Sýnir færslur með efnisorðinu saga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu saga. Sýna allar færslur

07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.



Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessar asveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

18 september, 2022

Kvistr eða Kvistur

"Vantar ekki U í logoið ykkar?"
Svarið við þessari spurningu, sem við höfum fengið nokkrum sinnum er: "Nei, aldeilis ekki!
Það væri vissulega vandræðalegt, ef ég hefði klikkað svo rosalega á prófarkalestri merkisins, að gleyma einum bókstaf í eina orðinu sem er að finna í því.  Það er hinsvegar svo, að ég gleymdi engum staf. Orðið á bara að vera eins og það er og var alltaf ætlað að vera svona; KVISTR, en ekki KVISTUR.
"Hvaða stælar eru það eiginlega?" spyr þá einhver.

Auðvitað eru það stælar, en það sama má segja um ansi mörg svona merki. 

Nú ætla ég að útskýra þetta allt saman, eftir fremsta megni og síðan vísa ég bara á þetta, þegar einhver spyr hvort ekki vanti U í lógóið.

Upphafið


Saga þessa merkis, eins og það er í grunninn, er orðin ansi löng, eða til ársins 1982, þegar verið var að slá upp fyrir kjallaranum í verðandi íbúðarhúsi okkar í Kvistholti. Þá var þar veggur, sem mér fannst að þyrfti einhverja skreytingu á og negldi því lista innan á mótin, einhverskonar "lista" verk sem gaf til kynna að þar væri um einhverskonar plöntu að ræða.  Svo var steypu hellt í mótin og innan hæfilegst tíma voru þau fjarlægt og þá birtist  verkið, sem síðan hefur, í grunninn, fylgt okkur, í einhverju formi. 

 Þar kom, þegar brauðstritinu lauk og þegar málverk og leirfígúrur tóku að myndast í dyngju fD, tók ég mig til og teiknaði upp veggskreytinguna og sú útgáfa varð síðan táknmynd fyrir það sem við Kvisthyltingar tókum okkur fyrir hendur.

Svo fluttum við í annað sveitarfélag, nýtt umhverfi og breyttur raunveruleiki. Það þótti heppilegur tímapunktur til að uppfæra þetta merki og síðan hefur það smám saman verið að taka yfir eldra merkið. 
Meðal þess sem prýðir nýjustu útgáfuna er þetta orð: KVISTR. Meginástæðan fyrir því að þar sleppti ég U-inu er sú, að mér tel að allt sem við gerum eigi sér með einhverjum hætti, sögulega tilvísun. Án fortíðarinnar, værum við ekkert. 
Þar sem ég hóf, á svipuðum tíma, að taka þátt í hópi sem kemur saman og les íslenskar fornsögur, fann ég leið til að vísa í sögu okkar í merkinu: ég bara sleppti U-inu.  Ef einhver ykkar sem þetta lesa skilja ekki enn hvernig u-leysið getur vísað til sögu okkar, læt ég duga að setja hér fyrir neðan, upphafsorð Brennu-Njáls sögu:

Íslensk fornrit, XII bindi, Brennu-Njáls saga.
Einar Ól. Sveinsson gaf út
Hið íslenzka fornritafélag - Reykjavík - MCMLIV





06 ágúst, 2022

Baugsstaðir á hundavaði - landnám til 1883 (2)

Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum.
F.v. Siggeir Pálsson (1925-2001), Elín Jóhannsdóttir (1887-1980),
Sigurður Pálsson (1928 - ), Guðný Pálsdóttir (1920 - 1992)
Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum. 
Í fyrri þætti þessarar samantektar er rennt yfir þann hluta Baugsstaða, sem Einar Jónsson keypti í stólasölunni árið 1788. Hér er samskonar grein gerð fyrir hinum hluta jarðarinnar: þeim sem Magnús Jónsson keypti. Sem fyrr byggir þetta að langmestu leyti á riti Guðna Jónssonar, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gaf út 1952. Einnig á prestþjónustubókum og sóknarmannatölum Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsókna.


Magnús Jónsson - (1715-1797) bjó á Baugsstöðum 1775-1797. 
Magnús bjó áður á Stokkseyri og kona hans var Ólöf Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Brynjólfssonar á Baugsstöðum (sjá fyrri þátt) og þar með afkomandi Brynjólfs "sterka". 
Magnús og Ólöf eignuðust tvo syni: Bjarna eldri og Bjarna yngri, sem síðan bjó á Leiðólfsstöðum. 

Ólöf Bjarnadóttir (1726-1805) - bjó eftir mann sinn á Baugsstöðum til 1805.
Ólöf bjó góðu búi og var jafnan talin fyrir meðan hún lifði, en Bjarni eldri, sonur hennar stóð fyrir búinu.

Bjarni eldri Magnússon (1762-1807) - bjó með Ólöfu móður sinni til dauðadags 1807. 
Bjarni var vel efnaður og nam dánarbú hans rúmum 1800 ríkisdölum. Átti hálfa Baugsstaði og Götu í Stokkseyrarhreppi.
Kona Bjarna var Elín Jónsdóttir, hreppsstjóra á Stokkseyri Ingimundarsonar. Þau áttu einn son, Magnús á Grjótlæk, en um hann hef ég ekkert fundið frekar, en vísað er til hans í Bergsætt, 115-116 - hvað sem það nú þýðir.

Elín Jónsdóttir  (1778-1853) - ekkja Bjarna var í góðum efnum. Giftist Hannesi Árnasyni á Baugsstöðum. Þau eignuðust Magnús Hannesson, sem varð síðar langafi Elínar Jóhannsdóttur (sjá mynd efst), sem flestir sem komnir eru til vits og ára, ættu nú að kannast við, en hún var t.d. amma mín.  
Hér erum við, sem sagt, að tala um austurbæinn á Baugsstöðum. 

Hannes Árnason (1777-1846) - byggði Baugsstaði frá 1808-1844.
Hannes var efnabóndi og formaður. 
Elín og Hannes eignuðust 5 börn og þar var yngsti sonurinn, Magnús Hannesson, sem tók við jörðinni af foreldrum sínum.

Magnús Hannesson (1818-1893) - bjó á Baugsstöðum frá 1854-1892. 
Magnús var áður bóndi á Fljótshólum, en þangað fluttu foreldrar hans þegar hann tók við Baugsstöðum. 
Magnús var góður bóndi. Kona hans var Guðlaug Jónsdóttir (1826-1890). Þau eignuðust 9 börn en sex þeirra náðu að verða fulltíða: Jón Magnússon í Austur Meðalholtum(1851-1921), Elín Magnúsdóttir (1854-1944), Jón Magnússon  (1857-1934), Hannes Magnússon bóndi í Hólum (1858-1937), Magnús Magnússon (1862-1899) og Sigurður Magnússon (1869-1926) smiður á Baugsstöðum. 

Magnús Magnússon (1862-1899) - bjó á Baugsstöðum frá 1892- til dauðadags 1899.
Magnús dó af "innvortis meini", 36 ára gamall. Kona hans var Þórunn Guðbrandsdóttir í Kolsholti. 
-----------
Svo segir Guðni Jónsson: "Um þessar mundir bjuggu hver um sig nokkur ár á Baugsstöðum, þeir Jóhann Hannesson, áður í Eyvakoti, Hannes Magnússon, síðar í Hólum og Sigurður Magnússon smiður, en ekki höfðu þeir jarðnæði."  
Það er eiginlega þarna sem málin fara að flækjast verulega og ég ætla mér að reyna að gera þessum umbrota og umskiptatímum skil í sérstökum þætti.
-----------
Jón Magnússon (1857-1899), var bóndi í austurbænum frá 1897-1933. 
Jón var sonur Magnúsar Hannessonar og tók við þegar bróðir hans, Magnús, lést.  Kona  Jóns var Helga Þorvaldsdóttir í Brennu í Flóa, Þorvaldssonar.  Guðni Jónnson segir í riti sínu, að þessi hjón hafi eignast einn son, en að hann hafi dáið ungur.  Umræddur son dó úr krampa, 9. september, 1897, 9 daga gamall og hafði fengið nafnið Magnús.  
Sama ár tóku hjónin að sér 8 ára dreng, Jón Kristjánsson, sem kom frá Bollastöðum. Hann var síðan hjá þeim til 15 ára aldurs. Hann drukknaði árið 1913 við England. 
Árið 1899 tóku þau Jón og Helga að sér annan dreng, 3ja ára, bróðurson Helgu. Þarna var kominn til skjalanna Ólafur Gunnarsson (1896-1984), sem ávallt var kallaður Óli í Austurbænum.  
Móðir Ólafs Guðríður Oddsdóttir á Ragnheiðarstöðum, lifði fæðingu Ólafs ekki af, en hún varð 24 ára.

04 ágúst, 2022

Baugsstaðir á hundavaði - landnám til 1883 (1)

Baugsstaðir líklega á 3. áratug 20. aldar.
Líklegast er það Páll Guðmundsson, afi minn, sem 
stendur úti á hlaði með hendur á mjöðm.
(mynd frá Baugsstöðum)
Það sem hér fer á eftir byggir að langmestu leyti á riti Guðna Jónssonar, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gaf út 1952. Einnig á prestþjónustubókum og sóknarmannatölum Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsókna.

Verði áhugasömum að góðu.

Jörðin Baugsstaðir er elsta byggt ból í Stokkseyrarhreppi og jörðin er kennd við Baug Rauðsson, fóstbróður Ketils hængs. Ekki meira um Íslendingasögur.

Um 1270 átti Þeóbaldus Vilhjálmsson frá Odda jörðina og hafði þá kaup á henni við Árna biskup Þorláksson: lét biskup fá Baugsstaði, en tók í staðinn Dal undir Eyjafjöllum. Baugsstaðir voru síðan stólsjörð fram undir lok 18. aldar, eða í meira en 5 aldir.  Þegar stólsjarðirnar voru síðan boðnar upp 1788, keyptu  þáverandi Baugsstaðabændur, Magnús Jónsson (sjá síðari færslu) og Einar Jónsson, jörðina, 23 hundruð og 80 álnir, fyrir 154 ríkisdali 72 skildinga. 

Brynjólfur “sterki” Hannesson - á Baugsstöðum 1703-1722

Árið 1703 var Brynjólfur “sterki” Hannesson (1654-1722) kominn að Baugsstöðum, en hann var farinn á búa á Skipum 1681 og var þar til 1697. “Hann var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi, gildur bóndi og efnaður vel. Hann var lögréttumaður í Árnesþingi á árunum 1688-1710 og naut trausts og virðingar. Hann var annálaður kraftmaður og hraustmenni og kallaður “hinn sterki”. Er til saga ein er sýnir það og er hún á þessa leið:

«Svo er sagt, að ferðamaður einn hafi flutt á gráum hesti tvö heilanker með brennivíni, og reið dálítil stelpa ofan á milli. Þessi maður neitaði Eiríki á Vogsósum um brennivín og sagðist ekkert hafa. Fór Eiríkur heim við það. Segir nú ekki af ferð mannsins fyrr en hann kemur austur á Sandamót. Þá fer Gráni að draga fram undan, ok kom hann að ferjustaðnum í Óseyri, áður en lestin kom svo nærri að hún sæist. Margir ferðamenn voru fyrir við ferjustaðinn og var einn þeirra Brynjólfur bóndi á Baugsstöðum, orðlagður kraftamaður.  Gráni lagði þegar út í , en Brynjólfur var nærstaddur og vildi taka hann, en varð of seinn til að ná í beizlið. Þreif hann þá annarri hendi stelpuna, en hinni undir klyfberabogann og tók svo fast í að gjarðirnar slitnuðu; fór Gráni austur yfir allslaus en Brynjólfur hélt eftir klyfberanum, ankerunum og stelpunni, en reiðingurinn datt í ána. Þegar Eiríki var sagt frá þessu svaraði hann:» Sterkur maður er Brynjólfur á Baugsstöðum, heillin góð!».» (Huld 1. b. bls. 132)

Brynjólfur var tvíkvæntur. Seinni kona hans var Vígdís Árnadóttir (1659) frá Súluholti. Frá þeim er komin svokölluð Baugstaðaætt.

Brynjólfur og Vígdís bjuggu einbýli á Baugsstöðum, og með þeim hófst jörðin aftur til forns vegs og virðingar. Niðjar þeirra hafa búið á Baugsstöðum nær óslitið síðan.  Þau áttu nokkur börn, meðal annars Bjarna Brynjólfsson.

Bjarni Brynjólfsson (1695 - um 1758).  Á Baugsstöðum 1722-1758.

Bjarni var með efnuðustu bændum hreppsins. Hann var lengi hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi. Bjarni og kona hans Herdís Þorsteinsdóttir frá Hróarsholti,  eignuðust dótturina Vilborgu Bjarnadóttur (1730). Herdís bjó áfram góðu búi á Baugsstöðum eftir lát Bjarna og var talin ein fyrir jörðinni til ársins 1775.

Vilborg Bjarnadóttir (1730)

Vilborg giftist Einari Jónssyni (1719-1796) úr Skúmsstaðahverfi á Eyrarbakka. Hann var áður fyrir búi Herdísar, tengdamóður sinnar. Einar var einbirni og erfði allmikil efni og hann bjó góðu búi.  Hann var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi á árunum 1768-1775.

Frá árinu 1775 hafa Baugsstaðir verið tvíbýli.

---------- 1788 - Einar og Magnús kaupa Baugsstaði ----------

Einar keypti hálfa Baugsstaði 1788, þegar stóljarðirnar voru seldar, á móti Magnúsi Jónssyni (sjá framhaldsfærslu). Vilborg eignaðist með manni sínum Einari Jónssyni (1719-1796), soninn Jón Einarsson.

Hér fyrir neðan er rennt yfir eigendur þess hluta Baugsstaða sem Einar Jónsson keypt, en um hluta Magnúsar Jónssonar er fjallað í næsta þætti: HÉR

Jón Einarsson (1765-1824)

Jón var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi í 31 ár, en lét af því embætti 1823, vegna sjónleysis og talið að þá hafi hann verið orðinn alblindur. Hann var lengi formaður og var meðal annars á sjó þegar Guðmundur sonur hans drukknaði í Tunguósi árið 1810.  

Jón var góðmenni og gæflyndur og virðist hafa verið mannúðarmaður. Hann var efnaður vel og góður bóndi. Dánarbú hans nam nærri 900 ríkisdölum og voru þar í jarðirnar hálfir Baugsstaðir, Eystra-Geldingaholt, Sumarliðabær í Holtum og partur úr Kirkjuferju í Ölfusi.

Jón var tvíkvæntur, en síðari  kona hans var Sesselja Ámundadóttir (1778-1866), dóttir Ámunda Jónssonar, smiðs í Syðra-Langholti. Þau eignuðust meðal annars dótturina Margréti Jónsdóttur. Eftir lát Jóns var Sesselja skráð eigandi á Baugsstöðum nokkra mánuði 1824. Hún giftist aftur, Þorkeli bónda Helgasyni sem taldist eigandi jarðarinnar frá 1824 til 1826. Hann mun ekki hafa unað á Baugsstöðum, þar sem hann hneigðist frekar að sauðfé en sjóróðrum. Því hafði hann ábúðarskipti  við Ólaf Nikulásson í Eystra-Geldingaholti, en Sesselja, kona Þorkels, átti báðar jarðirnar.

Þau Sesselja og Þorkell voru barnlaus, en Margrét, dóttir hennar og Jóns Einarssonar, erfði hálfa jörðina eftir móður sína. Frá því Jón lést og til 1849, þegar Guðmundur Jónsson (sjá neðar) kom til sögunnar, bjuggu afkomendur Brynjólfs ”sterka” ekki á Baugsstöðum, en helmingur jarðarinnar var áfram í eigu þeirra.  Frá 1826, á þeim hluta Baugsstaða sem tilheyrði þessum afkomendu, bjuggu Ólafur Nikulásson (1826-1846, Solveig Gottsvinsdóttir (1846-1853, Guðrún Guðmundsdóttir 1853-1875 og Þorsteinn Teitsson 1876-1882.

Margrét Jónsdóttir (1804-1897)

Margrét giftist Jóni Brynjólfssyni (1803-1873) bónda á Minna-Núpi. Fyrir utan það, að þau voru foreldrar Brynjólfs, fræðimanns (1838-1917), eignuðust þau soninn Guðmund Jónsson ásamt allmörgum öðrum börnum.

Margrét tók hluta eignarhluta föður síns, Jóns Einarssonar, í arf eftir hann og sá hlutur gekk síðan til  Guðmundar Jónssonar, sonar hennar. 
Bróðir hennar Einar Jónsson í Hólum erfði hinn  hlutann, sem síðan gekk til sonar hans Bjarna (f. 19. maí 1837) og loks einnig til Guðmundar Jónssonar.


Guðmundur Jónsson
(1849-1918).

Guðmundur kvæntist Guðnýju Ásmundsdóttir frá Haga í Gnúpverjahreppi og þau eignuðust tvo syni, Siggeir Guðmundsson (1879-1918) og Pál Guðmundsson (1887-1977).

Guðmundur var kominn á Baugsstaði, árið 1861, þá 13 ára, sem vikadrengur hjá Guðrúnu Guðmundsdóttir ekkju (45) og Jóni Einarssyni, fyrirvinnu (39). Hann var síðan skráður þar til 1866 sem léttadrengur og síðan sem hjú, hjá Magnúsi Hannessyni (1818-1893) og Guðlaugu Jónsdóttur (1826-1890), foreldrum Elínar Magnúsdóttur, sem síðar giftist Jóhanni Hannessyni.

Það var svo árið 1883 að Guðmundur er kominn á Baugsstaði ásamt konu sinni Guðnýju Ásmundsdóttur og 4ra ára syni, Siggeir. Árið 1887 eignuðust þau hinn son sinn, Pál, afa minn.

 Guðlaug Jónsdóttir lést árið 1890 og Magnús Hannesson árið 1893.

Svo fóru málin að flækjast.

Næst greini ég frá þeim eigendum jarðarinnar, sem keyptu hinn hlutann, þarna í lok 18. aldar.


FRAMHALD

08 maí, 2021

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niður læknissetur árið 1922 og kaupin voru formlega frágengin 1923. 
Það má auðvitað velta fyrir sér hversvegna það þurfti að kaupa heila jörð, um það bil 350 hektara, fyrir læknissetur, svona í ljósi þess að núna duga 3 hektarar vel fyrir alla þessa starfsemi, þó hún sé orðin margfalt umfangsmeiri en fyrir einni öld.  
Jú, vissulega var gert ráð fyrir því þá, að héraðslæknirinn framfleytti sér og sínum með búskap til hliðar við læknisstörfin, en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Laugarásjörðin var sem sagt keypt að þar byggt læknissetur.  Árið 1946 hætti héraðslæknirinn að vera bóndi í hjáverkum og síðan hefur hreint engin augljós ástæða verið fyrir því að Laugaráshérað eigi þessa jörð, enda Laugaráshérað ekki til lengur. Það hljóta samt að vera ástæður fyrir því að enn í dag eiga uppsveitahrepparnir jörðina.


Ástæða þess að ég fjalla aðeins um þetta hér og nú, er, að í morgun sýndi Facebook mér minningu frá þessum degi fyrir fjórum árum. Þar er um að ræða pistil sem ég skrifaði, í tilefni af því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafði samþykkt þá skoðun að eðlilegt væri að hrepparnir seldu jörðina.

Seld eða leigð 

Síðan þá er ég orðinn nokkru vísari um þessi mál.

Oddvitanefndin, það er að segja, nefnd oddvitanna sex í uppsveitunum (Biskupstungnahrepps, Hrunamannahrepps, Gnúpverjahrepps, Skeiðahrepps, Grímsneshrepps og Laugardalshrepps) stýrði málum í Laugarási og hittist á fundum einu sinni til tvisvar á ári að jafnaði í því skyni. Þessir félagar fjölluðu þar um stór og smá mál og ég dreg ekki úr því, að án öflugrar aðkomu þessara sex hreppa að uppbyggingu heilsugæslustarfsemi í Laugarási, væri staðan í þeim málum líklega önnur nú.

En Laugarás stækkaði og starfsemi heilsugæslunnar bólgnaði stöðugt. Þar kom að oddvitanefndin kaus undirnefndir, eða stjórnir til að sinna daglegum rekstri heilsugæslunnar og hitaveitunnar í Laugarási. Oddvitarnir héldu áfram að hittast á árlegum fundum og fengu þar skýrslur um starfsemina. 
Þar kom, árið 1979 nánar tiltekið, að þeir komust að þeirri niðurstöðu og það væri sennilega engin ástæða  til þess að þeir væru að reka hitaveitu Laugarási og vildu að Tungnamenn tækju  hana að sér, en þá kom fram einkar áhugaverð tillaga frá Tungnamönnum: 

Gísli Einarsson [oddviti Biskupstungnahrepps] ræddi þessi mál, og vildi hann ræða þessi mál á breiðari grundvelli. Hann sagði að Biskupstungnahreppur vildi gjarnan að þessi mál yrðu tekin vel í gegn og hitaveita verði ekki tekin út úr sér, heldur tæki hreppurinn við öllum eignum héraðsins – nema læknamiðstöðina og þær lóðir sem það þyrfti á að halda – og hitaréttindum.
Gísli gerði að tillögu sinni, að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu eða keypti hana. (fundargerð 07 04 1979)


Með þessari tillögu fór allt á hreyfingu. Það var fjallað um málið í öllum hreppsnefndum og Tungnamenn beðnir að setja fram "einhverjar hugmyndir eða tilboð um leigu eða kaup á jörðinni, sem gætu orðið umræðugrundvöllur hjá hreppsnefndum hinna hreppanna." (fundargerð 20 07 1979).

Svo leið eitt ár og hreppsnefndirnar höfðu fjallað enn meira um þetta stóra mál:

Svör hreppsnefndanna voru öll jákvæð hvað varði leigu, en sumar töldu sölu varla koma til greina að svo komnu máli.    Fram kom á fundinum að Hagsmunafélag Laugaráss mælir með að Biskupstungnahreppur taki jörðina á leigu. (fundargerð 11 06 1980)

 Í fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps í framhaldinu kom fram að Skeiðahreppur, einn hreppanna hafi ekki viljað selja jörðina. Ég get ímyndað mér að meginástæðan fyrir afstöðu Skeiðahrepps hafi verið, að oddviti Skeiðamanna, Jón  Eiríksson í Vorsabæ, var nánast allt í öllu í Laugarási í áratugi og hafði sterkar taugar til jarðarinnar. 

Hér er svo einnig samþykkt Hagsmunafélags Laugaráss, sem vísað er til:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.


Ekki treysti ég mér til að segja til um hversvegna Hagsmunafélagið kaus að ganga ekki alla leið og skora á Birskupstungnahrepp að kaupa jörðina. Mögulega taldi fólk þann möguleika ekki vera uppi á borðinu og valdi því þann sem meiri líkur voru á að gengi í gegn. Hugsanlega leit það málið þannig að betra væri að hafa hina hreppana í bakhöndinni, ef  Biskupstungnahreppur sinnti Laugarási ekki sem skyldi.  Hvað veit ég svo sem? 

Það varð svo úr, að Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, og samningur um það var undirritaður þann 6. maí 1981. 

Hagsmunir

Voru það með einhverjum hætti hagsmunir hreppanna, sem réðu því að þeir ákváðu að selja Laugarásjörðina ekki?

Ég leyfi mér hér að setja fram tvær tillögur að ástæðum fyrir því að hrepparnir töldu sig hafa hag af því að halda jörðinni í sinni eigu:


1. Hrepparnir sáu fyrir sér, að þeir myndu mögulega í framtíðinni sameinast og sáu í hendi sér að við slíka sameiningu yrði Laugarás sá staður þar sem stjórnsýsla í nýju sveitarfélagi yrði, auk annarra þjónustustofnana sveitarfélagsins og ýmiss konar atvinnustarfsemi. Þeir litu svo á að það myndi auðvelda sameiningu hreppanna, ef þeir ættu allir saman stað sem væri í hjarta uppsveitanna.

2. Hrepparnir voru á þessum tíma að byggja upp eigin þéttbýlisstaði þar sem þeir komu fyrir stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Þeir voru áfram um að byggja upp hver hjá sér og óttuðust að ef þeir seldu Laugarásjörðina myndu þeir missa stjórn á því hvernig þróun byggðarinnar þar yrði. Þeim stóð, sem sagt, ógn af Laugarási og mögulegri uppbyggingu þar.

------------------------------

Hvor þessara tillagna minn aer nær lagi, hef ég ekki hugmynd um, þó sannarlega gruni mig hitt og þetta.



06 febrúar, 2017

Hvernig var vírunum komið fyrir?

Ekki neita ég því, að oft velti ég því fyrir mér, hér áður fyrr, hvernig vírunum sem halda brúargólfinu á Iðubrúnni (Hvítárbrú hjá Iðu). Viti menn, rakst ég ekki á frásögn af því í Mogganum frá því í ágúst 1957, Þar voru á ferð þeir Sverrir Þórðarson, blaðamaður (handahafi blaðamannaskírteinis nr. 3) og Gunnar Rúnar Ólafsson, ljósmyndari.   
Ég birti hér umfjölllun þeirra.






GÓÐU DAGSVERKI LOKIÐ

Við Iðubrú er verið að leggja 12 burðarvíra sem vega 4,5 t. hver. Brúin opnuð í vetur

Það var verið að undirbúa að senda níunda burðarvírinn milli stöpla á hinni nýju hengibrú á Hvítá í Biskupstungum, sem venjulega er kölluð Iðubrú, er við komum þangað austur síðdegis á mánudaginn. Er brúin nú mesta brúarmannvirkið, sem er í smíðum hér á landi, hið veglegasta í hvívetna og mun verða mikil samgöngubót fyrir hinar efri sveitir Árnessýslu. Hófst smíði brúarinnar, sem áætlað er að alls muni kosta 6,5 milljónir króna, árið 1951. Nú eftir um 2 ára hlé við brúarsmíðina, er kominn þangað brúarsmiðaflokkur frá vegamálastjórninni. Er hugmyndin að halda verkinu áfram, þar til brúarsmíðinni er að fullu lokið, og sagði yfirsmiðurinn, Jónas Gíslason, að hann vonaðist til að það gæti orðið í nóvembermánuði n. k.

Þegar hlé var gert á smíði Iðubrúar, var lokið við að steypa báða turna hengibrúarinnar, beggja vegna hinnar straumþungu Hvítár. Eru turnarnir um 20 metra háir. Gera þurfti rammbyggilegar undirstöður, sem í fóru um 500 tonn af sementi og sandi, og í brúna eru nú komin um 70 tonn af steypustyrktarjárni. „Við komum hingað austur fyrir nær hálfum mánuði“, sagði Jónas Gíslason yfirsmiður og hófst þá undirbúningur að því verki, sem nú er verið að vínna þar, að koma fyrir burðarvírum brúarinnar. Verða þeir alls 12, sex hvorum megin. Er hver vír 3 1/8 tomma (8 cm) í þvermál.

Á vestari bakka árinnar er bækistöð brúarsmiðanna, og þar standa tjöld þeirra hlið við hlið og mötuneytisskáli með eldhúsi. Efni er geymt á þessum bakka árinnar, og þar standa t.d. nokkur stór kefli, sem burðarvírinn er undinn upp á. Er á hverju kefli nákvæmlega sú lengd, er með þarf til þess að strengja hann á milli akkeranna, sitt hvorum megin árinnar og er vírinn 173 metrar á lengd. Á hvorum enda er „skór", sem vírinn er fastur í, en skórinn er svo settur á tvær festingar í akkerinu, en síðan er hann festur með tveim heljaröflugum róm.

Vírinn dreginn yfir Hvítá

Við eystri bakka árinnar var allt tilbúið til að hefja vírdráttinn yfir er við komum. Fyrir aftan brúarturninn er togvinda. Frekar grannur stálvír er dreginn yfir ána á vestri bakkann og þar taka nokkrir ungir menn við honum og læsa í burðarvírinn.

Jónas gefur nú merki með handauppréttingu yfir á hinn árbakkann, um það að láta vinduna byrja að vinna. Strákar við vírkeflið hafa það verk með höndum að standa tilbúnir við bremsurnar. — Þetta eru handbremsur, tvö löng járn, sem þeir leggjast á þegar hægja eða stöðva þarf vírkeflið, og er það stálvir sem grípur utan um hjólin á keflinu. — Hraðinn gæti fljótt orðið óviðráðanlegur ef slíkir hemlar væru ekki hafðir á. Uppi yfir okkur — ofan á turninum — standa nokkrir menn tilbúnir við tvær nokkurra tonna krafttalíur til þess að taka á móti vírendanum.

Innan stundar er keflið farið að snúast hægt áfram og vírinn er lagður af stað upp á turninn. Við heyrum skarkalann frá vindunni á hinum bakkanum og drunurnar í loftpressunni, sem dælir lofti í vinduna. Vírendinn er kominn upp undir vinnupallinn mjóa, sem mennirnir uppi á turninum standa á og Jónas gefur stöðvunarmerki yfir ána meðan þeir uppi á stöplinum lyfta vírendanum upp á turninn og fara með hann yfir.

Við höfum orð á því við Jónas yfirsmið, að hann og menn hans séu heppnir með veðrið við þetta erfiða og vandasama verk, því ekki væri neinn öfundsverður af því að þurfa að vinna við þetta í hvassviðri og rigningu.

Kemst upp í vana

Það er satt, sagði Jónas, en það kemst ótrúlega fljótt upp i vana að vinna í nokkurri hæð, en að auki eru þessir menn allir þaulvanir orðnir slíkri háloftavinnu, því margir þeirra eiga að baki alllangan brúðarsmíðaferil En sjálfur þekkir Jónas manna bezt slíka vinnu, því hann hefur verið við smíði fjölda brúa, t. d á Selfossi, Þjórsárbrú og eins austur á Jökulsá á Fjöllum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Enn gefur Jónas merki og mennirnir uppi á turninum fyrir ofan okkur hafa komið vírnum yfir. — Nú liggur vírinn í hjóli, sem auðveldar dráttinn, en þann þyngist nú óðum. Vírendinn hefur farið alveg niður undir vatnsborðið. Úti yfir miðri ánni, sem er rúmlega 90 m breið, hækkar vírinn sig aftur í stefnu á turninn á vestri bakkanum. Nú fer hann rétt fetið áfram, því þyngslin aukast nú mjög, en vírinn vegur sjálfur 4.5 tonn.

Metdagur

Jónas sagði okkur að vírdrátturinn hefði gengið mjög vel þennan dag. Senn var kvöld og þetta var þriðji vírinn á einum og sama degi, sem þarna var kominn alla leið yfir. Það þykir gott að geta gengið frá tveim vírum á einum degi.

Jónas gaf strákunum á keflinu enn merki um að nema staðar. Hann hafði aldrei augun af vírendanum, sem nú var kominn upp að turnbrúninni á vesturbakkanum. Mennirnir, sem verið höfðu í turninum fyrir ofan okkur, voru nú komnir yfir ána til að taka á móti vírnum. Það tekur kringum eina klukku stund að draga vírinn á milli, en metið sögðu strákarnir okkur væri 57 mínútur. Er þá eftir að ganga frá vírunum í akkerunum, sem er erfitt verk og margar hendur þarf við með aöstoð handsnúinna spila, er lyft geta nokkrum tonnum. Það var gaman að sjá þetta verk unnið. Þarna var hver mað- ur á sínum stað og vissi nákvæm lega hvað hann átti að gera. Var þetta mjög vel skipulagður og samhentur vinnuflokkur, allt unnið fumlaust. Hann sagðist vonast til að vírarnir væru allir komnir upp á miðvikudaginn, þ. e. a. s. í gærkvöldi.
— Hvað liggur þá næst fyrir að gera?
Gekk Jónas nú með okkur þangað sem margir járnbitar lágu.
— Þetta eru þverbitarnir undir brúargólfið, sem hver vegur um 650 kg., 24 talsins. Það liggur næst fyrir að koma þeim fyrir í burðarjárnunum, sem aftur eru fest í vírana.
— Þá þurfið þið að fara út á þá?
— Jú, en það er eiginlega með öllu hættulaust, þvi strákarnir standa í kláfferju. Síðan verður svo langbitunum komið fyrir. Þeir eru ekkert smásmíði, þriggja tonna bitar, og síðan hefst smíði sjálfs brúargólfsins og verður það steinsteypt. Vona ég að hægt verði að opna brúna til umferðar í nóvembermánuði næstkomandi.

Hjá ráðskonunum

Að lokum þáðum við hressandi kaffisopa hjá ráðskonunum tveim, sem ýmist eru með mat eða kaffi handa vinnuflokknum, sex sinnum á sólarhring. Það er orðin nokkurra ára reynsla mín. að óvíða fæ ég eins gott kaffi og meðlæti og hjá ráðskonum vegavinnumanna, og þannig var það hjá þeim við Iðubrú. Strákarnir létu vel yfir fæðinu, en ráðskonurnar voru að matbúa kvöldmatinn, sem verða átti kjöt. Á olíukyntri eldavél, sem í eina tíð var sennilega kolavél, stóðu kjötkatlar og súpupottar.
- Þeir fengu saltfisk í dag, sagði önnur ráðskonan, en báðar sögðust þær kunna vel við sig eystra, og hafði önnur verið vestur í Dölum en hin uppi í Hvalfirði. Hún sagði að sér hefði þótt fallegt hjá Fossá, en þar var bækistöðin.
Við kvöddum Jónas Gíslason og menn hans. Einn strákanna ferjaði okkur yfir ána á vestri bakkann, þar sem bíllinn okkar stóð.

Skálholt — Hlöðufell

Ferjumaður sagði okkur að vinnuflokkurinn hefði ákveðið það skömmu eftir komuna austur, að flokksmenn skyldu nota einhvern sunnudaginn, sem ekki yrði farið til Reykjavíkur, til þess að ganga á Hlöðufell, en enn hefðu menn ekki gefið sér tíma til þess. Sumir hefðu ekki enn heimsótt hinn fræga stað helgi og sögu, Skálholt. Frístundirnar hafa farið í að „þjónusta" sjálfan sig, þvo galla, stoppa og annað þess háttar. Við erum ekki á förum héðan, og það gefast vafalaust tækifæri til þess að stunda fjallgöngur og koma í Skálholt, sagðí ferjumaðurinn um leið og hann ýtti kænunni fram í straumharða ána.

Þegar við gengum framhjá akkerinu voru brúarmenn þar að streitast við að festa níunda burðarvírinn fyrir Iðubrú og þann þriðja á sama degi. — Góðu dagsverki var senn lokið.

Sv. Þ.
Sverrir Þórðarson
Gunnar Rúnar Ólafsson

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...