Annað húsannar er Eyfakot en hitt læknishúsið, eftir því sem ég kemst næst, ennþá. (mynd af sarpur.is) |
Ætli sé ekki rétt að ég byrji bara árið 1874, árið sem danski kóngurinn Kristján IX kom færandi hendi með nýja stjórnarskrá. Er það bara ekki ágætur staður til að byrja á?
Á þeim
tíma eru það aðallega þrír bæir í Flóanum sem þurfa að koma til athugunar:
Tunga, Baugsstaðir og Eyvakot. Þessir fyrrnefndu eru nágrannabæir og loftlínan milli þeirra
ekki nema rúmur kílómetri og vegalengdin eftir núverandi vegi er rétt um tveir
kílómetrar. Byrjum bara á Tungu og Baugsstöðum og síðan bætist Eyfakot á Eyrarbakka
við.
1874
Þarna
1874 bjuggu í Tungu þau Hannes Einarsson. 62 ára og Kristín Bjarnadóttir 55 ára, ásamt
fimm börnum sínum, þeim Bjarna (31), Jóhanni (22), Kristínu (20), Einari
(18) og Guðmundi (16). Auk fjölskyldunnar voru á bænum fertug hjón með 7 ára
dóttur og 16 ára niðursetningur.
Hannes
bjó áður í Kaldaðarnesi.
Í
austurbænum á Baugsstöðum bjuggu þau Magnús Hannesson, 59 ára og kona hans Guðlaug
Jónsdóttir, 49 ára, ásamt sex börnum sínum, en þau voru: Jón (24), Elín (21), Jón (18), Hannes
(17), Magnús (13) og Sigurður (6).
Í
vesturbænum bjó ekkjan Guðrún Guðmundsdóttir (58) ásamt fyrirvinnu og vikadreng
og þau koma í rauninni ekkert við sögu þessa.
Þarna
voru þau Jóhann Hannesson í Tungu og Elín Magnúsdóttir í austurbænum á Baugsstöðum
farin að skjóta sér saman (urðu síðar langafi minn og langamma, fyrir þau ykkar
sem finnst erfitt að fylgja þessu).
1875
Árið eftir höfðu þær breytingar orðið helstar, að Bjarni Hannesson og
kona hans Sólveig Eyjólfsdóttir, höfðu tekið
við búinu í Tungu af foreldrum sínum, og Jóhann var vinnumaður hjá þeim. Þá var
kominn á bæinn 3ja ára dóttursonur gömlu hjónanna, Hannes Sigurðsson, sonur
Ragnheiðar Hannesdóttur, sem þá var flutt að heiman fyrir nokkru.
1876
Á þessu ári fór nú ýmislegt að gerast. Fyrst ber að geta þess, að
Jóhann Hannesson (24) var kominn á austurbæinn á Baugsstöðum og Elín (23),
heimasætan á bænum kynnt sem kona hans. Fjórir bræður hennar voru þá á bænum,
Jón (20), Hannes (19), Magnús (15) og
Sigurður (8). Auk þessa hóps var þarna ekkjan Steinunn Jónsdóttir (66).
Í
vesturbæinn var komið nýtt fólk og óskylt Baugsstaðafólki, Þorsteinn Teitsson
(31) með bústýru og vinnuhjú, en auk þeirra var ekkjan Guðrún áfram, svo og
fyrirvinnan hennar, Jón Björnsson.
1877
Hér eignuðust þau Jóhann og Elín fyrsta barnið sitt, Stefán Jóhannsson.
Þar með voru íbúarnir í austurbænum orðnir níu talsins. Það varð líka fjölgun á hinum bænum og þar
voru níu sálir taldar á þessu ári, án þess að það komi svo sem málinu við hér, en
þar fór Þorsteinn Teitsson fyrir áfram.
1878
Á þessu ári fluttu þau Jóhann (26) og Elín (24) frá Baugsstöðum í Tungu, en þar tók Jóhann við
búsforráðum á öðru býlinu, því sem Bjarni bróðir hans hafði stýrt, en hann,
kona hans og dóttir voru þá horfin á braut. Með þeim í Tungu fór sonurinn Stefán
(2) og þau eignuðust dótturina Guðlaugu (0), en hún fæddist í lok nóvember
þetta ár. Hinu býlinu í Tungu stýrði Jón Magnússon frá Baugsstöðum, bróðir
Elínar.
Í
austurbænum á Baugsstöðum fóru þau Magnús og Guðlaug áfram með búsforráðin. Með
þeim voru þar fjórir synir, Jón yngri, Hannes, Magnús og Sigurður. Á vesturbænum bjó áfram óskylt fólk.
1879
Enn fluttu þau Jóhann og Elín
og það er alveg ástæða til að velta fyrir sér hversvegna þeim gekk svo hægt að
finna sér einhvern varanlegan samastað.
Í lok þessa árs voru þau komin á Eyrarbakka, í Eyfakot/Eifakot. Það er
engu líkara en að Eyfakot hafi verið einhverskonar fjölbýlishús, en á árinu
voru þarna skráð 7 býli með samtals 36
sálum. Það er líka mögulegt að þarna
hafi verið um að ræða nafnlaus smáhýsi eða kot sem voru byggð í landi Eyfakots.
Í fljótu bragði hef ég ekki fundið neitt bitastætt um þetta, en mun reyna áfram
að fá botn í það húsnæði sem þarna var um að ræða. Mér finnst líklegast að þarna hafi verið um
að ræða einskonar þurrabúðir.
Þarna í
Eyfakoti fór lífið ekki mjúkum höndum um Jóhann og Elínu og börn þeirra. Guðlaug lést úr barnaveiki í ágúst og
eftir því sem Siggi tjáði mér hallaði mjög undan fæti hjá hjónunum. Jóhann kvað
hann hafa verið dugandi formann, en að hann hafi farið illa út úr viðskiptum
sínum við áfengið. Að sögn Sigga stunduðu kaupmenn á Bakkanum það, að mæta
niður á bryggju þegar bátarnir komu að með aflann, og veittu þá ótæpilega af
göróttum drykkjum, sem síðan lauk með því að sjómennirnir komu allslausir heim.
Á þessu ári var skráð hjá Jóhanni og Elínu vinnukona, Guðríður Bergsdóttir
(22).
Aðstæður
á Baugsstöðum voru óbreyttar þetta ár á báðum bæjum.
1880
Gerðist ekkert sem ástæða er til að greina frá hjá þessu fólki. Jóhann
var orðinn 28 ára og Elín 27 og sonur þeirra, Stefán varð 3ja ára. Enn var vinnukonan
hjá þeim.
1881
Hér urðu hjónin í Eyfakoti fyrir öðru stóráfalli, þegar sonur þeirra, Jóhann,
sem fæddist þann 12. maí, lést úr kíghósta 1. júní, eftir því sem
prestsþjónustubókin greinir frá.
Hjá þeim var enn vinnukonan Guðríður Bergsdóttir.
Enn var
staðan óbreytt á Baugsstöðum.
1882
Það var hinn 3. júlí þetta ár
sem Guðlaug Jóhannsdóttir fæddist í Eyfakoti. Hún var hinsvegar skráð sem
tökubarn hjá hjónunum í austurbænum á Baugsstöðum árið eftir. Af því má draga þá ályktun, að ekki hafi
lífið í Eyfakoti verið neinn dans á rósum. Þarna var Jóhann orðinn þrítugur,
Elín 29 ára og Stefán 5 ára. Ekki var lengur hjá þeim vinnukona.
Mikil
tíðindi urðu á Baugsstöðum á þessu ári, reyndar var allt óbreytt í austurbænum.
Í vesturbæinn voru flutt þau Guðmundur Jónsson, 33 ára og kona hans Guðný
Ásmundsdóttir, 29 ára. Með þeim var þriggja ára sonur þeirra Siggeir. Þau komu,
ásamt Gróu Magnúsdóttur (26) vinnukonu, frá Haga í Gnúpverjahreppi.
Til
að flækja ekki málin um og, ætla ég að fjalla, í næsta hluta, um ástæður þess
að þessi hjón fluttu á Baugsstaði. Ég ætla því að halda mig við þau Jóhann og
Elínu, enn um sinn, en samt greina einnig frá breytingum á öðum bæjum sem hér
koma við sögu og skipta máli.
1883
Jóhann og Elín í Eyfakoti
eignuðust dóttur þann 28. september á
þessu ári og hlaut hún nafnið Kristín. Þarna
var Stefán sonur þeirra orðinn 7 ára.
1884
Þetta ár var fremur tíðindalítið, allavega í sóknamannatölum eða
prestsþjónustubókum.
1885
Enn knúði dauðinn dyra hjá þeim Jóhanni og Elínu í Eyfakoti. Stefán
sonur þeirra, á níunda ári, lést þann 4. febrúar úr barnaveiki. Þarna voru þau búin að eignast 5 börn. Þrjú
þeirra voru látin og eitt var tökubarn á Baugsstöðum. Hjónin gátu þó glaðst yfir 6. barninu sínu sem
fæddist þann 17. september, syni sem hlaut nöfn beggja látinna bræðra sinna,
Stefán Jóhann.
Allt var
óbreytt á Baugsstöðum þetta árið – nema fólkið bætti við sig einu ári.
1886
Tíðindalítið ár. Það kom þó nýr vinnumaður á vesturbæinn á
Baugsstöðum, Jón Ásmundsson (30), bróðir Guðnýjar.
1887
Þetta ár markar heilmikil tímamót – allavega að því er mig varðar og
einnig mörg ykkar.
Þann 31.
júlí fæddist Páll Guðmundsson í vesturbænum á Baugsstöðum og þann 29. nóvember fæddist Elín
Jóhannsdóttir í Eyvakoti á Eyarbakka. Þau áttu eftir að færast nær hvort
öðru, blessuð.
Í tilefni
af þessu, geri ég hér hlé á umfjöllun, en það kemur meira síðar.
FRAMHALD
Engin ummæli:
Skrifa ummæli