Sýnir færslur með efnisorðinu kjólamessa. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kjólamessa. Sýna allar færslur

26 desember, 2019

Hún rís víst

Nú erum við komin framhjá því heilagasta og tökumst á við fyrsta daginn þagar maður má fara að gera eitthvað, yfirleitt, annað en belgja sig út af mat, sofa eða lesa, nú eða sinna andlegum málefnum af einhverju tagi.
Kvisthyltingar hafa átt hin rólegustu jól fram til þessa, enda ekkert fjölmenni í kotinu, þó segja megi að fiðruðum fjölskyldumeðlim hafi vel tekist að hafa ofan af fyrir fólkinu.

Við hefðum sannarlega getað sinnt kristilegum verkefnum í meiri mæli en raunin var; létum nægja að þenja raddböndin í jóladagsmessu í gær. Þar lýsti sóknarpresturinn því yfir, að Skálholtskórinn væri besti kirkjukór á landinu. Stór orð, en það er fjarri mér að draga í efa að hann hafi þarna hitt naglann á höfuðið. Mér þykir sýnt að eftir þessa yfirlýsingu prestsins hafi kórfélagar gefið allt sitt í sönginn sem fylgdi, í það minnsta tel ég tenórana þrjá hafa lagt sig fram um að staðfesta hana.

Sóknarpresturinn hafði einnig allmörg orð um einsöngvarann í messunni, Maríu Sól Ingólfsdóttur, sem um þessar mundir stundar nám í Den Haag í Hollandi. Ég get tekið undir það sem hann lét sér þarna um munn fara, enda reyndist söngur Maríu Sólar sérlega fagur og bar þess vitni  að hún heldur áfram að eflast.

Annað sem bar til tíðinda, eða ekki, áður en jólamessan í Skálholtsdómkirkju hófst var, að klukkur kirkjunnar hljómuðu óvenjulega, en þeim fækkar ört sem heyrt hafa þær hringja oftar en ég. Það var eins og bæri meira á einhverjum dynkjum en bjölluhljóm. Hvað þarna er um að ræða veit ég hreint ekki, en finnst nú að einhver þar til bær ætti að athuga hvort líkur séu a að önnur klukka fari að falla úr sæti sínu og brotna á gólfinu.
Klukkuvirkið er mannaverk og slík verk eru ekki eilíf.
Í gær var algert logn í Skálholti, sem telja má til tíðinda, og veður milt..

Það má segja að þessi jólamessa, sem eitt sinn var aðalguðþjónustan á jólum í Skálholti, hafi verið á ljúfari nótunum. Kirkjugestir voru 23  og 12 voru kórfélagarnir sem sungu og þar vantaði engan tenór.


Nú er, sem sagt, mesta helgin frá og framundan veraldlegri hluti hátíðahalda þessara síðusta daga ársins. Ekki á ég sérstaklega von á að við Kvisthyltingar munum ganga hratt um gleðinnar dyr þessa daga, nema ef til vill hið innra. Eins og margir landsmenn, þurfum við að gera upp við okkur hversu langt rétt er að ganga við sprengingar þegar nýja árið gengur í garð.
Við getur tekið þann pól í hæðina að freista þess eitt árið enn, að leggja Kirkjuhyltinga að velli að þessu leyti, en við getum líka lagt okkar lítilvæga lóð á vorgarskálina til að auka líkurnar á að jörðin okkar verði byggileg til framtíðar. Þarna takast á tvenn mikilvæg sjónarmið: það sem leggur áherslu á augnablikið og svo það sem fjallar um hið óendanlega samhengi hlutanna, þar sem við erum minni en smæsta sandkornið á ströndinni. Hvað verður ofan á veit ég ekki enn, en væntanlega munu Kvisthyltingar komast að sinni niðurstöðu um þetta mál, eins og önnur - það næst alltaf einhver niðurstaða. Kannski munum við bara standa út á palli og segja: "Þarna er ein á Sólveigarstöðum" eða "Það er aldeilis skothríðin í Auðsholti" eða "Ætli þau séu ekki heima í Kirkjuholti?" Hver veit?
Hvað sem við gerum, þá rennur þetta ár sitt skeið, hverfur í aldanna skaut og kemur aldrei til baka - ár sem hefur verið eitt hið undarlegasta í sögu okkar. Meira um það síðar, ef að líkum lætur.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...