Myndin sýnir óþekkta eldri borgara takast á við lóðin. |
Það var hinsvegar ekki þetta sem ég ætlaði að lemja inn hér og nú, heldur birtan sem fólst í því að komast í fyrsta sinn síðan um miðjan desember í heilsurækt undir stjórn í íþróttahöllinni miklu.
Það toguðust á kvíði fyrir því að þurfa að toga sjálfan sig upp úr sófanum og tilhlökkun yfi því að fá að njóta þess að verða örþreyttur aftur, með tilheyrandi harðsperrum.
Mér finnst það dálítið ósanngjarnt, að vera búinn að þræla og púla í líkamsrækt mánuðum saman, fara svo í mánaðarlanga pásu og komast þá að því að mánuðirnir höfðu skilið lítið eftir sig. Mér finnst að líkamsrækt eigi að skila einhverju varanlegra, en veit svo sem að þannig gerast ekki kaupin á eyrinni. Maður verður víst að sætta sig við það.
Hvað um það, þarna hópaðist fjöldi fólks á besta aldri saman og tók upphitunargönguna. Síðan tók púlið við; lóðum var lyft, hné voru beygð, sprellikall var tekinn og vöðvar í dvala teygðir og hnykklaðir.
"Við erum nú engin unglömb!" varð einum þjáningarbróðurnum að orði, við hliðina á mér, þar sem lóðin og hnébeygjurnar voru farin að taka heldur mikið í afleiðingar hátíðahaldanna sem liðin eru.
"Nei, við erum þunglömb!", gall þá við í þjáningarsystur, eins og frá hjartanu. Þetta eina nýyrði bjargaði þessum heilsuræktartíma og ég held áfram að kvíða fyrir og hlakka til frekari átaka næstu mánuði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli