04 september, 2015

Á besta aldri

Jóhanna Ólöf  Gestsdóttir, 40 ára stúdent.
Vorið 2004 komu saman á Laugarvatni fyrstu stúdentarnir sem fögnuðu 50 á stúdentsafmæli. Þeir komu síðan aftur á Laugarvatn á síðasta ári, allir nema einn, í tilefni af 60 ára afmælinu, þá orðnir um áttrætt. Sá eini sem ekki kom lést nokkrum dögum fyrir hátíðina og hafði verið búinn að gera ráðstafanir til að vera viðstaddur. Það er auðvitað gaman þegar svona hópur, sem gekk saman gegnum súrt og sætt í fjögur ár á mótunarárum, nær allur svo háum aldri.

Ég fagnaði 40 ára stúdentsafmæli vorið 2014 ásamt hópi bekkjarfélaganna. 25 vorum við sem lukum stúdentprófi frá ML vorið 1974, 9 okkar kláruðu sig af máladeild og 16 af eðlis- og náttúrufræðdeild.
Við, þessi 9 sem lukum máladeildinni, erum nú orðin 8.   Þann 29. ágúst síðastliðinn lést Jóhanna Ólöf Gestsdóttir, eða Jóka, eins og hún var kölluð í okkar hópi. Jóhanna er jarðsungin í dag.

Það er nú svo með stúdentahópana sem hverfa frá Laugarvatni á hverju vori, að þeir halda mismiklu sambandi eftir að menntaskólaárunum lýkur. Það fer hver sína leið, finnur sér farveg til að ferðast um gegnum lífið. Hópurinn okkar Jóhönnu hefur nú ekkert verið sérstaklega samheldinn, hverju svo sem þar er um að kenna, en við höfum flest vitað hvert af öðru, sumir hafa haldið hópinn vel og ræktað vináttu frá þessum árum. Flest höfum nokkrum sinnum komið saman á Laugarvatni til að júbilera. Jóhanna sinnti þeim þætti vel, þó svo hún hafi ekki átt samleið með hópnum öll 4 árin á Laugarvatni. Hún kom inn í bekkjarhópinn í 2. bekk og var síðan utan skóla, í það minnsta frá áramótum í 4. bekk.

1974
Sama árið og hún útskrifaðist eignaðist hún frumburðinn og giftist Baldri Garðarssyni. Þau slitu samvistum. Seinni maður Jóhönnu var Kristján Sigurðsson og þau eignuðust 4 börn saman.

Jóhanna, já.
Ég held að ég megi segja á ég hafi ekki þekkt hana mjög náið, sem persónu, en það man ég að hún hafði ákveðnar skoðanir og var ófeimin við að tjá þær. Að því leyti breyttist konan ekkert þó árunum fjölgaði.
Eins og oft vill verða í bekkjakerfisskóla þá mótast samskiptin í hverjum bekk mest í 1. bekk og þroskast síðan eftir því sem ofar dregur. Af þessum sökum má segja að Jóhanna hafi ekki algerlega náð að samsama sig þessum hóp og að sumu leyti voru samskipti hennar ekki minni við árganginn á undan okkur, en innan hans steig hún fyrst niður fæti í skólanum. Áður en hún kom á Laugarvatn hafði hún lokið eins árs námi við framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akranesi.

Ævistarfið snérist um ungt fólk. Fimm eignaðist hún börnin og kom til manns og ótölulegur fjöldi ungmenna naut leiðsagnar hennar sem kennara og það sem ég ræddi við hana um uppeldismál bendir til að þau hafi verið hennar hjartans mál og starfsvettvangur hennar hentaði því vel. Á s.l. vori lauk hún viðbótardiplómanámi í náms- og kennslufræði frá HÍ, svo hún var greinilega ekki á þeim buxunum að fara að hægja verulega á.

Brotthvarf Jóhönnu úr jarðlífinu fær mann til að staldra aðeins við, velta fyrir sér því sem allir vita auðvitað, en ýta jafnharðan frá sér. Okkur er mældur mislangur tími og mælinguna þá þekkir enginn.

Eftir tæp 8 ár, vorið 2024 kemur þessi hópur saman aftur til að júbílera á Laugarvatni. Þá verður í það minnsta engin Jóka til að gleðjast með, en vonum að við hin fáum hist þar til að rifja upp sameiginlega sögu og deila því sem á dagana hefur drifið.

40 ára júbílantar sem hittust á Laugarvatni vorið 2014.
Frá vinstri: Smári Björgvinsson, Páll M Skúlason, Ólafur Þór Jóhannsson,
Lára Halldórsdóttir, Haraldur Hálfdánarson, Jarþrúður Þórhallsdóttir,
Eiríkur Jónsson, Jason Ívarsson.
Þarna hafði Jóhanna  brugðið sér frá og við gátum ekki hafnað góðu boði
hennar Bubbu (Rannveigar Pálsdóttur),um að smella af okkur mynd.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...