Sýnir færslur með efnisorðinu eldri borgarar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu eldri borgarar. Sýna allar færslur

20 mars, 2022

Bítlar eða harmonikka

Ætli það sé ekki rétt að taka það fram, að ég hef svo sem ekkert á móti harmonikkutónlist. Ég átti þess kost að koma á dansleiki með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar og Þorsteins Guðmundssonar á sínum tíma og uppgötvaði að það var vel hægt að skemmta sér við þá tónlist sem þeir báru á borð fyrir dansglaða ballgesti. Ég og mín kynslóð áttum hinsvegar í talsvert nánara sambandi tónlist af öðru tagi. Ætli ég geti ekki bara fullyrt, að aldrei, hvorki fyrr né síðar hefur tónlist mótað ungt fólk jafn rækilega. 

Mér varð hugsað til þessa í gærkvöld, þar sem ég og fleiri áttum leið fólksflutningabifreið frá höfuðborg landsins til höfuðborgar Suðurlands. Bílstjórinn vildi vel og fyrir það á hann þakkir skildar. Þar fyrir utan spurði hann hópinn hvort hann óskaði kannski eftir að engin tónlist yrði spiluð á leiðinni austur. Enginn tjáði sig andvígan tónlistinni. Hinsvegar veit ég ekki hve margir þeirra sem þarna voru á ferð, hefðu sjálfir valið tónlistina sem fram var borin.

Sannarlega mátti finna þarna fólk sem var rétt skriðið inn á tíræðisaldurinn, sem þýðir að það fæddist um eða upp úr 1930. Þegar það fólk fór í gegnum mótunarárin var heimstyrjöld í gangi, sem síðan lauk. ÞArna á nefna tónlistarfólk eins og Glenn Miller, Doris Day, Andrews sisters, Mills Brothers og fleiri og, jú, harmonikkutónlist virðist hafa verið nokkuð vinsæl.

Þarna var vissulega talsvert af fólki sem fæddist um 1940, á níræðisaldri. Um miðjan sjötta áratuginn má finna íslenska listamenn eins og Einar Clausen, Jakob Hafstein, Maríu Markan, Sigurveigu Hjaltested, Hank Williams, Platters, Little Richards og miklu fleiri auðvitað, en harmonikkutónlistin fór ekki hátt á vinsældalistum.

Ætli flestir í þessari ferð yfir heiðina hafi ekki verið á áttræðisaldri, sem sagt fæddir svona á bilinu 1945 - 1955. Þetta fólk var þá 15 til 25 ára á sjöunda áratugnum, þegar allt breyttist. Þarna inni er svokölluð 68- kynslóð, hipparnir og allt það. Harmonikkutónlist var ekkert sérstaklega hátt skrifuð hjá þessum hópi, þannig séð. Fáir á þessum aldri setja mikið af harmonikkutónlist á "playlistana" sína.

Þarna, í þessari klukkutímaferð yfir Hellisheiði, fór ég að velta því fyrir mér, hvenær, eða hvort það gerist einhverntíma, að það verði hætt að setja samasem merki milli eldri borgara og harmonikkutónlistar.

Ég er enn á sjötugsaldri og það sama mátti segja um nokkra aðra í ferðinni. Þrátt fyrir að hafa upplifað Steina spil og Óskar Guðmunds á yngri árum, get ég ekki sagt, að harmonikkutónlist falli í flokkinn þar sem uppáhaldstónlist mína er að finna.

Bílstjórinn vildi vel og og ég hefði alveg getað mótmælt tónlistarvalin, en það gerir maður bara ekki. 

Og þessi hópur er ekki lengur einsleitur. Hann er fjölbreyttur. Hann ætlar sér ekki að hlusta á harmonikkutónlist inni á elliheimili þar sem tveir eða fleiri eru saman um herbergi. Hann vill Bítlana í botn í búsetuúrræðum af margvíslegu tagi.  (leiðari Fréttablaðsins ágúst 2021/Sigmundur Ernir Rúnarsson)



 

01 september, 2021

Eldri borgarar: Það vantar einn hlekkinn

Hjúkrunarheimili á Selfossi Mynd frá RUV
Ég bý við Austurveg á Selfossi, þar sem  mikil byggð íbúða fyrir eldri borgara er og hefur verið að rísa. Hér er um að ræða tiltölulega hentuga stærð íbúða, fyrir fólk sem er að stíga út úr önnum starfsævinnar og út úr stórum einbýlishúsum, sem eru orðin alltof stór fyrir þarfir þess.  Hér við Austurveginn er risið heilt hverfi fjölbýlishúsa fyrir eldra fólk, sem keypt hefur þessar ágætu íbúðir fyrir heilmarga tugi milljóna. Þetta er valkostur fyrir það fólk sem þetta getur - sem hefur getað selt einbýlishús og haft efni á að kaupa íbúðir í af þessu tagi, á þessum stað.

Hér skammt frá er verið að byggja glæsilegt hringlaga hjúkrunarheimili, sem ætlað er að taka við fólki sem komið er í þá stöðu að geta ekki séð um sig sjálft lengur. Það þarf hjúkrun. Þetta má segja að þetta hjúkrunarheimili sé, eins og önnur slík, endastöð fólks hér á jörð. Hjúkrunarheimili eru dýr valkostur, eins og okkur ætti að vera orðið ljóst, og þar að auki eru heilmiklir biðlistar eftir að plássi fyrir fólk, sem þarf þá að teppa rándýr pláss á þjóðarsjúkrahúsinu, sem síðan orsakar ofurlanga biðlista þar. 

Það eru, held ég, allir sammála um, að það sé mikilvægt að draga úr þörfinni fyrir innlögn á hjúkrunarheimili og það er almennt mikilvægt að skapa aðstæður til að takast á við stórvaxandi fjölda eldri borgara nú og á næstu árum.
Þessi mynd sýnir fjölda fæddra síðastliðin 120 ár. Í ljósa reitnum er fólk sem er núna
á aldrinum 50 til 70 ára - fólkið sem mun fylla hóp eldri borgara næstu árin.  Heimild Hagstofan.

Stjórnmálin og eldri borgarar

Í aðdraganda kosninga eru enn á ný ofarlega í talanda stjórnmálamanna ástin á velferð eldri borgara. Munurinn er kannski sá nú, að við baráttufúsari eldri borgara er að eiga. Hippakynslóðin og bítlakynslóðin sætta sig ekki við að gleymast milli kosninga. Þær kynslóðir sem eru nú að komast á eftirlaun gera allt aðrar kröfur til lífsgæða en þær sem á undan hafa komið. 
Eins og einhver sagði í útvarpsviðtali, þá lítur þetta fólk ekki á harmonikkuleik með polkum og rælum, sem afþreyingu. Það má vel segja að hér sé um alveg nýjan þjóðfélagshóp að ræða. Þetta er hópur sem lifir lengur og er hress lengur, sem bætist auðvitað ofan á, að um er að ræða fjölmennasta hóp eldri borgara sem nokkurn tíma hefur þurft að sinna.

Stjórnmálamennirnir tala nú hver í kapp við annan um að það þurfi að auka við og efla þjónustu við eldri borgara, án þess, að því er virðist, að vita mikið um við hvað er að eiga.
Það á að stórefla heimaþjónustu (sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu). Þetta er áherslumál númer eitt.  Mér finnst þeir ekki hafa hugsað það mál til enda. Á sú heimaþjónusta að felast í þrifum á heimilum fólksins, líkamlegum þörfum, félagslegum og andlegum þörfum?  

Í þessum glæsilegu íbúðum sem eldri borgarar leggja í kaup á, hérna við Austurveginn, er fólk frá um það bil sjötugu til um það bil níræðs. Það er nokkuð algengt að annar makinn sé látinn og ekkillinn eða ekkjan sitja ein eftir í íbúðinni góðu. Þetta er að mestu leyti fólk sem getur vel séð um sig sjálft og stundað félagslíf af krafti, ef því er að skipta. Það er komið í litla og viðráðanlega íbúð, en rándýra. Það hentar vissulega sumum, sérstaklega þeim sem áttu  einbýlishús til að selja. Það eru ekki allir  í aðstöðu til kaupa á svona íbúðum. 


Milli heimilis og hjúkrunarheimilis.

Mér finnst sárlega vanta í umræðu um málefni eldri borgara hugmyndir um hvernig við ætlum að leysa úr málum þess stóra hóps fólks, sem  býr tiltölulega einangrað í of stóru húsnæði, en getur alveg séð um sig sjálft, jafnvel til æviloka. Sannarlega er það einn valkosturinn að kaupa íbúð eins og hér á Austurveginum. 
Mér finnst vanta hlekk á milli heimilis fólks sem kemst á eftirlaun, og hjúkrunarheimilis. Sá hlekkur á að vera til þess ætlaður, að fólk þurfi síður eða seinna, eða aldrei á hjúkrunarheimili að koma.  Þetta væru klasar með litlum, ódýrum/ódýrari íbúðum, sem fólk gæti keypt eða leigt. Jafnframt væri góð aðstaða fyrir íbúa þessara klasa til að sinna áhugamálum, njóta samvista við annað fólk, stunda heilsurækt og svo framvegis.  Litlu íbúðirnar væru athvarf, sem hver og einn dveldi í eftir því sem hann kærir sig um.


Heimaþjónustan

Jú, jú það er örugglega gott og gilt að efla heimaþjónustu, en hún mun seint ná að fullnægja öllum þörfum fólks. Hvað með ekkjuna, eða ekkilinn, sem hittir fáa eða engan utan manneskjunnar sem kemur (kannski daglega - hver veit) vegna þess að hún fær greitt fyrir það? Ætli þessi heimaþjónusta eigi að fela í sér að sinna félagslegum þörfum - spjalla, til dæmis?  Hvað með hjónin sem eru búin að vera saman í 70 ár og eru búin að tæma öll sín umræðuefni?  Svona fólk myndi eflast við að komast í sambýli eins og ég nefni hér að ofan, lífsgleðin myndi aukast og lífslíkur þar með. 

Það vantar millistig fyrir fólk sem þarf að forða frá einangrun inni á heimilum sínum. Maðurinn er félagsvera og samfélag við annað fólk frestar eða hindrar þörfina fyrir pláss á hjúkrunarheimili.

Elliheimili framtíðar

Nútímalegt elliheimili er það sem ég vil kalla eftir. Væri alveg til í að hjálpa til við að skipuleggja það, með mina kynslóð og þær næstu í huga. Heimili af þessu tagi ætti ekki að verða dýrt í rekstri, þar sem íbúarnir ættu íbúðirnar, eða væru með þær á leigu, og sæi mikið til um sig sjálft. 
Hringleikahúsið okkar hérna á Selfossi gæti örugglega nýst vel til þess arna - en það á að verða hjúkrunarheimili, segir sagan.



12 október, 2020

Er of langt gengið?

Andlit þokuð vegna persónuverndar.
Það er að vísu rétt, að svona frá 13 ára aldri og fram undir þrítugt, var ég nú bara talsverður íþróttamaður, með körfubolta og blak sem mínar helstu greinar. Síðan þá er liðin hálf öld eða þar um bil og lífið leiddi mig ekki inn á neina afreksíþróttabraut, heldur þvert á móti. 
Svo fór fD að taka upp á því að fara í göngutúra og lengi vel hafði ég efasemdir um að þeir yrðu til að gera mér eitthvað gott, ungan og sprækan manninn. 

Ég velti aðeins fyrir mér, svona eftir því sem ég breikkaði, hvort ég ætti nú ekki að leggja það á mig að ná því að einhverju leyti til baka, en í önn dagsins vildi það farast fyrir og nóg af öðru, áhugaverðara, sem var hægt að setja framar í forgangsröðina. En ég lét mig hafa það að leggja á mig göngutúra: sannfærði sjálfan mig um að það gæti ekki skaðað, fyrir utan það að fD gæti mögulega farið sér að voða við alla þessa gönguiðkum og þá kæmi sér nú vel ef ég væri til staðar til að bjarga málum. Hvað um það, það var gengið og gengið. Var gengið til góðs?


Nú erum við komin á nýjan stað og þurfum að aðlagast nýrri menningu og komast í kynni við nýtt fólk, eins og gengur. 
Ekki neita ég því, að í æskuhroka mínum var ég haldinn nokkrum efasemdum um hvort það væri nú við hæfi að ég, rétt miðaldra karlinn, færi að skrá mig til þátttöku í ýmsu því sem stendur til boða fyrir eldri borgara hér í næsta húsi. Ég fór með fD til að skoða hvað væri nú í boði, ekki síst vegna þess að starfið sem þarna er um að ræða er ætlað þeim sem eru 60 ára og eldri.  Ekki get ég með góðri samvisku haldið því fram að ég sé 59, endalaust.

Mér leist nú ekki meira en svo á námskeið sem kallast Heilsuefling 60+. Þetta hlyti nú að vera eitthvert dund. Það varð samt úr að ég skráði mig þar til þátttöku - gæti alltaf hætt ef þetta hentaði ekki líkamlegri færni minni og hæfni. Við sóttum þarna tíma í tvær vikur áður en öllu var lokað af þekktum ástæðum. Þessar tvær vikur voru strembnar af tveim ástæðum: 
1. Þetta "heilsueflingardund" var á mörkum þess að ganga frá mér, þó auðvitað léti ég á engu bera. 
2. Ég þurfti að kyngja fordómum mínum og sætta við við að skrokkurinn reyndist ekki vera sá sem ég hefði viljað að hann væri.

Þegar heilbrigðisráðherrann, að ráði sóttvarnalæknis, skellti svo í lás, var ekki laust við að ég saknaði einhvers, mér til nokkurrar undrunar. Því kom það skemmtilega á óvart þegar þjálfarinn blés til æfingar á íþróttavellinum í dag. Þar var tekið á því og visnaðir vöðvar kvöldust til að hverfa úr mögulega varanlegri hvíld. 

Það var ekki nóg með að ég skráði mig í þessa heilsueflingu (styrktaleikfimi, finnst mér samt betra heiti), heldur þáði ég boð frá fréttamanni nokkrum um að ganga til liðs við áratugagamlan gönguhóp, sem þræðir göturnar hér á hverjum virkum morgni, og heldur afmælisveislur á föstudagsmorgnum, þar fyrir utan.

 
Það finnst sumum erfitt að hugsa til þess að leggja af stað í göngu kl. 7.30 á hverjum morgni. Það er hinsvegar nokkur misskilningur, enda er það háttur unglinga, að sofa frameftir, ekki fullorðins fólks. Ég held nú reyndar að þessar ágætu göngur verði ekki daglegar hjá mér, enda kemur þarna göngufólk eftir því sem því hentar og það kemur við. 

Tilefni þess að ég skrái þessa færslu á þessum degi er, að ég hef nú lokið samtals 9 km göngu, ásamt einni fjallgöngu (Fjallið eina) og ótal æfingum af öðrum toga.  Sannarlega efast ég um að ég hefði gott af svona nokkru á hverjum degi. Hinsvegar veit ég, að á eftir því sem er vont og erfitt, kemur alltaf eitthvað gott.  

Andlit ekki þokuð, enda vissu allir af myndatökunni.

Þetta er hið besta mál, allt saman og ekki hef ég enn rekist á nema vandaðar manneskjur á þessum slóðum, allavega meðan ég held pólitískum skoðunum mínum fyrir sjálfan mig. 

11 nóvember, 2017

Yf'rum

Það flugu ótal hugsanir í gegnum höfuðið á mér, þar sem við fD fikruðum okkur í fljúgandi hálku niður heimkeyrsluna í Kvistholt, niður á veg og síðan út í "búð" eða "Pólland", eða "sjoppu", fyrir nokkrum dögum.
Voru þetta ef til vill mistök af minni hálfu?
Var þetta í rauninni eitthvað sem ég var tilbúinn í?
Varð þetta mögulega viðurkenning á að nú væri ég að nálgast endastöðina?
Mátti líta á þetta sem uppgjöf, fyrir einhverju sem ég ætti að berjast gegn, af alefli?
Var ég að lúta, með þessu, einhverju ósýnilegu ægivaldi, sem enginn fær umflúið, en allir geta barist gegn svo lengi sem kraftar leyfa?
Hvaða heimur var þetta sem ég var þarna að ganga inn í?
Sem betur fer var ég nægilega upptekinn við að reyna að standa í fæturna í hálkunni til að láta þessar hugsanir mínar ekki ná yfirhöndinni, nægilega ákveðinn í að finna, í samráði við fD, auðvitað, öruggustu blettina til að stíga niður fæti á.

Andlit
Svo renndi hópferðabifreiðin inn á planið við búðina. Í gegnum glerið mátti greina grátt hár, eða ekkert, eða litað, jafnvel einstaka derhúfu og þar fyrir neðan andlit sem voru alvarleg eða glottandi, eða brosandi, eða hlutlaus.
Fremstu sætin voru þegar setin og því þurftum við fD að feta okkur inn eftir allri bifreiðinni, framhjá öllum þessum andlitum. Andlitum sem hafa fylgt okkur alla tíð, andlitum sem voru alveg ný fyrir okkur, andlitum sem voru rúnum rist, eða slétt, eða eitthvað þar á milli.
Á leiðinni inn úr gekk á með: Blessaður! Blessuð!, Komdu sæll!, Komdu sæl!, Komiði sæl!, Sæll!, Sæl!, Góðan daginn!, en ekkert Hæ!.
Þessum kveðjum fylgdu bros, nú eða lítilsháttar glott. Þau voru glaðleg, þreytuleg eða bara ...leg.

Vorum við örugglega á réttum stað?
Hópferðabifreiðin lagði af stað, svona rétt eins og væntingar stóðu til, leið sem við höfðum svo sem farið ótal sinnum áður: niður að vegamótunum hjá Reykjum á Skeiðum, þar til hægri, framhjá Brautarholti, niður á Skeiðavegamót þar sem beygt var til vinstri í áttina í Rangárþing.  Það var spjallað á leiðinni. Það var enginn upptekinn við snjallsímann sinn (ég smá, reyndar), það var enginn með í eyrunum, þeir sem ekki voru að spjalla, fylgdust með umhverfinu fyrir utan; umhverfi sem þeir þekktu svo vel. Höfðu farið þarna um þúsund sinnum áður.

Ull
Í Rangárþingi ytra var skoðuð ullarvinnsla og fjárhúsin á bænum. Ullin var snert, vélarnar skoðaðar, pælt í framleiðsluvörunum. Þarna var ekki aðeins unnið úr ull af sauðfé, heldur einnig geitum og hundum.   Fólkið var upprifið, áhugasamt, hlutlaust eða alveg sama, svona eins og alltaf er. Það var sagt frá og það var hlustað og talað um pljónaskap, peysur, fjölda gramma í dokku, rúning, aðbúnað sauðfjár, tækni við að fóðra féð, kuldann í fjárhúsunum, þvott, þurrkun, vinnslu, þæfingu, spuna og allt hitt sem tengja má við ullarvinnslu og sem ég kann ekki að orða.


Leiðsögn
Svo var hópferðabifreiðin ræst á ný, farþegarnir voru kannski heldur lengur að koma sér fyrir en í skólaferðalögum æskunnar, en hver þurfti svo sem að flýta sér?
Það kom leiðsögumaður til skjalanna þegar þarna var komið og meðan bifreiðin flutti hópinn enn austar fræddi hann farþegana um ýmislegt sem sjá mátti til hægri og vinstri, rifjaði upp ófærð og snjóakistur og girðingavinnu, sagði frá hrossaræktarmiðstöðvum, kjúklingabúum, sumarhúsum frægra, aflögðum sláturhúsum, óbrúuðum ám og fjöllunum að baki Heklu, sem Tungnamenn fá ekki séð.

Hvolsvöllur
Leiðin lá á Hvolsvöll í Eldfjallamiðstöðina Lava Centre, en svo virðist sem fólkið hafi ekki spjallað nægilega lengi um ullina, ullarvinnsluna, sauðféð, hundabandið, eða vélbúnaðinn, eða skoðað nægilega lengi það sem hægt var að skoða, því þörf reyndist á að drepa slatta af tíma áður en innreiðin í miðstöðina gæti hafist.  Það varð úr að leiðsögumaðurinn ákvað að taka hring um Hvolsvöll, sem reyndar var ekki hans heimabær og hann kvaðst sjaldan koma þangað. Þetta varð til þess að hóferðabifreiðin endaði í blindgötu, sem auðvitað var bara ágætt, því okkur bauðst þar að líta tækjabúnað sem sveitarfélagið hafði komið upp fyrir fólk til að æfa sig á, utandyra. Allt fór vel og með ágætum, þegar upp var staðið.

Ja, þessi Eldfjallamiðstöð!
Endurgert, gróið hraun, timburklætt, tölvutæknimusteri. Tími til að ná áttum, dást að glænýrri glæsibyggingunni áður en sest var niður til að gapa yfir dásemdum íslenskrar náttúru á kvikmyndatjaldi, áður en gengið var inn í heim eldfjalla, hrauna, jarðskjálfta í tölvugerðum, litríkum töfraheimi. Stunur, andköf, undur, bros, leikaraskapur, íhugun, hugsanir. Ævintýraveröld.


Etið og drekkið
Eftir eldfjallaævintýrið þurfti að ná sér niður. Við blöstu hilluraðir af drykkjarföngum og leið flestra lá að þeim hlutanum þar sem hægt að að fá prósent. Fá prósent eða mörg. Köld eða stofuheit. Það var sest niður og farið yfir daginn áður en fólkinu var boðið að velja sér af hlaðborði sem var 20 metra langt. Fremst súpan, sem ekki reyndist nú flókin. Málið vandaðist þegar koma að aðalréttinum. Þar sem ekki sást á milli endanna tók maður allt of mikið á diskinn til að byrja með til að geta með góðu móti komið öllu yrir á honum við lok leiðarinnar. Svo var eftir að gera þessu öllu skil og það var annar handleggur. Þessi gengdarlausi gleypigangur Vesturlandabúans. Hugur reikaði, örskamma stund, suður til Bíafra æskunnar, en síðan var tekið til við að koma kræsingunum á sinn stað, með aðstoð viðeigandi drykkjarfanga. Það tókst, en hreint ekkert umfram það. Þá var eftirrétturinn eftir. Hann fór á sinn stað, þó ekki sé nú hægt að halda því fram að líkaminn hafi beinlínis kallað á hann.

Heim
Hópferðabifreiðin beið í þolinmæði eftir því að koma þessu fólki til síns heima. Leiðsögumaður sagði sögur af hinu og þessu, sem fyrir augu hefði átt að bera, en bar ekki, þar sem aldimmt var orðið. Hann fylgdi með þar til Þjórsá tilkynnti að Árnesþing tæki við.
Það er ekki sagt frá þessari ferð frekar.





Ferðin þessi
Ferðalangar: 34-35, úr Biskupstungum að mestu.
Leiðsögumaður í Rangárþingi: Olgeir Engilbertsson, Nefsholti í Holta- og Landssveit
Gestgjafi: Kvenfélag Biskupstungna, en kvenfélagið bauð íbúum í þessa ferð og hana skipulögðu Elinborg Sigurðardóttir og Elín Siggeirsdóttir.
Ullarvinnslan: UPPSPUNI á bænum  Lækjartúni þar sem húsráðendur eru Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson.
Eldfjallamiðstöðin: Upplýsingar um hana.

-------------------------------
Hvernig er það svo að fara yf'rum?

Ég er svona markatilfelli. Enn mengaður af áratuga samneyti við unglinga, hef varla náð því að verða eðlilegur miðaldra karl og stekk svo upp í hópferðabifreið með öldungum.
Piff.
Aldur er nú ekkert nema sú slóð sem við öll fetum frá því við komum úr móðurkviði og þar til við hverfurm aftur í móðurkvið.  Jú, sannarlega breytist hugsunarháttur okkar eftir því sem við eldumst, skárra væri það nú. Þar kemur til reynsla og þroski.  Við verðum samt alltaf sama fólkið, þurfum bara að kljást við það að sá hluti okkar sem tjáir aldurinn, er fyrst og fremst sá sem við berum hið ytra. Innrætið heldur sér nokk: stríðnispúkinn, hugsuðurinn, bóndinn, kennarinn, leikarinn, grínistinn.... þetta er allt þarna, allt til enda. Þarf sennilega bara stundum að pota aðeins í það svona við og við.


Ég þakka kvenfélaginu fyrir mig.


05 október, 2017

Er ég orðinn ellibelgur?

Síminn hringdi í gærmorgun. Hringjandinn reyndist vera ágætur nágranni til áratuga. Var dálítið hikandi við að bera upp erindið þar sem mögulega, hugsanlega myndi ég móðgast. Ég kvað mig ekki móðgunargjarnan mann og hvatti til þess að ljóstrað yrði upp um það sem þarna væri um að ræða.
Ég fékk að heyra hvað málið snérist um og varð ekkert móðgaður. Bara miklu frekar þakklátur fyrir hugulsemina sem að baki bjó og enn eina staðfestingu þess hve gott það er að eiga heima í litlu samfélagi þar sem fólk þekkist meira og minna.
Erindið var að láta mig vita af því, að í dag er fyrsta samvera eldri borgara í Bergholti, milli kl. 14 og 16.
Ég viðurkenni, að ég á dálítið erfitt með að ná utan um þetta allt saman, svo bráðungur sem ég nú er. Ég neita því ekki, að ég spurði sjálfan mig hvort þessi vikulega, tveggja tíma samverustund, þar sem fólk í eldri kantinum kemur saman til að spjalla um lífið og tilveruna, stunda handverk, spila, eða prjóna, eða bara hvaðeina sem hentar. væri eitthvað fyrir mig.

Ég er óhjákvæmilega, með þeirri ákvörðun minni, að láta af störfum og hefja töku eftirlauna talsvert fyrr en flestir gera, kominn með annan fótinn í þann þjóðfélagshóp sem talað er um sem eldri borgara, aldraða eða bara ellibelgi. Ég á það sameiginlegt með þessum hópi, að ég þarf ekki lengur að láta vekjaraklukkuna hringja og bruna síðan í vinnuna á hverjum virkum degi.  Ég ræð tíma mínum sjálfur og ákveð því sjálfur í hvað ég nota hann.

Það sem ég á kannski síður sameiginlegt með þessum hópi er, að ég verð ekki formlega eldri borgari fyrr en eftir ein þrjú ár. Þetta eru þrjú ár sem ég vænti þess að lifa beggja megin þeirrar línu sem einhverntíma var ákveðið að draga milli þeirra sem fullgildir teljast á vinnumarkaði og þeirra sem eru að hefja, með formlegum hætti ferð sína inn í sólarlag lífsins, með öðrum orðum, að undirbúa sig fyrir hið óhjákvæmilega, sem allra bíður, mis fljótt, reyndar.
Þessi lína er auðvitað mannanna verk, einhver meðalvegur sem hefur í rauninni ekkert með að gera einstaklinga, enda þeir jafn mismunandi og þeir eu margir.  Við þekkjum öll fólk sem hefur ekki verið ætlað að ná þessari línu og einnig fólk sem gengur til starfa á hverjum degi þó komið sé vel yfir nírætt. Um þetta vitum við bara hreint ekki neitt.

Það veit sá sem allt veit, að ekki ætlaði ég mér, þegar ég hóf þennan pistil, að fara að láta hann snúast um skilin milli þess sem er og verður og þar með hætti ég því.

Viðbrögð mín við símtalinu voru bara jákvæð, um leið og ég taldi síður líkur á að ég myndi sækja þessar samverustundir að óbreyttu. Ég hef yfirdrifið nóg að gera og í eðli mínu er ég talsverður einfari og hentar því afar vel að dunda mér einn í áhugamálum mínum. Svo verður áfram, óháð einhverjum línum sem samfélagið tengir mig við. Eingöngu háð því hve lengi höfuðið á mér virkar í samræmi við það sem ég ætlast til af því.
Ég er viss um að einhverjir munu halda því fram að eitthvað sé ég nú farinn að bera þess merki að andlegt atgervi sé á undanhaldi, en slíku mótmæli ég auðvitað harðlega.

Er Facebook málið?
Mér skildist á nágranna mínum, sem hringdi, að sá hópur sem hittist í Bergholti væri ekki mikið fyrir Facebook, eða tölvupósta, eða tölvur yfirleitt. Hugmyndir um samskipti með slíkum hætti munu hafa verið slegnar út af borðinu. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu, að síminn væri hentugasta samskiptatækið og settar hafa verið upp úthringilínur, sem felast í því, að hver hópmeðlimur fær það verkefni að hringja í einn eða fleiri aðra þegar þörf er að koma skilaboðum áleiðis.
Það er fjarri mér að gagnrýna þessa aðferð. Símtölin geta leitt til þess að fólk fer að spjalla saman um lífið og tilveruna ásamt því að greina frá því sem framundan er (ef það gleymist þá ekki).

Megintilgangur pistilsins
Kynslóðaskil eru óvenju mikil um þessar mundir. Fólkið sem nú er um sjötugt, er eiginlega yngsta fólkið sem hefur tileinkað sér tölvusamskipti að einhverju ráði, svona á heildina litið.  Milli tölvukynslóðarinnar og símakynslóðarinnar er aldeilis heilmikið bil.  Þeir sem nú eru um sjötugt eru að byrja að þrýsta á þá sem eldri eru, varðandi þessi mál, en enn sem komið er, án árangurs, að mér skilst.
Að máli við mig kom kona sem einmitt dasar línuna á milli þeirra tveggja heima sem áður eru nefndir. Hún bað mig að búa til hóp á Facebook, sem ætlaður væri fólki á aldursbilinu frá sextugu og upp úr.
Ég neita því ekki, að ég varð nokkuð hugsi, en þar sem ég er bara samilega fljótur að hugsa enn, taldi ég þarna vera á ferð góða hugmynd, ekki síst þar sem hún átti uppruna sinn í hópi "hinna". Það er nefnilega þannig að talsvert margir í þeim hópi fólks sem kominn er yfir sjötugt er bara alveg þokkalega tölvulæs og tilbúinn í að dansa þann dans fram í rauðan dauðann. Ég taldi að þarna væri hægt að byggja brú milli kynslóðanna beggja vegna línunnar sem dregin hefur verið.


Ég stofnaði hóp á Facebook.
Hópurinn kallast "Sextíu plús í Biskupstungum".
Ég bjó ekki bara til þennan hóp, heldur tilgreindi ég eftirfarandi sem tilgang hans:

Vettvangur fyrir fólk í Biskupstungum, sem hefur náð þeim góða aldrei sem hér um ræðir. Hér getur verið um að ræða fólk sem enn er á fullu í starfi og leik, fólk sem er aðeins farið að hægja á sér og fólk sem hefur lokið atvinnuþátttöku, en vill gjarnan halda áfram að njóta þess sem efri árin eiga að hafa upp á að bjóða.
Þessi hópur er engan veginn stofnaður til höfuðs ágætu Félagi eldri borgara í Biskupstungum, heldur miklu fremur til að styðja við og koma á framfæri sýn núverandi öldunga og einnig þeirra sem eitt sinn verða vonandi öldungar, á lífið og tilveruna.
Hér er ekki um að ræða félag, heldur nokkurskonar tengslahóp og í hann er boðið öllum þeim í Biskupstungum sem orðnir eru sextugir og sem eru virkir á Facebook.


Þegar ég var búinn að þessu, skilgreindi ég hann sem leynilegan hóp og bauð í hann örfáum einstaklingum, sem ég þóttist viss um að myndu ekki gera úr honum eitthvert stórmál.

Þannig er staðan nú og verður svo að óbreyttu, þó mér finnist æskilegt að hafa einhvern svona vettvang fyrir fólk á minum aldri og eldra, sem á ekki að snúast um aldur, heldur kannki frekar svipuð áhugamál, því áhugi fólks tengist að stórum hluta aldri þess. T.d. er mikið talað um ungabörn á kennarastofu sem ég þekki til, um þessar mundir, sem er í sjálfu sér ekki óeðlilegt.

Svo hef ég margt fleira um þessi mál að segja, en geri það síðar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...