Mér varð hugsað til þessa í gærkvöld, þar sem ég og fleiri áttum leið fólksflutningabifreið frá höfuðborg landsins til höfuðborgar Suðurlands. Bílstjórinn vildi vel og fyrir það á hann þakkir skildar. Þar fyrir utan spurði hann hópinn hvort hann óskaði kannski eftir að engin tónlist yrði spiluð á leiðinni austur. Enginn tjáði sig andvígan tónlistinni. Hinsvegar veit ég ekki hve margir þeirra sem þarna voru á ferð, hefðu sjálfir valið tónlistina sem fram var borin.
Sannarlega mátti finna þarna fólk sem var rétt skriðið inn á tíræðisaldurinn, sem þýðir að það fæddist um eða upp úr 1930. Þegar það fólk fór í gegnum mótunarárin var heimstyrjöld í gangi, sem síðan lauk. ÞArna á nefna tónlistarfólk eins og Glenn Miller, Doris Day, Andrews sisters, Mills Brothers og fleiri og, jú, harmonikkutónlist virðist hafa verið nokkuð vinsæl.
Þarna var vissulega talsvert af fólki sem fæddist um 1940, á níræðisaldri. Um miðjan sjötta áratuginn má finna íslenska listamenn eins og Einar Clausen, Jakob Hafstein, Maríu Markan, Sigurveigu Hjaltested, Hank Williams, Platters, Little Richards og miklu fleiri auðvitað, en harmonikkutónlistin fór ekki hátt á vinsældalistum.
Ætli flestir í þessari ferð yfir heiðina hafi ekki verið á áttræðisaldri, sem sagt fæddir svona á bilinu 1945 - 1955. Þetta fólk var þá 15 til 25 ára á sjöunda áratugnum, þegar allt breyttist. Þarna inni er svokölluð 68- kynslóð, hipparnir og allt það. Harmonikkutónlist var ekkert sérstaklega hátt skrifuð hjá þessum hópi, þannig séð. Fáir á þessum aldri setja mikið af harmonikkutónlist á "playlistana" sína.
Þarna, í þessari klukkutímaferð yfir Hellisheiði, fór ég að velta því fyrir mér, hvenær, eða hvort það gerist einhverntíma, að það verði hætt að setja samasem merki milli eldri borgara og harmonikkutónlistar.
Ég er enn á sjötugsaldri og það sama mátti segja um nokkra aðra í ferðinni. Þrátt fyrir að hafa upplifað Steina spil og Óskar Guðmunds á yngri árum, get ég ekki sagt, að harmonikkutónlist falli í flokkinn þar sem uppáhaldstónlist mína er að finna.
Bílstjórinn vildi vel og og ég hefði alveg getað mótmælt tónlistarvalin, en það gerir maður bara ekki.
Og þessi hópur er ekki lengur einsleitur. Hann er fjölbreyttur. Hann ætlar sér ekki að hlusta á harmonikkutónlist inni á elliheimili þar sem tveir eða fleiri eru saman um herbergi. Hann vill Bítlana í botn í búsetuúrræðum af margvíslegu tagi. (leiðari Fréttablaðsins ágúst 2021/Sigmundur Ernir Rúnarsson)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli