Systkinin Guðlaug Jóhannsdóttir (1882-1965) og Stefán Jóhann Stefánsson (1885-1968) |
---------------------
Aðeins meira um Elínu á þeim tíma sem hún var vetrarstúlka
hjá Sigurði Thoroddsen og Maríu Kristínu, konu hans.
Í minningargrein um Elínu, sem Kristín Anna Kress
skrifaði kemur fram að Elín hafi verið 8 vetur á Thoroddsen heimilinu, en á
sumrin hafi hún unnið við Baugsstaðarjómabúið. Þá kvaðst Elín Ingólfsdóttir hafa heyrt, að Elín hefði í einhver sumur starfað í Viðey, en þar hafi þá verið einhver
búskapur.
1912-1913
Hvað um það, áfram hélt lífið á Baugsstöðum og árið 1912 fæddist þeim Kristínu og Siggeir sonurinn Ásmundur. Elín birtist í sóknarmannatali sem lausakona, en hefur þá líklega verið eitthvað tímabundið á þeim tíma sem presturinn skráði fólkið á bænum. Hún var einnig lausakona árið 1913.
Fæðing Ásmundar skráð, árið 1926 |
Kristín og Siggeir bættu í barnahópinn þegar eina dóttir
þeirra fæddist, Sigurlaug kom í heiminn þann 6. febrúar.
Á þessu ári lagði Viktoría Guðmundsdóttir land undir fót
og er sögð hafa farið til Vestmannaeyja.
Annað sem þetta ár fól í sér í vesturbænum var, að Sigurður Þorkell Sigurðsson,
sem áður er nefndur sem tökubarn, var orðinn 17 ára og hvarf á braut, líklegast
til foreldra sinna í Reykjavík. Hann hafði verið á Baugsstöðum frá árinu 1903.
Fæðing Sigurlaugar skráð. |
Það kom annað barn í staðinn, Kristín María Sæmundsdóttir, 8 ára, skráð sem hreppsómagi. Systir hennar Laufey, 6 ára, var skráð með sama hætti í Gerðum þetta ár. Þær voru dætur Guðlaugar Jóhannsdóttur og Sæmundar Þórðarsonar, sem fluttu til Reykjavíkur árið 1903. Þar virðast þau hafa skilið (sem aðrir en ég vita sennilega meira um). Ekki fæ ég betur séð en Guðlaug hafi verið hjú í Gaulverjabæ árið 1916 -197, en ég elti hana ekki uppi frekar.
Loks má geta þess, að veturinn 1914-15 var á Baugsstöðum vetrarstúlkan Kristrún Guðjónsdóttir (20) og nýfæddur sonur hennar, Erlingur Dagsson. Lýstur faðir hans var Dagur Brynjólfsson, sem var sonur Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi, sem var bróðir Guðmundar bónda, sem þarna hefur talið það skyldu sína að koma bróðursyni sínum til aðstoðar. Kristrún hvarf á braut með vorinu. Dagur var faðir Dags (Dadda), Ingibjargar (Imbu Dags) og Bjarna, sem við könnumst mörg við.
Ýmislegt í gangi og varasamt að reyna að elta það allt
uppi, þó það gæti verið áhugavert.
Var allt með nokkuð kyrrum kjörum og fólkið það sama og
árið áður.
Hér virðist langamma, Elín, hafa tekið sér ársleyfi frá
lífinu á Baugsstöðum, en hún var aftur komin árið eftir.
Það er rétt að taka saman hvaða fólk gisti vesturbæinn á
Baugsstöðum, samkvæmt sóknarmannatali á þessu ári:
Guðmundur Jónsson, bóndi, 68 ára.
Guðný Ásmundsdóttir, kona hans, 64 ára.
Páll Guðmundsson, sonur þeirra, vinnumaður, 30 ára.
Siggeir Guðmundsson, sonur þeirra, vinnumaður, 38 ára.
Kristín Jóhannsdóttir, kona hans, 34 ára.
Guðmundur Siggeir Siggeirsson, sonur þeirra, 11 ára.
Jóhann Siggeirsson, sonur þeirra, 8 ára.
Ásmundur Siggeirsson, sonur þeirra, 5 ára.
Sigurlaug Siggeirsdóttir, dóttir þeirra, 3ja ára.
Elín Jóhannsdóttir, vinnukona, systir húsfreyju,
vinnukona, 30 ára.
Elín Magnúsdóttir, móðir Elínar og Kristínar, vinnukona,
61 árs.
Kristín María Sæmundsdóttir, á sveit, 11 ára.
Það sem gerðist á árinu 1918 átti heldur betur eftir að
umturna lífi fólksins í vesturbænum.
Guðmundur |
Það var ekki nema rúmur mánuður liðinn af árinu, þegar Guðmundur bóndi féll frá á 69. aldursári. Banamein hans var sagt vera heilablóðfall. Þar með var komið að Siggeir að taka við keflinu. Fimmta barn þeirra, sonurinn Sigurður, fæddist 10. mars.
Þann 1. desember lést Siggeir eftir slys. Frásagnir í
blöðum eru svipaðar: Siggeir Guðmundsson, bóndi Baugsstöðum við Stokkseyri
fanst örendur í fjörunni fyrir framan bæinn. Hafði farið að reka saman fje, en dottið
í grjótinu og fengið banahögg eða orðið snögglega ilt og ekki komist úr stað.
Þetta var nokkru fyrir jólin.
Siggeir |
Ég læt hér fylgja minningargrein sem „kunnugur“ skrifaði í Tímann:
Æfiminning
þeirra feðganna Guðmundar Jónssonar
bónda á Baugstöðum og Siggeirs sonar hans.
Guðmundur var fæddur á Minna-Núpi 24. október 1849, sonur
Jóns Brynjólfssonar og Margrétar dóttur Jóns Einarssonar hreppstjóra á
Baugstöðum og seinni konu hans Sesselju Ámundadóttur frá Eystra-Geldingarholti
í Gnúpverjahreppi. Var Ámundi þjóðhagasmiður, listfengur og skurðhagur vel.
Eitt af verkum eftir hann er altaristafla í Gaulverjabæjarkirkju, smíðuð 1775.
Ættartölur verða ekki raktar hér, það hefir verið gert í æfiminningum Brynjólfs
frá Minna-Núpi, bróður hans. Var Guðm. heitinn hjá foreldrum sínum þar til hann
var 25 ára, þá fór hann til Reykjavíkur og Iærði járnsmíði hjá Jónasi
Helgasyni. 1878 fór hann að Haga í Gnúpverjahreppi og giftist sama ár Guðnýju, dóttur
Ámunda [Ásmundar] Benediktssonar frá StóruvöIIum í Bárðardal.
Veturinn 1882 losnuðu hálfir Baugstaðirnir úr ábúð. Átti
móðir hans nokkuð af þeim helming og vildi láta hann taka jörðina, og mun þar
mestu hafa valdið trygð hennar við æskustöðvarnar, þvi jörðin var rýr
ágangsjörð. Honum féll ekki jörðin en vildi þó fara að ráðum móður sinnar, hún
hafði fram að því lagt honum beztu ráðin og gefíð honum bezta veganestið, gott
andlegt uppeldi.
Minna-Núpssystkyn máltu segja eins og Ben. Gröndal: »Mín
kendi móðir mitt að geyma hjarta trútt þótt heimur brygðist«.
Harða vorið 1882 flutti Guðmundur að Baugstöðum. Bú hans
var mjög lítið. Jörðin var niðurnídd, ekki steinn yfir steini. Hann varð að
velta í rústir og byggja á ný. Reisti hann Iítinn bæ Iaglegan, girti túnið og
varði það mikið fyrir ágangi. Guðmundur var í rauninni ekki búhneigður en hafði
þó mikla ánægju af öllu jarðræktarstarfi og mikla tilfinning fyrir fegurð
náttúrunnar. Guðmundur stundaði smíðar eftir því sem tíminn leyfir einyrkjanum.
Hann var vel skurðhagur þótt hann legði það ekki fyrir sig. Hann lagði hönd á margt
og gerði alt vel. — Listgefnina mátti oft sjá. Rétt fyrir aldamótin 1900
smíðaði Guðm. líkingu af gömlu torfkirkjunni á Stóra-Núpi, var það fyrir milligöngu
Brynjólfs bróður hans, en gerð fyrir forngripasafnið. Þótti líkingin góð og var
hann beðinn að gera aðra og urðu þær að lokum þrjár. Það þótti Guðm. ilt, að
fyrsta og lakast gerða líkingin er hér á forngripasafninu, en hinar seldar til
útlanda, sú síðasta á Parísarsýninguna.
Guðmundur var greindur vel, glaðlyndur, gestrisinn og
ræðinn við gesti sína enda fjölfróður, — hann hafði aldrei að umtalsefni
framkomu náungans, lét sig annara mál litlu skifta, var laus við öfund, leitaði
aldrei eftir uppgripagróða, en lagði áherzlu á að ávaxta vel sitt pund, hann
skifti sér lítið af sveitamálum en fylgdist vel með um landsmál.
Guðmundur bjó allan sinn búskap á Baugstöðum. Þau hjón
eignuðust 6 börn, dóu 4 þeirra ung en 2 synir náðu fullorðins aldri, Siggeir,
dáinn 1. des. 1918 og Páll sem enn er á Baugstöðum.
Guðmundur dó af heilablóðfalli 6. febrúar 1918. Það er
ekki ósennilegt að Guðmundur hafi verið á skakkri hillu í lífinu, og svo mun
honum hafa fundist sjálfum. En um það er ekki að fást, því það hafa svo margir
orðið að þola. Og hvað sem um það er, þá virðist Guðmundur hafa leyst hlutverk
sitt vel af hendi. Er því nú lokið og hann kominn yfir landamærin, en minning
hann lifir í þakklátum hugum eftirlifandi samferðamanna.
------------------------------
Siggeir, sonur Guðmundar var fæddur í Haga 10. júní 1879,
og var hjá foreldrum sinum alla tíð. Svo virðist oft sem minna liggi eftir unga
menn en raun er á. Veldur því hve um munar smiðshöggið. Siggeir á söguna stutta
en eftirtektarverða. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum. Strax þegar kraftar
leyfðu tók hann að bæta jörðina og húsakynnin. Sást það snemma að Siggeir var
ósérhlífinn, vildi altaf vera þar sem mest á reyndi og hættan var mest. Var
þetta ekki fyrir fordildar sakir heldur af eðlishvöt. Meðan Siggeir var enn
innan við tvítugt, var afli mjög tekinn að þverra fyrir Loftsstaðasandi, en
hann hafði verið aðal lífsviðurværi bænda þar um slóðir, landbúnaðurinn
hinsvegar lítill og bágborinn. Voru horfurnar því óglæsilegar, og vildi
Guðmundur þá, sem sá hvað að fór, að þeir flyttu til Reykjavíkur. Lagðist
Siggeir á móti því, kvað Ieitt að yfirgefa gamalt ættaróðal, og þótt það væri
rýrt og erfitt, þá mundi þó mega bæta það, ekki hlýddi að allir flýðu
erfiðleikana, einhver yrði að vera þar sem erfitt væri, væri það enginn vandi
að gera gott úr góðu. Á þessi hugsunarháttur erindi til ungu kynslóðarinnar,
því bann ber vott um stöðuglyndi sem á virðist bresta, og trú á sigri yfir
erfiðleikunum. Enda lét Siggeir ekki lenda við orðin tóm, hann fórnaði sér
fyrir hugsjón sína og er kominn langt með að fullkomna framkvæmd hennar er hann
fellur frá. Siggeir var enginn augnabliksmaður, hann alheimti ekki daglaunin að
kveldi. Hann var atkvæða verkmaður, vandvirkur og mikilvirkur, enda var hann
óefað mestur jarðabótamaður í Stokkseyrarhrepp síðustu 10-15 árin. Hann hafði
mikinn áhuga fyrir öllum framförum verklegum og andlegum, var andlega vel
gefinn hafði sérlega góðar námsgáfur, hann var örlyndur og meirlyndur.
Trúhneigður þó ekki bæri á því á yfirborðinu.
Siggeir giftist 10. nóv. 1905, Kristínu dóttir Jóhanns
Hannessonar frá Tungu og lifir hún mann sinn ásamt 5 börnum. Ekki vildi Siggeir
þó taka við búi föður sins að því leyti að vera talinn fyrir, hann vildi láta
föður sinn hafa sómann af verkum sínum, taldi sig altaf vinnumann, sýndi með
því hvað hann var laus við metnaðargirnd og sérplægni. Hann var góður
eiginmaður og umhyggjusamur faðir, lét hann sér ant um að öllu sem hann hafði
yfir að ráða liði vel, bæði mönnum og skepnum. Hans er sárt saknað af vinum og
vandamönnum og þeir munu altaf minnast hans með þakklæti fyrir samvinnuna og
stóru og vel unnu verkin í þarfir þeirra og ókomna tímans. Siggeir dó 1. desember
1918, var að reka fé frá sjó, hefir að líkindum dottið og dáið af byltunni.
Kunnugur. (Tíminn 6. febrúar 1919)
Ég læt hér einning fylgja minningarljóð um Siggeir,
sem birtist í Heimilisblaðinu 1. júní, 1919
Siggeir
Guðmundsson frá Baugstöðum.
F. 10. júni 1879.
— D. 1. des. 1918.
Ber oss tíminn
breiðu spjólin,
beiskra harma
kveður lag.
Andláts fregna
hörðu hótin
heyrast nærri
sérhvern dag.
Margra fá er meina
bótin,
myrkva slær á
andans hag.
þarfri burt kipt stoð
og vörn.
Eiginmanninn
syrgir svanninn,
sáran föður gráta
börn.
Segir þjóð: „Hví mætum
manni
er mörkuð stund
svo ósanngjörn?“
honum verða' á bak
að sjá.
Hlekkur þeirra’ úr
festi´ er farinn,
fast sem treysta
mátti á.
Heimilisins heitur
arinn
hefir fallið nið’r
í dá.
Hví er burtu
hrifin öndin,
hugsjón dýrri sem
að ann?
Hví er stirðnuð
hrausta höndin,
háleitt starf er
þráði’ og vann?
Hví eru ástar
brostin böndin,
bönd, sem naut og
festi hann?
skynsemin in huldu
ráð,
Drottins
skapadóma’ og vegi;
duldri speki það
er háð.
Og þótt hjartað
bölið beygi,
bregzt ei mildi
hans og náð.
Lifðu æðra sæmdur
seimi,
sælla heima guða
ranns.
Beinin þótt að
gröfin geymi,
gleymist eigi nafn
þess manns,
sem með dáðum hér
í heimi
heiðurs vann sér dýrstan
kranz.
Vinur.
Páll og Elín 1962 |
Þegar presturinn skráði fólkið í vesturbænum í október þetta ár, var Páll Guðmundsson, 31 árs orðinn bóndi og Kristín Jóhannsdóttir „búandi ekkja“, með börnin sín fimm. Elín Jóhannsdóttir var vinnukona og móðir hennar einnig. Þarna var einnig Guðný Ásmundsdóttir, ekkja og Kristín María, sem enn var skráð „á sveit“.
Á jóladag gengu þau Páll og Elín í hjónaband, í
vesturbænum.
Guðný Ásmundsdóttir lést þann 18. maí, 66 ára að aldri og
þann 7. október fæddist Páli og Elínu fyrsta barnið, dóttir sem fékk nafn ömmu
sinnar. Guðný Pálsdóttir var komin til sögunnar.
1921
Það var einskonar logn í vesturbænum á þessu ári.
Guðný og Elín Ásta |
Þann 12. apríl eignuðust Páll og Elín dótturina Elínu Ástu.
Á Baugsstöðum dvöldu þeir áfram, bræðurnir Guðmundur Siggeir (16) og Ásmundur (10). Guðmundur var á Baugsstöðum til 1932 og Ásmundur til 1944 eða 1945.
Vigfús Ásmundsson (63), móðurbróðir Páls kom aftur á
Baugsstaði og var þar vinnumaður til 1932, þá orðinn 72 ára.
Jóhann og Sigurlaug Siggeirsbörn komu á Baugsstaði á
þessu ári, en Jóhann var farinn aftur innan árs, en Sigurlaug var áfram til
1927.
1925
Þriðja barn Páls og Elínar, Siggeir, fæddist þann 6.
júlí.
Í stað Jóhanns Siggeirssonar, var bróðir hans Sigurður (8) kominn á bæinn en dvaldi þar ekki nema ár eða svo. Þau Sigurlaug fluttu þá með móður sinni og stjúpa að Læk í Ölfusi árið eftir.
Sigurður Pálsson |
Þann 30. maí fæddist fjórða barn Elínar og Páls, sonurinn Sigurður. (Siggi var fram eftir aldri skráður sem Sigríður í sóknarmannatölum, af ókunnum ástæðum).
Á þessum árum gerðist það helst, að Hólmfríður
Bjarnadóttir (Fríða í Hólum) kom á bæinn 1931 og var þar til 1936.
Elín Magnúsdóttir með dóttursoninn Siggeir (held ég) |
Hér drep ég á það helsta sem gerðist í vesturbænum á
Baugsstöðum þessi ár, samkvæmt prestþjónustubókum.
Sigurlaug Siggeirsdóttir kom til dvalar ásamt nýfæddri
dóttur sinni, Sigríði Ísafold Ísleifsdóttur, sem fæddist í júní 1935. Þær
mæðgur voru á Baugsstöðum að minnsta kosti til ársins 1945, þegar þessari
samantekt minni lýkur.
Ættmóðirin, Elín Magnúsdóttir, sem sannarlega mátti muna
tímana tvenna, lést í hárri elli þann 11. apríl, árið 1944 og náði því ekki að
upplifa lýðveldið Ísland. Mér finnst við
hæfi að ljúka þessu verki, með dauða hennar.
Hver veit nema ég „fabúleri“ eitthvað um þessa sögu Baugsstaðaættarinnar
í næstu framtíð – ef ég þori.
---------------------------------------------
Í tilefni af því að öld var liðin frá fæðingur móður minnar, Guðnýjar Pálsdóttir, í október 2020, tók ég saman ýmislegt um ævi hennar í nokkrum færslum. Fyrsta færslan.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli