Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum. F.v. Siggeir Pálsson (1925-2001), Elín Jóhannsdóttir (1887-1980), Sigurður Pálsson (1928 - ), Guðný Pálsdóttir (1920 - 1992) Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum. |
Magnús Jónsson - (1715-1797) bjó á Baugsstöðum 1775-1797.
Magnús bjó áður á Stokkseyri og kona hans var Ólöf Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Brynjólfssonar á Baugsstöðum (sjá fyrri þátt) og þar með afkomandi Brynjólfs "sterka".
Magnús og Ólöf eignuðust tvo syni: Bjarna eldri og Bjarna yngri, sem síðan bjó á Leiðólfsstöðum.
Ólöf Bjarnadóttir (1726-1805) - bjó eftir mann sinn á Baugsstöðum til 1805.
Ólöf bjó góðu búi og var jafnan talin fyrir meðan hún lifði, en Bjarni eldri, sonur hennar stóð fyrir búinu.
Bjarni eldri Magnússon (1762-1807) - bjó með Ólöfu móður sinni til dauðadags 1807.
Bjarni var vel efnaður og nam dánarbú hans rúmum 1800 ríkisdölum. Átti hálfa Baugsstaði og Götu í Stokkseyrarhreppi.
Kona Bjarna var Elín Jónsdóttir, hreppsstjóra á Stokkseyri Ingimundarsonar. Þau áttu einn son, Magnús á Grjótlæk, en um hann hef ég ekkert fundið frekar, en vísað er til hans í Bergsætt, 115-116 - hvað sem það nú þýðir.
Elín Jónsdóttir (1778-1853) - ekkja Bjarna var í góðum efnum. Giftist Hannesi Árnasyni á Baugsstöðum. Þau eignuðust Magnús Hannesson, sem varð síðar langafi Elínar Jóhannsdóttur (sjá mynd efst), sem flestir sem komnir eru til vits og ára, ættu nú að kannast við, en hún var t.d. amma mín.
Hér erum við, sem sagt, að tala um austurbæinn á Baugsstöðum.
Hannes Árnason (1777-1846) - byggði Baugsstaði frá 1808-1844.
Hannes var efnabóndi og formaður.
Elín og Hannes eignuðust 5 börn og þar var yngsti sonurinn, Magnús Hannesson, sem tók við jörðinni af foreldrum sínum.
Magnús Hannesson (1818-1893) - bjó á Baugsstöðum frá 1854-1892.
Magnús var áður bóndi á Fljótshólum, en þangað fluttu foreldrar hans þegar hann tók við Baugsstöðum.
Magnús var góður bóndi. Kona hans var Guðlaug Jónsdóttir (1826-1890). Þau eignuðust 9 börn en sex þeirra náðu að verða fulltíða: Jón Magnússon í Austur Meðalholtum(1851-1921), Elín Magnúsdóttir (1854-1944), Jón Magnússon (1857-1934), Hannes Magnússon bóndi í Hólum (1858-1937), Magnús Magnússon (1862-1899) og Sigurður Magnússon (1869-1926) smiður á Baugsstöðum.
Magnús Magnússon (1862-1899) - bjó á Baugsstöðum frá 1892- til dauðadags 1899.
Magnús dó af "innvortis meini", 36 ára gamall. Kona hans var Þórunn Guðbrandsdóttir í Kolsholti.
-----------
Svo segir Guðni Jónsson: "Um þessar mundir bjuggu hver um sig nokkur ár á Baugsstöðum, þeir Jóhann Hannesson, áður í Eyvakoti, Hannes Magnússon, síðar í Hólum og Sigurður Magnússon smiður, en ekki höfðu þeir jarðnæði."
Það er eiginlega þarna sem málin fara að flækjast verulega og ég ætla mér að reyna að gera þessum umbrota og umskiptatímum skil í sérstökum þætti.
-----------
Jón Magnússon (1857-1899), var bóndi í austurbænum frá 1897-1933.
Jón var sonur Magnúsar Hannessonar og tók við þegar bróðir hans, Magnús, lést. Kona Jóns var Helga Þorvaldsdóttir í Brennu í Flóa, Þorvaldssonar. Guðni Jónnson segir í riti sínu, að þessi hjón hafi eignast einn son, en að hann hafi dáið ungur. Umræddur son dó úr krampa, 9. september, 1897, 9 daga gamall og hafði fengið nafnið Magnús.
Sama ár tóku hjónin að sér 8 ára dreng, Jón Kristjánsson, sem kom frá Bollastöðum. Hann var síðan hjá þeim til 15 ára aldurs. Hann drukknaði árið 1913 við England.
Árið 1899 tóku þau Jón og Helga að sér annan dreng, 3ja ára, bróðurson Helgu. Þarna var kominn til skjalanna Ólafur Gunnarsson (1896-1984), sem ávallt var kallaður Óli í Austurbænum.
Móðir Ólafs Guðríður Oddsdóttir á Ragnheiðarstöðum, lifði fæðingu Ólafs ekki af, en hún varð 24 ára.
Hér lýkur þessari samantekt, þar sem ég hef reynt að hnoða saman á sem stystan (og skýrastan) hátt nærri 9 alda sögu Baugsstaða í Stokkseyrarhreppi og Gaulverjabæjarsókn.
Framundan er síðan að reyna að koma heim og saman einhverskonar sögu Baugsstaða frá því um það bil 1890 til um það bil 1920, en það ár fæddist móðir mín, Guðný Pálsdóttir, síðar í Hveratúni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli