13 september, 2015

Réttasaga

Tungnaréttir 2015: Myndin er tekin áður en allt fylltist af fólki.
Svitinn perlaði á enni margra þeirra sem greindu mörkin og sviftu fénu síðan í rétta dilka. Það var oftar en ekki peli í rassvasanum, svipurinn fól í sér innri spennu og einbeitingu þannig að ekkert komst að nema koma þessari í dilkinn og ná í næstu. Kappið og einbeitingin skein úr andlitunum og það var engu líkara en dáttarfólkið fengi greitt fyrir hvern haus. Meginmarkmið þessa dags var að reka féð inn í almenninginn og deila því síðan á dilkana í samræmi við eyrnamörkin. Svo voru ótal undirmarkmið sem ég kann eðlilega ekki skil á, verandi sá sem ég er.
Mikilvægi dagsins fyrir þá sem þarna heimta fé af fjalli er ótvírætt. Þó svo stór hluti þeirra lífvera sem þarna voru  og sem hafa notið lífsins í frelsi óbyggðanna í tvo til þrjá mánuði, verði orðnar að kjöti á diskum landsmanna eða í frystikistum þeirra innan nokkurra vikna, er réttadagur, hátíðisdagur.
Réttir af einhverju tagi 1980:
Egill Árni skellti sér á bak. Oddný á
Brautarhóli atast í fénu.
Hann er ekkert sérstakur hátíðisdagur fyrir mig, eins og nærri má geta. Vildi gjarnan að svo væri, en hlutverk mannanna á lífsgöngunni eru misjöfn og gæðum misskipt. Okkur kann að finnast það ósanngjarnt, en þannig er lífið víst: ósanngjarnt.  Þegar hugsað er með þessum hætti lítum við kannski framhjá því að þó  við njótum ekki gæða sem aðrir njóta, þá njótum við ýmissa gæða sem aðrir ekki njóta. Svona er það nú bara.

Það var ekki laust við að gætti dálítils pirrings meðal einhverra þeirra sem þarna drógu féð í dilka, í garð þeirra sem þarna voru staddir með ekkert annað hlutverk en að hitta fólk, taka myndir, þvælast (aðallega fyrir), upplifa sérkenni íslenskrar sveitamenningar eða kannski bara til að fá tækifæri til að setja í pelann og dreypa á honum að morgni dags og fram eftir degi og/eða taka þátt í víðfrægum réttasöng.
Það var mikill mannfjöldi í Tungnaréttum í gær, eiginlega á mörkum þess sem hægt er að koma fyrir án þess að hreinlega trufla það starf sem þurfti að eiga sér stað. En veðrið var með allra besta móti.



Tungnaréttir 1984: Þorvaldur Skúli á hestbaki
á örlagaári í lífi Kvisthyltinga.
Ég hef oft farið í réttir, allt frá barnæsku. Þegar ég leiði hugann að réttarferðum barnæskunnar er það ekki sauðféð sem kemur fyrst í hugann, heldur rigning í Skeiðaréttum (við kölluðum þær það) og fullir kallar að slást, veltandi í drullipolli. Næst kemur í hugann lamb á réttarvegg sem hafði verið skorið á háls.  Já, nærtækustu minningarnar eru ekki beinlínis fallegar, en þær brenndu sig í barnshugann. Nú er öldin önnur. Ég hef ekki séð fulla kalla slást í réttum áratugum saman.

Við Kvisthyltingar fórum oftast í réttir þegar börnin voru ung (þrátt fyrir áfallaröskun föðurins á æskuárum). Það var auðvitað gaman að leyfa þeim að upplifa það sem þarna fór fram; gerast áæðnari eftir því sem árin liðu, fá jafnvel að taka þátt í að draga.  Þegar þau voru síðan sjálf farin að átta sig á því hve hlutverk þeirra var lítilfjörlegt, minnkaði áhuginn á þessum ferðum.




Tungnaréttir 1985: Guðný Rut nýtur sín á hestbaki.
Ég ætla ekki að halda því fram, að tilgangurinn með réttaferðum sé enginn. Það er með þær, fyrir fólk eins og mig, eins og fermingarveislur og jarðarfarir, þú hittir þar fólk sem þú sér sjaldan. Í gær hitti ég til dæmis fyrrum Laugarásbúa sem ég hafði ekki séð síðan um miðjan sjöunda áratuginn. Slíkt gerir það þess virði að kíkja í réttir, þó ekki sé annað.

EOS-inn var með í réttum í gær, mér til halds og trausts. Ég notaði hann óspart og hann brást mér ekki frekar en fyrri daginn.




Tungnaréttir 1996. Brynjar Steinn ásamt föður sínum,
Hilmari, Hófí og Helga í Hrosshaga

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...