Sýnir færslur með efnisorðinu Diria. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Diria. Sýna allar færslur

07 janúar, 2026

Costa Rica (14) Kyrrahafsströndin

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Eins og maður gerir á ferðalögum, renndum við í hlað á 4 stjörnu glæsihóteli í Tamarindo, sem ber nafnið Tamarindo Diria Beach Resort  Maður eru vanur því að  taka farangurinn úr farartækinu, ganga inn og fá úthlutað herbergi og fara þangað með farangurinn. Vissulega tókum við við farangrinum úr rútunni, fengum lykil að herberginu, ekki inni reyndar, heldur nánast utandyra, þar sem engir veggir voru á anddyrinu. Síðan tók enn annar háttur við. Að streymdu starfsmenn hótelsins og báðu okkur að bera kennsl á farangurinn og númerið á herberginu. Töskurnar voru merktar herbergisnúmerinu og síðan hlóðu þeir þeim á vagna og hurfu á braut. Við fórum að horfa á sólarlagið, en síðan röltum við, eins og fínt fólk, að leita að herberginu, sem reyndist vera á annarri hæð, af þrem. Þegar inn í það var komið, biðu töskurnar okkar fyrir innan dyrnar. Þvílíkt!
Til glöggvunar á því sem síðar kemur, læt ég hér fylgja kort af staðnum sem við vorum þarna komin á.
Diria hótelið og örvar sem benda á helstu hluta þess.

Úr herberginu blasti Kyrrahafið við í ljósaskiptunum.
Það er, alla jafna ekki frá mörgu að segja frá hóteldvöl einhversstaðar. Þarna bar aðeins nýrra við, sem kryddaði tilveruna umfram þá stöðu, að úr herbergi okkar fD blasti Kyrrahafið við okkur, fyrsta sinni. Auðvitað reyndist það bara vera svona haf eins höf eru, en samt var tilfinningin önnur. Það má kannski líkja þessu við áramót, þar sem ári lýkur og nýtt tekur við. Það gerist í rauninni ekkert, en samt er það eins og nýtt upphaf.

Ég sagði að þarna hafi borið nýrra við og þar kom aðallega tvennt til. 
Fyrsta morguninn fórum við í morgunverð á veitingasvæðinu (sjá loftmynd) og þar var að finna svo óendanlegt úrval að maður bölvaði því að hafa ekki stærri maga. Eftir að röltum við aðeins um svæðið svona til að kynna okkur staðhætti og loks aftur í herbergið.
Þá bar svo við, að á dyrahúninn var búið að hengja skilti þar sem óskað var eftir að herbergið yrði ekki þrifið. Ekki ætla ég að fara nánar út í það sem fylgdi, en set þetta hér bara til minnis, með tilvísun í myndina hér til hægri, ef einhver nennir að velta fyrir sér aðstæðum sem þarna komu upp.

Annað, heldur áhugaverðara, gerðist í þessu herbergi okkar, eða réttara sagt fyrir utan það. Við verðum að hafa í huga, að þarna vorum við í umhverfi sem við þekktum ekki mikið til, og því meira á tánum gagnvart umhverfinu en á Austurveginum. Fyrsta morguninn var ég innan dyra, eitthvað að dunda mér við að fletta í gegnum fréttamðla á Íslandi, en fD sat við svipaða iðju, líklega, á svölunum. Ég vissi ekki fyrr til en hún stökk inn um svaladyrnar og lokaði þeim snöfurlega á eftir sér. Svo sagði hún farir sínar ekki sléttar. Hún hafði heyrt hrollvekjandi villidýrsöskur skammt frá svölunum og, skiljanlega, átt von á hinu versta. Ég kíkti út og sá engin villidýr, en við áttum sannarlega eftir að komast að hinu sanna í málinu. 
Eins og sjá má á loftmyndinni hér ofar, er sérstök ör sem bendir á þakið fyrir framan svalirnar hjá okkur. Eftir þessu þaki, milli trjáþyrpinganna við báða enda þess, gengu með reglubundnum hætti, tveir apakettir, karl og kerling. Rannsóknir leiddu í ljós, að þarna voru á ferð öskurapar. 





Hjúin áttu þarna reglulega leið um þann tíma sem við vorum þarna og annan morguninn þegar við komum út á svalir sátu þau í rólegheitum rétt fyrir utan svalahandriðið. Það sem mér fannst erfiðast að kyngja við þetta apamál var, að þau voru alltaf á ferð þegar ég var ekki tilbúinn með myndavél og rétta linsu. Myndirnar hér fyrir ofan eru þær einu sem mér tókst að ná af þeim. 
Þessi apategund kallast sem sagt öskurapi eða Howler monkey (Mantled howler, Alouatta palliata). 
Hér má heyra hvernig hljóð öskurapans er:


Það er karlinn sem öskrar og maður getur velt fyrir sér hvernig svona tiltölulega lítið dýr getur gefið frá sér svona hljóð. Karlinn er um 15 kg. meðan kerlingin er rúm 7 kg. 
Hvað sem þessu öllu líður þá voru þetta skemmtilegir gestir á þakinu. Þeir gerðu okkur þó ljóst, að við gátum átt von á villtum dýrum í þessu umhverfi, þó inni í miðjum ferðamannabæ væri. Þarna voru íkornar skoppandi og klifrandi í trjám, páfagaukar og ýmis önnur dýr.



Svo birtist kattardýr á þakinu eitt síðdegið. Það var bröndótt á lit og fetaði sig í nágrenni við svalirnar. Traust fD á dýrum á svæðinu var í lægri kantinum, þannig að hún fór umsvifalasut inn fyrir og lokaði. Dýrið lét staðar numið fyrr framan svalirnar og ég gerði svona "kis-kis" hljóð, til að athuga hvernig það brygðist við. Það brást við með því að stökkva inn á svalirnar og alveg til mín, fór að nudda sér upp við mig, en ég heyrði það þó ekki mala. Svo lagðist það við stólinn minn um stund og sá tími kom, að mér fannst að það ætti nú að halda áfram för sinni eftir þakinu. Það var þó ekki fyrr en það gekk að svaladyrunum og settist, væntanlega í von um bita, að ég taldi aðgerða þörf, tók það og skutlaði út á þakið (svona rúman metra) og með því lauk þessari heimsókn.

Ströndin fyrir framan hótelið er gríðarstór og þar dundar fólk sér við að vaða, synda, sigla, eða reyna sig á sjóbrettum. Það er heilmikill munur flóðs og fjöru, eða um 2-3 metrar. Við áttum eftir að reyna það síðar.

 Svo kemur kannski framhald...



Costa Rica (14) Kyrrahafsströndin

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Eins og maður gerir á ferðalögum, renndum við í hlað á 4 stjö...