Sýnir færslur með efnisorðinu 1892-1910. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu 1892-1910. Sýna allar færslur

16 ágúst, 2022

Baugsstaðir - 1892-1910 botninn nálgast.

Hér getur fólk af þessari ætt
mátað sig inn, eftir því sem við á.
Þá er komið að smantekt um ári 1892 til 1910. Þetta er talsvert viðameira en ég hafði reiknað með þegar ég, í sakleysi mínu, ætlaði að fá einhverja mynd af þeim jarðvegi sem ég er sprottinn úr í móðurætt.  Við þessa yfirferð vakna margar spurningar, en ég verð að sætta mig við að svör við þeim fást sennilega aldrei.

En, áfram með smjörið.

1892

Það má kannski segja að þetta ár hafi farið í að jafna sig á áföllum síðasta árs. Áfram voru Þau Stefán Jóhann og Guðlaug Jóhannsbörn á Hólum.
Stefán hjá Sigurði Einarssyni (69) og Kristínu Maríu Hansdóttur (65), en Sigurður og Guðmundur á Baugsstöðum voru systkinabörn.
Guðlaug var hjá Hannesi Magnússyni (33), móðurbróður sínum og Þórdísi Grímsdóttur (24). 

Kristín var á Tóftum hjá Einari Sigurðarsyni (36) og Ingunni Sigurðardóttur (28).

Á Baugsstöðum voru þau Elín í austurbænum og Páll í vesturbænum, 5 ára og væntanlega farin að leika sér saman á hlaðinu. Siggeir, 13 ára farinn að taka virkan þátt í bústörfunum.

Hannes Einarsson í Tungu, faðir Jóhanns lést þann 6. október úr brjóstveiki.   

 1893

Nú var farið að líða að kynslóðaskiptum á Baugsstöðum. Þau hófust með því  Magnús Hannesson í austurbænum, 75 ára, lést í júlí úr taksótt, og við tók sonur hans Magnús, 32 ára að aldri. Bústýra hjá honum og síðar eiginkona, var Þórunn Guðbrandsdóttir (24). Þau voru skráð, ásamt Hólmfríði Bjarnadóttur (16) vinnukonu (Fríðu í Hólum), sem önnur fjölskyldan í austurbænum.
Í hinni fjölskyldunni í austurbænum voru bróðir Magnúsar, Jón Magnússon (35) bóndi og ráðskona hans, Helga Þorvaldsdóttir (33). Þriðji bróðirinn. Sigurður Magnússon (24), smiður, var skráður hjá þeim.  
Þessir bræður voru, svona til að halda því til haga, bræður Elínar Magnúsdóttur (39), langömmu minnar, sem nú var allt í einu orðin hluti fjölskyldunnar í vesturbænum, ásamt Elínu dóttur sinni. Hún bar þar titilinn "húskona". Um ástæður þess að þær fluttu sig þarna milli bæja hef ég engar upplýsingar, en þarna voru afi og amma, 6 ára að aldri, orðin hluti af sömu fjölskyldunni, ef svo má segja.
Að gamní mínu set ég hér skilgreiningu vísindavefsins á hugtakinu húskona/húskarl:

Hjú, vinnufólk, griðfólk, karlmenn líka kallaðir húskarlar. Þetta fólk bjó inni á heimilum bænda og hafði oftast vinnuskyldu hjá þeim allt árið. Fyrir það fékk fólk húsnæði (lítið meira en rúm til að sofa í), fæði og líklega oftast vinnulaun, að minnsta kosti karlmenn.

 Að öðru leyti bjuggu þessi í vesturbænum: Guðmundur Jónsson, bóndi (44), Guðný Ásmundsdóttir kona hans (41), Siggeir (14) og Páll (6) synir þeirra. Elín Erlindsdóttir húskona (35) og Jón Ásmundsson (36) vinnumaður.

 1894

Ekkert bar til  tíðinda á Baugsstöðum þetta árið, utan að  Elín Erlindsdóttir, húskona, fór burt.
Stefán Jóhann og Guðlaug voru áfram á Hólum, en Kristín (11) fór í Kampholt í Hraungerðishreppi.

 1895

Magnús bóndi í austurbænum og Þórunn bústýra, eignuðust dótturina Margréti í júní. Að öðru leyti hélt fólkið á Baugsstöðum áfram með daglegt líf. 
Kristín Jóhannsdóttir (12) fór frá Kampholti að Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi. Þar var hún síðan til 1898. Staða Stefáns Jóhanns og Guðlaugar á Hólum var óbreytt.

 1896

Þetta ár fól ekki í sér neitt það sem ástæða hefur verið að skrá í kirkjubækur.

 1897

Í vesturbænum urðu tíðindi, þegar Elín Magnúsdóttir eignaðist dótturina Viktoríu þann 22. febrúar. Hún lýsti Guðmund Brynjólfsson föður að stúlkunni.  Guðmundur var, árið áður, 29 ára gamall, til heimilis hjá foreldrum sínum á Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi, en þar var einmitt einnig dóttir Elínar,  Kristín Jóhannsdóttir, þá 12 ára.  Auðvitað hef ég engar heimildir um það, að hve miklu leyti Elín fylgdist með, eða heimsótti börn sín, sem hún hafði ekki hjá sér, en mér finnst líklegt að hún hafi heimsótt þau og jafnvel dvalið eitthvað á viðkomandi bæjum. Svona hluti geymir hin óskráða saga.

 Það vekur athygli mína að nafn stúlkunnar er þarna skráð "Wictoría" og og væri fróðlegt að vita hvort þessi stafsetning hafi verið frá móðurinni komin.


Í austurbænum bar það til tíðinda, að Sigurði Magnússyni og Ólöfu Þorkelsdóttur fæddist sonurinn Sigurður Þorkell. Hann þekktum við sem síðar sem Þorkel sem var kvæntur Bjarneyju á Ránargötu 9A í Reykjavík. Hann var seinna, í nokkur ár í vesturbænum á Baugsstöðum, eftir að foreldrar hans fluttu til Reykjavíkur, 

Jón Magnússon og Helga Þorvaldsdóttir í austurbænum eignuðust soninn Magnús, í september, en hann dó hálfum mánuði síðar úr krampa.

 1898

Á þessu ári voru 8 sálir skráðar í vesturbænum og þar varð engin breyting. Í austurbænum  fæddist Guðlaugur Magnús Sigurðsson í október, en hann dó 7 vikna gamall.
Vigfús Ásmundsson (39) bróðir Guðnýjar kom í vesturbæinn frá Stóra Hrauni.
Kristín Jóhannsdóttir (16) fór frá Sóleyjarbakka að Högnastöðum í Hrunamannahreppi

 1899

Hér urðu nokkur þáttaskil þegar Magnús Magnússon, bóndi í austurbænum lést um miðjan september úr „innvortis meini“. Hann var 36 ára og nýtekinn við búinu.

Til Jóns Magnússonar (41) snikkara og Helgu Þorvaldsdóttur (38) voru komnir tveir tökudrengir, þeir Jón Kristjánsson (10) og Ólafur Gunnarsson (3). Helga var föðursystir Ólafs, en móðir hans lést við fæðingu hans.

Í vesturbænum var ekki heldur tíðindalaust, en Guðlaug Jóhannsdóttir (17) kom frá Hólum.

Þarna voru þau Páll og Elín orðin 12 ára og Siggeir tvítugur. Jón Ásmundsson (37) var enn vinnumaður ásamt bróður sínum Vigfúsi (40).
Kristín Jóhannsdóttir flutti frá Högnastöðum, eftir ársvist, í Roðgúl á Stokkseyri.

 1900

Þá er það aldamótaárið.   Sigurður  og Ólöf í austurbænum eignuðust  soninn Guðmund, í maí, en hann dó hálfs mánaðar gamall úr naflakviðsliti.  Þau fluttu til Reykjavíkur 1902.

Þó svo áfram hafi verið fjölskyldutengsl milli bæjanna á Baugsstöðum, meðan Jón Magnússon lifði, en hann lést 1921, hyggst ég hér eftir einbeita mér að vesturbænum, ekki síst til að flækja ekki málin um of.
Við vitum það mörg, að Ólafur Gunnarsson, fóstursonur Jóns og Helgu, tók þar við búi eftir fóstra sinn og varð að Óla í austurbænum.
Vigfús Ásmundsson fór að Framnesi á Skeiðum og Jón bóðir hans fór einnig burtu.

Í sóknarmannatali þetta ár voru þessir einstaklingar skráðir í vesturbænum:
Guðmundur Jónsson (52) bóndi
Guðný Ásmundsdóttir (47) kona hans
Siggeir Guðmundsson (21) sonur þeirra
Páll Guðmundsson (13) sonur þeirra
Elín Magnúsdóttir (43) húskona
Elín Jóhannsdóttir (13) dóttir hennar
Viktoría Guðmundsdóttir (3) dóttir hennar
Guðlaug Jóhannsdóttir (18) dóttir hennar.

Tuttugasta öldin hefst.

Svo held ég inn í tuttugustu öldina og væntanlega verður fólk og viðburðir æ þekktari í elsta hópnum sem þetta les.

1901

Guðlaug Jóhannsdóttir (19) fór aftur að Hólum sem vinnukona, en þar hafði Sæmundur Þórðarson tekið við búi af Sigurði Einarssyni, sem lést 1899. Þau Guðlaug og Sæmundur gengu í hjónaband, eignuðust son og fluttu síðan til Reykjavíkur 1903. Þau urðu einnig foreldrar Kristínar Maríu (Stínu Maríu) meðal annarra barna. Stefán Jóhann (18) fór með þeim til Reykjavíkur.
Þá eru tvö barna þeirra Elínar Magnúsdóttur og Jóhanns Hannessonar úr sögu þessari að mestu og með þeim voru ættmenni horfin á braut frá Hólum.

Kristín Jóhannsdóttir (18) flutti frá Roðgúl á Stokkseyri í Skipholt í Hrunamannahreppi. þar var hún þar til hún kom að Baugsstöðum árið 1904.

1902

Siggeir Guðmundsson varð þarna 23 ára og kominn á giftingaraldur.  Hann hefur án efa verið búinn að taka eftir Kristínu Jóhannnsdóttur, ekki síst á meðan hún var í Roðgúl. Nú var hún hinsvegar í Skipholti og hver veit hvernig þetta þróaðist allt saman. Kannski eitthvert ykkar sem þetta lesa. 

Þá má reikna með að 15 ára unglingarnir á Baugsstöðum, þau Elín og Páll, hafi verið farin að velta ýmsu fyrir sér.

1903

Það varð til tíðinda, að Sigurður Þorkell Sigurðsson (6) var kominn á bæinn sem tökubarn.  Sannarlega veit ég ekki ástæður þess, en foreldrarnir fluttu til Reykjavíkur árið áður. Vel kann að vera að föðursystir hans, Elín Magnúsdóttir, hafi tekið hann að sér, ekki síst til að fá leikfélaga handa Viktoríu, en þau voru jafnaldrar.

1904

Þar kom að því að Kristín Jóhannsdóttir (21) kom aftur á Baugsstaði, en frá því faðir hennar lést, var hún búin að vera á Tóftum, Kampholti, Sóleyjarbakka, Högnastöðum, Roðgúl og Skipholti, en hún kom einmitt frá Skipholti.  Þarna var hún skráð sem vinnukona. Þarna var Siggeir orðinn 25 ára.

Kristín og Siggeir

 1905

Hjónaband þeirra Kristínar og Siggeirs, sem var innsiglað þann 10. nóvember 1905, hefur líklega ekki komið neitt á óvart og haft talsvert lengri aðdraganda en það tæpa ár sem Kristín hafði verið á Baugstöðum. Þetta var annar tveggja stórra viðburða í vesturbænum þennan veturinn.

 1906

Rúmum fjórum mánuðum (þann 24. mars) eftir að þau gengu í hjónaband, eignuðust þau Siggeir og Kristín fyrsta barn sitt, Guðmund Siggeir.

1907 - 1908

Allt óbreytt í vesturbænum, en örugglega ýmiskonar gerjun í gangi, ef að líkum lætur.

1909

Þann 12. ágúst kom Jóhann Siggeirsson í heiminn. Hann var skírður í Stokkseyrarkirkju.

1910

Það kom að þvi að Elín Jóhannsdóttir, 23 ára, hleypti heimdraganum og færi aðeins út í heim. Hún gerðist „vetrarstúlka“ hjá hjónunum Sigurði Thoroddsen og Maríu Kristínu Thoroddsen á Fríkirkjuvegi 3 í höfuðborginni. Þetta þýðir samkvæmt mínum skilningi, að hún hafi verið í borginni á veturna, en komið í sumarstörfin á Baugsstöðum. Sigurður var á þessum tíma menntaskólakennari og verkfræðingur.
Elín virðist hafa verið vetrarstúlka í borginni til vorsins 1917 og góð vinátta hélst með henni og Thoroddsen fjölskyldunni ævina á enda, og vináttan erfðist, að minnsta kosti í kvenlegg. Þannig var María Louisa, barnabarn Sigurðar og Kristínar "sumarstúlka" í Heratúni nokkur ár.

Kannski keypti amma jólagjafirnar þarna.

Fátt er vitað af Elínu í borginni í þessi ár, en það verður að reikna með að sveitamennskan hafi aðeins rjátlast af henni. Ætli Páll hafi haft áhyggjur?  Voru þau yfirleitt nokkuð að pæla í einhverri framtíð saman? 

Áður en ég fer lengra út í einhverjar spurningar sem engin svör eru fáanleg við, ætla að ég láta staðar numið í bili. Svo held ég áfram þar sem frá er horfið hér og fer að feta slóðir þar sem þekking í þessum hópi fer hratt vaxandi, en ég hef allta kirkjubækurnar til að styðjast við. Ekki ljúga þær - eða?


FRAMHALD

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...