Sýnir færslur með efnisorðinu sjóðsbók. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sjóðsbók. Sýna allar færslur

14 júní, 2019

Skálholt: Prestur og söfnuður óánægðir hvor við annan


Af vefnum skalholt.is
Fyrir nokkru barst mér í hendur bók nokkur, sem inniheldur að mestu leyti reikningshald fyrir Skálholtskirkju frá 1913 til 1988.  Auk reikninganna eru skráðar nokkrar vísitasíur prófasta í Árnesprófstsdæmi, ein kirkjuskoðun og einn safnaðarfundur. Þessa texta birti ég hér fyrir neðan.

Ég hef nú, eftir að hafa borið það undir vígslubiskup og formann sóknarnefndar, skilað þessari bók á Héraðsskjalasafn Árnessýslu, því auðvitað eiga svona gögn þar heima.  Ég leyfi mér að ítreka við ykkur öll sem þetta sjáið, að athuga hvort heima hjá ykkur leynist mögulega gögn sem eiga að rata til varðveislu á héraðsskjalasafninu.
 Ekki meira um það, en hér eru umræddir textar:

 Vísitasía 1913

EFTIRRIT
Vísitasíugjörð í Skálholti 28. júlí, 1913.

Árið 1913, 28. júlí, vísiteraði prófasturinn í Árnessprófastsdæmi, séra Valdimar Briem, kirkjuna í Skálholti. Af viðkomandi mönnum var auk prófastsins enginn viðstaddur, nema umboðsmaður kirkjunnar, Skúli læknir Árnason í Skálholti. Sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson á Ólafsvöllum, var fjarverandi, svo og allir sóknarnefndarmennirnir: Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum, Bergur Jónsson á Helgastöðum og Jón Wíum á Iðu. Hafa þeir sjálfsagt ekki verið viðlátnir, enda ef til vill haft lítið að athuga eða haft litla von um árangur.
Um kirkjuna er það að segja, að síðan hún var síðast vísiteruð, af Þórhalli biskupi Bjarnarsyni, 4. sept. 1910 hefir hún fengið talsverða og alldýra aðgerð, sem fólgin hefir verið í þessu: Skekkjan, sem orðin var á kirkjunni, hefir verið löguð svo sem smiðurinn, er stóð fyrir aðgerðinni, hefir treyst sér til án þess að rífa húsið algerlega, en hvergi nærri hefir það tekist til hlítar. Kirkjan hefir verið járnklædd á norðurhlið og vesturgafli, svo að hún er nú öll járnvarin. Gólfið í kirkjunni hefir verið endurbætt á þá leið, að nýir hlerar hafa verið settir yfir legsteinana, sem eru undir ganginum í framkirkjunni. En kórgólfið, sem er talsvert gallað, er enn óendurbætt. Nýir gluggar hafa verið settir í kirkjuna. Ennfremur hefir verið þiljað fyrir geymsluloftið í kirkjunni. Svo hefir og öll kirkjan verið máluð að utan og innan, - að utan brúnleit á þaki, en gráleit á veggjum; að innan ljósblá hið efra með hvítum listum, en ljósgrá hið neðra. Á altari og predikunarstól hefir liturinn verið skírður upp. Kirkjan, sem að utan er fremur óásjáleg að allri gerð yfirleitt, ekki síst turninn, sem mjög er til óprýði, lítur nú að innan miklu betur út en áður. Sömuleiðis hefir tekist að þétta hana nokkuð svo að hún er nú ekki eins gisin sem fyr, og væri settur hæfilegur ofn í hana verður ekki annað sagt en að hún sé sæmilega vistleg til notkunar á öllum árstímum.
En hinsvegar virðist kirkjan hvergi nærri samboðin þeim stað, sem hún stendur á.
Eiganda kirkjunnar er þó ekki sök á því gefandi, að því leyti, að eigi er til þess að ætlast að hann á sinn kostnað eingöngu, reisi þar "monumentala" kirkju. En hinsvegar  dylst það víst fæstum, er athuga það rækilega, að miklu heppilegra hefði verið að endurbyggja svo stórgallað hús en láta káka við aðgerð á því, sem er lítt framkvæmanleg til nokkurrar hlítar. En við það, sem komið er, verður nú sjálfsagt að sitja fyrst um sinn.
Sem stendur er kirkjan mjög lítið notuð til messugjörða. En þegar farið verður að nota hana betur þykir nauðsynlegt að setja ofn í hana. - Kirkjan er í góðri hirðu ásamt áhöldum hennar, sem öll eru hin sömu og áður.
Kirkjugarðurinn er yfirleitt í sæmilegu standi, og ný grind úr timbri hefir verið sett á sáluhlið.
Úr Fálkanum, 3. árg. 1930

Til yfirheyrslu í kristindómi komu 2 nýlega fermd ungmenni (frá Auðsholti). Eitt vantaði (frá Iðu).
Um kirkjulegt ástand í söfnuðinum og samband prests og safnaðar, er líkt að segja og áður. En annars var lítið tilrætt um það að þessu sinni, þar sem flesta viðkomendur vantaði. Söfnuðurinn er hvattur til að sækja kirkjuna betur en nú er gjört, þá er færð og veður og aðrar ástæður leyfa.
Sjóðsbók fyrir kirkju og sókn var löggilt, en gjörðabók vantar og þarf að útvega hana sem fyrst. Sé þessi vísitasíugerð innfærð í hana.
Valdimar Briem, Skúli Árnason
Rétt eftirrit eftir vísitasíunni staðfestir
Valdimar Briem.

Vísitasía 1918

Árið 1918, 4. nóv., vísiteraði prófasturinn í Árnesprófastsdæmi, Kjartan Helgason, kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson, umboðsmaður kirkjueiganda Skúli Árnason og formaður sóknarnefndar Bergur Jónsson.
Engin börn komu til yfirheyrslu.
Kirkjan er í góðu standi og vel hirt, svo og áhöld hennar.
Meiri hluti kirkjugarðsins er nýhlaðinn upp og prýðilega gerður (úr torfi og grjóti) en það sem eftir er á að leggjast næsta sumar..
Söfnuðurinn er, að kalla, hættur að sækja kirkju og presturinn að slá slöku við komur sínar, svo að á þessu ári hefur presturinn ekki messað nema einu sinni eða tvisvar. Prestur og söfnuður eru óánægðir hvor við annan að þessu leyti. Kirkjulífið er í ólagi.
Kjartan Helgason, Br. Jónsson, Skúli Árnason, Bergur Jónsson.

Vísitasía 1922

Árið 1922, 15. júní vísiteraði próf., séra Kjartan Helgason kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson, kirkjuhaldarinn, Skúli læknir Árnason og formaður sóknarnefndar, Víglundur Helgason. 
Eitt barn kom til yfirheyrslu í kristnum fræðum og bóklestri og reyndist mjög vel.
Kirkjan er í sómasamlegu ástandi og vel hirt og sömuleiðis áhöld hennar.
Meirihluti kirkjugarðsins er í ágætu standi, en austur og suðausturhliðin er orðin fornfáleg.
Um kirkjulegt ástand í söfnuðinum er sama að segja og áður, enda er presturinn farinn að lasnast og als ekki fær um að koma til kirkju á vetrardag nema í bezta veðri.
Kjartan Helgason, Br. Jónsson, Skúli Árnason, Víglundur Helgason

Kirkjuskoðun 1924

Árið 1924, 10. júní skoðaði prófasturinn, séra Kjartan Helgason í Hruna kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru kirkjuhaldarinn, Skúli Árnason læknir og formaður sóknarnefndar Jón Wium á Iðu.
Börn komu engin til yfirheyrslu.
Kirkjan er gömul timburkirkja, en nokkurn veginn stæðileg og í góðri hirðu, öll járnklædd að utan og máluð að utan og innan.
Áhöld hennar eru öll hin sömu og verið hafa, en nýlega hefur kirkjueigandinn, bankastjóri Hannes Thorsteinsson sent kirkjunni sálmasöngsbók Sigfúsar Einarssonar, í góðu bandi og þakkar sóknarnefndin fyrir þá gjöf.
Kirkjan á ekki ofn; hljóðfæri er fengið að láni við kirkjulegar athafnir.
Grafreiturinn er óvenjulega stór í hlutfalli við sóknina. Meiri hluti kirkjugarðsins er nýlega hlaðinn úr torfi og grjóti og í ágætu standi og trégrind í hliðinu hefur nýlega verið endurbætt. Austurhlið garðsins og nokkuð af suðurhliðinni er úr tómu grjóti, en af sér gengin og ekki gripheld, þarf sem fyrst, helst á næsta hausti að hressa við þann kafla girðingarinnar.
Sóknarpresturinn, Séra Brynjólfur Jónsson er orðinn aldraður maður og lasburða. Kemur hann sjaldan til kirkju og kirkjan illa sótt.
Kjartan Helgason, Skúli Árnason, Jón H. Wium.

Safnaðarfundur 1925

Hinn 6. sept, 1925 var haldinn safnaðarfundur í Skálholti. Fundinum stýrði séra Eiríkur Stefánsson á Torfastöðum að afstaðinni guðsþjónustu. Þar var kosin sóknarnefnd og hlutu þeir kosningu: Skúli Árnason í Skálholti, Víglundur Helgason í Höfða og Jón H. Wium á Iðu.
Skúli Árnason
Víglundur Helgason
Jón H. Wium.
Eiríkur Þ. Stefánsson.
--------------------

Um séra Brynjólf Jónsson (1850-1925) prest á Ólafsvöllum, sem þjónaði Skálholti á þeim tíma sem hér um ræðir.


Síðasti prestur í Reynisþingum var sr. Brynjólfur Jónsson, síðast á Ólafsvöllum og löngum kenndur við þann stað. Hann var sonur Jóns háyfirdómara Péturssonar, tvíburabróðir við sr. Pétur Kálfafellsstað.
Sr. Brynjólfur vígðist til Meðallandsþinga vorið 1875. Ekki var hann þar nema árið. Næsta vor fékk hann Reynisþing og settist að á Heiði. Þar var hann í 6 ár unz hann fluttist austur að Hofi í Álftafirði, síðan var hann einn vetur á Bergsstöðum í Húnaþingi. Þá fékk hann Ólafsvelli þar sem hann var prestur til dauðadags.
Vorið 1925 fór sr. Brynjólfur til Reykjavíkur á prestastefnu svo sem venja hans mun hafa verið. Hann ofkældist á leiðinni, lagðist veikur þegar suður kom og andaðist á heimili Helgu dóttiur sinnar 2. júlí.
Skeiðamenn komu suður til að bera hann til grafar, en yfir moldum hans töluðu þeir sr. Magnús Helgason og Friðrik Hallgrímsson.
Sr. Brynjólfur mun hafa orðið næsta minnistæður öllum þeim, sem höfðu af honum einhver kynni. Frægastur var hann fyrir stálminni og hinn þaulfróðasti í mörgum efnum. Hann kunni embættismannaskrár Norðurlandaríkjanna utan bókar, enda hafði hann Hof- og Statskalender Dana í höndum sér á deyjandi degi. (Vörður 18. júlí '25).
(úr: Kirkjur og prestar í Reynisþingum, eftir séra Gísla Brynjólfsson, Mbl. 9. janúar 1966)
--------------------

Feitletranir og skyggingar á texta eru mínar 




Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...