|
fS, fA og fD með Burj Al Arab í baksýn. Í baksýn má greina á himni helstu martraðarsviðsmynd ferðarinnar, sem ekki raungerðist. |
Ferðin sem hér er ætlun mín að gera tilraun til að varpa nokkru ljósi á, á sér margra ára aðdraganda. Hún varð ekki eins uppsett og upphaflega var ætlun fD, en hún hafði hugsað sér sð við færum tvö í einhverja svakalega reisu, sem ætti endapunkt í Ástralíu, en með viðkomu í Dúbæ við Persaflóa í bakaleiðinni, þar sem áð skyldi í einhverja daga til að njóta getrisni Dúbæ-búandi frændfólks hennar. Ég spyr mig auðvitað, hvort undirtektir mínar hafa ef til vill ekki verið nægilega afgerandi til að af þessu ferðalagi yrði á þeim tíma. Við því er ekkert svar. Það má hinsvegar velta fyrir sér, hvort skipulag ferðar af þessu tagi hefði reynst mér ofviða, þar sem þarna hefði ég þurft að stíga ansi langt út fyrir þægindarammann.
Draumurinn um Dúbæferð lifði þó áfram.
Ætli sé ekki að verða ár síðan hugmyndir um þessar ferð fóru að taka á sig skýrari mynd. Áður en lengra er haldið er rétt að greina aðeins frá fólkinu sem hér kemur við sögu. Þar ber fyrst að nefna Þorvaldsdætur, sem ólust upp hjá foreldrum sínum í Kópavogi í árdaga og eru nú allar komnar á eða að nálgast áttræðisaldurinn. Þetta eru þær Dröfn
(fD) sem býr nú á Selfossi, Auður
(fA) sem hefur búið um langt árabil í Ishøj í kóngsins Kaupmannahöfn og Sóley
(fS), sem situr á föðurleifð sinni í Kópavogi. Systrunum til aðstoðar í þessu ferðalagi voru svo Anfinn
(hA) sem fæddur er og uppalinn Færeyingur, og eiginmaður fA og svo sá sem þetta ritar, sem gegndi sérstöku hlutverki aðstoðarmanns fD. Loks ber að geta fólksins sem fékk það hlutverk að taka við þessum fimm manna hópi og leiða í allan sannleik um lífið í sandkassanum þarna austurfrá; arabíska furstadæminu Dúbæ. Þetta eru hjónin Áslaug
(fÁ), dóttir fA og hA og Sören Ekelund
(hS). Þau hafa búið í Dubai um árabil og komið sér þarvel fyrir.
Ferðin raungerist.
Það varð úr að Þorvaldsdætur ákváðu ýmislegt:
1. Að ferðin skyldi eiga sér stað í síðari hluta októbermánaðar, þar sem þá yrði farið að kólna nokkuð á Arabíuskaganum. Rannsókn leiddi í ljós,að sumarhitinn á þessum slóðum geti verið frekar lítt þolandi, meðalhiti í júní til ágúst er 33-42°C, í október er hann að jafnaði 30-38°C.
2. Að verða sér úti um viðeigandi höfuðbúnað, til að fá inngöngu í bænahús múslima, mosku. Mér fannst eiginlega, að þessi slæðumál væri alltaf stærsta ákvörðunaratriðið. Frænka í sandkassanum fékk það hlutverk að útvega sérhannaðar slæður, þannig að engin hætta yrði á því að virðulegar vestrænar konur yrðu sér til minnkunar þegar í moskuna kæmi.
Það var ekki nóg með það, heldur var gerð tilraun til mátunar á mismunandi hyljandi slæðum, með aðstoð AI var gerð við Austurveginn.
Upphaf ferðar.
Nú, þetta hófst allt með eðlilegum hætti, þannig séð. Það var þó alltaf nokkur óvissa um það hvernig ástandið við botn Miðjarðarhafsins yrði og á tímabili voru jafnvel uppi efasemdir um að óhætt yrði að leggja leið þarna austur eftir, en slagur var látinn standa.
|
Þorvaldsdætur á leið að flugvöllinn |
Íslandsbúandi hluti hópsins flaug til Kaupinhafnar þann 19. október og gisti þar hjá Íshæðarhjónunum í tvær nætur, áður en Emirates flugvélin hóf sig til flugs með hann innanborðs, mánudaginn 21. október.
Sögur höfðu gengið af flugferðum með þessu flugfélagi, sem leiddu til allmikillar tilhlökkunar, en búist hafði verið við rúmgóðum sætum og þjóni á hverjum fingri alla leið. Þetta reyndist svo bara vera venjuleg flugvél, með venjulegum flugvélamat. Engin gullslegin hnífapör eða sérhannaðir matardiskar.
Það var auðvitað hægt að fylgjast með flugleiðinni á skjá fyrir framan sig, en hún lá yfir Miðjarðarhafið í grennd við Kýpur og síðan í sveig framhjá átakasvæðum, þannig að við, með mismikinn móral yfir þessu ferðalagi okkar á þessum slóðum, þyrftum ekki að berjast við aukinn hjartslátt með kvíðahnút í maganum.
|
Í flugvallarstrætó í Dúbæ |
Á kortinu af flugleiðinni mátti einnig sjá í hvaða átt Mekka var hverju sinni, sem auðvitað hentaði vel þeim sem þurftu af hafa það í huga.
Svo segir ekki af flugferðinni fyrr en lent var í Dúbæ um miðnætti, eftir um það bil 6 klukkustunda ferð.
Flugvallarstrætó tók við okkur úr flugvélinni og ók með okkur ógnarlengi þar til komið varð að inngangi í flugstöðina. Þar sem við komum þar inn blöstu nöfn okkar við á skilti, sem hefði getað verið áhyggjuefni, en var þvert á móti talsvert gleðiefni, af ástæðum sem greint verður frá í næsta þætti.