Baugsstaðir líklega á 3. áratug 20. aldar. Líklegast er það Páll Guðmundsson, afi minn, sem stendur úti á hlaði með hendur á mjöðm. (mynd frá Baugsstöðum) |
Verði áhugasömum að góðu.
Jörðin
Baugsstaðir er elsta byggt ból í Stokkseyrarhreppi og jörðin er kennd við Baug Rauðsson,
fóstbróður Ketils hængs. Ekki meira um Íslendingasögur.
Um 1270 átti
Þeóbaldus Vilhjálmsson frá Odda jörðina og hafði þá kaup á henni við Árna biskup Þorláksson: lét biskup
fá Baugsstaði, en tók í staðinn Dal undir Eyjafjöllum. Baugsstaðir voru síðan
stólsjörð fram undir lok 18. aldar, eða í meira en 5 aldir. Þegar stólsjarðirnar voru síðan boðnar upp
1788, keyptu þáverandi Baugsstaðabændur,
Magnús Jónsson (sjá síðari færslu) og Einar Jónsson, jörðina, 23 hundruð og 80 álnir, fyrir 154
ríkisdali 72 skildinga.
Brynjólfur “sterki” Hannesson - á Baugsstöðum
1703-1722
Árið 1703
var Brynjólfur “sterki” Hannesson (1654-1722) kominn að Baugsstöðum, en hann
var farinn á búa á Skipum 1681 og var þar til 1697. “Hann var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi,
gildur bóndi og efnaður vel. Hann var lögréttumaður í Árnesþingi á árunum
1688-1710 og naut trausts og virðingar. Hann var annálaður kraftmaður og
hraustmenni og kallaður “hinn sterki”. Er til saga ein er sýnir það og er hún á þessa
leið:
«Svo er sagt, að ferðamaður einn hafi flutt á gráum hesti tvö heilanker með brennivíni, og reið dálítil stelpa ofan á milli. Þessi maður neitaði Eiríki á Vogsósum um brennivín og sagðist ekkert hafa. Fór Eiríkur heim við það. Segir nú ekki af ferð mannsins fyrr en hann kemur austur á Sandamót. Þá fer Gráni að draga fram undan, ok kom hann að ferjustaðnum í Óseyri, áður en lestin kom svo nærri að hún sæist. Margir ferðamenn voru fyrir við ferjustaðinn og var einn þeirra Brynjólfur bóndi á Baugsstöðum, orðlagður kraftamaður. Gráni lagði þegar út í , en Brynjólfur var nærstaddur og vildi taka hann, en varð of seinn til að ná í beizlið. Þreif hann þá annarri hendi stelpuna, en hinni undir klyfberabogann og tók svo fast í að gjarðirnar slitnuðu; fór Gráni austur yfir allslaus en Brynjólfur hélt eftir klyfberanum, ankerunum og stelpunni, en reiðingurinn datt í ána. Þegar Eiríki var sagt frá þessu svaraði hann:» Sterkur maður er Brynjólfur á Baugsstöðum, heillin góð!».» (Huld 1. b. bls. 132)
Brynjólfur
var tvíkvæntur. Seinni kona hans var Vígdís Árnadóttir (1659) frá Súluholti. Frá
þeim er komin svokölluð Baugstaðaætt.
Brynjólfur
og Vígdís bjuggu einbýli á Baugsstöðum, og með þeim hófst jörðin aftur til
forns vegs og virðingar. Niðjar þeirra hafa búið á Baugsstöðum nær óslitið
síðan. Þau áttu nokkur börn, meðal
annars Bjarna Brynjólfsson.
Bjarni Brynjólfsson (1695 - um 1758). Á Baugsstöðum 1722-1758.
Bjarni
var með efnuðustu bændum hreppsins. Hann var lengi hreppsstjóri í
Stokkseyrarhreppi. Bjarni og kona hans Herdís Þorsteinsdóttir frá Hróarsholti, eignuðust dótturina Vilborgu Bjarnadóttur
(1730). Herdís bjó áfram góðu búi á Baugsstöðum eftir lát Bjarna og var talin
ein fyrir jörðinni til ársins 1775.
Vilborg Bjarnadóttir (1730)
Vilborg
giftist Einari Jónssyni (1719-1796) úr Skúmsstaðahverfi á Eyrarbakka.
Hann var áður fyrir búi Herdísar, tengdamóður sinnar. Einar var einbirni og
erfði allmikil efni og hann bjó góðu búi.
Hann var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi á árunum 1768-1775.
Frá árinu 1775 hafa Baugsstaðir verið tvíbýli.
---------- 1788 - Einar og Magnús kaupa Baugsstaði ----------
Einar keypti hálfa Baugsstaði 1788, þegar stóljarðirnar voru seldar, á móti Magnúsi Jónssyni (sjá framhaldsfærslu). Vilborg eignaðist með manni sínum Einari Jónssyni (1719-1796), soninn Jón Einarsson.
Hér fyrir neðan er rennt yfir eigendur þess hluta Baugsstaða sem Einar Jónsson keypt, en um hluta Magnúsar Jónssonar er fjallað í næsta þætti: HÉR
Jón Einarsson (1765-1824)
Jón var hreppsstjóri
í Stokkseyrarhreppi í 31 ár, en lét af því embætti 1823, vegna sjónleysis og
talið að þá hafi hann verið orðinn alblindur. Hann var lengi formaður og var
meðal annars á sjó þegar Guðmundur sonur hans drukknaði í Tunguósi árið 1810.
Jón var góðmenni
og gæflyndur og virðist hafa verið mannúðarmaður. Hann var efnaður vel og góður
bóndi. Dánarbú hans nam nærri 900 ríkisdölum og voru þar í jarðirnar hálfir Baugsstaðir,
Eystra-Geldingaholt, Sumarliðabær í Holtum og partur úr Kirkjuferju í Ölfusi.
Jón var tvíkvæntur, en síðari kona hans var Sesselja Ámundadóttir (1778-1866),
dóttir Ámunda Jónssonar, smiðs í Syðra-Langholti. Þau eignuðust meðal annars
dótturina Margréti Jónsdóttur. Eftir lát Jóns var Sesselja skráð eigandi á Baugsstöðum nokkra
mánuði 1824. Hún giftist aftur, Þorkeli bónda Helgasyni sem taldist
eigandi jarðarinnar frá 1824 til 1826. Hann mun ekki hafa unað á Baugsstöðum,
þar sem hann hneigðist frekar að sauðfé en sjóróðrum. Því hafði hann
ábúðarskipti við Ólaf Nikulásson í Eystra-Geldingaholti,
en Sesselja, kona Þorkels, átti báðar jarðirnar.
Þau Sesselja og
Þorkell voru barnlaus, en Margrét, dóttir hennar og Jóns Einarssonar, erfði hálfa
jörðina eftir móður sína. Frá því Jón lést og til 1849, þegar Guðmundur Jónsson
(sjá neðar) kom til sögunnar, bjuggu afkomendur Brynjólfs ”sterka” ekki á
Baugsstöðum, en helmingur jarðarinnar var áfram í eigu þeirra. Frá 1826, á þeim hluta Baugsstaða sem
tilheyrði þessum afkomendu, bjuggu Ólafur Nikulásson (1826-1846, Solveig
Gottsvinsdóttir (1846-1853, Guðrún Guðmundsdóttir 1853-1875 og Þorsteinn
Teitsson 1876-1882.
Margrét Jónsdóttir (1804-1897)
Margrét giftist
Jóni Brynjólfssyni (1803-1873) bónda á Minna-Núpi. Fyrir utan það, að þau voru
foreldrar Brynjólfs, fræðimanns (1838-1917), eignuðust þau soninn Guðmund
Jónsson ásamt allmörgum öðrum börnum.
Margrét tók hluta
eignarhluta föður síns, Jóns Einarssonar, í arf eftir hann og sá hlutur gekk síðan til Guðmundar Jónssonar, sonar hennar.
Bróðir hennar Einar Jónsson í Hólum erfði hinn
hlutann, sem síðan gekk til sonar hans Bjarna (f. 19. maí 1837) og loks
einnig til Guðmundar Jónssonar.
Guðmundur Jónsson (1849-1918).
Guðmundur
kvæntist Guðnýju Ásmundsdóttir frá Haga í Gnúpverjahreppi og þau eignuðust tvo
syni, Siggeir Guðmundsson (1879-1918) og Pál Guðmundsson
(1887-1977).
Guðmundur var
kominn á Baugsstaði, árið 1861, þá 13 ára, sem vikadrengur hjá Guðrúnu
Guðmundsdóttir ekkju (45) og Jóni Einarssyni, fyrirvinnu (39). Hann var síðan skráður
þar til 1866 sem léttadrengur og síðan sem hjú, hjá Magnúsi Hannessyni (1818-1893)
og Guðlaugu Jónsdóttur (1826-1890), foreldrum Elínar Magnúsdóttur, sem síðar
giftist Jóhanni Hannessyni.
Það var svo árið
1883 að Guðmundur er kominn á Baugsstaði ásamt konu sinni Guðnýju Ásmundsdóttur
og 4ra ára syni, Siggeir. Árið 1887 eignuðust þau hinn son sinn, Pál, afa
minn.
Guðlaug Jónsdóttir lést árið 1890 og Magnús Hannesson
árið 1893.
Svo fóru málin að
flækjast.
Næst greini ég frá þeim eigendum jarðarinnar, sem keyptu hinn hlutann, þarna í lok 18. aldar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli