Sýnir færslur með efnisorðinu pallsól. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu pallsól. Sýna allar færslur

11 júlí, 2017

Öfund

Opinber hitamæli fD sýnir 42°C þar sem sólin
hefur náð að skína á hann síðdegis.
Eins og glöggt má sjá er þarna um að ræða
mjög trúverðugan mæli, sem fer  létt með að
tilgreina 25°C hita á pallinum.
Hálf þjóðin er víst búin að fara, að fara eða ætlar að fara á sólarströnd á þessu sumri. Sá hluti þjóðarinnar sem ekki er búinn að fara, er ekki að fara, eða ætlar ekki að fara á sólarströnd á þessu sumri, situr heima undir stöðugum árásum sólarstrandarfaranna á öllum þeim miðlum sem þeir hafa á valdi sínu.
Sendingarnar eru oftast myndrænar; í forgrunni vel sólað fólk (það eru ekki sendar myndir fyrstu dagana þegar tímabil sólbrunans stendur yfir með tilheyrandi andvökubrunanóttum), í bakgrunni er alla jafna sundlaug með túrkísbláu vatni (ekki vegna þess að vatnið er túrkísblátt, heldur málninginin á lauginni) eða blár sjórinn að baki hvítri sandströndinni.
Stundum fylgja þessum myndsendingum hljóð - gleðihróp, köll og hlátur barna (aldrei grátur), leiðbeiningar foreldra til barnanna (passaðu þig nú á hákörlunum, Sigga mín!) eða bein lýsing til áhorfenda á Fróni á því hve þetta er allt dásamlegt.
Hvernig gætu menn líka varið að segja eitthvað annað eftir allan penginginn sem þetta kostar?
Það er ýmislegt sem er ekki minnst á, t.d. þetta sama veður dag eftir dag, aldrei hlé, aldrei svalandi gola, aldrei regnskúr,  aldrei möguleiki á að klæða frá sér hitann.  Það er heldur aldrei minnst á sandkornin milli svitastorkinna tánna eða í öðrum skorum líkamans, það er aldrei minnst á allt vatnsþambið, svo ekki sé nú minnst á tilgangsleysi þess að fá sér bjórsopa, sem ekki breytir neinu til eða frá. Loks má ekki gleyma öllum hinum túristunm sem komnir eru þarna til að flatmaga líka og gera ekki neitt nema ef vera skyldi að eyða heilasellunum í að úthugsa aðferðir til að ná í sólbekk á góðum stað, hlaupandi út á sundlaugarbakka kl. 3 að nóttu til að taka frá bekk.
Öfund?
Nei, ætli það.
Opinber hitamælir fD, sem hún hefur komið fyrir á pallinum  - í skugga, nema síðdegis, sýnir nú á þriðja degi 25°C. Um það er engu logið, enda hefur fD sjálf séð um að tilkynna um mælingar sínar með reglulegu millibili.. Hinumegin við húsið er annar mælir, sem síður er tekið mark á, sem sýnir bara 17°C.
Ég er búinn að fá aldeilis nóg af þessu sólskini í bili og get fagnað því að á morgun er von á hressandi SA-átt með kærkomninni rigningu. Það má ekki bregðast.

Loks má ég til með að nefna það, í framhjáhlaupi, auðvitað, að framundan er tími þar þar sem ég hyggst skreppa á suðrænar strendur, á árstíma þegar það er kalt og dimmt á Fróni, meðan sumarsólstrandarfararnir, takast á við  skammdegisþunglyndið.
Þá skal ég senda nokkur snöpp.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...