Ég reyni auðvitað að halda í réttlætinguna fyrir nálgun minni með því að bera saman hljómgæðin sem koma annarsvegar úr mínum munni og hinsvegar úr munni annarra kórfélaga. Þennan samanburð má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Það þarf ekki lengi að velta því fyrir sér þeim óhemju mun sem er á hátalara í farsíma og alvöru græju, sem getur "blastað" silfurtærum tóni í hvaða styrkleika sem er.
Ég læt frekari greiningu á þessu eiga sig, en hún er til komin vegna þess að á samfélagsmiðlum hafa verið að birtast myndir þar sem ég læta vaða við hliðina á heimsfrægum söngvara, honum Paul Phoenix (frb. /fíniks/), sem gerði garðinn frægan með "The King's Singers", söng í þeim hópi í ein 17 ár, allt til 2014. Hann rekur nú eigið fyrirtæki þar sem hann ferðast um heiminn og heldur námskeið, svokallað "Masterclass" með sönghópum af ýmsu tagi.
Um helgina sem nú er nýliðin var ég,sem sagt á Masterclass námskeiði hjá þessum fræga manni, ásamt mínum kór og þrem öðrum sönghópum. Þarna bættist í reynslubankann, en það sem einkenndi mjög nálgun nafna að verkefninu var, að hann hrósaði heil ósköp, en laumaði síðan með athugasemdum um það sem betur mætti fara. Það er manninum eðlislægt að taka til sín fremur hinar neikvæðu athugasemdir en þær jákvæðu. Ég hef ákveðið, eftir þessa helgi, að hlusta bara á þær jákvæðu, enda tel ég að þær séu að mestu tilkomnar vegna framgöngu minnar. Ég þykist vita að þessi niðurstaða mín muni ekki falla í frjóan jarðveg hjá öðrum kórfélögum, svo ég dreg hana umsvifalaust til baka. Kórinn hlýtur allur að taka til sín það jákvæða sem nafni sagði, en einnig ábendingarnar um það sem betur má fara. Þó nú væri!
Nú er bara framundan að vinna úr reynslunni og heita því að gera enn betur. Í mínum huga er það mikilvægasta sem vinna þarf í tvennt: meiri agi og meiri metnaður. Maður á aldrei að sætta sig við að vera kominn á einhvern stað og vera síðan bara ánægður með að vera þar. Það er alltaf pláss fyrir meira og hærra.
Þessi helgi var ánægjuleg og mér fannst gott að fá svona utanaðkomandi aðila til að segja okkur hvað væri gott og hvað megi bæta.
Hér fyrir neðan er tvær þeirra mynda ég nefndi hér efst. Þarna syng ég með "King's Singers" manninum. Augsýnilega afar einbeittur og geri umtalsvert meira úr sérhljóðanum sem sunginn er, en meira að segja hann. Kannski er rétt að loka munninum áður en það er um seinan.
Deiling: Pálína Vagnsdóttir, Veirunum |
Deiling: Sigrún Elfa Reynisdóttir, Skálholtskórnum |
Masterclass með Paul Phoenix í Seltjarnarneskirkju,
13.-15. janúar, 2017
Skálholtskórinn
Veirurnar
Góðir grannar
Kvartettinn Barbari
Nokkrar myndir:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli