir það sem hann lét sér þarna um munn fara, enda reyndist söngur Maríu Sólar sérlega fagur og bar þess vitni  að hún heldur áfram að eflast.

Annað sem bar til tíðinda, eða ekki, áður en jólamessan í Skálholtsdómkirkju hófst var, að klukkur kirkjunnar hljómuðu óvenjulega, en þeim fækkar ört sem heyrt hafa þær hringja oftar en ég. Það var eins og bæri meira á einhverjum dynkjum en bjölluhljóm. Hvað þarna er um að ræða veit ég hreint ekki, en finnst nú að einhver þar til bær ætti að athuga hvort líkur séu a að önnur klukka fari að falla úr sæti sínu og brotna á gólfinu.
Klukkuvirkið er mannaverk og slík verk eru ekki eilíf.
Í gær var algert logn í Skálholti, sem telja má til tíðinda, og veður milt..

Það má segja að þessi jólamessa, sem eitt sinn var aðalguðþjónustan á jólum í Skálholti, hafi verið á ljúfari nótunum. Kirkjugestir voru 23  og 12 voru kórfélagarnir sem sungu og þar vantaði engan tenór.


Nú er, sem sagt, mesta helgin frá og framundan veraldlegri hluti hátíðahalda þessara síðusta daga ársins. Ekki á ég sérstaklega von á að við Kvisthyltingar munum ganga hratt um gleðinnar dyr þessa daga, nema ef til vill hið innra. Eins og margir landsmenn, þurfum við að gera upp við okkur hversu langt rétt er að ganga við sprengingar þegar nýja árið gengur í garð.
Við getur tekið þann pól í hæðina að freista þess eitt árið enn, að leggja Kirkjuhyltinga að velli að þessu leyti, en við getum líka lagt okkar lítilvæga lóð á vorgarskálina til að auka líkurnar á að jörðin okkar verði byggileg til framtíðar. Þarna takast á tvenn mikilvæg sjónarmið: það sem leggur áherslu á augnablikið og svo það sem fjallar um hið óendanlega samhengi hlutanna, þar sem við erum minni en smæsta sandkornið á ströndinni. Hvað verður ofan á veit ég ekki enn, en væntanlega munu Kvisthyltingar komast að sinni niðurstöðu um þetta mál, eins og önnur - það næst alltaf einhver niðurstaða. Kannski munum við bara standa út á palli og segja: "Þarna er ein á Sólveigarstöðum" eða "Það er aldeilis skothríðin í Auðsholti" eða "Ætli þau séu ekki heima í Kirkjuholti?" Hver veit?
Hvað sem við gerum, þá rennur þetta ár sitt skeið, hverfur í aldanna skaut og kemur aldrei til baka - ár sem hefur verið eitt hið undarlegasta í sögu okkar. Meira um það síðar, ef að líkum lætur.



28 mars, 2019

Kúba: Casilda

Brunað í skólann
Þessi litli bær eða þorp, Casilda, þar sem við héldum til er í um 5 km fjarlægð frá Trinidad og tilheyrir því bæjarfélagi í Sancti Spiritus héraði. Ég fann upplýsingar um að árið 1943 hafi íbúar tæplega 2000, en uppfærðar upplýsingar hljóta að hafa farið framhjá mér. Bærinn þessi  liggur að hafi og þar í grennd eru hinar ágætustu baðstrendur.
Við komum í þennan áfangastað okkar í myrkri og það var því ekki fyrr en næstu þrjá morgna, áður en lagt var af stað í ferðir sem tími gafst til að skoða sig lítillega um. Umhverfið minnti mig dálítið á Laugarás á fyrsta áratug ævi minnar, þó ekki hafi þar verið ekið um í hestvögnum.
Faðir og sonur
Það var ekkert mikið lagt upp úr malbikuðum götum, gróður fékk að vaxa óáreittur, húsin voru, mörg hver ekkert augnayndi, allavega hið ytra. Það var hinsvegar einhver indælis ró yfir mannlífinu eins og það birtist okkur. Það sást enginn flýta sér, þeir bílar sem óku um göturnar gerðu það á hraða hestvagnanna, á morgnana fylgdu foreldrar börnum sínum í skólann, gangandi, á reiðhjólum, skellinöðrum eða hestvögnum. Börnin virkuðu einstaklega prúð og snyrtileg í skólabúningunum sínum.
Öðrumegin við La Rosa, þar sem við bjuggum næturnar þrjár í þessum bæ, var leikskóli, en hinumegin grunnskóli. Búningar leikskólabarnanna (4-6 ára) eru hvít skyrta/blússa og bláar stuttbuxur eða pils og blár hálsklútur. Grunnskólabörnin (6 - 11 ára) klæðast samsvarandi í rauðum lit. Ég tók, í leyfisleysi og banni nokkrar myndir af snyrtilegum grunnskólabörnunum á leið í skólann, en þegar ég ætlaði að ná mynd af leikskólabörnunum, sem þá voru kominn inn á skólalóðina, fékk ég merki frá kennara um að það teldist ekki góð hugmynd. Gott hjá henni.

La Rosa og nágrenni (mynd af Google maps)
Þessi hópur Kúbuferða gisti allur við aðalgötuna og reyndar einu, svona alvöru götuna í bænum, en hún heitir Real eða bara Aðalgatan. Hún var svona eins og nokkurskonar breiðstræti, með breiðri grasigróinni eyju á milli. Umferðin var hinsvegar frjálsleg;  breiðari hluti strætisins leyfði umferð í báðar áttir. Ég held að umferðarstefna eftir hinni hafi verið svona eins og best hentaði hverju sinni. Umferðarhraðinn held ég gefi ekki tilefni til einhverra stífra umferðarreglna.

Þrátt fyrir að líf á svona stað finnist mér að miklu leyti afskaplega eftirsóknarvert, þá gæti margt verið í betra horfi. Þjóðskipulagið á Kúbu getur verið til fyrirmyndar, en það er ekki síður stórgallað. Það sama má eflaust einnig segja um annarskonar þjóðskipulag svo sem, hverju nafni sem nefnist.

Fólkið vantaði ýmislegt í Casilda, og væntanlega víða annarsstaðar á þessari hlýju eyju. Fatnaður, ritföng og hitt og þetta sem við teljum sjálfsagt og tilheyra almennum mannréttindum, var af skornum skammti.  Það kom samt ekki í veg fyrir, að þetta þægilega fólk fetaði sig í gegnum lífið með bros á vör.
Það var að morgni þriðjudagsins 5. mars að hópurinn kvaddi Casilda og gestgjafana. Framundan var um 500 km akstur til höfuðborgarinnar, Havana (La Habana).

Að hefja morgunverkin
Aðalgatan, Real.
Á leið í skólann. Mæður þeirra viku úr vegi þegar ég mundaði EOS-inn og fylgdust brosandi með.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...