Hörður V. Sigurðsson Mynd frá Asparlundi |
Ég var 10 ára þegar Hörður og Ingibjörg fluttu í Laugarás, með tvo spekingslega syni, þá Atla Vilhelm og Bjarna. Dóttirin, Kristín, fæddist síðan ári eftir að þau komu í Gamla bæinn.
Þarna var Hveratúnsfjölskyldan nýflutt í nýja íbúðarhúsið og gamli bærinn beið einhvers hlutverks. Það hlutverk fékk hann þarna og ungu hjónin bjuggu á hlaðinu hjá okkur þar til þau höfðu byggt sér gróðurhús og íbúðarhús á landinu þar sem dýið með brunnklukkunum hafði áður verið. Landið hafði þá verið ræst fram og þar reis síðan, meðfram þjóðveginum, risastórt gróðurhús.
Sökum þess að ég var hvorki kominn til vits né ára, að neinu ráði á þessum tíma, man ég svo sem harla lítið eftir þessu nýja fólki í gamla bænum, utan það, að Ingibjörg átti það til að bjóða okkur inn til að þiggja eitthvert góðgæti.
Eldri spekingurinn var til í að spjalla við pabba, sem spurði hann út í hitt og þetta, eins og gengur. Sá stutti átti oftast auðvelt með að svara, en þegar að því kom að hann átti ekki svar, sagði hann: „Mamma mín segir að ég megi ekki tala við ókunnugt fólk“. Gamli maðurinn þreyttist ekki á að segja frá þessum samskiptum.
Hörður var rétt að verða þrítugur og Ingibjörg nokkrum árum yngri, þegar þau komu í Laugarás. Þá voru þar fyrir Skúli og Guðný í Hveratúni, Jón Vídalín og Jóna á Sólveigarstöðum, Helgi og Gauja í Helgahúsi, Jóna og Guðmundur á Lindarbrekku, Fríður og Hjalti í Laugargerði (bjuggu þá í Lauftúni) og Sigmar og Sigga í Sigmarshúsi. Laugarás var þétt samfélag á þessum árum og nýbúarnir Hörður og Ingibjörg féllu strax inn í það, enda þannig innréttuð bæði tvö. Þau tóku þátt í öllu og stuðluðu ötullega að því sem betur mátti fara. Ég hef oft séð þau fyrir mér sem tappann sem tekinn var úr, þannig að ungar garðyrkjufjölskyldur gætu streymt að. Það bættust átta nýjar garðyrkjustöðvar við í Laugarási næstu sex árin.
Garðyrkjubændurnir í Laugarási framleiddu aðallega tómata og gúrkur á þessum árum, en með Herði kvað við nýjan tón. Hann ræktaði alla tíð bara blóm. Krusa (eins og við kölluðum þessi blóm sem voru af ýmsum litum, stærðum og gerðum) og seinna einnig jólastjörnu. Svo held ég að hann hafi farið að einbeita sér meira að því að rækta græðlinga fyrir aðra blómaframleiðendur. Þó svo ég hafi einhverntíma á unglingsárum starfað um stund í Lyngási, man ég þetta ekki nákvæmlega.
Hörður tók auðvitað virkan þátt í félagsstörfum af ýmsu tagi í Laugarási, sat í stjórnum hagsmunafélagsins, hitaveitunnar og vatnsveitufélagsins og alltaf þegar eitthvert samfélagsverkefni lá fyrir, voru hjónin bæði mætt fyrst manna. Þau skildu sannarlega mikilvægi samstöðunnar í samfélagi eins og Laugarási.
Hörður kom mér fyrir sjónir sem maður sem hafði allt á hreinu. Mér fannst hann oftast hafa afar skýrar og ákveðnar skoðanir á málum, allavega í orði kveðnu. Þannig var hann ávallt tilbúinn að skoða aðra fleti og ég man ekki önnur en hnökralaus samskipti við hann. Ég hafði oft gaman af því, þegar þau Ingibjörg voru bæði viðstödd og Hörður sagði eitthvað hafa verið með einhverjum hætti. „Hvaða bölvuð vitleysa“ gall þá stundum í henni, áður en hún leiðrétti það sem eiginmaðurinn hafði sagt. Hörður hafði sérstakan hlátur, sem var yfirleitt grunnt á og hann reykti pípu í þá daga. Hann var sjálfstæðismaður, allavega að nafninu til, sem kannski má segja að hafi verið ljóður á persónu hans, en hann virkaði aldrei á mig sem slíkur. ég hef það á tilfinningunni, að félagshyggjan hafi staðið honum nær.
Skúli Magnússon í Hveratúni og Hörður V. Sigurðsson í Lyngási. |
Við byggðum okkur hús í Holtinu, við hliðina á Lyngási og fengum að njóta nærveru þessara ágætu nágranna. Þannig fannst þeim ekkert sjálfsagðara en að við fengjum að leggja vatnsslöngu og rafmagnskapal yfir á byggingarsvæðið og um greiðslu fyrir það þýddi ekki að að ræða. Allt var bara sjálfsagt.
Ekki síst eru það börnin okkar, sem eiga ljúfar minningar um Hörð og Ingibjörgu, sem voru þeim nánast eins og þriðja parið af ömmu og afa. Á grunnskólaárum barnanna lá stysta leiðin í skólabílinn, sem tók börnin upp í við búðina, í gegnum lóðina hjá þeim. Þessi leið var aldrei kölluð annað en Ingibjargarleið. Eftir að þau hurfu á braut og börnin uxu úr grasi, greri smám saman yfir Ingibjargarleið, en minningin um hjónin í Lyngási er ávallt vakandi.
Hörður og Ingibjörg voru Laugarásbúar eins og þeir gerðust bestir og mig grunar, að það hafi ekki verið þeim auðveld ákvörðun að selja Lyngás, en líklega var hún skynsamleg. Starf garðyrkjubóndans er harla strembið og tekur á skrokkinn. Það er betra að láta staðar numið í tíma og fá góð ár til að njóta lífsins í öðru samhengi.
Hörður og Ingibjörg voru Laugarásbúar eins og þeir gerðust bestir og mig grunar, að það hafi ekki verið þeim auðveld ákvörðun að selja Lyngás, en líklega var hún skynsamleg. Starf garðyrkjubóndans er harla strembið og tekur á skrokkinn. Það er betra að láta staðar numið í tíma og fá góð ár til að njóta lífsins í öðru samhengi.
Það eru liðin ansi mörg ár frá því ég stóð við dýið, með lokaðan munninn og horfði ofan í djúpið. Ekki sá ég fyrir mér þá, hvernig þetta færi nú allt saman. Það fór eins og það fór, ég ég tel mig heppinn að hafa fengið að vaxa upp og búa í nágrenni við Hörð og Ingibjörgu. Fyrir það erum við Kvisthyltingar þakklát.
Hörður lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þann 29. júlí og útför hans er gerð frá Hveragerðiskirkju í dag.
Páll og Dröfn frá Kvistholti.
Mynd frá Jakob Narfa Hjaltasyni |