28 mars, 2019

Kúba: Casilda

Brunað í skólann
Þessi litli bær eða þorp, Casilda, þar sem við héldum til er í um 5 km fjarlægð frá Trinidad og tilheyrir því bæjarfélagi í Sancti Spiritus héraði. Ég fann upplýsingar um að árið 1943 hafi íbúar tæplega 2000, en uppfærðar upplýsingar hljóta að hafa farið framhjá mér. Bærinn þessi  liggur að hafi og þar í grennd eru hinar ágætustu baðstrendur.
Við komum í þennan áfangastað okkar í myrkri og það var því ekki fyrr en næstu þrjá morgna, áður en lagt var af stað í ferðir sem tími gafst til að skoða sig lítillega um. Umhverfið minnti mig dálítið á Laugarás á fyrsta áratug ævi minnar, þó ekki hafi þar verið ekið um í hestvögnum.
Faðir og sonur
Það var ekkert mikið lagt upp úr malbikuðum götum, gróður fékk að vaxa óáreittur, húsin voru, mörg hver ekkert augnayndi, allavega hið ytra. Það var hinsvegar einhver indælis ró yfir mannlífinu eins og það birtist okkur. Það sást enginn flýta sér, þeir bílar sem óku um göturnar gerðu það á hraða hestvagnanna, á morgnana fylgdu foreldrar börnum sínum í skólann, gangandi, á reiðhjólum, skellinöðrum eða hestvögnum. Börnin virkuðu einstaklega prúð og snyrtileg í skólabúningunum sínum.
Öðrumegin við La Rosa, þar sem við bjuggum næturnar þrjár í þessum bæ, var leikskóli, en hinumegin grunnskóli. Búningar leikskólabarnanna (4-6 ára) eru hvít skyrta/blússa og bláar stuttbuxur eða pils og blár hálsklútur. Grunnskólabörnin (6 - 11 ára) klæðast samsvarandi í rauðum lit. Ég tók, í leyfisleysi og banni nokkrar myndir af snyrtilegum grunnskólabörnunum á leið í skólann, en þegar ég ætlaði að ná mynd af leikskólabörnunum, sem þá voru kominn inn á skólalóðina, fékk ég merki frá kennara um að það teldist ekki góð hugmynd. Gott hjá henni.

La Rosa og nágrenni (mynd af Google maps)
Þessi hópur Kúbuferða gisti allur við aðalgötuna og reyndar einu, svona alvöru götuna í bænum, en hún heitir Real eða bara Aðalgatan. Hún var svona eins og nokkurskonar breiðstræti, með breiðri grasigróinni eyju á milli. Umferðin var hinsvegar frjálsleg;  breiðari hluti strætisins leyfði umferð í báðar áttir. Ég held að umferðarstefna eftir hinni hafi verið svona eins og best hentaði hverju sinni. Umferðarhraðinn held ég gefi ekki tilefni til einhverra stífra umferðarreglna.

Þrátt fyrir að líf á svona stað finnist mér að miklu leyti afskaplega eftirsóknarvert, þá gæti margt verið í betra horfi. Þjóðskipulagið á Kúbu getur verið til fyrirmyndar, en það er ekki síður stórgallað. Það sama má eflaust einnig segja um annarskonar þjóðskipulag svo sem, hverju nafni sem nefnist.

Fólkið vantaði ýmislegt í Casilda, og væntanlega víða annarsstaðar á þessari hlýju eyju. Fatnaður, ritföng og hitt og þetta sem við teljum sjálfsagt og tilheyra almennum mannréttindum, var af skornum skammti.  Það kom samt ekki í veg fyrir, að þetta þægilega fólk fetaði sig í gegnum lífið með bros á vör.
Það var að morgni þriðjudagsins 5. mars að hópurinn kvaddi Casilda og gestgjafana. Framundan var um 500 km akstur til höfuðborgarinnar, Havana (La Habana).

Að hefja morgunverkin
Aðalgatan, Real.
Á leið í skólann. Mæður þeirra viku úr vegi þegar ég mundaði EOS-inn og fylgdust brosandi með.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...