Sýnir færslur með efnisorðinu veira. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu veira. Sýna allar færslur

25 febrúar, 2020

Ógnin

Það fer nú ekki hjá því að maður hugsi ýmislegt þessa dagana. Eitt af því sem engan veginn virðist vera hægt að leiða hjá sér, er COVID 19 eða Corona veiran, sem á að hafa komið fyrst á sjónarsviðið í Wuhan borg í Kína. Nú blasir það við, að við fáum þennan gest í heimsókn og hvað þá?
Vegna óljósra svara frá yfirvöldum um við hverju er að búast, fer ekki hjá því, að ímyndunaraflið fari á flug. Þegar það gerist þá er þar yfirleitt gert meira úr en minna.

Þar með víkur sögunni að viðbúnaði Kvisthyltinga, ef eða þegar veiran hefur útbreiðslu sína um bæi og sveitir. Ég óttast ekki að fD muni ávallt vera vel vakandi gagnvart mögulegum smitleiðum, en hún hefur nú í tvígang varað við mögulegu hættuástandi.
Í fyrra sinnið vorum við á heilsubótargöngu þegar bifreið nam staðar hjá okkur og þar sem bílrúðan var dregin niður komu í ljós fjórir Asíubúar, sem þurftu að spyrjast til vegar. Ég fór auðvitað í að leiðbeina fólkinu eins og maður gerir, en það fólst meðal annars í að sína þeim á korti í símanum sem þau voru með, hvaða leiðir lægju hvert. Símaskjáir eru ekki stórir og því beygði ég mig inn í bílinn til að átta mig betur og til að geta sýnt betur hvað var hvað. Þá heyrði ég sagt fyrir aftan mig: "Ekki fara svona nálægt!". Þarna hafði fD umsvifalaust áttað sig á því að mögulega væri þarna um að ræða fólk frá Wuhan og því engin ástæða til annars en halda öruggri fjarlægð. Þetta hafði mér ekki komið til hugar, en komst ekki hjá því, í framhaldinu, að velta fyrir mér hvort þarna hefði ég kannski, mögulega, hugsanlega smitast.
Í síðara skiptið sem fD sýndi af sér samsvarandi árvekni, var við innkaup í stórmarkaði á Suðurlandi. Reyndar minntist hún ekki á það við mig fyrr en við vorum sest út í bíl að loknum innkaupum, að í búðinni var fjöldi Asíubúa og hún mun hafa gert sitt til að forðast að lenda í of miklu návígi við þá. Ég hafði nú ekki einusinni tekið eftir því að í versluninni væru Asíubúar.

Það má taka þessari yfirvofandi ógn af ákveðnu kæruleysi, segja sem svo að þetta sé nú bara eins og hver önnur flensa, sem langflestir ná sér af og því sé engin ástæða til að gera neinar sérstakar ráðstafanir.
Það má líka fara alveg yfir á hinn kantinn: loka sig bara inni í Kvistholti þar til þetta er frá. Það myndi meðal annars fela í sér að sleppa kóræfingum, enda gætu einhverjir kórfélagar, eða ættingjar þeirra verið nýkomnir frá Tenerife eða Ítalíu. Sleppa einnig leiksýningu ungmennafélagsins. Þetta gæti líka falið í sér að skjótast út í apótek til Þrúðu, með þykkan trefil fyrir vitunum, til að athuga hvort þar væri ekki hægt að kaupa öruggar andlitsgrímur.  Þá gæti þetta falið í sér að reikna út hvenær dags fæstir fara út að versla og mæta síðan galvaskur með grímuna og sjá til þess að vera aldrei í minna en tveggja metra fjarlægð frá næsta manni og þvo síðan allar vörur þegar heim væri komið og spritta á sér hendurnar.

Það er sannarlega eitthvað verulega óþægilegt við það að vita af einhverri áður óþekktri veiru á sveimi í umhverfi sínu, en sennilega eru nú viturlegustu viðbrögðin einhver millileið milli öfganna sem ég tæpti á hér fyrir ofan.  Það kemur í ljós hvað verður með þessa veiru sem er að setja veröldina á annan endann. Samskipti þjóða í milli eru hinsvegar orðin með þeim hætti, að ég held að engar mögulegar varúaðrráðstafanir muni geta komið í veg fyrir að hún berist þangað sem hún berst.

Ég hyggst einbeita mér að því að ylja mér við tilhugsunina um að eftir fremur rysjóttan vetur muni vorið smám saman hafa sigur. Svo hef ég alltaf fD til að vera vakandi fyrir þeim ógnum sem mögulega má finna í umhverfinu.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...