Sýnir færslur með efnisorðinu Skálholtskórinn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Skálholtskórinn. Sýna allar færslur

08 maí, 2022

Hjá heilagri Maríu og heilögum Fransiskusi árið 2007.

Það eru víst ein 15 ár síðan ég tók þátt í einni eftirminnilegustu kórferð sem ég hef farið í, en það var þegar Skálholtskórinn ferðaðist suður alla Ítalíu dagana 28. júlí til 11. ágúst, árið 2007. Fararstjórinn var Hólmfríður Bjarnadóttir og þar með þarf ekki að fjölyrða um hvernig stjórnin á þessu ferðalagi gekk fyrir sig.  
Skúli Sæland gerði þessari ferð nákvæm skil í Litla Bergþór árið eftir og því fjölyrði ég ekki um hana hér. 
Tilefni þessara skrifa er í rauninni tvö: Annarsvegar, að nú er ég kominn í nýjan kór, Kirkjukór Selfosskirkju og það vill svo vel til, að hann stefnir á Ítalíuferð innan skamms og hinsvegar, að við yfirferð á efni í gömlu tölvunni minni rakst ég á fortíðardraug nokkurn; greinargerð um raddirnar í Skálholtskórnum í aðdraganda Ítalíuferðarinnar. Þetta er heilmikil langloka, og ekki líklegt að aðrir en nákvæmlega það fólk sem þarna var með í för, botni nokkuð í þessu. Ég skelli þessu samt hér inn, ekki síst til að geyma það á vísum stað.
Tilgangurinn með þessu verki var að undirbúa eitthvað til að fara með í rútubílnum á leið suður Ítaliu, en eins og nærri má geta, voru nokkrir sæmilega langir leggir og þótti þörf á einhverri afþreyingu. Þetta var mitt framlag.  


1. hluti

Fegurðin sjálf.
Eins og þröstur í kattlausu umhverfi.
Eins og þegar nýbúið er að þagga niður í gjammandi hundkvikindi.
Eins og lofgjörð til þeirra dásemda mestra sem líf vort hér á jörð hefur fram að færa.
Eins og allt hið göfugasta og ljúfasta komi saman í einum skurðpunkti.
Eins og ómur alheimsins.
Lífið sjálft.
Sópraninn...........
.....á góðum degi.


Það kann að skjóta skökku við, í ljósi þess sem á undan er gengið að þessi orð falli úr þessum munni, en hvað á maður að segja?
Á góðum degi er þetta bara svona. Stúlkubarnsraddirnar, svo mjúkar, svo tærar, svo seiðandi, svo magnþrungnar, kalla hreinlega á svo fögur orð frá tenórnum. Og fyrst tenórinn sér ástæðu til að fjalla um sópraninn með þessum hætti ætti engum að blandast hugur um að hér er ekki um að ræða neitt léttvægt.
Það verður af þessum sökum að fyrirgefa sópraninum það, að hann taki hlutverk sitt svo alvarlega að stúlkubarnsröddin smiti yfir í líf hans og framgöngu alla, sem hefur auðvitað í för með sér kórinn að öðru leyti og stjórnandinn verða að sýna umtalsverða þolinmæði og umburðarlyndi. Því meira sem sópraninn fær að flissa og mala eins og táningsstúlka, því fegurri verður röddin. Svona er þetta bara. 

Niðurstaðan er því þessi, stjórnandi góður: Því meira sem þú sussar á sópraninn, því meiri líkur eru á því að röddin hljómi eins og hjá miðaldra konum, eða eldri. Fyrir nú utan það, að því meiri líkur eru á orði í eyra þegar heim er komið. Sópraninn þarf að fá að vera í karakter – með því móti næst það fram sem sóst er eftir.

Eftir að sópraninn hefur nú verið skilinn eftir, uppnuminn af stolti eftir þau fögru orð sem hafa fallið um hann hér, þá skal þessari afþreyingarstund haldið áfram.


2. hluti

Þegar ekið er hér í rútubíl suður eftir því fagra og hlýja landi Ítalíu, er ekki laust við að upp komi í hugann frásögnin af pólskum pílagrímum í rútuferð, sem létu lífið í Frakklandi fyrir skömmu. Þetta sorglega slys átti sér stað þegar bremsur gáfu sig, með þeim afleiðingum að rútan steyptist fram af þverhnípi. Það er ekki ætlunin að hræða neinn með því að minnast á þetta hér. Miklu fremur á þetta að leiða huga hlustenda til þeirra hugrenninga sem eiga sér stað þegar langferð er framundan og í fréttum dag eftir dag er fjallað um rútuslys og flugslys um gervalla plánetuna. Það er fjarri því að slíkt komi til greina í þessari ferð auðvitað, þar sem við ökum nú um sólbakað sléttlendið. Auðvitað berjumst við við ákveðna fordóma gagnvart því sem bíður okkar á eyjunni fögru, Sikiley. Munum við verða vitni að “Mafia style” aftökum. Verðum við tekin í gíslingu miskunnarlausra fanta?
Svo hitt, megum við búast við því að Etna ræski sig duglega einmitt þegar þeir hugrökkustu úr hópnum hafa náð hæsta tindi og standa á gígbarminum?
Ekkert af þessu kemur til greina, en hugsunin spyr ekki um það. Af henni sprettur óttinn.

Þetta er nú að verða full þunglyndislegt, líklega. Það endurspeglar kannski að einhverju leyti það sem tenórinn hefur gengið í gegnum á þeim tíma sem undirbúningur ferðar þessarar hefur staðið.


3. hluti

Það má líklega rekja ástæður þess sem nefnt var í lok síðasta hluta til eins ákveðins tímapunkts, eða ákveðins atviks. Það sem þar gerðist og sú saga, sem enn er óskráð og sem fylgdi þar á eftir, og sem stendur yfir enn í dag, má sennilegst rekja til þessa tímapunkts. Meðal þeirra afleiðinga sem þetta hefur haft fyrir röddina einu sönnu og rödd radda er eftirfarandi:

-Í fyrsta lagi hefur borið á vaxandi sókn tenórs í aðrar lystisemdir en þær sem hann hefur upp á bjóða í sjálfu sér, og sem eru, þegar allt er eðlilegt, algerlega fullnægjandi. Þetta hefur til dæmis falist í óskýrðum veikindum, gönguferðum í fjarlægum landshlutum, útlandaferðum í 40 stiga hita, sumarbústaðaferðum í hvassviðri, ónauðsynlegri vinnu, meintum söng með kórum í öðrum sveitum og öllu því öðru, sem, gjarnan hefur orðið að víkja fyrir þeim forréttindum að efla sig sem tenór með þrotlausum æfingum.

- Í öðru lagi má segja að hinn eini sanni samhljómur tenórsins, sem allir þeir sem hér eru staddir geta vitnað um, hefur beðið hnekki. Þetta hefur meðal annars birst í áberandi fleiri athugasemdum stjórnandans við framgöngu tenórsins. Ekki bara að hann telji hann beita röddinni þannig að aðrar raddir heyrist ekki (sem er nú reyndar ekkert nýtt), heldur virðist skorta á, ef tekið er mark á athugasemdum stjórnandans, að samhljómur sé að öllu leyti fyrir hendi í þeim hárfínu blæbrigðum sem tenórnum er yfirleitt ætlað að túlka, umfram aðrar raddir, og sem aðrar raddir viðurkenna fúslega að sé raunin.

- Í þriðja lagi hefur orðið meira áberandi en áður, eða er kannski rétt að segja að hún hafi orðið útbreiddari, sú tilhneiging tenórs að fjalla um ýmsa þætti í eigin fari sem sumum finnst að betur megi fara. Hér er verið að vísa til síaukins fjölda tilvika þar sem tenórar hafa blygðunarlaust gert lítið úr útlitseinkennum sínum og þá helst hárafari eða vaxtarlagi. Tilvik af þessu tagi draga óhjákvæmilega athygli af sérstöku tagi að tenórnum; athygli sem hann ætti að vilja forðast. Það er röddin sem á alltaf og ævinlega að draga athygli annarra radda að tenórnum, en ekkert annað, allra síst slíkt fánýti sem hér hefur verið nefnt.


- Í fjórða lagi, þó það verði að teljast koma úr hörðustu átt, hafa sjálfskipaðir fulltrúar annarra radda tekið að sér að gagnrýna tenórinn á grundvelli aldeilis fáránlegra smáatriða.
Þannig tók einn altinn sig til og sakaði tenórinn um að fylgjast ekki nægilega vel með stjórnandanum. Þessi umræddi alt sagðist hafa fylgst með tenórnum, sem er nú svosem ekkert nýtt eða skrýtið. Það einkennilega var hinsvegar að tenórinn stóð fyrir aftan umræddan alt þegar þetta meinta atvik átti sér stað. Mikið leggja altar á sig til að njóta þeirra lystisemda sem felast í því að hafa tenór fyrir augunum.
Þá gerðist það einnig að einn sópraninn, sömuleiðis sjálfskipaður, kvað upp úr með það, með undarlega móðurlegum mæðutón, að tenór hafi sýnt danstakta á tónleikum. Auðvitað er þetta ekkert annað vanmáttug tilraun til að breiða yfir öll þau vandamál sem sópraninn á við að stríða. Má þar til dæmis nefna uppþotið sem varð innan sópransins þegar stallari gerði tilraun til að sýna honum í hvernig röð hann skyldi ganga til tónleika. Það lá við að fresta yrði tónleikum vegna þess að stúlkubarnshlutverkið gerði sópraninumm ókleift að komast að niðurstöðum um hver þeirra skyldi ganga fyrst inn og hver síðast. Já, og hananú.

-Í fimmta lagi hefur þess orðið vart í æ ríkari mæli að innan tenórsins komi upp ágreiningur, og þar sem kannski er enn verra: ágreiningur sem berst út fyrir tenórinn sjálfan og er jafnvel tjáður með einhverjum hætti í viðurvist annarra radda. Þetta skal nú útskýrt nokkuð með tveim dæmum:
Hið fyrra þarf nokkurn aðdraganda.
Það hefur ávallt verið svo, að við guðsþjónustur í Skálholtsdómkirkju hefur hver rödd átt sinn stað. Af ástæðum sem ekki verða raktar hér hefur það verið hlutskipti tenórsins, fyrst og fremst þar sem það er mikilvægt fyrir sópraninn, að sitja að baki sópraninum og syngja þaðan ægifagra tóna inn í eyru hans. Það verður því að líta svo á að það sé riddaramennsku tenórsins að kenna að hann hefur ekki annað sæti en nokkuð vel smíðað bekkskrífli. Bekkskrífli þetta er auðvitað baklaust og grjóthart ásetu, ekki síst fyrir þá tenóranna sem eru grennstir og spengilegastir, ásamt því að svokölluð seta er miklu lægri en sæti sóprananna fyrir framan. Því er það svo að þegar kórinn situr þá hverfa afar myndarleg höfuð tenórsins, sérstaklega þau höfuð sem ekki rísa upp úr fjöldanum að öllu jöfnu, bakvið sópraninn, svo kirkjugestir fá ekki notið þeirra.
Vissulega verður það að viðurkennast að þessi staða breytist nokkuð þegar kemur að því að kórinn rís á fætur til að syngja. Þá gnæfir ténórinn í öllu sínu veldi langt upp fyrir aðrar raddir. Hversvegna skyldi það nú vera? Jú, í hvert skipti sem þetta gerist, og það er nú bara nokkuð oft, þá verður tenórinn að príla upp á bekkskríflið og standa síðan þar eins og hani á priki. Þeirrar stundar er beðið með óþreyju, aðallega í öðrum röddum, að einhverjum tenóranna mistakist prílið með hörmulegum afleiðingum.
Það hefur verið ófrávíkjanleg regla, að ofangreint bekkskrífli hafi verið álitinn staður tenóranna, og um það hefur ekki verið ágreiningur, aldeilis sérlega ekki meðal annarra radda. Vissulega hefur tenórinn allur fram til þessa verið samstíga um að dvelja á skríflinu þótt hann væri jafn samstíga um að vera þeirrar skoðunar að dvölin þar hæfði ekki svo magnþrunginni rödd.


Þá er komið að því að gera grein fyrir fyrra dæminu um ágreining sem vart hefur orðið innan hinnar dáfögru raddar.

Í hámessu á Skálholtshátíð klauf einn tenórinn sig frá röddinni blíðu að öðru leyti með því að taka sér sæti í dyngju sópransins. Þar ríkja mýktin ein og þægindin. Ekki gekk umræddur tenór í þessu tilviki þó svo langt að láta leiðast inn í pískur sópransins eða taugaveiklun.
 
Hitt dæmið sem skal nefnt hér, en þau eru vissulega fleiri, snýst um áfengisnotkun í Páfagarði, þeim garði þar sem tenórinn einn náði eyrum hans heilagleika með hinum norræna uppsveitablæ sem einkennir hann svo mjög.
Ekki verður fjallað nánar um, á þessum vettvangi þennan ágreining um áfengismál innan tenórsins og skal því treyst að ekki muni tenórar segja um þann ágreining aukatekið orð það sem eftir lifir ferðar.

“What happens within the tenor stays within the tenor.”

Ekki svo að skilja, að með neinum hætti megi bera tenórinn saman við áðurnefndan hóp misyndismanna sem byggir eyjuna fögru þangað sem ferðinni er nú heitið.

Nú hefur verið gerð grein fyrir ýmsum afleiðingum atviks sem talið er hafa valdið öllu því sem hefur verið nefnt hér að ofan. Atvikið sjálft hefur ekki verið nefnt og bíður næsta kafla.

Verður nú gert hlé á flutningnum til að gefa ferðalaöngum færi á að vakna og fá sér einn bjór eða svo.


4. hluti

Áfram er haldið í loftkældri rútu. Upp og niður snarbrattar fjallshlíðar eftir krókóttum, örmjóum vegaslóðum. Eða er það svo?
Enn fær hugurinn tækifæri til að reika til landsins elds og ísa sem rís upp úr óravíddum Atlantshafsins, fjarri vígaslóð og Skálholtskór.
Í svo stóru samhengi sem hér er um að ræða kostar það nokkuð átak að rifja upp einstök tilvik sem voru smá í sjálfu sér, en sem höfðu engu að síður afdrifaríkar afleiðingar. Við verðum bara að reyna að spóla til baka þangað sem vetur ríkti á landinu bláa fyrir nokkrum mánuðum, enn og aftur.

Þar sem er kærleikur og ást
Þar er Guð
Ástin sameinar okkur í einum Kristi.
Fögnum og gleðjumst í honum.
Óttumst og elskum hin lifandi Guð,
Heiðrum og elskum hann af hreinu hjarta
Þar sem er kærleikur og ást
Þar er Guð


Þetta þekkja auðvitað allir. Það er skylda okkar að vita hvað við erum að syngja um, því annars tekst okkur ekki að tjá þær tilfinningar sem að baki liggja, er það nokkuð?
Þetta sem ég las, sungum við, hvort sem þið trúið því eða ekki. Við syngjum það reyndar ekki lengur og það er kannski eins gott því það var að öllum líkindum einmitt þessi texti, svo einkennilegt sem það nú er, sem olli því að tenórinn er nú fyrst að ná vopnum sínum aftur eftir all miklar þrengingar.

Nú skulu færð nokkur rök að þessari tilgátu.

Það geta væntanlega allir sameinast um það, að tenórinn er guðdómlegur. Það er þessvegna ekki svo fjarri lagi að setja hann inn í textann sem var lesinn hér áðan í stað Guðs og Krists líka.
Ef allt hefði verið með felldu hefði einmitt þessi texti átt að sameina tenórinn sem aldrei fyrr.

Þar sem er kærleikur og ást
Þar er tenór
Ástin sameinar okkur í einum tenór.
Óttumst og elskum hin lifandi tenór,
heiðrum og elskum hann af hreinu hjarta.


Textinn sem átti að sameina sundraði, eða reyndar ekki textinn sem slíkur, heldur var það altísk innrás að tilstuðlan óhemju óhepplegrar raddsetningar og ákvörðunar stjórnandans, sem sundraði.

Til að upplýsa um fjölda tenóra í kórnum, svo það fari ekki á milli mála, þá eru þeir fimm.
Það hagar svo til í tenórnum að þar er að finna bæði dramatíska tenóra og lýríska tenóra.
Fyrir þá sem ekki vita muninn á þessu tvennu þá eru dramatískir tenórar djúpir og yfirvegaðir eins og lygnt fljót. Það þarf mikið til að koma þeim úr jafnvægi og þeir njóta umsvifalaust óskoraðrar virðingar hvar sem rödd þeirra heyrist.
Lýriskir tenórar eru meira eins og grunnur fjallalækur sem hoppar og skoppar niður fjallshlíðina með ófyrirséðum afleiðingum að öðru leyti en því að hann hlýtur á endanum að sameinast fljótinu lygna, djúpa, ef hann á annað borð gufar ekki upp á leiðinni. Að þessu leyti á lýríski tenórinn margt sameiginlegt með sópraninum á góðum degi.
Af þessu má ljóst vera að samband lýríska tenórsins við hinn dramatíska er honum nauðsynlegt. Hann getur samt aldrei náð hinni sönnu dýpt og fegurð, þótt hann stillist nokkuð af nábýlinu.
Jæja, í tónverkinu sem vísað er til hér að ofan þóknaðist raddsetjaranum að kljúfa tenórinn í herðar niður og kallaði það efri tenór og neðri. Það þarf engum að blandast hugur um það, að lýríska tenórnum var ætlað það hlutverk að syngja hinn svokallaða efri tenór, sem er raunar mikið rangnefni. Dramatíski tenórinn skyldi syngja hina raunverulegu tenórlínu.

Þá er komið að hlutverki stjórnandans í þessu máli öllu saman.
Hann tók afdrifaríka ákvörðun. Honum fannst hún kannski ekki stór, en sannleikurinn er sá að hún gerbreyttti öllu flæði samhljómsins í kórnum og setti þar að auki tenórinn á annan endann.
Af tenórunum 5 voru þrír sem gáfu sig út fyrir að vera lýrískir, sem er meiri eftirsókn en efni standa til, eins og skýrt kom fram þegar söngurinn upphófst að lokum. Tveir liðu hinsvegar áfram eins og hyldjúpt stórfljótið og sungu hina sönnu tenórlínu.
Stjórnandinn ákvað, sem sagt...... Já, hvað ákvað stjórnandinn?

Það fáið þið að heyra um í 5. kafla.


5. hluti

Það hagar svo til í þessum kór að hann hefur innbyrðis ein 15-20 stykki af öltum – í það minnsta nánast aragrúa. Það hefur lengi verið svo, að einstaka altar hafa verið að stæra sig af því að þeim myndi veitast létt að syngja tenór. Hvort rétt er hefur nú reyndar aldrei verið sannprófað þar sem það heyrist afar sjaldan frá þessari rödd. Að undanförnu hefur heyrst í henni í þrem tilvikum:
a. þegar hann syngur “MAT OG DRYKK” –“SYNDABÖND” og “Í HANS FRIД í Gloria tibi.
b. Þegar hann hann syngur “SITJI” í Kvöldbænum
c. Þegar stjórnandinn sussar á allan kórinn svo hann geti hlustað á altinn.

Hvað um það – með ákvörðun stjórnandans fékk tiltekinn hluti altsins tækifæri lífsins: að syngja meinta tenórlínu með tenór – lýrískum tenór.

Afleiðingarnar þekkja nú allir.
UBI CARITAS ET AMOR
TENOR IBI EST
Þar sem er kærleikur og ást
Þar er tenór


6. hluti

Það hafa, þegar hér er komið, flestir fengið sinn skammt í þeirri frásögn sem hér hefur farið á undan. Allavega flestir sem hægt er að fjalla um með einhverjum hætti.

Það er svo með bassann, þann eina raddanna sem ekki hefur notið þess að fá umfjöllun ennþá, að hann hreyfist bara varla. Hann kemur og brosir sakleysislega og jafnvel stundum meira að segja strákslega, eða jafnvel vandræðalega, en haggast ekki svo orð sé á gerandi að öðru leyti. Það má kannski orða það svo að aðkoma hans að kórsöngnum felist í því að mæta á staðinn, drynja í gegnum “whatever” og hverfa síðan. Það er erfitt að átta sig á hvað gerist í hugarfylgsnum bassans. Það sem helst er til að taka í þeim efnum er:

a. Það hefur einusinni eða tvisvar komið fyrir að einhver þeirra hefur játað opinskátt mistök sín í söng. Þarna er tvímælalaust um tenóríska takta að ræða og verður að teljast fremur jákvætt.

b. 5-6 nótur úr allri söngskránni sem víkja frá hefðbundinni bassalínu, hafa fallið í skaut eins nýbassans þar sem aðrir telja sig of mikla bassa til að syngja svo nálægt tenórnum. Umræddur nýbassi er alltaf vandræðalegur þegar ný nóta af þessu tagi birtist.

c. Sími hringir ávallt í bassahópnum á kóræfingum enda eru þær á þeim tíma sem kauphöllin er opnuð í Japan.

d. Bassinn verður alltaf glaður þegar hann fær að puðra í Katarínulaginu. Einn þeirra kann ekki að puðra: hann stingur bara vísifingri upp í sig eins og snuði og hreyfir hann þar í hringi.

Já, bassinn


Eftirmáli

Enn silast rútan áfram. Degi er tekið að halla. Í fjarska stíga reykjarsúlur frá brennandi skógum Ítalíu til himins. Í loftkældri rútunni, sem stefnir nú í suðaustur átt, reynir misánægður hópur að átta sig á því sem hér hefur verið lagt á borð.

Sópraninn er þegar farinn að hvískra um hvort það sé hægt að komst í búð á Sikiley.
Altinn stynur af söknuði yfir því að hann fékk ekki tækifærið sem hann hafði svo lengi óskað sér.
Bassinn fær sér í nefið og sýpur á glóðvolgum bjórnum.
Tenórinn......... er sennilega búinn að útskúfa þeim sem hér situr og veltir fyrir sér hvaða danspor hann á að taka í hringleikahúsinu á austurströnd Sikileyjar.

Það er stefnt í átt að sólarlaginu sem felur í sér nýtt upphaf, nýjan dag með rauðvíni og rósum.

Kvistholti 26. júlí, 2007



15 október, 2019

Söngferð í suðausturátt.

Ferðalangarnir í Vecsés
Sökum þess að ýmislegt er og hefur verið í gangi hjá þessum pistlaskrifara að undanförnu og er enn og verða mun, ef að líkum lætur, hefur hann ekki fundið nauðsynlegan tón til að setjast yfir þennan miðil um tíma. Nú skal hinsvegar láta á það reyna hvernig til tekst.
Þessi pistlaskrifari er auðvitað ég.

Það eru mál sem tengjast fyrirhuguðum breytingum á lífsháttum, lífsskilyrðum og bara lífinu svona almennt hjá okkur fD, sem hefur átt hug minn allan að undanförnu, en um það hef ég kosið að fjalla ekki á þessum vettvangi, enda vandséð hvernig best væri að taka á þannig málefnum, fyrir utan það, að þar er um að ræða mál sem ekki eiga endilega að rata á vettvang sem þennan.
Ég hyggst hinsvegar gera því öllu skil þegar sá tími kemur.

Heimsóknin til Orbans.

Dagana 5. - 10. þessa mánaðar tók ég þátt í einkar ánægjulegri ferð Skálholtskórsins til Ungverjalands. Það var eiginlega alveg kominn tími á að þessi kór sleppti fram af sér beislinu með þessum hætti, en ég fór í síðustu ferð af þessu tagi haustið 2008, þegar Guð var beðinn að blessa Ísland og allt það var í gangi. Síðan hefur margt gerst í kórþátttökumálum mínum: ég hætti ósáttur í nokkur ár, en svo rann smám saman af mér og ég byrjaði aftur. Svona getur þetta verið.

Jæja, það er þessi ferð til Búdapest í Ungverjalandi.
Ég ætla mér ekki að skrifa sögu hennar hér í neinum smáatriðum en kannski geta nokkurra þátta með aðstoð mynda. Mér myndi hugnast það vel ef aðrir sem þarna voru á ferð myndu nú skrásetja það sem þarna fór fram.
Vinstri neðst: Jón Bjarnason kórstjóri.
Hægri efst Csaba Oppelt, fararstjóri
Það sem mér finnst einna mest til um ferðina, fyrir utan auðvitað félagsskapinn, sönginn og fleira, var fararstjórinn okkar, Csaba Oppelt; Ungverji sem sem talar glimrandi íslensku  og afskaplega vel að sér um ungversk málefni. Þarna var á ferð þægilegur maður, sem hafði alltaf stjórn á hlutunum án þess nokkurntíma að sýna annað en ljúft viðmót. Mér fannst ég einu sinni sjá á honum örlítil streitumerki, en það var þegar við þurftum að ganga talsverðan spotta í myrkri, til að ná í næstu lest sem kæmi eða kæmi kannski ekki, til að flytja okkur frá bænum Vecsés sem er í rúmlega 20 km fjarlægð í suðaustur frá Búdapest. Auðvitað fór það allt vel, enda kórfólk, fylgdarsveinar og meyjar allt hið prúðasta og ábyrgasta fólk.  Csaba stóð sig afar vel, sem sagt.

"Meðan birgðir endast"
Fyrir utan þessa dagsferð til Vecsés lá leið einn daginn norður með Dóná. Sú ferð hafði verið kynnt okkur með þessum hætti:
Ferð í Dónárdalinn, meðal annars farið á flottan veitingastað þar sem boðið er upp á villibráð af ýmsu tagi. Drykkir innifaldir að vild.  Ekki vitað hve langan tíma þessi ferð mun taka en við komumst að því – meðan birgðir endast allavega J 
Mér finnst einhvern veginn að þetta feitletraða hafi einna helst gripið athyglina, en ekki verður því haldið fram að fólk hafi beinlínis oltið inn í rútuna að aflokinni dvöl þarna í Visegrád.

Hetjutorgið í Búdapest
Að öðru leyti dvaldi hópurinn í Búdapest í góðu yfirlæti, bæði með skipulagðri skoðunarferð um merkustu staði borgarinnar og á eigin vegum. Ég tek það auðvitað fram, að við fD fórum EKKI í verslunarmiðstöð þar sem við hefðum vísast getað keypt okkur farsíma á þriðjungi þess verðs sem tíðast á norðuslóðum. Svona staðir höfða bara ekki til mín, hafa ekki gert og munu sennilega aldrei gera. Við erum meira upptekin af því þessa mánuðina að grynnka á dóti fortíðar og höfum uppgötvað við það þann stóra sannleik, að stærstur hluti þess dóts sem maður hefur safnað inn til sín gegnum tíðina, hefur ekkert varðveislugildi, nema síður væri.
Það var hinsvegar ánægjulegt að rölta eftir Váci út (Vaci gata), sem er nokkurskonar Laugavegur þeirra Búdpestunga. Hver smáverslunin á fætur annarri, litlir veitingastaðir, rólegt umhverfi.

Horft af Kastalahæðinni "Citadella"
Það er alveg hægt að lifa á svona ferð lengi, trúi ég. Þakklátur er ég þeim sem tóku að sér umsýslu með þessu og einnig kórstjóranum og Csaba.








Í lest á leið til Vecsés

Í leit að fataverslun á Vaci götu

Að láta tælast af saltsölumanni í Vaci götu

Í Nagy Vásárcsarnok sem er risastór innimarkaður við endann á Vaci götu.

"Hvítárbrú" þeirra Búdpestunga. Þessi ber nafnið Erzsébet híd, eða Elísabetarbrúin.


27 júlí, 2018

Óðurinn til tenórsins 2003


Af Rósahöfn, fleiri stöðum og atburðum merkum í kórferðalagi Skálholtskórsins í ágúst 2003
(birt í Litla Bergþór í desember 2004)

Það er mér þung raun að geta þess, að myndir sem ég tók í þessari ferð virðast hafa glatast að eilífu þegar harður diskur á tölvu minni hrundi, sem varð til þess að ég þrítryggi síðan allar mínar myndir. Eigi einhver myndir frá þessari ferð og sem hann er til í að deila með mér, yrði ég afar þakklátur.
PMS fyrir 15 árum

Myndirnar sem birtast hér eru þær sem fylgdu skrifunum í Litla Berþór og túristamyndir af vefnum.


Allt í henni veröld á sinn tíma eins og alkunna er. Það sama á augljóslega við um þann ritaða texta sem hér birtist. Jarðvegurinn sem hann spratt upp úr er blanda af ýmsu:
• óviðráðanlegri samviskusemi höfundarins, sem lætur hann ekki í friði þegar kórstjórinn beinir þeim eindregnu tilmælum, skýrt og skilmerkilega, til kórfélaga að taka eitthvað það með sér í Slóveníuferð sem gæti orðið til að drepa tímann í löngum rútuferðum, 
• óvenjulega fagmannlegri nálgun höfundarins að hlutverki sínu sem tenór og þess vegna miklu sjálfstrausti fyrir hönd raddarinnar einu, til að fjalla um þau andlegu verðmæti sem verða til við þjálfun hennar og blómgunartíma, 
• takmarkalausri næmni fyrir þeim blæbrigðum sem lita allt líf og starf þeirra sem eru svo heppnir að geta með góðri samvisku kynnt sig fyrir veröldinni sem tenór í kór, í þessu tilviki Skálholtskórnum. - 

Sópraninn var að fjalla sín á milli um hvað tenórinn væri flottur í Íslandsbyggðarkaflanum í „Úr útsæ rísa", bassinn var að taka í nefið, eða ekki með viðeigandi tæki í sambandi og altinn var að ræða um hvernig hann gæti látið í sér heyra með glæsilegu altlínunni í „Sicut" þegar kórstjórinn kom ofangreindum tilmælum sínum á framfæri, skýrt og skilmerkilega. 
Tenórinn var hinsvegar að hlusta á stjórnandann, eins og raddir eiga að gera þegar þær eru í kór. 
Til að gæta allrar sanngirni þá er verið að tala um hinar raddirnar 3 heilt yfir og það kom reyndar í ljós að það eru til tenórískir tendensar í einum og einum einstaklingi í þeim hópi. 
Það varð reyndin, að rútuferðir voru ekki skornar við nögl, og þær út af fyrir sig eru efni í heila bók. Það olli, til dæmis, talsverðum titringi og kvíða meðal saklauss sveitafólks ofan af Íslandi þegar nálgaðist fyrstu landamærin og það lá fyrir skýrt og skilmerkilega hjá einum ferðafélaganum að hann ætlaði sko að tala við landamæraverðina með tveim hrútshornum og segja þeim til syndanna vegna styrjaldarátaka í fyrrum Júgóslavíu fyrir einhverjum árum. Það önduðu hinsvegar margir léttar þegar að landamærunum kom og viðkomandi víkingur hafði gefið sig svefninum á vald, enda eins gott því umræddir landamæraverðir bjuggu yfir alvæpni, gljáfægðum skammbyssum í leðurhulstri. Rútubílasaga þessarar ferðar verður að bíða betri tíma. 
Fyrsti leggur rútuferðanna lá frá flugvellinum skammt fyrir utan München í Þýskalandi, til Rósahafnar (Portoroz) í Slóveníu: 6 klukkutíma akstur, í 39 - 40° hita á Celsíus. Farartækið var tveggja hæða, loftkæld fólksflutningabifreið með ágætum, þýskum bílstjóra, sem stærði sig af því að kunna íslenska frasa, og það finnst okkur Íslendingum svo skemmtilegt. Viðbrögðin við athugasemdum, sem höfundur man ekki lengur, en mátti í öðru samhengi, t.d. ef tenór hefði þá yfir við samlöndu sína, vel túlka sem örgustu kvenfyrirlitningu, voru dillandi hlátur sóprana og alta. „Feita kelling!!" - hí, hí, hí, hí. 
Íslenskir tenórar og aðrir kórfélagar voru vansvefta eftir nálægt sólarhrings vökur, og reyndu með misjöfnum árangri að festa svefn, í ramma sem Alparnir stilltu upp fyrir samhengið. Þá ákvað höfundur, vansvefta eins og aðrir, en verandi tenór, ónæmur fyrir slíku álagi, að láta til skarar skríða og styðja dyggilega við tilraunir félaganna við að festa svefn. Hugmyndin var að flytja þeim í gegnum hátalarakerfið, með róandi, afslappaðri tenórröddinni, fyrirfram skrifaðan texta, sem saminn hafði verið til heiðurs röddinni, sem svo oft hefur kallað fram allt litróf tilfinninga og kennda áheyrenda, ekki síst í þeim kór sem hér um ræðir, og einnig vegna áðurnefndra tilmæla kórstjórans, sem höfðu ofangreind áhrif á höfundinn til að skrá hugrenningar sínar. 
Hér kemur óðurinn til tenórsins, eins og hann var fluttur við ofangreindar aðstæður. Þessi óður átti sinn tíma, en tímalaus fegurð raddarinnar, sem fær næturgalann til að heimsækja háls-, nef- og eyrnalækni, verður ekki með auðveldum hætti færð í letur, en þess var freistað, og hver, nema innvígður tenór gæti mögulega tekið að sér slíkt hlutverk? 

Úr veitingahúsi Avseniks (Arsesniks) sem fjallað er nokkuð um í textanum.


Líf og starf tenórsins 
Fyrri hluti 

Ákvað að skella mér í kórinn aftur eftir nokkurt hlé. Hafði heyrt að til stæði að setja kúrsinn á þriðju Evrópuferðina, ekki að það hefði minnstu áhrif á ákvörðunina. Hitaði upp með því að taka aðventuna og jólin og komst að því að silfurtær tenórröddin hafði í engu misst fegurðina og leist því bara vel á framhaldið. 
Alvaran hófst eftir ármótin og vel leit út með mönnun tenórsins, fimm til að byrja með, stundum fjórir, eða tveir, stundum með lán frá bassanum. Svo hættu tveir og tveir til þrír bættust við og slatti gekk úr skaftinu og slatti bættist við. Sjaldnast nema hluti á æfingu í einu. 
Bragi var næstum alltaf. 
Með komu vorfuglanna fór fegursta röddin loks að taka á sig þá mynd sem hún er nú komin til útlanda í: óaðfinnanleg — takmarkalausir hetjutaktar sem fá altinn meira að segja til að snúa sér við. 

Það gerðist þrátt fyrir þá afburða stöðu sem tenórinn er í nú, að ákveðnar efasemdir gerðu vart við sig; að sjálfstraustið tók eilitla dýfu niður á við. Þó það skipti svo sem engu máli nú, er ekki nema sanngjarnt að geta þessa, þó ekki sé nema til þess að sýna fram á hvernig ástsælir tenórarnir standa af sér hvaða áföll sem upp á kunna að koma. Ætli það hafi ekki haft eitthvað með fyrirbærið raddbeitingu að gera. Fannst í rauninni ekkert að henni fyrr en kannski í raddþjálfun í Brattholti. 
Hvernig getur raddþjálfun átt sér stað í Brattholti? 
Diddú
mynd: Kristinn Ingvarsson
Dívan Diddú — sópran — sýndi tenór og bassa hvernig skyldi beita röddinni. Hljóðið skyldi myndað með ákveðnum hætti á ákveðnum stað — með einhverjum öðrum hætti og á einhverjum öðrum stað en venja hafði skapast um. Áratuga raddbeiting, sem hafði gert sitt gagn svo lengi sem raun bar vitni, var samkvæmt þessu fyrir bí. Þindin skyldi með einhverjum hætti koma til skjalanna. Hún varð grundvallaratriði í beitingu hinnar tæru tenórraddar — átti erfitt með að tengja hana við hljóðmyndun hinna óæðri spendýra — það er engin samsvörun við gelt eða baul. 
Þannig er tenórröddin bara hreint ekki. 
Það kann að gilda annað um bassann. Gerði þó ítrekaðar tilraunir til að virkja þindina, en það er líklegast með hana eins og magavöðvana; við langvarandi notkunarleysi slappast hún — ekki nema von að 15 mínútna raddþjálfun skili ekki því sem af stað er lagt með. Nokkrir mánuðir í World Class gætu kannski lagfært þetta — ekki 15 mínútur með sópran, nema þá tímabundið, ef ekki þarf að hugsa neitt annað á meðan, en svo einfalt er líf tenórsins bara ekki. 
Til að gera íðilfögrum tónum sem tónskáld og útsetjarar veraldarinnar hafa skrifað handa þessari fögru rödd, fullnægjandi skil, þarf alvöru tenór að hugsa um fjölmargt á sama tíma. Hér skal hið helsta nefnt. 
Hugsum okkur eitthvert dæmigert tónverk —já, gerum það. 
Tenórinn þarf að hafa til reiðu nóturnar og textann, hann þarf einnig að vita hvenær hann á að syngja og hvenær ekki, hvort hann á að sleppa úr orði hér eða þar, hvort hann á syngja í A-dúr eða B-moll, sterkt eða veikt, angurvært, ástúðlega eða hetjulega, einn eða með hinum röddunum, sína rödd eða laglínuna. Bara þetta er nægilegt starf, en ofan á þetta bætist að kórstjórinn gerir stöðuga kröfu um að tenórinn fylgist með því hvernig hann hreyfir hendurnar, fingurna, augun, munninn, já, jafnvel hvernig dansspor hann tekur.  
Svo á tenórinn líka að brosa, jafnvel í dramatískustu kirkjukantötum!  
Þá ber þess að geta að tenórinn þarf að forðast af fremsta megni að verða fyrir truflun frá öðrum röddum. Það er sjaldan að bassinn nær að yfirgnæfa neitt, bæði vegna þess að hann er að dóla á tónum sem eru jafnvel fyrir neðan tónsvið sem tenórlegt eyra nær að nema (það þarf þá heyrnartæki bassans til) og einnig vegna þess að hann er ekkert mikið fyrir að trana sér fram — þetta var fremur jákvæð athugasemd um bassann. Það má sama segja um bassann og aðrar raddir, nema sópran (en fjöldinn er slíkur að 4-5 stelpur til eða frá breyta litlu), að fjöldinn hefur verið afar óstöðugur og það hefur meira að segja orðið liðhlaup yfir til tenórsins, sem viðkomandi óhjákvæmilega líta á sem skref upp á við. Hvað bassinn, sem eftir er, hugsar við slíkar aðstæður, er erfitt að segja til um; bassinn er ekki mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar opinskátt; hann ræðir frekar heyskaparhorfur eða huldar vættir; hvorttveggja umræðuefni sem kalla ekki mjög á tilfinningalega tjáningu. 
Og tekur í nefið. 
Altinn er dálítið óreglulegur þegar um er að ræða truflun, sem hann getur valdið tenórnum. Það fer dálítið eftir mætingu og þá er ekki sama hverja eða hverjar vantar. Að öllu jöfnu má segja að altinn sé millistigið milli bassa og sóprans að þessu leyti. Altinn á stöðugt í innri baráttu um hvað hann er, eða stendur fyrir; hluti altsins telur sig vera með stelpunum, skýtur inn orði og orði í fundahöld sópransins og reynir að gera sig gildandi að því er varðar gagnrýni á ýmis mál sem skipta eða skipta ekki máli, hinn hluti altsins dregur frekar dám að tenórnum og freistar þess að ná yfirvegun hans og jafnaðargeði, en skortir að öllu jöfnu til þess þá dýpt sem tenórnum er svo eðlislæg. 
Altinum finnst gaman að syngja röddina sína, þó tenórnum reynist erfitt að átta sig á ástæðum þess. Þetta birtist fyrst og fremst í því að þegar altinn og sópraninn eiga að syngja eitthvert sálmaversið (sem tenórinn og bassinn gera auðvitað einraddað, í þessi fáu skipti sem þeir fá að spreyta sig á slíku, eins og kórstjórinn lagði upp með), þá vill altinn alltaf syngja sína rödd, kannski vegna þess að við þær aðstæður er líklegast að í þeim heyrist. Það skal þó ekki fullyrt hér að svo sé, því altinn getur verið óútreiknanlegur, ekki bara í fjölda heldur einnig í viðhorfum til lífsins og tilverunnar. Það er mikilvægt fyrir framtíð altsins að hann taki þá afdráttarlausu afstöðu til lífsins að hann sé kona, ekki stelpa. 
Mestri truflun getur tenórinn orðið fyrir frá sópraninum. Stelpnafjöldinn er með ólíkindum á stundum, og nægir einn sér til að gera auknar kröfur til einbeitingar. Hann er á stundum slíkur að tenórinn verður að gefa eftir stóran hluta af æfingasvæði sínu. Þetta gerir hann auðvitað af fúsum og frjálsum vilja, svo riddaralegur sem hann nú er. 
Hún er ennfremur eðlileg, ástleitni sópransins þegar tenórinn er annars vegar, og söguleg, en jafnframt truflandi þegar málið snýst um einbeitingu í söng fremur en opinskátt daður. Hæfileikar sópransins liggja á öðrum sviðum en annarra radda. Hann getur einbeitt sér að flóknum tónverkum á sama tíma og hann ræðir sín á milli um síðustu óléttuna eða framhjáhaldið, eða skoðar nýjustu myndir frá fyrirheitna landinu. 
Vissulega veldur þetta kórstjóranum umtalsverðu hugarangri á stundum, en honum er á vissan hátt vorkunn, verandi beintengdur inn í þessa hástemmdu rödd og getandi þar af leiðandi ekki beitt sér sem skyldi í málinu nema eiga á hættu tiltal síðar. 
Þess má ennfremur geta í framhjáhlaupi, að það er einmitt hinn mikli fjöldi sóprana sem hefur átt þátt í að efla með tenórnum hið mikla sjálfstraust, sem er honum svo nauðsynlegt. Þetta gerist í þau skipti sem kórstjórinn sér ástæðu til að fara þess á leit við 4 manna tenórinn að hann dragi úr raddstyrk til að yfirgnæfa ekki 20 stelpna sópraninn. Þetta segir tenórnum margt, og yljar honum um hjartarætur. 

Hér hefur verið gerð nokkur grein fyrir því hverjar aðstæður tenórsins eru og þá um leið skýrt með afgerandi hætti hversvegna þindarnotkun, sem viðbótar álag í vinnu hans, hefur ef til vill ekki komið jafn sterkt inn og þörf hefði verið á. 

Síðari hluti 
Þegar setið er í langferðabíl einhversstaðar í Suður Evrópu er einhvern veginn erfitt að stilla sig inn á atvik, hugsanir og tilfmningar með uppruna norðarlega í Atlantshafinu. Þetta getur tenórinn þó gert og fer létt með það, í það minnsta að því er varðar innri málefni hinnar ægifögru raddar. 

Bragi Þorsteinsson
Vatnsleysubóndinn, Bragi (Bragi Þorsteinsson), hefur, að því er sagt hefur verið, sungið tregafullan, barmafullan og seiðandi tenórinn í 40 ár samfleytt, og þá alltaf fyrst og fremst til að halda sér við fyrir réttasöng í september ár hvert. Hann ber öll merki hins þrautþjálfaða tenórs og hefur því ekkert þurft að hugsa um það sem flestir þurfa að sinna í tengslum við æfingar: raða nótum, læra texta, horfa á stjórnanda og því um líkt. Hann reyndar minnist þess á stundum þegar hann sat einn með sjálfum sér og velti því fyrir sér hvenær hann ætti að drífa sig í að raða nótunum sínum. Hann reyndar gerði það aldrei, en það var ekki vegna þess að hann gæti það ekki, ó nei. Honum hefur bara alltaf fundist að það væri svo vel æft og rækilega að hann þyrfti ekki á röðuðum nótum að halda. 
Það mun svo hafa verið einhver tenóraðdáandi, sem hlýtur að hafa haft einhverjar efasemdir um að hið sjálfsörugga yfirbragð Braga væri raunverulegt, sem tók sig til gerði þetta allt fyrir hann í lokin. Greina mátti ákveðinn létti í framgöngu Braga þegar hann fann nótnapakkann, en aldrei hefur hann fengist til að viðurkenna að hann hafi raunverulega þurft á þessu að halda. 

Þorleifur Sívertsen
Tolli (Þorleifur Sívertsen) átti lengi vel í braski með vaktirnar, og mætti því stopult á köflum, en æfði bara því betur heima. Það er nú svo að tenórinn verður að vinna með æfingunum. Þá kom pípan að góðum notum. Það er einnig alkunna að tenórröddin nýtur sín best í fremur þunnu lofti og því allar æfingar auðveldari — færri þættir sem þarf að taka með í reikninginn til að ná hinum eina sanna tón. Því skellti Tolli sér til fjalla nú undir lok æfingatímabilsins til að hnýta endahnútinn á þrotlausar æfingar undanfarinna mánaða. Tenórinn væntir mikils af framgöngu hans á næstu dögum. 

Jóhann I Stefánsson
Jói Mikki (Jóhann I. Stefánsson), annar vorfuglanna, var ekki fyrr kominn yfir frá bassanum en hann varð fárveikur í fjallgöngu á Borgarfirði eystra (svona var einhver útgáfa sögunnar). Það má velta því fyrir sér hvort umskiptin hafi átt einhvern þátt í veikindunum og þá vegna þess að honum hafi orðið um og ó að takast á við svo átakamikið verkefni sem tenórinn er. 
Það varð fljótlega ljóst, að Jói Mikki á líka að spila á trompet. Hann söng og spilaði á afmælistónleikum og Skálholtshátíð og notaði þar útfrymi úr sjálfum sér til að leysa verkið af hendi. Skemmst er frá því að segja að hann glansaði í gegnum tónleikana, enda eindreginn tenór að upplagi; hefur helst kvartað yfir að hæstu tónarnir væru óþarflega fáir í þeim verkum sem tenórinn þarf að takast á við. Fyrrgreint útfrymi verður ekki til staðar í Slóveníu, eftir því sem tenórinn gerir ráð fyrir. Eðalröddin er öllum venjulegum manninum nægilegt verkefni, en að syngja tenórinn í Hallelujah kórnum og spila á trompet um leið hlýtur að teljast ofurmannlegt og bíða tenórarnir spenntir eftir því að sjá Jóa Mikka leysa það verkefni. Tútútu Hallelúja — það fer í sögubækur tenórradda veraldar takist honum ætlunarverkið. 

Hermann G Jónsson
Hinn vorfuglinn (Hermann G. Jónsson) mun eiga uppruna á sviði dægurtónlistar, sem er þekkt af því, einmitt, að skemma hin viðkvæmari blæbrigði sem einkenna tenórinn svo mjög. Það var því með ákveðnum fyrirvara sem tenórinn tók við þessum nýja liðsmanni af gróðursnauðri suðurströndinni (sannarlega ekki von til að þar færi hinn sanni fjallatenór — eins og sá sem gjarna má heyra í réttum). Fyrsta aðkoma hins nýja tenórs að verkefninu einkenndist af ákveðinni varfærni, sem verður að skrifa á hið eðlislæga lítillæti hins sanna tenórs. Eftir nokkrar súkkulaðirúsínur altsins og rjómakökur sópransins fann hann þó fljótlega að hann var á réttum stað og eftir það urðu eftirtektarverð umskipti á strandarpiltinum. Það þarf ekki að orðlengja það að Hemmi reyndist ekki hafa verið söngvari dægurhljómsveitar á yngri árum, í það minnsta ekki þannig að skaðleg áhrif hafí haft á kliðmjúka, og klingjandi tenórröddina. Hann er með stóra svarta möppu í þessari ferð og ætlar sér stóra hluti. 

Sveinn Svavarsson
Sveinn Össur er beggja blands. Hann hóf aðkomu sína á bassneskum tónum, en hann hlýtur að hafa átt erfitt með að finna sig þar, því áður en við var litið hafði hann gengið til liðs við röddina einu, sönnu. Ekki hafa komið fram með afgerandi hætti ástæður þessara umskipta hjá drengnum, en tenórinn er, að vanda, ekki í vandræðum með að skýra þær fremur en annað í þessari veröld. Flauelsmjúkur dans tenórsins upp og niður fram og aftur til hliðar og til baka á tónstiganum, er hverjum þeim sem á annað borð hefur genetíska tenóríska tendensa í sér, fullnægjandi skýring í sjálfu sér. 
Sveinn Össur (Sveinn Svavarsson) er þó með einhverjum óskýranlegum hætti tregafullur í aðkomu sinn að tenórnum. Hann hefur heyrst taka undir með bassanum í hléum tenórsins, eins og til að halda sér við fyrir endurkomu þangað síðar meir, sem verður að skýrast með einhverri undarlegri þrá eftir vindi. Það verður þó ekki af Sveini Össuri tekið að hann er óðum að samsama sig sönnum tenórsanda og hefur meira að segja smám saman verið að nálgast, ekki bara hina sönnu tenórísku framgöngu heldur einnig fysíska útgeislun og útlit hinna sönnu tenóra, félaga hans. 

Kjartan Jóhannsson
Huldumaðurinn,- sjá „þeim var ég verst er ég unni mest" - (Kjartan Jóhannsson) sem hefur það eftirsóknarverða hlutverk að skreyta hina blæbrigðaríku unaðsrödd, að svo miklu leyti sem slíkt er hægt, sækir kraft sinn til sjávarguðsins sjálfs. Það reyndi vissulega nokkuð á þolrif eðaltenóranna hversu mjög hann sótti kraft sinn í faðm Ægis, en þeir efast í engu um það að sjávarilmurinn og seiðandi dans dætra sjávarguðsins muni skila sér með eftirminnilegum hætti í tónverkum eins og „Úr útsæ rísa Íslandsfjöll" eða „fráhneppt að ofan". 

Þá er aðeins einn ofurmennanna ótalinn og verður ótalinn áfram, enda óþarfi að fjölyrða um fádæma afgerandi, eðlislæga nálgun hans að hlutverki sínu. Nú ætti öllum þeim, sem nú sitja hér orðlausir af aðdáun á röddinni einu sönnu, að vera ljóst að ekkert, ekkert kemst í hálfkvisti þau forréttindi sem þátttaka í þessari unaðsrödd er. Það er fáum lagið að vera liðtækir innan vébanda hennar, og þáttur hennar í flutningi úr tónbókmenntum heimsins verður aldrei ofmetinn. 

Uppgjör — viðbætir 
Það sem hér fylgir má líta á sem nokkurs konar uppgjör tenórsins, eða allavega hluta hans, við þá ferð Skálholtskórsins, sem farin var suður til Adríahafsins í upphafi ágústmánaðar árið 2003, og sem var að hefjast þegar frásögnin sem hér hefur farið á undan, var flutt í loftkældri fólksflutningabifreið á tveim hæðum, í faðmi Alpanna. Hér er engan veginn um að ræða neina ferðasögu heldur bara einhverskonar myndbrot, sem leiftra fyrir hugskotssjónum höfundar jafnóðum og hann lemur á lyklaborðið. 

Pling — áningarstaður í einhverju landi á milli Þýskalands og Slóveníu — líklegast bara í Þýskalandi, því þetta var fyrsti áningarstaðurinn. Morgunverðarhádegisverður með geitungaívafi við hraðbraut. 
Óendanlega vel til fundið hjá forsvarsmönnum kórsins og þegið með þökkum. Brennandi sólin ekki komin í hádegisstað, en hitinn þó slíkur að eldsúrar gúrkur og geitungar náðu ekki að dreifa huganum frá steikjandi hitamollunni. 

Pling — annar áningarstaður í öðru landi nokkru síðar. Sögusagnir um að hitinn væri orðinn 40°C. Sannfærður um að ef tenór hefði reynt að pissa hefði vökvinn gufað upp áður en hann næði jörð, samanber þetta með að pissa í 40° gaddi og klakasúla á að myndast allt frá...... jæja förum ekki nánar út í það mál. Ekki svo að menn þyrftu mikið að losa sig við úrgangsefni eftir hefðbundnum leiðum í þessari ferð, nema helst í kvöldsiglingum og næturævintýrum.
Hvort um slíkt var að ræða í hótellyftunni, sem gafst upp um miðja nótt vegna þess að kílóatalningin (600 kg hámark) klikkaði eitthvað, eða þá lyftugestir voru að hugsa um eitthvað annað en telja, t.d. að flýta sér upp á herbergi til að sinna því kalli náttúrunnar, sem að ofan greinir, veit höfundur ekki. Hann telur þó líldegt að svo hafi getað verið, en jafnframt, að ef svo hefur verið, þá hafi heilastöðvar viðkomandi verið meira uppteknar af möguleikum á björgun úr lífsháska, en frumstæðum þörfum af þessu tagi. 

Hreyfingar voru strax orðnar hægar í hitasvækjunni og reyndist svo verða alla ferðina, sem birtist ekki síst í því, að áætlanir um brottför stóðust aldrei af þessum sökum, ekki heldur eftir þá áningu sem hér um ræðir. Það verður þó að geta þess, enda mikilvægt að halda því til haga sem er í lagi, að stór hluti tenórsins stóð sig óaðfinnanlega þegar kom að öllu því sem að stundvísi lýtur. 

Pling — tónleikar hjá Ausenik, Avsenik eða bara Arsenik, sem einstaka illa þenkjandi kórfélagar nefndu svo í hálfkæringi. 
Tenórinn á afar erfitt með að líta á sig sem aukanúmer, eins og öllum ætti að vera ljóst sem hafa kynnt sér það sem hér hefur verið skráð. Þó aðrar raddir hafi eflaust, í misskildu lítillæti sínu, álitið það heiður að fá að syngja í pásu hjá hljómsveit sem spilaði „Hvíta máva" allt kvöldið, þá var tenórinn misjafnlega ánægður með það. Kór með sjálfsvirðingu lætur ekki bjóða sér það að ferðast í 4 klukkutíma í þröngri flugvél, 6 klukkutíma í tveggja hæða rútu og síðan aftur þrjá tíma í tveggja hæða rútu til að syngja í 10 mínútur í þrumum og eldingum, í pásu hjá hljómsveit sem spilar bara „Hvíta máva" fyrir austurríska pílagríma, gleypandi í sig snitzel með frönskum og haldandi ekki vatni yfir, og getandi ekki hætt að tala um það, hvað Arsenik sé frábær. 
Höfundur óskar að geta þess, að það sem sagt var hér að ofan endurspeglar ekki endilega skoðanir hans á ofangreindum tónleikum. Hann er einungis að draga saman á einn stað, orð sem féllu í ýmsu samhengi þegar kórfélagar voru að gera upp upplifun sína eftir tónleikana. 
Það er hinsvegar skoðun höfundar, að það sem skapar hughrif sem gleymast ekki og hægt er að rifja upp árum saman og hafa gaman af aftur og aftur, er þess virði að upplifa það. 
Tenórinn er það víðsýnn að hann áttar sig á því að það er ómetanleg reynsla, ekki aðeins að fá tækifæri til að flytja nokkrar perlur íslenskra tónbókmennta fyrir hóp fólks, sem brosir smástund í kampinn þegar tilkynnt er að nú muni íslenskur kirkjukór flytja nokkur lög, og heldur síðan áfram að borða snitzelið sitt og tala saman, heldur ekki síður að fá tækifæri til að syngja „Hvíta máva" aftur og aftur við undirleik hljómsveitar, sem vissi alveg hvað hún var að gera - ekki síst ef nóg var af „schnapps", sem borðfélögunum þótti ekkert góður. 
Í þessu sambandi er rétt að gera sér í hugarlund viðbrögð okkar við svipaðar aðstæður. Við, í pílagrímsferð, sem við vorum búin að safna fyrir mánuðum saman, til að eyða einu kvöldi með Hljómsveit Bjarna frá Geysi og njóta góðs af sviðum og súrsuðum hrútspungum, þegar tilkynnt er að nú muni kirkjukór frá Azóreyjum flytja nokkur lög. Myndum við ekki glotta út í annað? 

-Myndi sópraninn ekki halda áfram að ræða sjálfsstjórnarnámskeiðið, sem kvenfélagið er að fara að bjóða upp á, um leið og hann renndi einu auga úr sviðahausnum með sjálfskeiðungnum sínum? 

-Myndi bassinn ekki halda áfram að ræða fyrningar á heyi, slökkva á heyrnartækinu og taka í nefið, eftir að hafa, án þess að blikna, sporðrennt 2 sneiðum af súrsuðum hrútspungum? 

-Myndi altinn ekki, í ljósi nýfenginnar reynslu, halda áfram að fjalla um helstu aðferðir við framreiðslu á íslenskum sérréttum um leið og hann rifi í sig, súrsaða magála eða lundabagga? 

-Myndi tenórinn ekki átta sig strax á mikilvægi alþjóðlegra strauma menningar og lista og hlusta af athygli, eftir að hafa lagt snyrtilega frá sér hnífapörin, sem hann var að borða flatkökurnar með hangikjötinu og rófustöppunni með? 

Hætt er nú við. 
Þótt einhverjir kórfélagar hafi ekki alveg kunnað að höndla reynsluna hjá Ausenik af mikilli karlmennsku, þá verður það sama ekki sagt um dívuna Diddú. Hún flutti söngdagskrá sem samanstóð af helstu perlum söngbókmenntanna og virtist í byrjum ekki ná fullkomlega sambandi við snitzel-snæðandi, Ausenik-umræðandi salinn. 
Hún var nú ekki að láta það á sig fá. 
Sveiflaði sér í síðkjólnum niður af meters háu sviðinu í miðri aríu og dillaði sér milli borða, horfandi girndaraugum á snitzelið, náandi augnsambandi við áköfustu Ausenik aðdáendurna og hafandi fullkominn sigur á umhverfi sínu. Dúndur frammistaða, sem jafnvel tenórinn hefði verið fullsæmdur af. 
Það er þá kannski eitthvað til í þessu með þindina þegar allt kemur til alls. 
Það var líka þarna sem firna öflugur undirleikari og óskeikull fararstjóri á heimleiðinni, hann Kári (Kári Þormar), var talinn hafa farið langt fram úr fyrri afrekum sínum á tónlistarsviðinu. 

Hver var svo að tala um að það hafi ekki verið gaman hjá Arsenik? 

Pling — Áning eftir Ausenik — næturlíf — almenningssalerni við hraðbrautina — þrumur og eldingar -kór sem ekki hafði fengið að syngja út, og þurfti að létta á sér. 
Þar sem höfundur er ábyrgur tenór sinnti hann því nauðsynlegasta og hvarf því næst til sætis síns. Slíkt framferði reyndist ekki „IN" við þessar aðstæður, því þarna voru flutt öll lögin sem ekki komust að hjá Arsenik. Náttúruöflin sáu um fagnaðarlætin. Ábyrgðarfullur tenórinn, maður á miðjum aldri, og vandur að virðingu sinni, ákvað, þegar honum fannst nógu langt gengið í söngnum, að leggja sitt af mörkum til að leiða kórfólk til sætis í tveggja hæða farkostinum. 
Það næsta sem gerðist var það, að farartækið ók úr hlaði, tenórlaust. 
Sú mynd, sem við tók var ekki fögur eða til eftirbreytni. Sárasaklaus tenórinn, á miðjum aldri og vandur að virðingu sinni, hlaupandi frá almenningssalerni í myrkri Slóveníu, fyrir utan að það voru eldingaleiftur á himni, á eftir tveggja hæða rútu út í nóttina. 
Aðrir, sekir, urðu að vísu að gera þetta líka, en ekki hugsaði tenórinn hlýtt til þýska bílstjórans sem kunni að segja „FEITA KELLING".

Pling — Brúará í kringum verslunarmannahelgi. Fimm ára mannskæðri styrjöld er lokið með skiptingu landa. Fólksflutningabifreið með kirkjukór frá Azóreyjum á leiðinni að skoða náttúruperlur Biskupstungna, kemur að brúnni. Grímsnesmegin kemur grímsneskur landamæravörður með alvæpni um borð og gaumgæfir vegabréf kórfélaga. Við hinn enda brúarinnar bíður biskupstungskur landamæravörður með alvæpni, tilbúinn í hvað sem er. 
Þetta leiftraði um hugann þegar kom að landamærastöð milli Slóveníu og Króatíu. Þarna var ekki einu sinni brú, bara svona venjulegur vegur yfir tún. Línan hafði verið dregin og vopnuðum vörðum komið fyrir. Ekki meira um það. 

Pling — Asnaskapur í Króatíu eftir siglingu meðfram nektarnýlendu Króata. 
Það getur verið að altinn og sópraninn hafi vitað af þessari nektarnýlendu þarna, en tenórinn hafði ekki hugmynd um hana og gat því ekki undirbúið sig með fullnægjandi hætti. 
Frá búgarðinum 2018 (mynd tekin ófrjálsri hendi
af síðu Sigrúnar frá Engi)
Í 500 metra fjarlægð frá ströndinni þarf hjálpartæki til að njóta náttúrufegurðarinnar til fullnustu. Það gekk því miður ekki upp og því var það, að kórfélagar einbeittu sér að annarri afþreyingu við undirleik einhvers, sem í upphafi ferðar var talinn vera óbreyttur harmónikkuleikari á lélegum launum, en reyndist síðar vera rikur óðalseigandi í botnlausri ferðamannaútgerð. 
Hann tók miklu ástfóstri við það sem íslenskt var og stefndi lengi dags í að brot af landinu bláa yrði þarna eftir, sem annar tveggja eigenda óðalsins. Hvort þetta brot hefði tekið að sér harmonikkuleikinn, vínræktina eða matargerðina, mun enginn nokkurn tíma fá að vita, nema þá að eitthvað hafi gerst fleira sem tenórarnir fengu ekki að vita af. Það hefur nú svosem gerst fyrr að þeim sé haldið frá upplýsingum eða upplýsingum frá þeim, algerlega óverðskuldað. 

Pling — spegilslétt Adríahafið, sigling í sjóræningjaskipi í ljósaskiptunum. Tenórar eru nú að öllu jöfnu ekki mikið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg. Það rekur ekki oft á fjörur þær aðstæður sem kalla fram í þeim rómatískan streng. Þessi strengur er þarna, og þegar vélargnýrinn loksins þagnar, við þær aðstæður sem að ofan er lýst, verður ekki við neitt ráðið. 
Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu hér og nú að orðaforði hans nái ekki að lýsa því sem þarna átti sér stað, meira að segja þótt hann sé af röddinni ljúfu, blíðu. 
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að endurvekja þessa upplifun síðar í ferðinni, náðist hún ekki og verður örugglega bið á að hún skjóti upp kollinum aftur. Það er kannski eins með hana og hinn ógleymanlega og seiðmagnaða flutning á Lífi og starfi tenórs hér fyrir ofan. 
Töfraleiftur lýsa stundum upp dauflegt hugskot mannskepnunnar, svona rétt eins og eldingaleiftrin hjá Arsenik. 
Svo er það búið og verður ekki endurtekið. Það kemur aftur seinna af sjálfu sér. Punktur. 

Pling — Fjárrekstur í neðanjarðarhelli í skítakulda. 
Tenórar eru nú ekki mikið fyrir að barma sér, en eftir langa og ítarlega umhugsun ætlar þessi að gera það nú og vonar bara að það skaði ekki orðspor raddarinnar helgu til frambúðar. 
Það er auðvitað skiljanlegt, að slík karlmenni sem tenórar eru, ákveði að láta lönd og leið ráðleggingar um að hylja sólsteiktan líkamann þegar halda skal í iður jarðar í brunandi lest, ekki síst ef sá klæðnaður sem í boði var, varð að teljast fremur ókarlmannlegur nema fyrir munka. 
Þessi tenór er ekki munkur og hélt nú að létt verk yrði það og löðurmannlegt að skjótast niður í helli og upp aftur á svitastorknum stuttermabol í stuttbuxum einum fata. Hann var svo sem spurður að því ítrekað á leiðinni um þennan töfraheim náttúrannar hvort honum væri ekki kalt, en þverneitaði auðvitað jafnharðan, þó svo hann einbeitti sér svo að því að koma í veg fyrir tannaglamur, sem einhver gæti heyrt, að hann var næstum búinn að villast inn í tælenska hópinn, eða ítalska hópinn, eða brasilíska hópinn. 
Litadýrðin og ótrúlegur fjölbreytileikinn í þessari ólýsanlegu neðanjarðaveröld fór næstum því fyrir ofan garð og neðan, og ekki er ólíklegt að þessi tenór hefði orðið til þarna niðri, ef hann hefði bara getað numið staðar einhvers staðar á leiðinni. Það lá við að hann öfundaði eðlukvikindið sem lifði ljóslaust og matarlaust í þessu hellaumhverfi og hafði það bara gott. 

--------------------

Til að forðast hugsanlegar ásakanir um léttúð og ábyrgðarleysi í efni því sem hér hefur verið borið fram vill höfundur segja þetta: 

Það er hægt að klæða hvað sem er í hvaða búning sem er. Ef allt gengur vel að öllum líður vel þá skapast tækifæri til að færa atburði og umhverfi lítið eitt í stílinn, jafnvel svo að það verði óþekkjanlegt, og það er bara allt í lagi. 
Ferð þessi öll, fyrir utan náttúrulega ýmislegt sem var að, og hægt væri að tíunda fjálglega, var einstaklega vel heppnuð og skipuleggjendum, fararstjóra, kórstjóra, einsöngvara og undirleikurum til hins mesta sóma. 
Tenórar ferðarinnar fóru langt fram úr væntingum, sem þó voru feikilegar fyrir, en það sem kom hvað mest á óvart var, hvað margir eru í rauninni tenórar inni við beinið. 

16 janúar, 2017

Masterclassmaðurinn, ég.

Ég var nú ekki búinn að vera lengi í kór þegar kórstjórinn (ætli það hafi ekki bara verið Glúmur Gylfason) lagði á það áherslu og söngfólkið syngi með opnn munninn. Þetta tileinkaði ég mér strax, en komst auðvitað fljótlega að því, að það er hreint ekki viðtekin venja að opna með þessum hætti fyrr það undrahljóðfæri sem mannskepnan býr yfir. Þetta uppgötvaði ég eiginlega fyrsta sinni þegar ég sá mynd af kórnum sem ég syng í, fyrir allmörgum árum. Þar var greinilega verið að syngja einhvern opinn sérhljóða, t.d. A,  Á þessari mynd var ég sá eini sem opnaði aldeilis upp á gátt og hleypti (væntanlega undrafagurri) tenórröddinni út til áheyrenda. Þar sem ég hef engan sérstakan áhuga á að standa  allt of mikið út úr, hef ég lengi stefnt að því að freista þess að aðlaga opnun míns munns öðrum munnum, en það bara hreinlega gleymist yfirleitt í hita leiksins. Þetta er svona eins og með að læra að hjóla, þú getur eiginlega ekki aflært það.
Ég reyni auðvitað að halda í réttlætinguna fyrir nálgun minni með því að bera saman hljómgæðin sem koma annarsvegar úr mínum munni og hinsvegar úr munni annarra kórfélaga. Þennan samanburð má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Það þarf ekki lengi að velta því fyrir sér þeim óhemju mun sem er á hátalara í farsíma og alvöru græju, sem getur "blastað" silfurtærum tóni í hvaða styrkleika sem er.

Ég læt frekari greiningu á þessu eiga sig, en hún er til komin vegna þess að á samfélagsmiðlum hafa verið að birtast myndir þar sem ég læta vaða við hliðina á heimsfrægum söngvara, honum Paul Phoenix (frb. /fíniks/), sem gerði garðinn frægan með  "The King's Singers", söng í þeim hópi í ein 17 ár, allt til 2014. Hann rekur nú eigið fyrirtæki þar sem hann ferðast um heiminn og heldur námskeið, svokallað "Masterclass" með sönghópum af ýmsu tagi.

Um helgina sem nú er nýliðin var ég,sem sagt á Masterclass námskeiði hjá þessum fræga manni, ásamt mínum kór og þrem öðrum sönghópum. Þarna bættist í reynslubankann, en það sem einkenndi mjög nálgun nafna að verkefninu var, að hann hrósaði heil ósköp, en laumaði síðan með athugasemdum um það sem betur mætti fara. Það er manninum eðlislægt að taka til sín fremur hinar neikvæðu athugasemdir en þær jákvæðu. Ég hef ákveðið, eftir þessa helgi, að hlusta bara á þær jákvæðu, enda tel ég að þær séu að mestu tilkomnar vegna framgöngu minnar.  Ég þykist vita að þessi niðurstaða mín muni ekki falla í frjóan jarðveg hjá öðrum kórfélögum, svo ég dreg hana umsvifalaust til baka.  Kórinn hlýtur allur að taka til sín það jákvæða sem nafni sagði, en einnig ábendingarnar um það sem betur má fara. Þó nú væri!

Nú er bara framundan að vinna úr reynslunni og heita því að gera enn betur. Í mínum huga er það mikilvægasta sem vinna þarf í tvennt: meiri agi og meiri metnaður. Maður á aldrei að sætta sig við að vera kominn á einhvern stað og vera síðan bara ánægður með að vera þar. Það er alltaf pláss fyrir meira og hærra.

Þessi helgi var ánægjuleg og mér fannst gott að fá svona utanaðkomandi aðila til að segja okkur hvað væri gott og hvað megi bæta.

Hér fyrir neðan er tvær þeirra mynda ég nefndi hér efst. Þarna syng ég með "King's Singers" manninum. Augsýnilega afar einbeittur og geri umtalsvert meira úr sérhljóðanum sem sunginn er, en meira að segja hann. Kannski er rétt að loka munninum áður en það er um seinan.
Deiling: Pálína Vagnsdóttir, Veirunum

Deiling: Sigrún Elfa Reynisdóttir, Skálholtskórnum

Masterclass með Paul Phoenix í Seltjarnarneskirkju, 
13.-15. janúar, 2017
Skálholtskórinn
Veirurnar
Góðir grannar
Kvartettinn Barbari

Nokkrar myndir:







Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...