Í fljótu bragði átti ég ekki svar við spurningunni, en þarna hófst fyrst yfirborðsleit á helstu stöðum, sem um gat verið að ræða. Sú leit bar ekki árangur og fréttatíminn nálgaðist. Sem betur fer er tæknineyslan á þessum bæ svo mikil, að það eru til viðbrögð við flestum áföllum af tæknilegum toga sem búast má við, meira að segja týndri fjarstýringu.
Til þess að missa nú örugglega ekki af fréttunum, snéri ég mér að tölvunni, fann beint streymi stöðvarinnar og varpaði því síðan með aðstoð krómkast yfir í sjónvarpstækið. Fréttirnar fóru auðvitað fyrir ofan garð og neðan, þar sem hugurinn var bundinn við möguleg afdrif fjarstýringarinnar og sem betur fer, var dagskrá stöðvarinnar það sem eftir lifði kvölds ekki þannig að mikilvægt teldist að fylgjast með henni (er það reyndar sjaldan, orðið).
Ég þarf ekki að nefna það, að fljótlega, eða jafnvel strax, beindist grunurinn frekar að öðrum íbúanum og farið var vel yfir yfir það hvernig hann á það til að vera utan við sig.
Meðan á því stóð, stóð yfir ítarlegri leit að fjarstýringunni, sem stóð langt fram eftir kvöldi og síðan næsta dag einnig, án þess að það skilaði árangri. Leitin gekk svo langt, að rusladallar voru tæmdir og full karfa af óhreinum fatnaði. Það var, sem sagt leitað hreint allsstaðar sem mögulega var hugsanlegt eða óhugsandi að þessi blessaða fjarstýring gæti verið. Þetta gekk svo langt, að ég var farinn að trúa því, að þarna hefðu yfirnáttúruleg öfl verið að verki, og er ég þó alla jafna ekki ginnkeyptur fyrir slíkum vangaveltum.
Þegar útséð var um að leitin skilaði árangri, var tvennt í stöðunni:
a) athuga hvort hægt væri að fá einhversstaðar svona fjarstýringu. Það var gert og í ljós kom, að svo er ekki.
b) taka þessu rólega í þeirri von, að þegar leitinni yrði hætt, myndi gripurinn bara allt í einu birtast á einhverjum augljósum stað. Síðan liðu 10 dagar, án þess að fjarstýring birtist á stofuborðinu.
Á þessum laugardagsmorgni var niðurstaða um að nánast snúa öllu við í íbúðinni - hreint öllu og mátti búast við að dagurinn færi í það. Sérstaklega var leitinni beint að sófanum sem nýtist til sjónvarpsáhorfs á bænum. Hann dreginn fram á mitt gólf, snúið og hvolft, hver ójafna rannsökuð. Svo var farin önnur umferð, jafnvel enn nákvæmari.
Það mátti velta því fyrir sér, og það var gert, hversvegna ákveðið var að hefja þessa miklu aðgerð einmitt í morgun. Það má vel vera, að þær vangaveltur hafi styrkst, þegar fjarstýringin birtist allt í einu í einni, nokkuð augljósri, rauf í sófanum. Það má velta því fyrir sér, hvort fjarstýringunni hafi verið komið fyrir þarna, eftir að hún hafði fundist á stað sem hefði mátt tengja við rangan aðila máls. Það kemur væntanlega aldrei í ljós, enda skiptir það ekki máli í stóra samhenginu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli