Ég þykist hafa komist að því, að við erum meira og minna öll að leita að þessum sama takti meðal jafnaldranna og svei mér ef ég er ekki kominn á þá skoðun, að smám saman sé viðhorf eldri borgara að breytast. Fyrst í stað hef ég fundið til þess að fólk reynir að gæta sjálfsvirðingarinnar, eftir getu, en þegar skelin rofnar, birtist alveg nýtt fólk á einhvern óútskýranlegan hátt - fólk sem er tilbúið að sleppa fram af sér beislinu, henda af sér þeim klafa sem því hefur fundist að tilheyrði því að hætta brauðstritinu og verða svokallaðir eldri borgarar.
Mér finnst, svona í minningunni, að fólk á þessum aldri, sem ég er á nú, hafi verið orðið hægfara í hreyfingum og hugsun. Það gætti orða sinna og reyndi að leika hlutverk afa og ömmu, langafa og langömmu eftir bestu getu, fól sér yngra fólki að hafa frumkvæði, eða vera gerendur. Eldri borgarar nútímans eru í síauknum mæli að verða sjálfsöruggari og farnir að gera meiri kröfur til efri áranna.
Til hvers er þetta líf eiginlega? Varla lýkur því um sjötugt. Sá aldur markar bara nýtt upphaf og lífið fær nýjan takt, með allskyns möguleikum og tækifærum, sem ekki þarf annað en grípa. Það er nefnilega þannig, að þarna missir fólk ekki réttindi sem manneskjur. Það lítur yfir farinn veg, auðvitað og sér þar allt sem það hefur áorkað á ævinni. Lítur svo fram á veginn og skoðar þá kosti sem eru í boði.
Allt frá því ég var í menntaskóla og tók þátt í leiksýningum, hefur verið til staðar einhver neisti, sem annasamur starfsferill hélt niðri, en glóðin hefur alltaf verið þarna, ekki alltaf jafn lífleg reyndar, en samt til staðar.
Síðastliðið haust rakst ég á auglýsingu, þar sem boðið var upp að eitthvað sem kallaðist "leiklestur" og þá birti örlítið yfir glóðinni og ég fór í gegnum allskonar vangaveltur um hvort ég ætti kannski að gefa þessu tækifæri, en á móti komu svo pælingar um að þarna ætti ég ekkert erindi; innan um eitthvert ókunnugt fólk, sem hefði langa reynslu af leiklistarstörfum.
Ég ákvað á endanum að láta á þetta reyna, gæti bara látið mig hverfa ef það reyndist mér um megn. Ég neita því ekki, að mér leist ekki á blikuna þegar ég mætti þarna í fyrsta skipti þó skömm sé frá að segja, því kynjahalli var umtalsverður. Það kom fljótt í ljós að ekkert okkar reyndist þrautþjálfaður leikari og þar að auki vor þarna stjórnendur, sem kunna ekki að segja nei, þau Magnús J. Magnússon og Sigríður Karlsdóttir. Jákvæðara fólk held ég sé vandfundið. Hvað sem maður gerði og sagði virtist bara vera snilldin ein. Svo fór, áður en við var litið, að ég var orðinn eini karlinn í þessum kvennafansi, fyrir utan Magnús, auðvitað. Þá hafði myndast einhver skuldbinding í huga mér og þar að auki var ég að byrja að átta mig á, að þarna skipti kyn fólks engu máli - ef þetta væru almennilegar manneskjur þá var slíkt aukaatriði. Þarna voru almennilegar manneskjur, sem langaði að reyna aðeins á sig og hafa dálítið gaman í leiðinni.
Til að gera langa sögu stutta, hef ég sinnt þessu verkefni í vetur í covidhléum og haft talsvert gaman af bara. Síðasta verkefnið var að setja á svið leiklestur á leikverkinu "Maður á mislitum sokkum", eftir Arnmund S. Backman. Auðvitað nokkur vitleysa, með skýrum boðskap, þó.
Við fengum inni í gamla leikhúsinu, þar sem við æfðum af kappi, en ekki var á vísan að róa með að sýna þetta utan hópsins, enda fólk á ferð og flugi, fyrir utan pestirnar auðvitað og aðra krankleika.
Það fannst loksins tími í gær, þann 12. maí, og við vorum ekki með sérstakar væntingar um aðsókn, en raunin varð sú að það var húsfyllir og lá við að vísa þyrfti fólki frá í hópum, en allt fór þetta þó vel og áhorfendur hurfu úr húsinu, sáttir með okkur og það er nú fyrir mestu.
Þau eru frekar magnað fólk þau Magnús og Sirrý Karls - og auðvitað við hin, hvert á okkar hátt.
Þetta er flott hjá þér pabbi ég tek undir þessi orð Þín. Það var frábært að vera með þessum hóp í vetur. Ég var heppin þegar ég ætlaði að fara að spila þá voruð þið að æfa þennan lestur og mér boðið að vera með. Takk fyrir. Þóra.
SvaraEyða:)
SvaraEyða