16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...