Sýnir færslur með efnisorðinu nútíð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu nútíð. Sýna allar færslur

28 ágúst, 2017

Sjö manna maki

Einhver myndi segja að þessi pistill einkenndist af svokölluðu "karlagrobbi" sem sagt er að einkenni ákveðinn tíma í ævi karlmanna; tímann þegar þeir eru stignir út af vinnumarkaðnum og enginn getur lengur krafið þá um að sanna mál sitt.
Karlagrobb hefur mér sýnst felast í sögum sem viðkomandi segja af afrekum sínum og ævintýrum, oftast sem þeir eru einir til frásagnar um, enda oftar en ekki allir aðrir sem að sögunum koma, komnir yfir móðuna miklu.
Dæmi um upphaf svona sögu gæti verið: "Þegar ég var þarna um árið á vélbátum Narfa BS53 frá Súgandafirði, gerði á útmánuðum þetta aftakaveður á norðaustan. Ég .................."  og svo framvegis. Eftir því sem aldurinn færist síðan meira yfir eiga minningarnar það síðan til að verða ævintýralegri og svakalegri, eins og er auðvitað alveg eðlilegt. Fortíð okkar litast nefnilega sterkari litum eftir því sem lengra líður.

Jæja, þá er inngangurinn búinn og ég skelli mér í karlagrobbið, sem jafnframt má líta á sem nokkurskonar gagnrýni á samfélagsþróun, hér og annarsstaðar; kannski aðallega sem slíka.


Það var áður fyrr talað um að menn (aðallega var það nú reyndar notað um karlmenn) væru þúsundþjalasmiðir. Auðvitað er svona fólk til enn, meira að segja má finna þessi eintök innan stofnunarinnar sem ég hef verið að vinna hjá: bæði karla og konur.  Þróunin hefur hinsvegar legið eindregið í þá átt að þessi tegund fólks sé í útrýmingarhættu. Í staðinn eykst sérhæfing og fólk verður í æ meira mæli aðeins fært um að smíða eina til tvær þjalir. Þannig væri hægt að tala um einhvern sem "tveggjaþjalasmið"; hann gæt t.d. ekið bíl og borið á pallinn, en ekkert annað. Hann kynni t.d. ekki að skipta um dekk, eða setja í þvottavél.

Ég........loksins kemur að því ......... ólst upp í heimi sem var talsvert einfaldari en sá sem við lifum nú. Stærsti munurinn felst líklega í tækni og tækjum. Það var vissulega til útvarp, en auðvitað var sjónvarpið ekki komið, svo ekki sé nú talað um tölvur og allt sem nöfnum tjáir að nefna og sem tengist þeirri þróun allri saman.  Ég læt vera að taka afstöðu til þeirrar þróunar hér, enda stærra mál en svo.

Ég hef stundum verið spurður að því hvort lífið hafi ekki verið óþolandi leiðinlegt í gamla daga, þegar allt var svarthvítt. Ég neita því ekki, að stundum velti ég fyrir mér hvað í ósköpunum við notuðum allan þann tíma í sem við notum nú í allskyns afþreyingu. Hvað gerðum við t.d. á kvöldin? Jú, það var spennandi framhaldsleikrit í útvarpinu, lög unga fólksins, útvarpssagan, það var lesið og börn léku sér úti við.  Ég veit ekkert hvort það var eitthvað betra fyrir okkur sem manneskjur, svo sem, en þannig var þetta bara.

Mér finnst að við höfum kannski verið að ýmsu leyti tengdari raunveruleikanum en nú er. Heimurinn var miklu minni og viðráðanlegri og maður þurfti að takast á við fjölbreytilegri verkefni í þessum afmarkaða heimi. Það þurfi það gefa hænunum, vökva (í gróðurhúsunum) og sinna ýmsu sem til féll á garðyrkjubýli. Síðar þurfti að gera við bíldruslur, byggja hús, grafa skurði, takst á við áföll. Í sem stystu máli: bjarga sér við ólíklegustu aðstæður.

Ég dreg þetta saman svona: heimurinn var hlýrri, raunverulegri og nánari, en hann er nú.

Oh, it's a fine life, the life of the gutter. It's real: it's warm: it's violent: you can feel it through the thickest skin: you can taste it and smell it without any training or any work. Not like Science and Literature and Classical Music and Philosophy and Art.                                                                                                        -G.B. Shaw: Pygmalion (My Fair Lady)

Ætli sé ekki rétt að fara nú að koma mér að kjarna málsins og ástæðu þess að ég skrifa þennan pistil.
Eins og ég greindi frá í síðasta pistli er ég nú um það bil að stíga út af hefðbundnum vinnumarkaði. Við þau tímamót hefur það blasað við, að það myndaðist lítið skarð sem þurfti að fylla í innan stofnunarinnar.  Ég er nú búinn að komast að því, að hvorki meira né minna en sjö starfsmenn hafa tekið að sér þau verkefni sem ég sinnti.
Tveir deildu á sig því sem tilheyrði stöðu aðstoðarskólameistara.
Þrír taka að sér þann hlutann sem notaður var til ljósmyndurnar og myndvinnslu fyrir vefinn.
Einn tekur að sér textaskrif vegna heimasíðu.
Einn tekur að sér ýmsa upplýsingavinnslu.
Samtals eru þetta þá sjö manns.
Auðvitað tek ég það fram, því ég þykist vita, að einhverjum geti fundist ég seilast, með þessu, heldur langt í karlagrobbinu, að þarna tekur þetta fólk að sér afmarkaða hluta þess starfs sem ég sinnti,  vissulega misstóra hluta og allt er þetta auðvitað öndvegisfólk.  Ég vil þar á móti halda því til haga, að starfið sem ég sinnti var óhemju fjölbreytt og skemmtilegt og gaf mér færi á að reyna mig á ólíkum sviðum.

Það sem ég er svo að fara með þessu snýst um þá skoðun mína, að við, í þessu nútímasamfélagi, séum æ meir að missa sjónar á heildarmyndinni. Við verðum í æ ríkari mæli fagidjótar, þar sem við verðum sérfræðingar á æ afmarkaðri sviðum, t.d. fuglafræðingar sem eru sérhæfðir í rjúpunni, eða píplagningamenn sem hafa hitalagnir í fjölbýlishúsum að sérgrein. Frábært fólk á sínu sviði, en lætur sig oft litlu skipta allt hitt. Fyllir kannski hóp þeirra sem tjá sig fjálglega um mál í athugsemdum á samfélagsmiðlum, án þess að hafa nokkra innsýn eða skilning.

Það má alveg halda því fram að þetta einkennist dálítið af fortíðarþrá hjá mér, en það er í rauninni ekki svo, því þó svo ég sé ekki kominn með Netflix, eða búinn að fara í Costco eða HogM og bíði í viku eftir að sjá næsta þátt af breska sakamálaþættinum á RUV, þá held ég að mér hafi tekist að fylgjast nokkuð vel með og hef bara gaman af ýmsum þeim tækninýjungum sem spretta fram. Ég er meira að segja farinn að gæla við þá hugmynd að kaupa mér 75" HDR tæki á vegginn í Kvistholti, en á enn eftir að rökræða það um stund við fD.



Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...