Sýnir færslur með efnisorðinu Casilda. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Casilda. Sýna allar færslur

28 mars, 2019

Kúba: Casilda

Brunað í skólann
Þessi litli bær eða þorp, Casilda, þar sem við héldum til er í um 5 km fjarlægð frá Trinidad og tilheyrir því bæjarfélagi í Sancti Spiritus héraði. Ég fann upplýsingar um að árið 1943 hafi íbúar tæplega 2000, en uppfærðar upplýsingar hljóta að hafa farið framhjá mér. Bærinn þessi  liggur að hafi og þar í grennd eru hinar ágætustu baðstrendur.
Við komum í þennan áfangastað okkar í myrkri og það var því ekki fyrr en næstu þrjá morgna, áður en lagt var af stað í ferðir sem tími gafst til að skoða sig lítillega um. Umhverfið minnti mig dálítið á Laugarás á fyrsta áratug ævi minnar, þó ekki hafi þar verið ekið um í hestvögnum.
Faðir og sonur
Það var ekkert mikið lagt upp úr malbikuðum götum, gróður fékk að vaxa óáreittur, húsin voru, mörg hver ekkert augnayndi, allavega hið ytra. Það var hinsvegar einhver indælis ró yfir mannlífinu eins og það birtist okkur. Það sást enginn flýta sér, þeir bílar sem óku um göturnar gerðu það á hraða hestvagnanna, á morgnana fylgdu foreldrar börnum sínum í skólann, gangandi, á reiðhjólum, skellinöðrum eða hestvögnum. Börnin virkuðu einstaklega prúð og snyrtileg í skólabúningunum sínum.
Öðrumegin við La Rosa, þar sem við bjuggum næturnar þrjár í þessum bæ, var leikskóli, en hinumegin grunnskóli. Búningar leikskólabarnanna (4-6 ára) eru hvít skyrta/blússa og bláar stuttbuxur eða pils og blár hálsklútur. Grunnskólabörnin (6 - 11 ára) klæðast samsvarandi í rauðum lit. Ég tók, í leyfisleysi og banni nokkrar myndir af snyrtilegum grunnskólabörnunum á leið í skólann, en þegar ég ætlaði að ná mynd af leikskólabörnunum, sem þá voru kominn inn á skólalóðina, fékk ég merki frá kennara um að það teldist ekki góð hugmynd. Gott hjá henni.

La Rosa og nágrenni (mynd af Google maps)
Þessi hópur Kúbuferða gisti allur við aðalgötuna og reyndar einu, svona alvöru götuna í bænum, en hún heitir Real eða bara Aðalgatan. Hún var svona eins og nokkurskonar breiðstræti, með breiðri grasigróinni eyju á milli. Umferðin var hinsvegar frjálsleg;  breiðari hluti strætisins leyfði umferð í báðar áttir. Ég held að umferðarstefna eftir hinni hafi verið svona eins og best hentaði hverju sinni. Umferðarhraðinn held ég gefi ekki tilefni til einhverra stífra umferðarreglna.

Þrátt fyrir að líf á svona stað finnist mér að miklu leyti afskaplega eftirsóknarvert, þá gæti margt verið í betra horfi. Þjóðskipulagið á Kúbu getur verið til fyrirmyndar, en það er ekki síður stórgallað. Það sama má eflaust einnig segja um annarskonar þjóðskipulag svo sem, hverju nafni sem nefnist.

Fólkið vantaði ýmislegt í Casilda, og væntanlega víða annarsstaðar á þessari hlýju eyju. Fatnaður, ritföng og hitt og þetta sem við teljum sjálfsagt og tilheyra almennum mannréttindum, var af skornum skammti.  Það kom samt ekki í veg fyrir, að þetta þægilega fólk fetaði sig í gegnum lífið með bros á vör.
Það var að morgni þriðjudagsins 5. mars að hópurinn kvaddi Casilda og gestgjafana. Framundan var um 500 km akstur til höfuðborgarinnar, Havana (La Habana).

Að hefja morgunverkin
Aðalgatan, Real.
Á leið í skólann. Mæður þeirra viku úr vegi þegar ég mundaði EOS-inn og fylgdust brosandi með.



25 mars, 2019

Kúba: af þrælum, ofþornun og cha-cha-cha

Minning um þrælahald
Þegar búið var að bera í okkur ágætan morgunverðinn  hófst verkefni dagsins, annarsvegar að koma í Valle de los Ingenios, sem er í um 12 km fjarlægð frá Trinidad og hinsvegar að kynnast bænum Trinidad nánar. Að loknum þessum verkefnum yrði fólkinu sleppt lausu í Trinidad til frekara útstáelsis.

Valle de los Ingenios  Dalur sykurreyrsmyllanna  Valley of the Sugar Mills

Þarna er um að ræða þrjá dali, San Luis, Santa Rosa og Meyer sem voru miðstöð sykurframleiðslu á Kúbu á síðari hluta 19. aldar.  Þegar hæst lét voru þarna yfir 50 sykurmyllur og ríflega 30.000 þrælar, sem látnir voru vinna verkin.
Nú er umhverfið þarna ósköp friðsælt, einhverskonar þögul áminning um skelfingar þrælahaldsins. Við nútímafólk ættum svo sem ekkert að vera að hreykja okkur og telja að við séum eitthvað skárri. Það var áhugavert að ímynda sér hvernig þarna var umhorfs fyrir 150 árum.
Sykurpressa í Valle de los Ingenios
Eins og oftar í þessari ferð fann ég fyrir ónotatilfinningu, komandi þarna, sem túristi, kíkjandi við litla stund, takandi myndir, smakkandi á sykurreyrssafa með skvettu af rommi, klifrandi upp í turninn (sem ég gerði reyndar ekki) þar sem þrælunum var skipað til vinnu og þeir kallaðir heim af ökrunum að kvöldi, ekki kaupandi allt handverkið sem var þarna til sölu, stígandi loks aftur upp í loftkælda rútuna með engar áhyggjur af neinu nema ef til vill að hafa ekki tekið með nóg vatn í ferðina eða klínt nægilega mikilli sólavörn nr. 30 á nefið.
Jú, kannski vannst það, að ég varð nokkru betur að mér um mannlegt eðli, þá lítilsvirðingu og niðurlægingu sem mannskepnan er fær um að beita. Auðvitað vissi ég þetta allt fyrir, en komst þarna einhvern veginn aðeins nær því, kannski vegna þess að ég gekk þarna, með einhverjum hætti í sögunni. Gat ímyndað mér að þar sem ég mundaði EOS-inn til að ná góðri mynd, hafi einhverntíma runnið blóð og sviti þræla.
Þetta var áhrifaríkt.

Trinidad

Víða fallegt umhverfi í Trinidad
Það mun hafa verið stofnað til þessa bæjar á 16. öld. Þetta er einn best varðveitti bærinn frá þeim tíma sem sykurvinnsla var aðal atvinnuvegurinn á þessu svæði við Karíbahaf. Nú mun helsti atvinnuvegurinn vera tóbaksvinnsla og í bænum búa um 75.000 manns.

Okkar erindi í þessan bæ á þessum degi var að fá í hann örlitla innsýn, við gengum um götur og snæddum hádegisverð á veitingahúsi sem var ekki ríkisrekið.  Eftir hádegið var okkur sleppt lausum til að kynnast bænum enn betur. Já, já, hitinn var kominn yfir 30°C, göturnar virtust mér allar eins og þó svo við (þessi þrjú) vissum nokkurnveginn í hvaða átt sjóinn var að finna leið ekki á löngu áður en við vissum ekkert hvar við vorum stödd. Það var ekkert kort með í för, vatnið fór minnkandi og sólavörnin greinilega eitthvað misheppnuð. Þar á ofan bættist að í hópnum tók að myndast togstreita á hverjum gatnamótum um það hvert halda skyldi, sem varð ekki auðveldara viðureignar með því að ekkert okkar vissi neitt.
Markaður í Trinidad
Við hefðum getað ráfað þarna fram eftir degi, en miklar efasemdir komu fram um að slíkt myndi leiða af sér jákvæða niðurstöðu.
Það varð úr, að við settumst niður á einhverju torgi í skugga og hugsuðum ráð okkar. Þar sáum við eðlu og gamlan mann taka hádegislúrinn sinn við aflagðan gosbrunn, en héldum að því búnu göngu okkar út í óvissuna. Gangan sú varð ekki löng, enda lækkaði hitinn ekki, sólin var miskunnarlaus, vatnið á þrotum og .... jæja.
Það varð sem sagt úr að við fórum að svipast um eftir leigubíl, sem birtist von bráðar, en þar var ekki ríkisbíll á ferð, heldur svona einkaleigubílstjóri.

Leiðsögn um Trinidad
Guðni hafði bent okkur á að vera ávallt með réttar tegundir seðla í veskinu þegar við tækjum leigubíl og við áttum að spyrja fyrirfram hvert fargjaldið væri. Jú, farið til Casilda átt að vera 8 CUC, sem við töldum bara sanngjarnt. Á áfangastað ætluðum við að vera örlát og borga bílstjóranum 10 CUC (ca. 1200 ISK). Við áttum hinsvegar ekki nema 20 CUC seðil og eins og Guðni hafði bent okkur á þá kvaðst bílstjórinn ekki geta gefið til baka og okkur fannst nú 20 CUC ( 2500 ISK) vera fullmikið fyrir þennan skottúr, nánast bara íslenskt verð. Þessu björguðum við með því að borga 10 evrur eða tæpa 1400 ISK fyrir, og allir voru nokkuð sáttir.

Það sem eftir lifði

Þarfnast ekki útskýringar
Það fór eins og við mátti búast, að ég fór allur frekar að slappast þegar heim var komið, og kúbanskur vindill, Mojito og Piña Colada breyttu ekki miklu um það ástand. Þarna hafði ég greinilega orðið fyrir ofþornun eða sólsting, nema hvort tveggja væri og fram á kvöld mókti ég að þessum sökum, en eitthvað varð til þess að ég hresstist að lokum, svo verulega að síðar um kvöldið olli ég því að söngkonan varð að taka sé hlé í þrjú lög til að ná andanum. (Nei, ég er ekki  enn með sólsting).

Þetta kvöld var skipulagður kvöldverður fyrir allan hópinn á veitingastaðnum La Rosa, sem svo vel vildi til að var bara beint fyrir utan innganginn að herberginu okkar. Það var því ekki valkostur að liggja þetta atriði af sér og við ákváðum bara að taka á því, eins og sannir Íslendingar.

Þannig gerðist það, að ég losnaði úr álögum ofþornunar og ofhitnunar og við héldum til kvöldverðar, þar sem ofgnótt indæls matar var borin fyrir okkur. Undir borðum lék næstum sama hljómsveit og kvöldið áður, í það minnsta var söngkonan sú sama. Þetta var feikna góð söngkona. 
Mojito, Piña Colada og kúbanskur vindill.
La dolce vita.
Hljómsveitin gerði talsvert af því, að kalla fólk upp til að hrista plastflösku með hrísgrjónum í, í takt við tónlistina. Hver á fætur öðrum voru ferðafélagarnir togaðir þarna upp til að hrista.

Svo kom cha-cha-cha.
Söngkonan gerði sér þá lítið fyrir og sveif á mig, sem sat þarna saddur og sæll, og bauð mér upp í dans, sem ég þáði, enda alveg tilbúinn í einhverja vitleysu á þessum tímapunkti. Hún hefði sennilega betur látið þetta ógert, svona eftir á að hyggja. Ég smellti mér í ævafornan dansgír, bjó til mitt eigið ch-cha-cha (sem ég hef aldrei lært) og sveiflaði söngkonunni um gólfið, hring eftir hring, snúning eftir snúning og spor eftir spor.  Svo þakkaði ég fyrir dansinn og settist í sæti mitt í lok dansins, en ég tók eftir því að söngkonan treysti sér ekki í þrjú næstu lög, meðan hún var að ná úr sér mestu mæðinni.
Fleiri úr hópnum létu til sín taka við tónlistarflutning þetta kvöld, en fyrir utan þau sem hristu plastflöskuna, átti Gunnar Rögnvaldsson harla skemmtilega innkomu með söng og gítarleik, sem sannarlega kveikti Íslendinginn í okkur hinum.

Þegar upp var staðið var þetta aldeilis ágætur dagur, en svo tók svefninn við í kúbverskum bæ á strönd Karíbahafsins.

Við fR í tilraun til sólbaðs á svölunum hjá Rósu.



Valle de los Ingenios (Google maps)



22 mars, 2019

Kúba: Sveitir lands, samlokur og svefnstaður

Veitingastaðurinn á leiðinni milli Varadero og Casilda
Ef ætlun mín með þessum skrifum væri, að fjalla svo nákvæmlega um alla ferðina og frásögn af lendingunni á Kúbu kann að gefa til kynna, yrði líkleg niðurstaða efni í heila bók. Framhaldið verður ekki jafn nákvæmt, í það minnsta ekki nema  einstakir þættir.  
Þar með held ég áfram að skanna svona helstu þætti þess að bar fyrir augu eða átti sér stað. 

Leiðin lá úr flugstöðinni í Varadero út í kúbverskt vorið. Ekki svona alveg íslenskt vor. Sól skein í heiði og lofthitinn um 30°C og því engin hætta á að við yrðum loppin.
Það fyrsta sem blasti við var bílastæði flugstöðvarinnar með tveim rútum og einum bíl frá því um 1950: glæsikerru, en af þeim áttum við eftir að sjá harla mikið það sem eftir var ferðar.

Fyrsta verkið, eftir að komið var inn í þetta magnaða land fólst í því að skipta evrum eða kanadadollurum yfir í kúbanska mynt. Fyrir utan flugstöðina var hægt að gera þetta í gegnum lúgur. Þarna var einnig hraðbanki sem maður gat bara tekið út af kortinu sínu, svona eins og víðast annarsstaðar.
Fólkið birgir sig upp af CUC fyrir utan flugstöðina.
Áður en lengra er haldið er rétt að gera örlitla grein fyrir kúbönskum gjaldmiðli. Þar er um að ræða tvennt, CUP og CUC.
CUC er sú mynt sem ferðamenn þurfa að nota og sem hægt er að skipta fyrir erlendan gjaldeyri. Þessi mynt er stundum kölluð kúbanskur dollari og gengi hans er nánast það sama og ameríska dollarans, eða nú um 120 ISK.
CUP er svokallaður kúbanskur pesói, sem landsmenn nota í viðskiptum sín á milli. Þessari mynt er ekki hægt að skipta fyrir erlenda gjaldmiðla. Í hverju CUC eru einhversstaðar um 25 CUP.
Ekki treysti ég mér síðan til að gera grein fyrir samskiptum þessara tveggja mynta innan Kúbu, en þau virðast allavega ganga.

Annað verkið sem sinna þurfti, áður en rútuferð dagsins hófst, var að tryggja nægan vökva, en þarna fyrir utan var að finna sölumenn drykkjarfanga. Úr kæli sínum buðu þeir til sölu tvær tegundir af kúbönskum bjór. Fyrir mér er bjór bara bjór, svo ég tók kostaboði um að kaupa 4 bjóra fyrir 5 CUC, en hafnaði margítrekuðu kostaboði sölumannsins um að kaupa 8 fyrir 10 CUC, en ekki var annað á honum að skilja en að þar væri um að ræða enn betri díl.
Ekki meira um það
Gengið var til rútu og haldið af stað, klukkan farin að ganga fjögur og framundan einhversstaðar um 5 tíma rútuferð til náttstaðar í Casilda, syðst á eyjunni.

Kortið sem sýnir leiðir sem farnar voru í ferðinni.
Set það inn með hverri færslu, til glöggvunar.
Nú er það svo, að rútuferð er rútuferð. Það er brunað áfram um sveitirnar, sem í tilfelli Kúbu voru einstaklega gróðursælar, um vegina sem minntu harla mikið á Biskupstungnabraut eða Skálholtsveg.  Umferðarþunginn þarna var varla til að tala um og framhjá liðu akrar af ýmsu tagi og víðast einnig stórir steypukumbaldar, sem gegnt höfðu oft hlutverki einskonar vinnubúða fyrir fólk sem vann á þessum ökrum. Smám saman minnkaði einbeitingin og frásagnir fararstjórans fóru að fara inn um annað og út um hitt.
Þarna sátum við spennt í öryggisbelti, sem höfðu verið tekin sérstaklega fram af tilefninu. Þau eru að sögn venjulega vandlega falin í rútum á Kúbu, þar sem ástæða þykir til að komast hjá því að þau  slitni óhóflega.

Skipulagt matarhlé

Á áningarstað, saddar og sælar eftir samloku, bjór og búst.
Það lyftist nokkuð brúnin að fólkinu þegar Guðni farastjóri tilkynnti að framundan væri áning á veitingastað. Hún lyftist síðan enn frekar þegar hann gekk um rútuna og gaf farþegum kost á að velja á milli samloku með skinku og osti annarsvegar og samloku með túnfiski, hinsvegar.  Þetta kvaðst hann gera til að veitingastaðurinn gæti verið klár þegar við renndum í hlað.
Þetta var sennilega fyrsta menningarsjokkið sem við, frá landi allsnægtanna, urðum fyrir í þessari ferð og reyndist alls ekki það síðasta.  Fyrsta hugsunin var ef til vill: "Hvaða rugl er þetta?", en það tók önnur strax við: "Hvaða vit hefði svosem verið í því að þessi veitingastaður hefði verið tilbúinn  að 15 mismunandi tegundir af samlokum í plastumbúðum, sem síðan myndu meira og minna renna út og enda loks í ruslinu?" Það sem við þurftum þarna var biti til að seðja hungrið og drykkir til að slökkva þorstann. Snýst þetta ekki bara um það, annars?

Klukkutíma eða svo eftir pöntunina renndum við í hlað, fengum okkar samloku, afar verklega, afar gómsæta og afar ferska, ásamt nýmaukuðu ávaxtabústi eða bjór. Þetta var hreint ágætt. 

Trinidad og Casilda (mynd af Google maps)
Eftir þessa góðu áningu var rennt af stað í síðari legg þennan daginn. Þá lá leiðin meðal annars inn á hraðbraut. Guðni greindi þar frá því að verið gæti að okkur fyndist undarlegt að rútan flakkaði, að því er virðast kynni, að ástæðulausu milli akreina. Fyrir slíku, mögulegu akreinaflakka kvað hann vera þá ástæðu að bílstjórinn veldi þá akrein, hverju sinni, sem skást var við haldið. Svo var ekki meira með það og ekki varð ég var neitt akreinaflakk; sat bara þarna í rútu sem vaggaði alveg sæmilega eftir sem áður.

Segir nú ekki af ferðnni fyrr en komið var í áfangastað í myrkri um kl. 20. Þarna vorum við komin í þorpið Casilda, sem er svona nokkurskonar úthverfi bæjarins Trinidad (sjá kort). Ekki gat maður nú greint hvernig þarna var umhorfs, enda afskaplega mikið myrkur og engin flennigötulýsing.
CAlle Real og La Rosa (mynd af Google maps)

Hópnum var skipt í 5 hús og við þrjú, sem vorum þarna í samfloti vorum sett út við hús sem ber heitið Rósin, Hostal La Rosa, sem stendur, rétt eins og aðrar íbúðir sem hópurinn gisti í, við Calle Real (Real götuna).
Okkur var tekið með kostum og kynjum og hjónin ágætu fóru afskaplega vel með okkur meðan við dvöldum þarna. Úrvalsfólk.

Eftir að töskurnar höfðu verið bornar fyrir okkur, alveg inn á gólf, fór skammur tími í hvíld eftir harla erfiðan dag, áður en haldið var á veitingahús í nágrenninu þar sem lifandi tónlist fór inn um augu og eyru, meðan ofgnótt matar voru gerð skil eins og kostur var á Það var gert um munn, rétt eins og maður gerir yfirleitt.
Hvíldin var kærkomin í notalegum húsakynnum og þar með tek ég mér pásu þar til næst.


Gististaðurinn La Rosa við Calle Real í Casilda.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...