Sýnir færslur með efnisorðinu leiklestur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu leiklestur. Sýna allar færslur

13 maí, 2022

Mislitir sokkar

Mér dettur ekki í hug að neita því, að sú hugsun hefur hvarflað að mér nokkrum sinnum í vetur, að ég þurfi að gæta aðeins betur að sjálfsvirðingu minni - ég nálgast óðum sjötugt og fólk á þeim aldri á að hegða sér með einhverjum tilteknum hætti, verða svona "grand old"-eitthvað. Ég hef  litið aðeins í kringum mig, til að leita fyrirmynda í því hvernig fólk á mínum aldri og eldra kemur fram, í tilraun sinni til að gæta nú að virðingu sinni - falla að hópum sem það tilheyrir. Það var eiginlega fyrst á síðari hluta liðins vetrar, sem ég byrjaði þessa aðlögun, enda tækifæri til félagslegrar þátttöku verið færri en alla jafna er. 
Ég þykist hafa komist að því, að við erum meira og minna öll að leita að þessum sama takti meðal jafnaldranna og svei mér ef ég er ekki kominn á þá skoðun, að smám saman sé viðhorf eldri borgara að breytast.  Fyrst í stað hef ég fundið til þess að fólk reynir að gæta sjálfsvirðingarinnar, eftir getu, en þegar skelin rofnar, birtist alveg nýtt fólk á einhvern óútskýranlegan hátt - fólk sem er tilbúið að sleppa fram af sér beislinu, henda af sér þeim klafa sem því hefur fundist að tilheyrði því að hætta brauðstritinu og verða svokallaðir eldri borgarar.  
Mér finnst, svona í minningunni, að fólk á þessum aldri, sem ég er á nú, hafi verið orðið hægfara í hreyfingum og hugsun. Það gætti orða sinna og reyndi að leika hlutverk afa og ömmu, langafa og langömmu eftir bestu getu, fól sér yngra fólki að hafa frumkvæði, eða vera gerendur.  Eldri borgarar nútímans eru í síauknum mæli að verða sjálfsöruggari og farnir að gera meiri kröfur til efri áranna.

Til hvers er þetta líf eiginlega? Varla lýkur því um sjötugt. Sá aldur markar bara nýtt upphaf og lífið fær nýjan takt, með allskyns möguleikum og tækifærum, sem ekki þarf annað en grípa. Það er nefnilega þannig, að þarna missir fólk ekki réttindi sem manneskjur. Það lítur yfir farinn veg, auðvitað og sér þar allt sem það hefur áorkað á ævinni. Lítur svo fram á veginn og skoðar þá kosti sem eru í boði.


Þá er ég kominn að framlagi mínu á þessum vettvangi, þennan daginn.
Allt frá því ég var í menntaskóla og tók þátt í leiksýningum, hefur verið til staðar einhver neisti, sem annasamur starfsferill hélt niðri, en glóðin hefur alltaf verið þarna, ekki alltaf jafn lífleg reyndar, en samt til staðar. 
Síðastliðið haust rakst ég á auglýsingu, þar sem boðið var upp að eitthvað sem kallaðist "leiklestur" og þá birti örlítið yfir glóðinni og ég fór í gegnum allskonar vangaveltur um hvort ég ætti kannski að gefa þessu tækifæri, en á móti komu svo pælingar um að þarna ætti ég ekkert erindi; innan um eitthvert ókunnugt fólk, sem hefði langa reynslu af leiklistarstörfum. 
Ég ákvað á endanum að láta á þetta reyna, gæti bara látið mig hverfa ef það reyndist mér um megn. Ég neita því ekki, að mér leist ekki á blikuna þegar ég mætti þarna í fyrsta skipti þó skömm sé frá að segja, því kynjahalli var umtalsverður. Það kom fljótt í ljós að ekkert okkar reyndist þrautþjálfaður leikari og þar að auki vor þarna stjórnendur, sem kunna ekki að segja nei, þau Magnús J. Magnússon og Sigríður Karlsdóttir. Jákvæðara fólk held ég sé vandfundið. Hvað sem maður gerði og sagði virtist bara vera snilldin ein.  Svo fór, áður en við var litið, að ég var orðinn eini karlinn í þessum kvennafansi, fyrir utan Magnús, auðvitað. Þá hafði myndast einhver skuldbinding í huga mér og þar að auki var ég að byrja  að átta mig á, að þarna skipti kyn fólks engu máli - ef þetta væru almennilegar manneskjur þá var slíkt aukaatriði. Þarna voru almennilegar manneskjur, sem langaði að reyna aðeins á sig og hafa dálítið gaman í leiðinni.

Til að gera langa sögu stutta, hef ég sinnt þessu verkefni í vetur í covidhléum og haft talsvert gaman af bara.  Síðasta verkefnið var að setja á svið leiklestur á leikverkinu "Maður á mislitum sokkum", eftir Arnmund S. Backman. Auðvitað nokkur vitleysa, með skýrum boðskap, þó. 
Við fengum inni í gamla leikhúsinu, þar sem við æfðum af kappi, en ekki var á vísan að róa með að sýna þetta utan hópsins, enda fólk á ferð og flugi, fyrir utan pestirnar auðvitað og aðra krankleika.

Það fannst loksins tími í gær, þann 12. maí, og við vorum ekki með sérstakar væntingar um aðsókn, en raunin varð sú að það var húsfyllir og lá við að vísa þyrfti fólki frá í hópum, en allt fór þetta þó vel og áhorfendur hurfu úr húsinu, sáttir með  okkur og það er nú fyrir mestu.

Þau eru frekar magnað fólk þau Magnús og Sirrý Karls - og auðvitað við hin, hvert á okkar hátt.



24 nóvember, 2021

Ýmislegt leiðir af leiklestri

Frá því í menntaskóla hef ég haft talsverðan áhuga á leiklist, það verður að segjast. Það var Kristín Anna Þórarinsdóttir, leikkona, sem kom mér á bragðið. 
Þegar ég tók að mér kennslu í Lýðháskólanum í Skálholti, strax eftir stúdentspróf, hafði það meðal annars í för með sér, að ég var settur í að leikstýra nemendum í verkinu Happið eftir Pál J. Árdal. 
Síðar tók ég þátt í uppsetningu á Tobacco Road hjá Ungmennafélagi Biskupstungna. 
Talsvert kom ég svo að þorrablótum Skálholtssóknar gegnum tíðina: samdi, leikstýrði og lék, eftir því hvernig vindar blésu. 
Áhuginn var alltaf þarna, en starfa vegna og auðvitað fjölskyldu, varð minna úr en hefði getað orðið,  því maður forgangsraðar hlutum.

Úr uppsetningu á "Happinu". 

Ég, eldri borgarinn
Jæja, svo er ég kominn í hóp eldri borgara, svokallaðra og viti menn: það er boðið upp á námskeið í því sem kallað var leiklestur og viti menn: ég ákvað að taka þar þátt, þar sem ég taldi þetta námskeið varla verða mér um megn. Taldi að þarna myndum við æfa okkur í  lesa einhverja texta, ljóð eða prósa af einhverju tagi. 
Ekki neita ég því, að það hafa farið fjölmargar útgáfur af hugsunum gegnum hugann við að uppgötva hvað þarna var síðan á ferðinni, svona þegar námskeiðið fór að þróast. Það er nefnilega svo og hópnum sem þarna kemur saman eru konur og ég... reyndar annar karl, sem stakk af í frí, en kemur væntanlega aftur. Þessi staða veldur mér svo sem engum vanda, en vekur mig til umhugsunar um þátttöku karla á efri árum, í félagslífi.
Þorrablótsgervi.

Já, ekki nóg með það: það var farið að hamast við að semja og æfa svokallaða "sketsa" eða stutta leikþætti.
Ekki nóg með það, það var, áður en við var litið, búið að panta dagskrá, með þessum þáttum til flutnings að aðventuskemmtun eldri borgara, sem síðan féll niður vegna, jú nó.  
Ekki nóg með það, við vorum beðin að taka þátt í einhverju óútskýranlegu verkefni með nemendum í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. 

Ég neita því ekki, að ég ætlaði nú að humma það fram af mér, en lét svo til leiðast, enda tilheyri ég hópi fólks sem á frekar erfitt með að segja nei, alla jafna. 

Í gær fékk ég svo tölvupóst þess efnis, að eftir hádegið yrði svokallaður zoom  fundur okkar sem þarna gáfum kost á okkur til þessa verkefnis og umræddra nemenda í leiklistaráfanganum. Ég var tvístígandi, enda hafði ég aldrei áður notað þetta alkunna fyrirbæri, zoom. 
Það vildi svo (vel) til, að einmitt á þeim tíma sem þessi fundur átti að fara fram, var rafmagn tekið af blokkinni þar sem ég bý. "Jæja, þá verður ekkert úr þessu", hugsaði ég og var svo sem ekkert ósáttur. En svo uppgötvaði ég, að rafmagnsleysið væri ekki nægilega góð afsökun, þar sem síminn minn var óháður rafmagnni úr innstungum, með sitt 4G samband.

Jón Hreggviðsson - leiklestur
í lýðháskólanum 1975
Mér tókst að tengja mynd við þennan zoom  fund, en hljóðið lét standa á sér. Eftir talsvert fikt tókst mér að koma því á. Þarna var á myndinni saman kominn hópur af ungu fólki, með kennara sínum og fátt annað gert á fundinum en að ákveða, að nemendurnir myndu hafa samband við okkur, sem ætluðum að taka þátt. 

Svo leið nokkur stund, en þá fékk ég vinarbeiðni á Fb. frá ungri stúlku. Ég rannsaka alltaf vinabeiðnir á Fb. og það gerði ég einnig þessu sinni og komst að því að stúlkan átti fb-vin sameiginlegan með mér (sem reyndist svo vera faðir hennar og gamall nemandi minn). Ég tók því áhættuna. 

Skömmu síðar fékk ég hringingu á fb-og þar var komin þessi stúlka úr leiklistarhópnum ásamt félögum sínum.  Svo upphófst talsverð aðför að einkamálum mínum, en þar sem ég þykist ekki hafa margt að fela, gekk það allt vel fyrir sig, að mínu mati. Eftir spurningaflóð um hagi mína og nokkrar upplýsingar um hvað í þessu fælist, stóð ég upp með þá hugmynd að ég myndi þarna verða einhverskonar miðpunktur í listrænum gjörningi. Mín persóna yrði aðalumfjöllunarefni þess unga fólks sem þarna blasti við mér í gegnum símann. Ég tel að þarna verði þáttaröðin "Maður er nefndur" sett upp í nútíma uppfærslu, sem sérstakri áherslu á mig, í listrænnni (leiklistarlega) framsetningu. 

Hornakórall eftir Odd Björnsson í ML
í hlutverki Lofts, líklega 1973

Það var bara merkilegt fólk, sem var tekið tali í þessum viðtalsþáttum, sem voru sýndir á RUV í kringum aldamótin. Ég ylja mér við þá tilhugsun, að þarna fái ég loksins að komast í einhverskonar kastljós. Samt er fjarri mér að óska þess að unga fólkið í leiklistaráfangum upplifi einhverja pressu frá mér í þessu efni. Hlakka bara til að sjá einhverskonar úttekt á sjálfum mér - eða þannig.

Það er rétt að nefna það að viðmælendur mínir voru einkar kurteisir, líflegir og óþvingaðir og samtalið við þau fór vel í mig.

Það er bara gaman að svona löguðu 😎

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...