25 febrúar, 2022

Nema eitt blóm

Aðfaranótt 24. febrúar, árið 2022, hófst innrás rússnesks herliðs inn í Úkraínu

Tilhugsunin um að þessi innrás muni mögulega hafa víðtækari áhrif,  er mörgum næstum ofviða að velta fyrir sér. Seinni heimstyrjöldin myndi sennilega blikna í samanburðinum við það sem gæti beðið okkar. 

Ætli sé ekki best að við hugsum ekki þangað; gerum ráð fyrir að það sé nægilegur skynsemisvottur eftir, meðal þeirra sem ráða málum okkar, til að þeirri þróun verði afstýrt. Kannski er það ekki ætlunin að sú verði niðurstaðan. Mögulega er þetta leikrit sem klúbbar þeirra sem með völdin fara, hafa komið sér saman um að setja upp, beinlínis til að treysta völd sín og auka á óbilandi óttablandna virðingu okkar fyrir leiðtoghahæfni þeirra.

Í rauninni vitum við ekkert nema það sem við sjáum eða heyrum.. Við hneigjumst til að trúa því sem við sjáum eða heyrum. Það er veikleiki okkar. 
Veikleiki, vegna þess, að  það sem okkur er sagt, eða það sem við sjáum er mögulega frekar blekking en sannleikur. Það sem við sjáum eða heyrum er það sem þeir vilja að við sjáum. Hvað vitum við svosem um það sem gerist þegar slökkt hefur verið á hljóðnemunum eða myndavélunum?  Er andlitið á skjánum það sem það virðist vera? Er það sem sagt er satt, eða hrein og klár blekking? 
Er kannski alltaf verið að spila með okkur vegna þess að við erum auðtrúa múgur? 

Já, ég viðurkenni það bara: ég set spurningamerki við allt sem stjórnmálamenn eða aðrir forystumenn í þjóðmálum og alþjóðamálum setja frá sér. Mér finnst oftar en ekki að þeir séu ekki einlægir; það séu til staðar duldar fyrirætlanir.

Ég vona að innrásin í Úkraínu, sé leikrit með upphaf miðju og endi og að endirinn verði viðunandi, þó aldrei sé viðunandi að láta sprengjum rigna yfir saklaust fólk og réttlæta það svo sem fórnarkosnað, til að gæta einhverra skuggalegra hagsmuna.



Síðasta blómið

Undir XII. alheimsfrið
(eins og fólk mun kannast við).
eftir blóðug öfgaspor
endursteyptist menning vor.

Heimsbyggð öll var eydd að grunni.
Uppi stóð ei tré né runni.
Bældir heimsins blómsturgarðar.
Brotnir heimsins minnisvarðar.

Lægra en dýr með loðinn bjór
lagðist mannkind smá og stór
Horfin von, með hlýðni þrotna,
hundar sviku lánadrottna.

Sótti á bágstatt mannkyn margur
meinkvikinda stefnisvargur.
Músík-, bóka- og myndalaus
manneskjan sat með kindahaus,
gleði-, dáða- og girndalaus.

Glötunin virtist þindarlaus…

Pótintátar XII. stríðsins,
tórandi enn á meðal lýðsins,
mundu orðið ekki par
út af hverju stríðið var.

Hvort til annars drós og drengur
dreymnum augum renndu ei lengur,
heldur gláptu öndverð á:
Ástin sjálf var lögst í dá…

Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:
Síðasta blóm í heimi.

Heim hún stökk þá sögu að segja
að síðasta blómið væri að deyja.
Ungum pilti út í haga
einum fannst það markverð saga.

Saman forðuðu sveinn og meyja
síðasta blóminu frá að deyja.
Í heimsókn komu, að heilsa því,
hunangsfluga og kólibrí.

Bráðum urðu blómin tvö
og blómin tvö að fjórum,
fimm, sex, sjö… …
og síðast breiðum stórum.

Laufgast tók hvert tré og lundur.
(Telpan fékk sér snyrtingu).
Piltinum fannst hún alheims undur.
Ástin var í birtingu.

Börnin tóku að hoppa og hlæja
hnellin, keik og létt á brá.
Hundar snéru heim til bæja
(hefði verið að ræða um þá).

Ungi maðurinn framtaksfús
fór að byggja úr steinum hús,
og senn fóru allir að hlaða og hýsa,
og heimsins byggðir að endurrísa,

og söngvar lífsins upphófust enn,
og fram komu fiðlarar
og fjölbragða smágusar
og skraddarar og skóarar
og skáld og listamenn,
höggmeistarar, hugvitsmenn
og hermenn!

Og aftur komu ofurstar
og aftur risu upp kapteinar
og majórar og marskálkar
og mannkynslausnarar!

Niðri í dölum, fram til fjalla
fólk sér dreifði um veröld alla.

En fyrr en varði fjallahyggja
fór að sækja á dalabyggja,
og þeir sem áttu heima á hæðum
hugann sveigðu að lægri gæðum.

Lýðinn ærðu í lygaskaki
lausnarar, með guð að baki,
uns eftir skamma hríð
hófst alheimsstríð.

Í stríði því var öllu eytt

ekki neitt
lifði af þann lokadóm,

nema einn piltur

nema ein telpa

nema eitt blóm.

(Ljóð Magnúsar Ásgeirssonar, sem er þýðing á dæmisögu (parable) eftir bandaríska skáldið James Thurber)

The Last Flower

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...