Sýnir færslur með efnisorðinu eyðimörkin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu eyðimörkin. Sýna allar færslur

16 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (9)

Framhald af þessu

Svo var það eftir hádegið á sunnudeginum 27. október, að LandCruiser renndi í hlað í Sjálfbæru borginni. Dúbæingarnir höfðu pantað hann, eins og flest annað í þessari ferð. Þarna var kominn maður frá fyrirtæki sem heitir Arabian Nights Tours
þess albúinn að flytja okkur fimmmenningana: Þorvaldsdæturnar þrjár og tvö viðhengi þeirra, í ævintýraferð út í eyðimörkina.  Bílstjórinn var þrautreyndur í bransanum; hafði ekið ferðafólki í ferðir af þessu tagi síðan 1998. Hann var ekkert margorður, blessaður, en meira en til í að segja frá ef hann var spurður.  
Eins og allt á þessum slóðum, þá var áfangastaðurinn langt í burtu. Það var ekið í norður frá Dúbæ inn í annað furstadæmi sem heitir Sharjah. 

Kampurinn fyrri

Á leiðinni var komið við í því sem kallað var Camp, þar sem hægt var að leigja sér fjórhjól til að bruna um sandöldurnar. Útsýnið þaðan var yfir risastóra sandöldu, sem var morandi í  fjórhjólum og LandCruiserum með fólki sem var að skemmta sér við að aka í sandi, upp og niður eða til hliðar.  Á þessum stað var ýmislegt til sölu, því allir þurfa að lifa á einhverju.
Þarna var meðal annars maður, sem gekk um með fálka sem hann reyndi á láta ferðalanga fá  til að halda á og sitja á  öxlum sér. Ég veit um einn sem leyfði því að gerast, en sá svo eftir öllu saman, þegar í ljós kom, að upplifunin kostaði stórfé, sem kom ekki í ljós fyrr en eftir á.   


Þarna var hægt að komast á snyrtingu, fyrir utan það að fá að losa sig við pening, áður en sest var aftur upp í Cruiserinn og haldið á vit aðal ævintýranna, sem hófust þegar bílstjórinn sá til þess að farþegarnir væru allir kyrfilega festir í öryggisbelti og hann sjálfur losaði sitt belti af sér. Því næst setti hann í fjórhjóladrif og ökuferðin um sandöldurnar hófst. Hann sagði mér að venjulegur þrýstingur í dekkjum væri 35psi en við þessar aðstæður væri hann settur í 15psi.
Til að orðlengja það ekki hófst þarna talsverð rússíbanareið um sandöldurnar og flestir farþegarnir reyndust vera tiltölulega hljóðir, þó fyrir kæmi, þegar ekki var útséð um að allt færi vel, að það heyrðist nokkuð kröftugt ÚÚ.......HHH!!! úr aftasta hluta bifreiðarinnar. Aðrir farþegar gáfu spennu sinni orð til að breiða yfir mögulega skelfingu. Kannski er það bara ekki við hæfi að öldungar gefi frá sér of unggæðisleg hljóð.  
Hér koma nokkrar myndir af umhverfinu.







Eftir akstur um þetta nýstárlega landssvæði, jafnvel lengur en ónefndur farþegi taldi við hæfi, stöðvaði bílstjórinn bílinn á sagði "take photos". Þar með hófst tilraun til að festa minninguna um eyðimerkurförina á myndflögu. Ég hafði gert mér vonir um að hópurinn myndi nú leyfa sér að sleppa aðeins fram af sér beislinu, svona eins og ætti kannski að gerast við magnaðar æðstæður eins og þær sem þarna voru. Það gerðist hinsvegar ekki. Fólk á þessum aldri er búið að læra það, að halda aftur af sér í gleðilátum; komið á lygnan sjó.  Látum svo vera.

Samanburður á tveim kynslóðum

Þrátt fyrir að tilraunir til að fá hópinn til að stökkva í loft upp þarna á sandöldunni, tækjust ekki, náðist, á endanum, með þrautsegjunni, viðunandi árangur,  meðan bílstjórinn smellti af í gríð og erg. 

Það náðist árangur 😃


Eftir að akstrinum um þetta magnaða svæði lauk, var haldið aftur áleiðis til Dúbæ og sólin bjó sig undir að kveðja, þennan daginn. Það átti hinsvegar ekki við um bílstjórann. Nú lá leiðin í annan Kamp, þar sem kvöldfagnaður ferðarinnar skyldi fara fram.


 Kampurinn síðari

Þessi kvölfagnaðarkampur var innan girðingar og þar var að finna verslanir og veitingar. Fyrir utan lágu tveir úlfaldar og biðu þess að við klifruðum á bak fyrir myndatöku. Ég reiknaði með, að það yrði síðar um kvöldið, sem svo varð aldrei. Strax og við komum inn tók á móti okkur ilmvatnssölumaður.  Ætli það hafi ekki verið einmitt hann, sem kom í veg fyrir að úlfaldarnir fengju að njóta þyngdar okkar, nú eða myrkrið sem skall á fljótlega eftir að við komum á staðinn, eða bara tilgangsleysi þess að láta þessi stóru dýr rísa á fætur með okkur á bakinu, bara til þess að leggjast aftur. Ég veit ekki hvað varð til þess að þetta fórst fyrir. Mögulega aldur okkar.

Eftir að okkur hafði verið vísað til sætis við eitt fjölmargra borða umhverfis teppaklæddan pall, kom ilmvatnssölumaðurinn aftur og vildi gjarnan selja okkur armbönd með nöfnum okkar, eins og þau líta út með arabísku letri og það endaði með því að 4/5 hópsins festu sér slíka græju, sem skyldi afhent strax þegar vinnslu lyki.  

Þarna var ýmislegt að sjá innan girðingar, meðal annra fatnaðar- og minjagripaverslanir og vatnspípureykingasalur. Þá var þarna einnig mátunarklefi fyrir gesti sem langaði að prófa hvernig þeim færi að klæðast arabafatnaði af ýmsu tagi. Ég hafði fullan hug á að prófa, svo úr varð, að við svilarnir lýstum áhuga okkar við fatakaupmanninn, sem þegar hafði komið fram sem ilmvatns- og armbandasölumaður.

Hann var allt í öllu og framkoma hans fór vel í konurnar í hópnum. Kurteis og brosmildur í einbeittri sölumennsku sinni. Hvað um það, við hA nálguðumst hann í fatnðarversluninni og tjáðum áhuga okkar. Hann taldi enga meinbugi vera á því að leyfa okkur að prófa, vatt sér að næstu hillu og tók fram kassa með splunkunýjum hvítum kirtlum. Við höfðum nú reyndar reiknað með að fá bara að máta einhverja notaða og snjáða, sem fólki væri almennt boðið að prófa. 
Ég fékk nú lítilsháttar samviskubit yfir því að klæðast þarna splunkunýjum kirtli, bara til þess að fara úr honum aftur. Þannig gerðist það, að ég eignaðist, ekki bara kirtil, heldur einnig höfuðklút og svarta hringi til að setja ofán á.  Það sem meira var, ég prúttaði í fyrsta skipti. Hann vildi selja mér þennan búnað á  150 dirhams, eða um 5600 krónur. Ég sagðist bjóða 120 ( eða ISK4500). Nokkuð stoltur, bara, eftir það. Fatnaðarkaupmaðurinn sló til og tilkynnti mér jafnframt, að magadansmærin sem væntanleg væri í komandi skemmtidagskrá, myndi veita mér sérstaka athygli (sem svo varð auðvitað ekki).
Ég var svo bara í þessum galla, það sem eftir lifði kvölds, án þess að verða fyrir nokkru áreiti. Hinsvegar velti ég fyrir mér, hvernig ég gæti mögulega notað þennan útbúnað í framtíðinni. Vissulega myndi ég geta klæðst þessu í fyrirhugaðri moskuheimsókn, en hvað svo?  Ég sá fyrir mér og geri enn, að freistist ég til þess að skella mér í þetta á mannamótum á okkar fagra landi, verði ég óðara sakaður um menningarnám (cultural appropriation). 

Hvað sem því líður fylgdi þessi búningur mér hér norðureftir og notkun hans verður að liggja milli hluta í bili.
Eftir fatakaupin hófst skemmtidagskrá, þar sem eldlistamaður og magadansmær sáu um að gleðja okkur með listum sínum. Einnig fengum við fylli okkar af ágætum mat af arabískum toga. 
Ilmvatnssölumaðurinn kom aftur með armböndin og tókst í leiðinni að selja eins og eitt ilmvatnsglas.  Þegar upp var staðið held ég að fullyrða megi, að ilmvatns- fatnaðar- armabandasölumaðurinn hafi farið alveg sæmilega út úr viðskiptum við okkur þetta kvöld.

Svo var bílstjórinn okkar kominn á Cruisernum og úfaldarnir farnir að sofa einhversstaðar þarna úti í myrkrinu og því ekkert eftir af ágætum degi annað en njóta ferðarinnar alveg heim að dyrum í Sjálfbæru borginni, drífa sig úr gallanum, fá sér én øl og svífa síðan inn í draumaheima eyðurmerkursanda.





 

Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...