Sýnir færslur með efnisorðinu tenór. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu tenór. Sýna allar færslur

28 mars, 2016

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður.



 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

14 febrúar, 2016

Í raun afar merkilegt - Hljómaskál

Georg Kári, Unnur Malín, Hreiðar Ingi
Ég viðurkenni það strax, að þegar kemur að tónlist verð ég að teljast í hópi þeirra sem, þegar þeir eru spurðir um uppáhalds tónlist, sem ég hef reyndar aldrei verið spurður um, finna helst eitthvað við sitt hæfi í fortíðinni, hvort sem það er svokölluð klassísk tónlist, eða meira léttmeti.  Því vil ég halda til haga að ég tel mig ekki eiga uppáhalds neitt, hvort sem það er tónlist eða annað.
Að þessu sögðu greini ég frá því, að nú sit ég í súpunni í hlutverki mínu sem tenór í kirkjukór. Súpan felst í því að það eru að spretta fram tónskáld með sterkar tengingar við Laugarás, sem senda frá sér hvert tónverkið á fætur öðru, sem tenórinn ég hef sogast inn í flutning á.

Ég hef áður greint frá því að óvenju öflug sveit doktora á rætur í Laugarási og nú get ég bætt við tónskáldum. Reyndar ætla ég nú ekki að gera meira úr því en ástæða er til, en þrjú tónskáld, með umtalsverðan snertiflöt við Þorpið í skóginum kynna verk sín í Skálholtskirkju, miðvikudaginn  17. febrúar, næstkomandi. Flytjendur á þessum tónleikum verða Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar, Kammerkór Suðurlands sem Hilmar Örn Agnarsson stýrir og Duo harpverk, en þar leika þau  Frank Aarnink á slagverk and Katie Buckley á hörpu.

Tónskáldin sem um er að ræða eru Unnur Malín Sigurðardóttir, sem bjó fyrir skömmu í Laugarási, en er nú flutt á Reykjavelli, Hreiðar Ingi Þorsteinsson sem ólst upp í Launrétt í Laugarási, hjá Rut og Gylfa, en hann er sonur Rutar og Georg Kári Hilmarsson, sem eyddi barnæskunni í Skálholti, sonur Hilmars Arnar og Hófíar, en Skálholt er nú samasem Laugarás.

Tónleikarnir, Hljómaskál eru stórmerkilegir, ekki bara fyrir ofangreinda tengingu tónskáldanna við Laugarás, heldur ekki síður fyrir þær sakir, að þarna verða frumflutt ein 5 eða sex verk.

Sögulegur viðburður framundan:

Hljómaskál í Skálholti
miðvikudagur 17. febrúar
kl. 19:30




12 desember, 2015

Sópraninn vildi komast hærra

Staður: Skálholtsdómkirkja
Tími: 11. desember 2015
Tilefni: Jólatónleikar

Framundan var flutningur kóra úr uppsveitum með einsöngvurum, orgeli, trompet og klarinett á verki efti Sigvalda Kaldalóns, Kirkjan ómar öll. Því verður ekki á móti mælt að einhverjir tenórar báru nokkurn kvíðboga fyrir einni nótu í umræddu verki.

Forsaga málsins var sú, að við upphaf æfinga á þessu verki var það eins og hvert annað verk sem æft var; tenórinn dansaði um nóturnar, áreynslulaust þó svo ein nóta undir lok hvers erindis hafi tekið nokkuð á. Það var ekkert annað en áskorun og þetta var hið besta mál. Með þessum hætti var verkið æft nokkrum sinnum og það var að komast góð mynd á það.
Við þær aðstæður gerðist það allt í einu að einn sópraninn tjáði þá skoðun sína að sópranlínan lægi of lágt. Einhverjir fleiri sópranar tóku undir þessa skoðun.
Það vita þeir sem hafa sungið í kór, að það er ekki hægt að hækka þá línu sem ein rödd syngur, nema hinar hækki líka. Þar sem þarna var um að ræða athugasemd frá þungavigtarsópran varð það að ráði að stjórnendur hækkuðu verkið um heiltón, sem er alveg slatti (leiðr. það var hækkað um þríund, sem mun vera umtalsvert meira en heiltónn, sem gerir afrek tenóranna enn meira). Sannarlega myndi þetta þá einnig hækka háu nótuna sem áður er nefnd um heiltón (leiðr. þríund) líka.
Nú er það þannig, að tenórar eru í eðli sínu miklir sjentilmenn og þrátt fyrir mögulegar afleiðingar hækkunarinnar, tjáðu þeir sig tilbúna að takast á við verkið heiltón  (leiðr. þríund) hærra.
Í stuttu máli varð það úr og ekkert annað að gera en freista þess að pússa röddina einu þannig að ekkert brysti þegar á reyndi. Á æfingum gekk þokkalega að takast á við nótuna, ekki síst vegna þess að engir voru áhorfendurnir, en það var auðvitað alltaf ljóst að þegar stundin rynni upp á tónleikum, yrðu áhorfendur.  Það þarf ekkert að fjölyrða um, að það er í eðli tenóra að leggja sig ávallt fram um að röddin komist sem best til skila til áheyrenda og þá oft á kostnað þess hvernig þeir birtast áhorfendum.

Þá vík ég aftur að tónleikunum sjálfum og flutningi verksins.

Í þeirri útgáfu verksins sem þarna var skyldi flutt, syngur kórinn þrjú erindi, en inn á milli syngja sópran og tenór einsöng í millikafla.
Þar sem flutningur verksins var að hefjast; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnandi og kór klár, gerðist það, að tenórinn sem átti að fara að syngja einsöngsþátt sinn, ákvað að segja áhorfendum lítillega frá verkinu, sem var í góðu lagi auðvitað. Hinu var erfiðara að kyngja, að í kynningunni bað hann áhorfendur  að fylgjast sérstaklega með tenórunum í kórnum, því þeir fengju sko að taka á honum stóra sínum. Þarna varð því ljóst, að áhorfendur myndu einbeita sér að framgöngu tenóranna í þessu lagi, sem er auðvitað alltaf eðlilegt, en þarna gæti kastljósið mögulega sýnt flytjendur raddarinnar einu á heldur viðkvæmu augnabliki.

Flutningurinn hófst með tenórraddirnar í ofangreindum forgrunni. Ég, sem fyllti þarna flokk allmargra glæsilega uppsveitatenóra, var búinn að fara í gegnum leikskipulagið að svo miklu leyti sem ég myndi geta haft stjórn á því.  Ég hafði engar áhyggjur af áheyrendum, en gerði mér grein fyrir því að áhorfendur gætu mögulega orðið fyrir nokkru áfalli, en mér tækist ekki að halda tjáningu minni og innlifun í flutningnum í lágmarki.  Þarna varð að finna einhvern þann  meðalveg sem gæti talist ásættanlegur.
Tónninn nálgaðist og ég fann mig vera að missa tökin á  meðalveginum. Ég fann hvernig mér hitnaði smám saman í andlitinu (sem fól væntanlega í því að roði færðist yfir það). Þar sem tónninn eini datt inn fannst mér eins og allt andlitið færi sínar eign leiðir við að fylgja tóninum eftir, ýta honum úr hálsinum og yfir til áheyrendanna án efa á  kostnað upplifunar áhorfendanna.

Á hápunktinum fannst mér, að ténórinn sem beindi svo ljúflega athyglinni að raddfélögum sínum í kórnum, hefði betur valið sópraninn, sem þarna fékk að taka meira á því en til stóð í upphafi, nú eða altinum sem hafði haft orð á því að línan sem kom í hans hlut væri orðin og há, eða bassanum, sem bassaðist eins og hann bassast.

Þrátt fyrir ofangreint voru tónleikarnir harla skemmtilegir og þrátt fyrir að einsöngstenórinn hafi beint athygli áhorfenda svo óheppilega að röddinni einu, voru foreldrarnir í sópran og tenór afar stoltir af framgöngu síns manns.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þetta verk læt é hér fylgja myndband þar sem kór Glerárkirkju flytur það. Ég tek eftir því að þar syngja tenórarnir umrædda nótu aðeins í 2. erindinu.


Ég veit til þess að tónleikarnir voru teknir upp og vonast til að geta skellt upptöku af þessu verki hér inn í fyllingu tímans.

16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...