Sýnir færslur með efnisorðinu hálendisþjóðgarður. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hálendisþjóðgarður. Sýna allar færslur

12 desember, 2020

Að skellihlæja eða hágrenja


Ég hef aldrei verið mikið fyrir upphrópanir eða hástemmd slagorð. Upphrópanir, vegna þess að þær skortir íhugun og yfirvegun, Slagorð vegna þess að þau finnst mér vera innantóm. Ég er ekki tilbúinn að hrópa á torgum, eða drepa fyrir málstað.
Ég er hinsvegar tilbúinn að hlusta, stundum og jafnvel ljá málstað lið, ef hann fellur að lífsskoðunum mínum.
Það hefur einusinni eða tvisvar gerst, að ég hef sett einhvern hring með slagorði í kringum höfuðið á mér á facebook. Það var vegna þess að um var að ræða hvatningu til dáða eða skilning á málstað.

Þessa dagana keppist fólk við að setja hring um höfuð sín á facbook, þar sem það lýsir sér sem "örlitlum grenjandi minnihluta". Allt í lagi með það svo sem. Öll vitum við að þetta er tilkomið vegna ræðu á Alþingi og vegna frumvarps um þjóðgarð á hálendi Íslands. Sannarlega er hér stórt mál á ferðinni og eðlilegt að vandað sé til verka. Það verður hinsvegar ekki gert með upphrópunum og slagorðum. Það kemur fjölmargt til skoðunar og ýmsir hagsmunir líta dagsins ljós. 

Þó svo ég setji þetta hér inn, í kjölfar þess að fjöldi fólks lýsir sig grenjuskjóður þessa dagana, ætla ég mér ekki að fara að eyða tíma mínum frekar í karp um þetta. Karp, segi ég, vegna þess að málefnaleg umræða á erfitt uppdráttar í svo tilfinningahlöðnu máli. Verst finnst mér vera, þegar fólk setur á sig grenjugrímuna án þess að vera búið að renna yfir þetta frumvarp. Ég skil betur þá sem eru búnir að kynna sér málið ofan í kjölinn og eru samt ekki sáttir.

Jú, ég er búinn að renna yfir frumvarpið og líklega vegna þess að ég á engra beinna hagsmuna að gæta, utan þess að vera íbúi í þessu landi, tilheyra þessari þjóð, þá varð ekkert það á vegi mínum sem ég þurfti að staldra sérstaklega við.  Þá er spurningin: Tilheyri ég þá "risastóra skellihlæjandi meirihlutanum"? Ég reikna með að margir muni líta svo á. Það væri þá um að ræða harla svart/hvíta hugsun, en hún á heldur betur upp á pallborðið þessi árin og þar hefur fólk verið duglegt að læra að forsetanefnunni vestanhafs.


Ég tilheyri sjaldan meirihlutum í þessu samfélagi. Hef oftast tilheyrt minnihlutum og lært að sætta mig við það, þó mér finnist hábölvað oft á tíðum og upplifa grátlega heimsku samferðamannanna. Varla er ég sá heimski og allir hinir spekingar. Því trúi ég nú ekki. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að grenja vegna þessa, hvað þá hágrenja. 

Það er hægt að fella tár af ýmsu tilefni. Það eru sorgartár, gleðitár, reiðitár og frekjutár, svo einhverjar tegundir tára séu nefndar.  Algengasta merkingin sem ég legg í orðið "grenja" er, að fella tár vegna frekju. Ekki veit ég hvort Steingrímur beitti þessu afdrifaríka orðavali í þeirri merkingu og læt það liggja því milli hluta.



01 febrúar, 2020

Þorpið í þjóðgarðinum

Framundan munu vera ýmsar breytingar í Bláskógabyggð. Það væri of langt mál að fara út í að tína þær allar saman og því mun ég aðeins fjalla um eina, nokkuð mikla grundvallarbreytingu, sem nú mun vera í vinnslu innan sveitarstjórnar.

Eins og flestum mun kunnugt, verður árið 2020 nýtt til þess að leggja ljósleiðara um sveitarfélagið. Þessi lagnig mun þegar vera hafin, þótt hljótt fari, en í fyrsta áfanga er lögð áhersla á að leggja ljósleiðarann upp á hálendið. Eins og okkur mun öllum vera orðið ljóst, þá er hálendið eitt mikilvægasta umfjöllunarefni sveitarstjórnarinnar þar sem það er grunnurinn að byggð í Bláskógabyggð og talið munu verða flaggskip svæðisins til framtíðar.
Í tengslum við þetta verkefni eru fleiri hugmyndir í vinnslu, sem ætlað er að leysa ýmsan vanda sem steðjað hefur að sveitarfélaginu. Þar stendur ein hugmynd upp úr og hún hefur fallið í góðan jarðveg meðal kjörinna fulltrúa okkar og reyndar ýmissa annarra.

Hugmyndin gengur, í sem stystu máli út á það, að flytja Laugarásbúa á Hveravelli, en með þeirri aðgerð yrðu slegnar allmargar flugur í einu höggi og þessar helstar:
1. Betri nýting á ljósleiðaranum sem verið er að leggja þarna uppeftir og jafnframt þá engin krafa um ljósleiðaralagningu í Laugarás.
2. Þar sem Hveravellir tilheyra Húnavatnshreppi, sem er norðlenskur hreppur, myndi þessi aðgerð létta ýmsum vanda af Bláskógabyggð og einfalda starf sveitarstjórnar. Laugarásbúar yrðu þarna  Norðlendingar og gætu þar með beint kröfum sínum um ýmsa þjónustu til sveitarstjórnar Húnavatnshrepps .
3. Bláskógabyggð myndi hafa ótvíræðan hag af mannlausum Laugarási, meðal annars að því leyti að trjágróðurinn myndi nýtast til kolefnisjöfnunar á svæðinu og myndi þar með draga úr allskyns vistviskubiti þeirra íbúa sem eftir væru í sveitarfélaginu.

Þá er samkomulag í augsýn, milli ríkisins og Bláskógabyggðar, um að þessi flutningur Laugarásbúa á Hveravelli verða á kostnað ríkisins, gegn því að Bláskógabyggð samþykki, fyrir sitt leyti, að hálendisþjóðgarðurinn verði að veruleika.  Þannig gætu báðir aðilar gengið sáttir frá borði, enda tryggt að hinir nýju Hveravallabúar myndu frá störf við gæslu hins nýja þjóðgarðs. Þeir yrðu þjóðgarðsverðir, sem meðal annars sæju um að smala þjóðgarðinn á haustin; koma fénu niður að Gíslaskála. Þar væru þá fjallmenn úr Biskupstungum vera búnir að dvelja nokkra daga í góðu yfirlæti, með gullnar veigar og góða ljósleiðaratengingu.

Jæja þá. 
Þetta kann svo sem að vera draumur einhverra, en hvort af verður mun framtíðin leiða í ljós.
Ég var á þorrablóti eldri borgara í Aratungu í gærkvöldi, þar sem Bræðratungusókn endurflutti skemmtidagskrá sína frá þorrablótinu sem haldið var á sama stað, viku fyrr.
Þarna var fléttað saman umræðum um hálendisþjóðgarð og þjónustukröfum frá Laugarási, þannig að úr urðu pælingarnar sem ég tæpti á hér fyrir ofan.
Dagskráin var afar skemmtileg og ég þakka Bræðratungusókn kærlega fyrir framlag þeirra og svo auðvitað félagi eldri borgara fyrir þeirra þátt í þessu öllu.
Ekki get ég sleppt því að þakka fR fyrir skelegga framgöngu við að kalla fram rómantíska danstónlist eftir að borðhaldi og skemmtiatriðum lauk.

Ég verð bara að vona að fólk hafi lesið alla leið niður. Ef ekki, þá er ég líklega í nokkuð vondum málum.
😅

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...