19 ágúst, 2022

Baugsstaðir - epilogus

Sigurður Pálsson í stofunni í vesturbænum, 2013
 Það er fjarri mér að efast um það, að fólkið sem tilheyrir þeirra ætt sem ég er nú búinn að reyna að skilja betur, sé öndvegisfólk upp til hópa. Jafnframt viðurkenni ég, að upplýsingarnar sem ég byggi þessa niðurstöðu á, eru að langmestu leyti fengnar úr kirkjubókum: prestþjónustubókum og sóknarmannatölum og það má alveg ímynda sér að sumt hafi prestar bara ekki fengið að vita um, enda hefðu vafasamar upplýsingar í þeirra höndum getað verið afdrifaríkar. 

Ætli fólkið sem hefur haldið ættinni lifandi gegnum aldirnar, sé bara ekki eins og annað fólk; breyskt, á ýmsan máta.  

Ævagömul klukka í 
vesturbænum. 

Í uppvextinum heyrði ég ýmislegt, og á fullorðinsárum hef ég heyrt ýmislegt til viðbótar, jafnvel sitthvað sem ég vil helst ekki trúa, um forfeðurna.  Ég hef heyrt ýjað að ýmsu misjöfnu sem aldrei yrði um getið í minningargreinum um fólk.  Meðal annarra bresta sem svifið hafa í grennd  við eyrun á mér eru drykkjuskapur, framhjáhald, rangt feðruð börn og jafnvel það sem enn verra er. Ýmislegt af þessu tagi hefur helst komið til tals í hvíslingum fólks og þannig borist milli kynslóða.  
Uss, uss, ljótt er ef satt er! 
Ég held, að við sem nú lifum, værum harla litlu bættari með að grafast fyrir um bresti af þessu tagi, sem eflaust má finna heimildir um í höfðum einhverra okkar. Það sem við getum kannski helst gert, er að læra af og heita því að reyna að vera eitthvað betri.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að láta kyrrt liggja. Látum sofandi hunda í friði. 

----------------

Ég fékk að kynnast afa og ömmu á Baugsstöðum talsvert, en þó minna en þau ykkar sem beinlínis ólust upp á Baugsstöðum. Mamma var afar dugleg við að viðhalda sambandi við foreldra sína og við systkinin fylgdum auðvitað þar með. Minningar sem ég ber síðan um gömlu hjónin, eru flekklausar. "Guð blessi allt góða fólkið mitt", var viðkvæðið hjá ömmu þegar Hveratúnsfjölskyldan steig út úr Land Róvernum hlaðinu fyrir framan vesturbæinn. Hún fórnaði höndum í einlægri gleði yfir gestunum og faðmaði að sér ungviðið, dótturina og tengdasoninn. Afi var fremur hæglátur og tjáði ekki með sama hætti tilfinningar sínar til okkar, en aldrei fann ég til annars en væntumþykju hans gagnvart mér, þó ekki minnist ég þess að hann hafi haft hátt um hana.. Mér finnst ágætt að hafa þessar minningar um afa og ömmu. Fyrst þau voru svona gott fólk, hef ég enga ástæðu til að hugsa til foreldra þeirra eða systkinabarna, nú, eða annarra forfeðra með öðrum hætti.

Elín Magnúsdóttir og dóttir hennar Elín
Jóhannsdóttir og börn þeirrar síðarnefndu:
f.v Guðný, Elín Ásta og Siggeir. (ca. 1926)
Annað fólk sem tilheyrði þessari fjölskyldu hefur mér alltaf fundist vera ósköp hlýtt í viðkynningu, en vissulega eru ansi margir áratugir síðan ég hitti þau elstu í fermingarveislum á Baugsstöðum, eða í Hveratúni. Þarna voru þau Gummi og Halldóra, Silla og Ingólfur, Ási og Bogga. Ég man minna eftir öðrum börnum Siggeirs og Kristínar, sonunum Jóhanni og Sigurði.  Finnst ég þó muna eftir því að í eina fermingarveisluna kom annar þessara bræðra og konan hans beið úti í bíl á meðan hann kíkti á  fermingarbarnið og veislugesti. 

Ég þarf auðvitað varla að taka það fram, að fjölskyldur bræðra mömmu hafa verið og eru með ágætum, en ónefndir mættu þó ganga í gegnum endurskoðun á pólitískum viðhorfum, en það telst varla með. 

Tvö ártöl

Eins og sjá má af samantektinni úr kirkjubókunum, standa tvö ár upp úr, sem umbyltu lífi fólksins á Baugsstöðum, þannig að sú ævi sem það hefði getað átt, var síðan allt önnur. 

Þegar Jóhann Hannesson lést sumarið 1891, má segja að fjölskylda hans og Elínar Magnúsdóttir hafi splundrast. Ef allt hefði nú gengið vel, hefðu þau mögulega tekið við búi í austurbænum af foreldrum Elínar og þannig hefði Baugsstaðaættin átt alla jörðina áfram.

Ekki varð áfallið minna árið 1918. Þá lést Guðmundur Jónsson í febrúar og Siggeir sonur hans tók við búinu. Það blasti við, að hann og Kristín myndu ala þarna upp börnin sín fimm. Þarna var óljóst hvað Páll hefði tekið sér fyrir hendur að óbreyttu. Það má meira að segja velta því fyrir sér, hvernig farið hefði með hjúskap hans og Elínar, sem var þarna búin að dvelja á vetrum í Reykjavík í ein átta ár. Hugsanlega hefði hann flutt á mölina með henni.  Fannst þeim mögulega eitthvað undarlegt við það, eftir að hafa alist upp nánast sem systkini frá barnæsku, að giftast og fara að eignast börn?   

Reiðarslagið sem Baugsstaðafjölsyldan varð fyrir í byrjun desember þetta ár, þegar Siggeir lést eftir slys, setti flest úr skorðum í lífi fólksins í vesturbænum.  Það má segja að framtíð þess hafi sundrast í einu vetfangi.
Árið eftir gengu Páll og Elín í hjónaband og hann tók við búinu. Kristín fór skömmu síðar til Reykjavíkur með þrjú barna sinna, til að finna aftur fótfestu í lífinu, en tveir sona hennar urðu eftir á Baugsstöðum til fullorðinsára, hjá afa og ömmu, og dóttir hennar kom svo síðar aftur á æskustöðvarnar þegar Kristín hafði gifst á ný og flutt að Læk í Ölfusi.

Siggeir er sagður hafa afstýrt því, að fjölskyldan flytti frá Baugsstöðum, ef marka má það sem "Kunnugur" skrifaði í minningarorðum um feðgana: 

Meðan Siggeir var enn innan við tvítugt, var afli mjög tekinn að þverra fyrir Loftsstaðasandi, en hann hafði verið aðal lífsviðurværi bænda þar um slóðir, landbúnaðurinn hinsvegar lítill og bágborinn. Voru horfurnar því óglæsilegar, og vildi Guðmundur þá, sem sá hvað að fór, að þeir flyttu til Reykjavíkur. Lagðist Siggeir á móti því, kvað Ieitt að yfirgefa gamalt ættaróðal, og þótt það væri rýrt og erfitt, þá mundi þó mega bæta það, ekki hlýddi að allir flýðu erfiðleikana, einhver yrði að vera þar sem erfitt væri, væri það enginn vandi að gera gott úr góðu.

Þessi sami "Kunnugur" segir einnig, að Guðmundur Jónsson (langafi) hafi sest að á Baugsstöðum fyrir orð móður sinnar. Að sögn hans voru Baugsstaðir "rýr ágangsjörð", sem Guðmundi féll ekki. Þá var bú Guðmundar lítið og honum mun frekar hafa hugnast smíðar en búskapur.   

Sennilega afmæli á 7. áratugnum. Fremst sitja f.v. Magnús Skúlason, Guðný Pálsdóttir,
Páll Guðmundsson, Elín Jóhannsdóttir og Sigríður Ísafold.
Fyrir aftan þau standa Benedikt Skúlason og Guðný Siggeirsdóttir.
Standandi þar fyrir aftan Elín Ásta Skúladóttir, Sigrún Ingibjörg Skúladóttir, Páll Magnús Skúlason, Þórarinn Siggeirsson, Una Kristín Georgsdóttir Dyrving, Elín Siggeirsdóttir Svanborg Siggeirsdóttir og Sigurlaug  Siggeirsdóttir.
Aftast standa Skúli Magnússon, Páll Siggeirsson, Siggeir Pálsson, og Sigurður Pálsson.

Það er sannarlega ýmislegt sem hefur áhrif á líf okkar mannfólksins. Það eina sem við getum verið nokkuð viss um á lífsgöngunni er, að framundan er alltaf óvissa. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það. 

Hver verður nú framtíðin á Baugsstöðum, þegar yngsti sonur þeirra Páls og Elínar er farinn úr vesturbænum, orðinn 94 ára, til dvalar á hjúkrunarheimili?  Þeirri spurningu get ég ekki svarað, enda Baugsstaðir svo sem ekki annað fyrir mér en ættarsaga og minningar frá æskuárum.

 


Afkomendur Elínar og Páls á Baugsstöðum hittust á ættarmóti árið 2009


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...