Sýnir færslur með efnisorðinu Frásagnir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Frásagnir. Sýna allar færslur

13 janúar, 2017

Bráðum verð ég frjálshyggjumaður

Nýleg reynsla mín er þáttur í meðvitaðri stefnu til að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Hún er liður í því að breyta viðhorfum þessarar þjóðar í þá veru að hún muni sættast á að okkur sé betur borgið með því að einkaaðilar sjái um heilbrigðisþjónustu.

Nú er tekin við í landinu einhver hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem þessi þjóð hefur valið sér og þar með blasir ekki annað við en áfram verði grafið undan þjónustu sem á, ef rétt  væri á málum haldið, að standa öllum jafnt til boða og vera ókeypis, nútímaleg og vönduð.

Það sem mér virðist blasa við okkur er, að áfram verði haldið að svelta heilbrigðisþjónustuna, hækka gjöld á sjúklinga,  og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir einkavæðingu á öllum sviðum.
Fjárfestar stökkva fram, heilbrigðisfyrirtæki spretta upp, frjáls og "gríðarlega hörð" samkeppni fær að blómsta.

"Sjúklingarnir okkar fá 10% afslátt ef þeir læka síðuna okkar eftir aðgerð".
"Sjúklingarnir okkar í þessum mánuði fá bíómiða fyrir tvo í kaupbæti".
"Skurðirnir okkar bera vönduðu handbragði vitni".
"Hjá okkur færðu endurgreitt ef þú ert ekki orðinn góður eftir viku".
"Er þér illt? Leyfðu okkur að lækna þig í glænýrri læknastöðinni okkar, þar sem gluggarnir eru pússaðir á hverjum degi og þú getur speglað þig í ítölsku gólfflísunum".
"Frábærar strandtöskur og sérmerkt strandbaðhandklæði handa öllum sem við tökum úr sambandi".

Þetta er ekki geðsleg tilhugsun.

Í tvígang, að undanförnu, hef ég þurft á þjónustu Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) að halda.
Í annað skiptið kom ég þar inn og það sem við mér blasti voru ekki gljáfægðir gluggar eða gólf með ítölskum flísum sem hægt var að spegla sig í, heldur var þar allt fremur grámyglulegt og minnti mig óþyrmilega á vestrænt myndefni af austur-evrópskum sjúkrastofnunum á Stalínstímanum.  Bara gólfdúkarnir eru sjálfsagt jafngamlir mér.
Í hitt skiptið átti ég að mæta þangað í litla aðgerð, eftir margra mánaða bið eftir að komast að.
Það á sér stað heilmikill andlegur undirbúningur fyrir aðgerð á sjúkrahúsi. Það þarf að stilla sig af, skipuleggja hitt og þetta, fá frí í vinnu, og svo framvegis.
Jæja, á tilteknum tíma átti ég á að mæta á tiltekna deild á tiltekinni hæð.
Daginn fyrir þennan tiltekna tíma fékk ég tilkynningu um að tiltekinn tími hefði breyst og honum seinkað um 4 tíma.
Á aðgerðardegi, þar sem ég ók inn í höfuðborgina, hringdi síminn og mér tilkynnt, að enn væri frestun fram eftir degi af óviðráðanlegum "akút" ástæðum og að jafnvel gæti farið svo, að fresta yrði aðgerðinni.
Eftir miðjan dag var loks hringt einu sinni enn og aðgerðin slegin af.
Sannarlega tek ég fram að starfsfólkið sem ég hef verið í samskiptum við, er ekki í öfundsverðu hlutverki og hefur undantekningarlaust verið kurteist og skilningsríkt.

Auðvitað velti ég því fyrir mér, eftir svona reynslu, að það væri nú munur ef þetta væri nú bara einkarekið og menn gætu farið á hausinn ef þeir stæðu sig með þessum hætti gagnvart sjúklingum. Það væri hægt að fara í mál og krefjast tuga milljóna skaðabóta.

Þetta má ekki verða raunin og nú skulu ráðamenn þessarar þjóðar andskotast til að sjá til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi rísi úr þessari öskustó. 
Það sem ég óttast hinsvegar er, að þessi þjóð sé búin að opna leiðina að enn frekari  niðurlægingu heilbrigðiskerfisins með því að skapa möguleikann á hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldistímans.

Hver var það aftur, sem sagði þessi fleygu orð: "Guð blessi Ísland!"






18 september, 2016

Rannsóknarblaðamenn LB

Eitt viðamesta málið sem blasir við ritstjórn Litla Bergþórs þetta haustið, er talsvert viðamikil úttekt á ferðaþjónustu í Biskupstungum, á mælikvarða blaðsins. Þarna að sannarlega að mörgu að hyggja, því margt er það í ferðaþjónustunni sem ekki blasir við í daglegu lífi Tungnamanna. Mikið liggur við að vandað verði til verka, og því varð úr að tveir aldursreyndustu blaðamennirnir voru sendir út af örkinni til að afla efnis. Þeir völdu sér þennan sunnudagsmorgun til að bruna út af örkinni.

Annar ók og gerði tillögur að tökustöðum. Hinn tók á tökustöðunum.
Ljóst er, eftir þennan tökuleiðangur, að verkið er jafnvel umfangsmeira en áætlað var í fyrstu og mögulegt, jafnvel, að einhverjum spurningum verði ósvarað eftir að vinnslu umfjöllunarinnar lýkur, en hún mun birtast í næst tölublaði, sem kemur um mánaðamót nóvember og desember, næstkomandi.

Vegna leyndar, sem óhjákvæmilega hvílir yfir verkefninu og samkeppnissjónarmiða, verða ekki birtar hér neinar myndir sem teknar voru í ferðinni, utan þrjár: af girnilegum brauðhleifum frá  Sindra bakara í Bjarnabúð, af öðrum blaðamanninum skyggnast um nærumhverfi sitt og sú þriðja af húsbyggingum í Biskupstungum, sem líklegt er að fáir hafi augum litið frá því sjónarhorni sem sýnt er.
Loks er birt ein mynd af afurðum einhvers svaðalegasta kleinubaksturs sem átt hefur sér stað í Kvistholti.


Hér lýkur þessari skýrslu um enn eitt þarfaverkið sem ritstjórn Litla Bergþórs ræðst í.  

02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


14 ágúst, 2016

Ég hef varann á mér

Dröfn Þorvaldsdóttir: Drög að leirtauslínu
Það fer ekki mikið fyrir henni í dyngjunni, svona alla jafna. Endrum og eins berast tenóraríur úr hljómtækjunum þarna inni, sem merki um að litir snerta flöt í erg og gríð.
Innan dyra í dyngjunni safnast fyrir myndverk af ýmsu tagi: hefðbundin akrýlverk á striga, hrosshársstungin akrýlverk, leirfígúrur og lampaskermar. Það er oftast þegar lítið er orðið um striga að hún leitar á önnur mið og úrval þeirra flata sem verða fyrir valinu eykst stöðugt. Nú síðast er það leirtau, eins og það sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Harla fínt, auðvitað.

Ég dunda mér í minni skonsu, eins og gengur, alveg með það á hreinu, að ef hún finnur ekki hefðbundinn flöt til að mála á, þá fái hún ekki að mála á mig.

10 ágúst, 2016

"Þessvegna flýgur þú betur með Icelandair", er manni sagt

Ég velti því fyrir mér, eins og sjálfsagt margir sem ekki fá þá þjónustu sem þeir greiða fyrir, hvort réttast væri bara að þegja og halda áfram með lífið, eða láta vita af óánægju minni með þjónustuna.
Ég ákvað að létta á mér, með réttu eða röngu, eftir flug með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur þann 21. júlí. s.l.  Þann 25. júlí sendi ég félaginu bréfið sem birtist hér fyrir neðan. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ég hef engin viðbrögð fengið, enda átti ég svo sem ekki von á þeim.  Að mínu mati hefur félagið haft ágætan tíma til að senda mér línu og þar sem hún hefur ekki borist, set ég sendinguna frá mér hér inn.

Póstur til Icelandair, 25. júlí 2016


Komiði sæl Icelandairfólk

Ég sendi þennan póst á þrjú netföng, sem mér fannst líklegust. Ef ekkert þeirra er rétt, óska eg eftir því að þessum pósti verði komið á þann eða þá aðila sem sjá um mál af þessu tagi.
Inngangur

Tilefni þess að ég ákvað að senda ykkur línu er ferð okkar hjónanna frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dagana 21.-22. ágúst s.l. Flugnúmer FI217. Ég reikna nú með að þið fáið slatta af sendingum að þessu tagi og þar með að þið munið sennilega henda þessu í ruslið og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Samt sendi ég þetta nú, ef ekki til annars, þá til að losa mig við það sem mér finnst ég þurfa að segja um þetta flug.

Sonur okkar býr með fjölskyldu sinni í Álaborg og þangað fórum við í heimsókn. Við vildum ekki bóka flug fram og til baka, þar sem óvíst var um hvenær af heimferðinni myndi verða. Við keyptum miða fyrir okkur bæði alla leið frá Keflavík til Álaborgar, með tveim flugfélögum, með 3ja daga fyrirvara á samtals kr. 67.941 (+ 4000 fyrir eina tösku) og vorum alveg sátt við að greiða þá upphæð, en ekki meira um það.

Miðakaupin
Svo kom að því að bóka flugið heim. Það var ekkert mál frá Álaborg til Kaupmannahafnar, á verði sem var bara mjög eðlilegt.

Þann 17. júli lá fyrir að við stefndum á að fara heim 21. eða 22. júlí og þá var vaðið í að panta.

Við leit að hentugu flugi frá CPH til REK fundum við eitt sem hentaði ágætlega að því er tímasetningu varðaði: Icelandair kl. 22:30 á kvöldi, sem þýddi að við gætum verið komin heim til okkar í Laugarás kl, ca 02:00 í síðasta lagi. Það réði einnig talsverðu við ákvörðun okkar, að af einhverjum ástæðum hefur það síast inn í huga okkar gegnum tíðina, að þó Icelandair sé ekki ódýrasti möguleikinn í flugi, þá sé um að ræða flugfélag sem veitir góða, örugga þjónustu.
Við bókuðum flug með Icelandair frá CPH til REK í gegnum tripsta.dk og greiddum fyrir það kr. 126.433 eða um 63.000 á mann á Economy-class. Sannarlega fannst okkur þetta yfirgengilega há upphæð fyrir flug til Keflavíkur, en létum okkur þó hafa það, kannski ekki síst vegna þess að það hafði verið okkar ákvörðun að kaupa ekki miða báðar leiðir í upphafi.
Síðan rökstuddum við þetta fyrir sjálfum okkur með þeim hætti að Icelandair væri traust og gott, íslenskt flugfélag með nýjan flugflota – sem sagt ekkert lággjaldaflugfélag sem enga þjónustu veitti um borð nema gegn aukagjaldi. Þarna myndum við fá þægileg sæti, gætum horft á kvikmynd, þyrftum ekki að greiða aukalega fyrir farangur og þar fram eftir götunum.

Í flugstöðinni
Ég orðlengi aðdragandann ekki frekar. Við vorum mætt á Kastrup kl. 20:30, fimmtudagskvöldið 21. júli. Á skiltum gátum við séð að flugið okkar væri á áætlun. Fórum í gegnum það sem fara þarf í gegnum og þar sem við komum í gegnum öryggisskoðunina blasti við okkur að ný áætlun fyrir flugið okkar sem átti að vera kl. 22:30 var 23:50, eða seinkun frá upphaflegri áætlun, um klukkutíma og tuttugu mínútur. Ætli það hafi ekki verið sérstaklega í ljósi þess verðs sem við höfðum greitt (kr. 63.000 á mann), en við þessar upplýsingar gerði all nokkur pirringur vart við sig. Við gátum þó huggað okkur við það að framundan var ferð í þægilegum sætum með skjá fyrir framan okkur þar sem við gætum smellt á einhverja þeirra ótal kvikmynda sem í boði væru í tæknilega fullkomnu afþreyingarkerfi vélarinnar.

Um kl. 10 var verslunum í flugstöðinni lokað, einni af annarri og einnig veitingastöðum.

Einhverntíma um það leyti komu nýjar upplýsingar á skjái sem greindu frá því, að nýr brottfarartíma væri áætlaður kl. 00:10, eða 1 klst og 40 mín seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta varð ekki til að auka jákvæðni okkar hjónakornanna í gerð flugfélagsins.

Svo fór, að upp úr 23:30 gengum við að tilgreindu hliði og þá kom í ljós, að síðasta áætlun um brottför myndi standast, sem hún síðan gerði, nokkurnveginn.

Í flugvélinni
Í flugvélinni, TF-FIW, Boeing 757 27B, sem er 26 ára gömul og ber nafnið Búrfell, tóku við ný vonbrigði og pirringsefni sem ég leyfi mér að lista hér fyrir neðan:


1. Í sætisbökum var ekkert afþreyingarkerfi. Þar fór vonin um að geta dundað sér við eitthvað slíkt í þessu næturflugi. Vissulega má geta þess, að eftir að græjan var komin á loft og slökkt hafði verið á sætisbeltaljósum keyrðu flugþjónar um með vagn og hófu að dreifa iPad spjaldtölvum á einhverja farþega, virtist eins og þar væru börnin í fyrirrúmi, en okkur var ekki boðið að fá græju að láni.

2. Sætin voru grjóthörð og bara verulega óþægileg, þannig að maður gat enganveginn verið og ég náði ekki einusinni að festa blund, sem oftast gerist.

3. Við vorum með sæti í röð 9, næstfremstu sætaröðinni fyrir aftan innganginn í vélina. Maður í sætaröðinni fyrir framan mig teygði sig upp í spjald fyrir ofan sig, sjálfsagt bara af forvitni. Þetta spjald reyndist vera skröltandi laust. Ég vissi ekki á þeim tímapunkti að um væri að ræða 26 ára gamla flugvél og neita því ekki, að þarna fann ég fyrir umtalsverðum ónotum.

4. Flugstjórinn baðst velvirðingar á töfinni sem átti að hafa verið tilkomin vegna þess að þessi vél kom seint inn til Keflavíkur einhversstaðar frá. Auðvitað vissi flugfélagið um þá seinkun með nægum fyrirvara til að geta sent skilaboð tímanlega til farþega (að minnsta kosti þeirra sem höfðu greitt kr. 63.000 fyrir farið), svo þeir gætu þá bara dvalið lengur í Kaupmannahöfn. Engin slík skilaboð bárust og vorum við þó bæði með síma á okkur.

5. (afleiðing upphaflegs pirrings) Ég gætti þess auðvitað að láta ekki í ljós óánægju mín við starfsfólkið í vélinni, enda engan veginn við það að sakast. Hinsvegar var, við upphaf þessarar flugferðar, búið að opna aðgang að skúmaskotum í höfðinu á mér, sem varð til þess, að ég fann flestu eitthvað til foráttu. Þar má til dæmis nefna, að flugþjónninn sem tók brosandi við farþegunum þar sem þeir gengu um borð, var hreint ekki brosandi, nema bara með vel þjálfuðum andlitsvöðvum. Þar sem hún sagði „Góða kvöldið“ við hvern og einn, rak hún út úr sér tunguna á báðum „ð“-unum í góÐa og kvöldiÐ. Ég er eiginlega alveg hissa á sjálfum mér að hafa látið þetta fara í taugarnar á mér, en svona var það samt og lái mér hver sem vill. Annar flugþjónn, sem ekkibrosti stöðugt, var beðinn um kodda. Leitaði ekkibrosandi í hverri hillunni á fætur annarri, án árangurs. 
Viljið þið vera svo væn að gera ekki þá kröfu til starfsfólks og ganga stöðugt um með þetta hálfvitalega bros á vörum. Bros þarf að ná til augnanna, annars er það ekkert bros.

6. (afleiðing upphaflegs pirrings) Farþegum var tilkynnt, að ljósin í vélinni yrðu slökkt, en jafnframt bent á að fyrir ofan sætin væru lesljós. Allt í lagi með það. Ég ýtti á viðkomandi hnapp fyrir ofan mitt sæti. Ég þurfti reyndar að teygja mig beint upp í lofti tið að kveikja. Ljósið kviknaði ekki í fyrstu og reyndar ekki hjá neinum. Aðspurð greindi ekkibrosandi flugþjónninn frá það að þau myndu sennilega kvikna þegar hreyflarnir færu í gang. Viti menn, það gerðist. Ljósið sem átti að lýsa mér var beint fyrir ofan höfuðið á mér og lýsti beint ofan á höfuðið á mér, nánar tiltekið þann hluta þess þar sem hár eru mjög strjál og varla til staðar. Ljósið lýsti sem sagt ekki á bókina sem ég ætlaði að fara að lesa og þar sem ég hafði ekki áhuga á að farþegar fyrir aftan mig fengju að njóta upplýsts höfuðs míns, slökkti ég ljósið aftur og lét mér í staðinn nægja daufa skímu frá ljósi frúarinnar.

Þessi 26 ára gamla vél fór í loft og flutti okkur til Keflavíkurflugvallar með þeim þægindum eða óþægindum sem í boði voru. Þægindin fólust aðallega í kaffibollanum sem ég fékk án þess að greiða fyrir. Gat líka fengið gosdrykk eða vatn ókeypis (jeij).

7. (afleiðing upphaflegs pirrings) Þar sem vélin var lent í Keflavík var það fyrsta sem flugþjónn sagði í hátalarakerfið: Góðir farþegar, VELKOMIN HEIM! , og hrópaði nánast síðasta hlutann (feitletraða). Er þarna um að ræða einhverja stefnu sem var tekin eftir að Lars Lagerbäck tjáði sig um hve yndislegt væri að heyra „velkomin heim“ í hvert sinn sem lent væri í Keflavík? Ég er sammála því, að það er yndislegt, svo lengi sem það er ekki hrópað. Ég beið eiginlega eftir að farþegarnir tækju sig til, lyftu upp handleggjunum og hrópuðu „HÚH“. Þeir gerðu það ekki.

8. (afleiðing upphaflegs pirrings) Flugvélinni var lagt talsvert langt frá flugstöðinni í Keflavík og farþegar síðan ferjaðir með rútum í flugstöðina, sem er svo sem allt í lagi. Það sem var ekki allt í lagi var, að rúturnar settu farþegana út eins langt frá komusal flugstöðvarinnar og mögulegt er. Ég geri mér grein fyrir að þarna er varla við félagið að sakast, en engu að síður, ofan á annað smátt og stórt varð ekki til að fegra myndina að þessu ferðalagi.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það eru miklar annir í flugi á þessum árstíma og skiljanlegt að það geti orðið tafir á flugi. Ég geri mér líka grein fyrir því, að þið þurfið að nýta allar vélar sem þið eigið til að flytja alla þá farþega sem bóka með ykkur flug um allan heim, ekki síst til Íslands. 
 Það sem ég er ósáttur við, fyrst og fremst er, að hafa greitt kr. 63.000 fyrir flugferð sem var eins og ég hef lýst hér að ofan. Að mínu mati er það algerlega út úr korti, en byggir sjálfsagt á því að einhverjir þurfi að greiða hluta miðaverðsins fyrir þá farþega sem fengu miða á lága verðinu, sem hægt er að auglýsa daginn út og inn.

Ég sló inn af rælni einhverja daga í september og þar kom í ljós eftifarandi verðlagning á flugsætum:

Miðinn er 47.000 kr. ódýrari en það sem ég þurfti að greiða. Það er að mínu mati algerlega ótækt. Mér er sama hvað ykkur finnst um það. Í mínum huga væri það eins og ég þyrfti að borga þrefalt verð í búð fyrir mjólk sem er að verða búin.

Eitt jákvætt vil ég nefna. Við lentum á CPH kl. 09:30 að morgni 21. júli og áttum síðan flug kl. 22:30, eins og áður er nefnt. Við vorum búin að hafa áhyggjur af hvernig við gætum geymt farangur á flugvellinum. Svo komumst við að því, að það var hægt að tékka hann strax inn og þar með var það mál leyst.
___________________________________________________________

Þessi sending hefur tvennan tilgang:

1. Að fá útrás fyrir pirringinn vegna þessarar flugferðar og síðan geta haldið áfram fullur jákvæðni og bjartsýni.

2. Leggja fram kvörtun, sem líklegast lendir bara í ruslakörfunni, en hefur samt verið lögð fram.

Ég veit ekkert hvað ég geri við þessi skrif ef þið svarið mér ekki með einhverjum hætti: útskýrið fyrir mér hversvegna ég þurfti að greiða kr. 63.000 (126.000 alls) fyrir þessa flugferð. Ef ég hefði greitt um kr. 20.000 á mann hefði ég þagað yfir þeim vonbrigðum sem þessi ferð var okkur. Ég vænti svars/viðbragða sem allra fyrst.

Með góðri kveðju

02 ágúst, 2016

Í bráðri lífshættu

Dæmi um límmiða á stiganum
Á fyrstu árum áttunda áratugs síðustu aldar var sumarvinnan mín brúarvinna og eftir mig liggja allmargar merkar brýr, svo sem nærri má geta. Ætli tvær þær eftirminnilegustu séu ekki brúin yfir Þjórsá fyrir ofan Búrfell og brúin í botni Skötufjarðar á Vestfjörðum hún hefur nú vikið fyrir annarri og nútímalegri, sem styttur leiðina fyrir fjarðarbotninn).
Á vorin tók það aðeins á fyrstu dagana að príla upp í stillansana og ógnvænlegt, mögulegt hrap niður í straumhart jökulfljót, eða grjótharða klöpp blasti við. Lofthræðslan rjátlaðist fljótlega af manni og  áður en varði var maður farinn að príla upp og niður, þvers og kruss án þess að leiða hugann að einhverju mögulegu falli. Þarna var ég nokkuð yngri en nú; menntaskólagaur, eitthvað liprari, léttari og óvarkárari.
Þar með vippa ég mér fram í tímann um vel á fimmta tug ára, til dagsins í dag.

Það lá fyrir að það þurfti að bera á húsið á þessu sumri og ekki hefur nú vantað blíðviðrið til þess arna. Heimadveljandi Kvisthyltingar gengu í verkið og auðvitað var byrjað á þeim hlutum hússins sem auðveldastir eru, en þar kom að ekki varð því frestað lengur að takast á við þá hliðina sem fram á hlaðið snýr. Af ókunnum ástæðum kom það í minn hlut að sjá um að bera á þennan hluta, allavega efri hluta hans ("Ég skal reyna að bera á undir gluggunum" - var sagt). 
Auðvitað var mér það vel ljóst, að ekki yrði um að ræða að fresta verkinu út í hið óendanlega og því fékk ég mikinn álstiga að láni hjá Hveratúnsbóndanum. Þessi stigi getur verið langur, alveg ógnarlangur. Svo langur að framleiðandinn hefur, örugglega í ljósi reynslunnar, klístrað á hann límmiðum hvar sem við var komið, með varnaðarorðun og nánast hótunum um slys eða dauða ef ekki væri rétt farið með stigann.
"HÆTTA. Ef leiðbeiningar á þessum stiga eru ekki lesnar og þeim fylgt, getur það leitt til meiðsla eða dauða", er dæmi um lesefni á límmiðunum. Ég játa það, að lesefnið var ekkert sérlega hvetjandi, þvert á móti.
Þó svo í gegnum hugann hafi þotið leiftur um allskyns fall með eða úr stiganum, þar sem ég myndi t.d. ligg, fótbrotinn, handleggsbrotinn, nú eða höfuðkúpubrotinn á stéttinni, leiddi ég þau hjá mér af fremsta megni. Fjandinn hafi það, ég hafði klifrað upp þennan stiga áður til að mála þennan sama gafl, og mundi óskaplega vel eftir tilfinningunni.

Til að orðlengja það ekki og kynda þannig undir frestunaráráttunni, þá stóð ég við stigann með málningarfötu og pensil í annarri hönd/hendi. Hinn endi stigans var einhversstaðar þarna hátt uppi, svo hátt, að hann mjókkaði eftir því sem ofar dró. Efst mátti greina mæninn, tveim hæðum, plús hæð rissins ogar jörðu. Uppgangan hófst, hægri fótu upp um  rim og síðan vinstri fótur að þeim hægri og svo koll af kolli, um leið og vinstri hönd var beitt til að halda jafnvægi. Ég horfði beint fram, á húsvegginn og alls ekki niður og helst ekki upp heldur.
Um miðja leið fór stiginn að titra og síðan vagga til hliðanna og mér komu í huga, með réttu eða röngu ljóðlínur úr Grettisljóðum Matthíasar:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Þarna er lýst spennunni sem verður til þar sem maður veit ekki hvað er framundan. Ég bara vonaði að framhaldið yrði ekki eins og fram kemur aðeins síðar í ljóðinu, nefnilega:

Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Framhaldið varð ekki eins og í ljóðinu. Smám saman og á þrjóskunni einni saman, nálgaðist ég efri enda stigans og þar með einnig vegginn. Til þess að ná alla leið upp í kverkina undir mæninum þurfti ég að stíga í eitt efstu þrepanna í stiganum og mála síðan nánast beint upp fyrir mig.
Óvíst var hvernig ég færi með að halda jafnvæginu við þessar aðstæður, en smátt og smátt, með því að hugsa hverja hreyfingu áður en hún var framkvæmd, tókst mér að teygja mig alla leið. Út úr kverkinni skaust stærðar kónguló með hvítmálað bak og ekki einu sinni reiðileg framganga hennar varð til þess að ég missti taktinn, slík var einbeitingin. Ég málaði og málaði, bar á og bar á og þar kom að þarna gat ég ekki málað meir, niðurferðin hófst: fyrst vinstri fótur niður og siðan hægri fótur að honum, meðan pensill og dós héldu hægri hönd upptekinni starfaði sú vinstri við að halda öllu í réttum skorðum.
Eins og lesa má út úr þessum pistli komst ég til jarðar, óskaddaður og þess albúinn að klifra upp aftur jafnskjótt og viðbótarmálning hefur verið keypt og það hættir að rigna.

(myndir: óttaslegin fD, eða þannig)

01 ágúst, 2016

Kraðak eða ekki kraðak

Ég setti mér það markmið að upplifa um þessa um þessa verslunarmannahelgi (á þessari verslunarmannahelgi, ef maður á ættir að rekja til Grundarfjarðar eða þar um kring) hvernig ástandið er á Geysissvæðinu þegar ferðamannafjöldinn er eins og hann getur mestur orðið.  Ég stóð við það og hafði með mér EOS-inn svo hægt væri síðar að sannreyna upplifunina.
Veðrið var auðvitað eins gott og best var á kosið, utan það að það hefði mátt vera skýjað, svona upp á birtuskilyrðin að gera.
Ég og samferðafólk vorum síðan þarna uppfrá í um tvo klukkutíma frá því um kl. 11:00 til 13:00, og gengum á Laugarfell þaðan sem er ágætt útsýni yfir svæðið. Eins og við mátti búast var þarna á sama tíma og við fjöldi ferðamanna af ólíku þjóðerni, en fjarri því að teljast eitthvað sem þetta svæði ræður ekki við að taka við.  Ég neita því ekki, að ég hafði átti von á talsvert  meiri fjölda en reyndin var, ekki síst þar sem fréttir höfðu greint frá því að metfjöldi skemmtiferðaskipa lægi í Reykjavíkurhöfn.


Niðurstaðan var sem sagt sú, að ég náði ekki markmiðinu um að upplifa kraðak á Geysissvæðinu. Ég hefði kannski á að hringja á undan mér og spyrja hvenær dags þarna væru flestir á ferð.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða myndir geta smellt hér.

23 júlí, 2016

Vanþróuð víkingaþjóð

Um aldamótin fylgdi ég nemendahópi í heimsókn til vinaskóla í Bæjaralandi í Þýskalandi og þar áttum við ágætan tíma og nutum gestrisni Þjóðverja.  Einn dagur heimsóknarinnar fór í rútuferð í skóg nálægt landamærunum við Tékkland, sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þarna var um að ræða skóg sem fékk að þróast algerlega án aðkomu mannsins; tré uxu af fræi og féllu þegar sá tími kom. Fallin tré lágu síðan þar sem þau féllu og hurfu með tímanum aftur til jarðarinnar til að af henni gætu vaxið ný tré.
Þarna gegum við um þennan villta skóg dagspart og gerðum ýmislegt. Einn þáttur dagskrárinnar fólst í því að nemendunum var skipt í tvo hópa, Íslendingar í öðrum og Þjóðverjar í hinum. Hóparnir fengu í hendur spegla og áttu síðan að keppa í því hvorum gengi betur að ganga um skóginn þannig, að þátttakendur héldu speglunum fyrir framan sig eins og sjá má á myndinni. Með þessum hætti sáu þátttakendur upp í trjákrónurnar og himininn.
Það kom í ljós, að mig minnir, að Íslendingaliðinu gekk betur.
Í spjalli við kennara Þjóðverjanna á eftir sagði hann mér hver tilgangur leiksins hefði verið, nefnilega sá, að staðfesta þá kenningu að Íslendingar væru tengdari náttúrunni en Þjóðverjar. 

Ég ætla hreint ekki að þvertaka fyrir, að við þessar upplýsingar varð ég nokkuð hugsi og það örlaði á því sem kalla mætti móðgun. Það var auðveldlega hægt að túlka þessa kenningu sem svo, að þar sem styttra væri síðan Íslendingar komu út úr torfkofunum væru þeir skemmra á veg komnir og þar með síður þróaðir en Þjóðverjar (og þá væntanlega aðrar vestrænar þjóðir) að flestu leyti og í grunninn með vanþróaðri heila.
Auðvitað var þetta ekki lagt svona upp af kennaranum, heldur þannig að það væri jákvætt að vera nær náttúrunni. Það breytti hinsvegar ekki því hvernig ég sá þetta fyrir mér.

Síðan gerðist það nokkrum dögum síðar, að einn nemandinn úr mínum hópi kom að máli við mig í talsverðu uppnámi eftir að þýskur félagi hans hafði upplýst hann um að heilinn í Íslendingum væri vanþróaðri en Þjóðverjum.   Auðvitað varð niðurstaða um að gera ekkert veður úr þessu, enda varla auðveld umræða sem það fæli í sér. Við ákváðum bara að við vissum betur og þar við sat.

Mér hefur oft orðið hugsað til þessa spegilleiks síðan.
Var þetta kannski bara rétt hjá Þjóðverjunum?
Er kannski of stutt síðan við komum út úr torfkofunum?
Ráðum við við að halda í við þær þjóðir sem byggja á lengri þróunarhefð?
Erum við kannski ennþá víkinga- og veiðimannasamfélag sem er að þykjast vera eitthvað annað, uppblásin af minnimáttarkennd? (hádújúlækÆsland?)

WE ARE THE VIKINGS, HÚ!!
Æ, ég veit það ekki.

Svo er það hin hliðin á peningnum.

Er viðhorf útlendinga til okkar með þeim hætti sem ég lýsti hér að ofan?
Líta þeir á okkur sem skemmra á veg komin á flestum sviðum, kannski bara hálfgerða villimannaþjóð, þar sem lög og regla eru bara til hliðsjónar og siðferðileg álitamál eru ekki mál?
Skýrir það að einhverju leyti margumrædda og óvirðandi hegðun einhverra ferðamanna?  Kannski líta þeir svo á að þeir séu komnir til landsins sem leyfir þér allt.

Ég bið þá lesendur, sem mögulega taka efasemdir mínar um söguþjóðina nærri sér, afsökunar.

Ég held svo bara áfram að efast.


07 júlí, 2016

Einn komma fimm kílómetrar um álfabyggð

MYND 1 -
Aðal gönguleiðin á Vörðufell (um það bil)
Þegar við gengum á Vörðufell í (eld)gamla daga fórum við aðra leið en nú. Þá var lagt af stað frá sumarbústaðnum sem er beint á móti Iðu (sjá mynd 2) - ég í það minnsta. Leiðin lá í gegnum stórgrýtisbelti í miðri hlíðinni, sem var auðvitað því stórfenglegra sem göngufólkið var lágvaxnara. Ekki held ég að við höfum endilega verið að ganga á fjallið, kannski frekar að heimsækja þann ævintýraheim sem þessir klettar (eða stórgrýti) var.
MYND 2
Ljósasta minning mín frá einni slíkri gönguferð átti sér stað þegar ég var líklega í kringum 10 ára. Ekki þori ég samt að fullyrða það.  Við fórum þarna uppeftir, nokkrir strákar á líkum aldri (man ekki eftir að það hafi verið stelpur í hópnum).  Gott ef við vorum ekki í feluleik eða einhverjum slíkum á milli klettanna, en þar voru ótæmandi möguleikar á að láta sig hverfa. Það var farið að líða á dag og framundan að halda aftur heim. Við stóðum nokkrir í lok leiks, austan megin við stóran klett. Hliðin sem að okkur snéri var slétt og lóðrétt, hefur verið svona 3-4 m á hæð.
Það sem þarna birtist okkur greiptist síðan í hugann. Fyrir framan klettinn voru steintröppur sem lágu niður á við, að timburhurð í því sem kalla má "rómönskum" stíl.  Hurðin var járni slegin, lamir, umbúnaður og lokur.
Þarna stóðum við um stund og hver hlýtur að hafa hugsað sitt. Það gæti verið gaman að banka á dyrnar. Hvað ætli gæti gerst?
Niðurstaðan varð, í ljósi þess að við höfðum allir heyrt og lesið um álfa, að við vorum fljótir niður af fjallinu og heim, því ekki höfðum við hug á að ganga í björg.

Mörgum árum seinna átti ég leið um þetta svæði og reyndi að finna steininn sem ég bar í huganum, en leitin bar engan árangur. Ég efast oftast um að ég hafi séð þennan álfabústað, en samt aldrei nægilega mikið til að ég hendi þessu atviki í glatkistu minninga.  Kannski var var þetta bara eitthvað sem varð til í ævintýragjörnum barnshuganum. Hver veit?  Kannski getur einhver þeirra sem þarna voru með mér vottað að eitthvað líkt því sem ég lýsti, hafi átt sér stað.

Á 63. aldursári gekk ég á Vörðufell í gær ásamt fD og uG. Ekki reyndist gangan sú neitt sérstaklega auðveld, en við vörðuna hvarf öll þreyta. Ég hafði unnið sigur á sjálfum mér. Leiðin niður var lítið auðveldari, en talsvert öðruvísi erfið, þó.
Ofan af fjallinu opnast  einstök sýn yfir Laugarás, auðvitað, en ekki er síður magnað að sjá hvernig árnar fjórar: Tungufljót, Hvítá, Stóra-Laxá og Brúará sameinast ein af annarri áður en Hvítá leggur leið sína niður í Flóa, þar sem hún tekur Sogið til sín og breytist í Ölfusá.  Þá er fjallahringurinn auðvitað yfirmáta glæsilegur.



Smella á myndirnar til að stækka þær.


VIÐBÓT





01 júlí, 2016

Þorpið teiknað

"Um holt og hól" Dröfn Þorvaldsdóttir 2016
Það vita það ef til vill sumir, að undanfarin ár hef ég dundað mér við það í verkföllum og frístundum, að safna saman efni um Laugarás. Það bætist stöðugt við, en þó hægar en skyldi, ef til vill.
Eitt af því sem ég lít á sem hluta af þessu verkefni, er að teikna upp kort af  þorpinu. Það verk er nú hafið og nánast hver stund milli knattspyrnuleikja og heilsubótargöngutúra, hefur farið í þetta að undanförnu.  Við verkið notast ég við AI (Adobe Illustrator), mikið töfratæki, ekki síst þegar ég verð búinn að ná almennilegum tökum á því. Þarna er hægt að setja upp teikningu sem er lagskipt, þannig á á einu laginu eru bara vegir, á öðru íbúðarhús, þriðja gróðurhús, fjórða eitthvað sem er horfið, og svo framvegis. Svo get ég slökkt á þessum lögum eftir því sem hentar. Þetta er skemmtileg iðja.

Hér fyrir neðan má sjá stöðu þessa máls nú.
Ég notaðist við:
- loftmynd frá Loftmyndum ehf.,
- kortið sem Bjarni Harðarson birti hér fyrir nokkru og sem Atli Harðarson teiknaði,
- loftmynd af Laugarási (okt. 1966)
- skipulagstillögu vegna sláturhússlóðarinnar

Ég er ekki að birta þetta hér bara að gamni mínu, heldur þætti mér vænt um að fá ábendingar og það sem réttara má teljast og tillögur að nýjum lögum sem skella má inn á kortið.

Ég tek það fram, að lóðamörk eru ekki nákvæm þar sem mér finnst þáu ekki vera aðalatriði í þessu samhengi. Það væri þó gaman að geeta haft þau sem réttust og ég treysti því að kunnugir bendi mér á  það sem rétt telst vera.


Hér fyrir neðan er svo, til gamans, hluti úr kortinu, þar sem ég er búinn að setja inn tillögu um skipulag sláturhúslóðarinnar.


Veit einhver hvort lóðin var seld núverandi eigendum ásamt reitnum sem er austan vegarins?


01 júní, 2016

Önnur sýn


Ég hef stundum velt því fyrir mér hve óheppinn ég er að vera uppi á sama tíma og tiltekið fólk  sem hefur mikil áhrif á daglegt líf þessarar þjóðar. Ég hef stundum þráð það að vera uppi á einhverjum öðrum tíma, þar sem þeir sem hefjast til valda í samfélaginu myndu búa yfir meiri mannskilningi, meiri hógværð, meiri víðsýni, meiri virðingu fyrir meðborgurum sínum en raunin hefur verið. Jafnharðan hef ég áttað mig á því, að sennilega heyrir það alltaf til undantekninga að leiðtogar þjóða, eða kjörnir leiðtogar yfirleitt, búi yfir þessum kostum. Væntanlega er það vegna þess að við viljum geta speglað okkur í sterkum leiðtoga, óbilgjörnum, sem stendur í lappirnar, lætur ekki kúga sig, og þar fram eftir götunum.  Ætli leiðtogar megi sýna veikleika eða kærleik? Við viljum líklega ekki svoleiðis fólk við stjórnartaumana.
Mér hefur verið hugsað til þessa, eina ferðina enn, undanfarna daga af tvennu tilefni.

S.l. laugardag brautskráðum við 44 nýstúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Af þeim náðu allmargir afar góðum árangri, meðal þeirra Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi, en hún hlaut næst hæstu fullnaðareinkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Ég er nú ekki að segja frá afreki Guðbjargar til að mæra hana neitt sérstaklega, enda held ég að hún kunni mér litlar þakkir fyrir þessi skrif. Ég er hinsvegar að benda á eiginleika sem ég tel að megi vera meira áberandi meðal þessarar þjóðar og sem endurspeglast í eftirfarandi færslu sem stúlkan skellti á Fb:
Efst í huga er þakklæti til allra sem fögnuðu deginum með mér, og þeirra sem voru á einhvern hátt hluti af fjögurra ára skólagöngu minni við Menntaskólann að Laugarvatni. Enginn er eins og hann er bara í út í bláinn og þið eigið hvert og eitt sinn þáttinn í því að ég er eins og ég er í dag og hef afrekað það sem ég hef afrekað. Ég hef ekki gert neitt í lífinu algerlega upp á eigin spýtur.  Ef þið eruð stolt af mér, verið þá í leiðinni stolt af sjálfum ykkur og ykkar þætti í mér. Svo vona ég að ég eigi einhverja góða þætti í ykkur líka.
 Þar sem ég las þetta, komu óðar upp í hugann "sterku" leiðtogarnir okkar, sem líta á sig nánast sem ómissandi, óskeikula hálfguði, sem hafa verið skapaðir í einhverju tómarúmi.  Mér finnst, svo sanngirni sé nú gætt, að við eigum stjórnmálamenn í þessu landi sem líta hlutverk sitt í "þjónustu við þjóðina" einmitt sem þjónustu, búa yfir nægu siðferðisþreki til að viðurkenna að þeir eru ekki fullkomnir, eru tilbúnir að sjá aðrar hliðar á málum en sína eigin, geta sett sig í spor annarra. Þegar ég skanna sviðið á Alþingi koma nokkur nöfn upp í hugann: Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og svo óvænt sem það kann að hljóma, Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég nefni þetta fólk sem dæmi og byggi þetta val algerlega á því hvernig það hefur virkað á mig. Það kann að vera að ég lesi það með röngum hætti. Ég er einnig viss um að meðal Alþingismanna eru fleiri af sama toga.
Það er líka margir af hinum toganum á þingi. Ég gæti auðvitað nefnt slatta, en kýs að láta það liggja milli hluta.

Hitt tilefnið sem varð til þess að ég ákvað að setjast í þessi skrif var viðtal við ísfirskan nýstúdent í Kastljósi á RUV:
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í Kastljósi í kvöld sagðist hún þakklát Ísfirðingum og samfélaginu sem hjálpaði henni.
Það var ekki aðeins að málefnið sem Isabel fjallaði um væri áhugavert og umhugsunarvert, heldur bar framkoma henna vitni um mikinn þroska og víðsýni og málfarið með afbrigðum gott. Þarna var ekki orðafátæktinni eða beygingarvillunum til að dreifa.

Ég vona að þessar stúlkur og annað ungt fólk af sama tagi, sem áður en varir tekur við þessu samfélagi okkar, fái að njóta sín, sem mótvægi við forystumenn af því tagi sem mér finnst offramboð á.
Ég hef sannarlega oft, með sjálfum mér og við fD, jafnvel í litlum hóp, tjáð svartsýni mína á framtíð þjóðarinnar, vegna einhvers sem hefur birst mér í fari ungs fólks.
Ég er óðum að draga í land með það allt saman og vona að ég fái tækifæri til að draga stöðugt meira í land.

Þessi pistill er nú kannski ekki alveg í þeim tíl sem ég er vanur að viðhafa, en ég tel mig mega þetta líka.

23 maí, 2016

Þegar leikurinn stóð sem hæst


Árla morguns, ofarlega í Grímsnesinu, rétt hjá Svínavatni, gæti þetta samtal hafa átt sér stað:

"Góðan daginn dúllan mín. Það er ekki laust við að það sé hrollur í manni. Ég held að það hafi farið talsvert niður fyrir frostmark í nótt. Hvernig gengur, annars?"

"Góðan daginn, ljúfur. Ég held að þetta gangi bara vel. Ég er alveg búin að ná mér eftir gærdaginn. Þetta eru flottustu fjögur egg sem ég hef séð og ég er viss um að ungarnir okkar verða yndislegir".

"Það er enginn vafi á því. Spennandi að verða svona foreldrar í fyrsta sinn."

"Ég er mjög ánægð með þúfuna sem við völdum og okkur tókst bara vel með hreiðrið, finnst þér það ekki?"

"Ekki spurning.  Heyrðu annars, hvernig væri nú að reyna að ná úr sér næturhrollinum? Eigum við að koma í eltingaleik smástund?"

"Eltingaleik? Kommon, ert þú ekki að verða pabbi bráðum, kallinn minn?"

"Kva, það er nægur tími til að vera fullorðinn eftir að krílin eru komin á stjá. Komdu!"

"Jæja, allt í lagi þá. En ekki lengi. Eggin mega ekki kólna."

"Þú ert 'ann. Reyndu að ná mér!"

"Bíddu bara, ég verð ekki lengi að ná í stélið á þér, stelkapabbi!"

"Vúúú, frábært!"

"Klukk, þú ert 'ann!"

"Heyrðu mig, þú varst ekki................"

PÚFF

Qashqai brunaði áfram.
Í baksýnisspeglinum mátti sjá stelksfjaðrir þyrlast í kjölsoginu.
Fjögur egg tóku að kólna í hreiðri.




16 maí, 2016

Karlaraddir / Männerstimmen

Það sem hér fer á eftir verður til í framhaldi af aldeilis ágætum tónleikum sem ég fór á í gær í Skálholtskirkju.  Þar var kominn karlakór frá Sviss, Männerstimmen Basel, margverðlaunaður og sigldur. Hann var búinn að vera á landinu um tíma og tók m.a. þátt í miklu karlakóramóti í Hörpu.
Ég skildi þarna hversvegna þessi kór hefur verið hlaðinn verðlaunum og ég er viss um að hann hann getur kennt íslenskum karlakórum og kórum yfirleitt, margt, ekki aðeins að því er varðar sönginn sjálfan, heldur ekki síður framgöngu alla. Þessi kór umkringdi áheyrendur þannig að hljómurinn endurómaði og varð nánast yfirjarðneskur á köflum. Hefðir sem við erum vön, voru brotnar eins og ekkert væri sjálfsagðara, þar sem sjórnandinn tók sér, til dæmis, stöðu í fyrir framan altarið og kórinn snéri "öfugt".  
Það sem ég var einna hrifnastur af við framgöngu þess kórs var tvennt, fyrir utan auðvitað afar vandaðan/fágaðan sönginn. 
Annarsvegar fannst mér styrkleikabreytingar áhrifamiklar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að hlusta á 25 karlaraddir syngja svo veikt að eyrað nær varla að nema, en nemur samt. Ég hef löngum fengið það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að því meiri sem söngstyrkur sé í karlakórsöng, því flottara og því karlmannlegra. Það kann að vera að hefðbundin karlakóralög kalli á mikinn styrk og jafnvel samkeppni innan radda og milli radda um hver getur gefið frá sér mestu hljóðin. 
Hinsvegar var ég hrifinn af aganum. Stjórnandinn var íklæddur kjólfötum, alger andstæða söngvaranna, sem voru næstum í "lederhosen" með axlaböndum. Hann hafði fullkomna stjórn  á sínum mönnum, ein lítil bending og kórinn skipti fumlaust um uppstillingu fyrir næsta lag. 

Efnisskráin var af ýmsum toga, kirkjuleg og veraldleg, allt krefjandi og skemmtilega framreitt. Ég missti þó af, líklega einu áhrifamesta laginu, sem mér heyrðist að fjallaði um ein stærstu mál nútímans, flóttamenn og hryðjuverkaógn, Svei mér ef ég heyrði ekki skothvell, þar sem ég var að fikra mig niður úr  "Þorláksstúku?" (skömm að því að vera ekki viss um heitið á stúkunni fyrir ofan innganginn) eftir myndatökutilraun. Þegar ég var síðan kominn niður vildi ég ekki opna dyrnar inn í kirkjuna til að ná í það minnsta hluta að verkinu.  

Þess var getið sérstaklega á dreifildi um kórinn, að meðal annars væri hann styrktur af einhverjum bjórframleiðanda, og væri duglegur við að innbyrða framleiðsluna, enda þarna á ferð karlmenn á besta bjórneyslualdri, 18 til 32 ára.


Það var ákveðin rælni sem olli því að við, heimaverandi Kvisthyltingar, skelltum okkur á þessa tónleika. Við sáum auðvitað ekki eftir að hafa látið verða af því. 
  

14 maí, 2016

Síðasta áminning Töru

Fyrir nokkrum árum.
Tara var í miklu uppáhaldi hjá systrunum
Júlíu Freydísi og Emilíu Ísold Egilsdætrum.
Tíkin Tara (Rexdóttir frá Hveratúni?) frá Sólveigarstöðum sá til þess að húsmóðir hennar fékk nauðsynlega hreyfingu í, á annan áratug. Hún hafði einnig góða nærveru, var afar skynug og fljót að læra bestu aðferðina við að fá fólk til að gefa sér að éta.  Þegar maður spurði: "Viltu mat?" Svaraði hún umsvifalaust með gelti sem mátti vel túlka sem "Já, já, já".
Tara hefur nú yfirgefið jarðlífið, sannarlega orðin vel við aldur og hefði þess vegna svo sem alveg getað kvatt á friðsælan hátt fljótlega. Það átti hinsvegar ekki fyrir henni að liggja og dauði hennar og aðdragandi hans, reyndu á alla þá sem að komu.

Síðla kvölds þann 19. apríl s.l. birtist eftirfarandi á samfélagsmiðli:
Fann þessa í skurði hjá mér. Er einhver sem veit hvar hún eða hann býr? Hún er líklega eitthvað brennd þar sem ég fann að skurðurinn er mjög heitur þegar ég dró hana upp.
 Með fylgdi mynd og í framhaldinu fór fram umræða sem lauk með því kennsl voru borin á Töru. Eigandinn nálgaðist hana og við tók erfið nótt sem lyktaði með þessum hætti:
Dýralæknir svæfði Töru vegna mikilla brunasára. Þessir skurðir í Laugarási eru hættulegir. Ekki bara fyrir dýr.
Þarna er eiginlega komið að kjarna málsins.

Stærstur hluti Laugaráss er byggður á mýri, sem er nánast botnlaus. Þegar nýtt land var tekið í notkun þurfti að byrja á að grafa skurði í kringum það og ræsa  fram, yfirleitt, held ég, með kílplógi aftan í jarðýtu. Ég hygg, án þess að vita það með vissu, að það hafi verið verkefni landeigandans að sjá til þess að landið sem hann leigði væri framræst og hæft til ræktunar.
Í Kvistholti voru  grafnir skurðir með nokkurra metra millibili og í þá sett drenlögn úr plasti. Úr þessum lögnum átti drenið síðan greiða leið út í skurðinn milli Kvistholts og Lyngáss. Sá skurður þróaðist með sama hætti og aðrir skurðir: greri smám saman upp og fylltist af leðju.
Mér fannst eðlilegt, að ætla landeigandanum að sjá til þess að skurðirnir á lóðamörkum væru í lagi, en fékk skýr skilaboð um það, að svo væri hreint ekki.  Við Hörður í Lyngási tókum okkur til og gengum þannig frá skurðinum að hann hefur verið þurr og til friðs síðan. Þetta var einfaldlega þannig gert, að leðjan var fjarlægð, rauðamöl sett í botninn, síðan 100 mm drenlögn og loks rauðamöl ofan á. Í þessa drenlögn var síðan leitt affall frá gróðurhúsunum auk þess sem hún hefur annað vel öllu vatni úr ræsunum sem enda í þessum skurði.

Ég tel enn, að það sé verkefni sveitarfélagsins í umboði landeigandans, Laugaráslæknishéraðs. Héraðið á allt land í Laugarási nema það sem Sláturfélag Suðurlands eignaðist á sínum tíma og seldi síðan hótelmanninum sem síðar kom til sögunnar.
 Mér finnst ekki óeðlilegt að reikna með að ábyrgð sveitarfélagsins sé með svipuðum hætti og þar sem íbúð er leigð. Þetta veit ég þó ekki, og væri fróðlegt að fá á hreint.

Skurðirnir í Laugarási eru margir hættulegir, ef maður á annað borð fer að velta því fyrir sér. Hættan er ekki einvörðungu til komin vegna vatnsins og leðjunnar sem safnast fyrir í þeim, heldur einnig, eins og raunin var í tilfelli Töru, vegna þess að í þessa skurði rennur affall frá gróðurhúsum, oft talsvert heitt.

Ég vil nú ekki fara að dramatisera þetta of mikið, ekki síst eftir að ég lét mig hafa það í gamla daga að skrifa í Litla Bergþór, að Gamli skólinn væri dauðagildra, sem hann auðvitað var, með þeim afleiðingum að honum var lokað meðan verið var að setja flóttaleið af efri hæðinni.
Ég held að þessi skurðamál séu eitt þeirra verkefna sem við blasa. Hvort það er sveitarfélagið, leigjendur eða báðir þessir aðilar sem myndu standa straum af því, þá tel ég að það þurfi að gera raunhæfa áætlun um að setja dren í alla skurði, sem, ekki síst tæki við heitu afrennslisvatni úr gróðurhúsum.

Myndirnar af skurðunum tók ég í stuttri gönguferð í morgun. Þessir eru bara lítið sýnishorn og ekki endilega bestu dæmin.


07 maí, 2016

Upphaf ferðar nokkurrar (1)


Hér segir af upphafi námsferðar STAMEL til Helsinki í lok apríl.
Svona átti upphaf ferðarinnar sem hér um ræðir að vera:  
Brottför frá Laugarvatni með fólksflutningabifreið kl. 03:30, koma á Flugstöð í Keflavík eigi síðar en kl. 05:30, flug til Helsinski kl. 07:30.
Frásögnin sem hér fer á eftir ber þess auðvitað merki, að ég var ekki hluti af þeim dramtísku atburðum sem eru tilefni hennar. Þannig má segja að hún sé byggð á munnlegum heimildum þeirra sem beinlínis komu að málum, annaðhvort sem beinir þátttakendur eða þá áhorfendur.

Við dómkirkjuna í Helsinki
Við fD vorum komin á Laugarvatn fyrir tilsettan tíma, eins og okkar er von og vísa, þar sem við ákváðum að nýta fólksflutningabifreiðina frekar en greiða himinhátt gjald fyrir bílastæði í Keflavík.
Þar sem við renndum í hlað var fólk byrjað að tínast að og það var ferðaspenningur í loftinu. Þegar áætlaður brottfarartími rann upp var engin fólksflutningabifreið komin á staðinn, en að sögn kunnugra átti fólksflutningabifreið, við svona aðstæður, að vera komin á brottfararstað, eigi síðar en 15 mínútum fyrir áætlaðan brottfarartíma.
Þegar komið var nokkuð fram yfir brottfarartímann fór að gæta nokkurrar óþreyju, sem lauk með því að hringingar hófust í síma þeirra sem í forsvari eru fyrir fólksflutningabifreiðafyrirtækið sem um ræddi og fljótlega kom í ljós að það væri engin fólksflutningabifreið á leið á Laugarvatn. Síðar kom í ljós að fyrirtækið hafði ruglast á nóttum, ætlað að flytja hópinn næstu nótt.
Þarna hófst upphaf merkrar atburðarásar með því að ákvörðun var tekin um að ferðalangarnir sameinuðust í þær bifreiðar sem til reiðu voru og brunuðu á Selfoss, þar sem fólksflutningabifreið myndi bíða hópsins og flytja áfram.  Fyrsta bifreið af stað frá Laugarvatni var Qashqai með mig við stýrið, fD og aukafarþega. Í kjölfarið fylgdu síðan aðrir bílar, hlaðnir farþegum og farangri.
Lagið tekið í plati í Kirkjunni í klettinum í Helsinki
Ég ætla ekki að greina frá ökuhraðanum niður Grímsnesið, en vegurinn var oftast þurr þessa nótt, en sumsstaðar fannst mér eins og væru blettir þar sem mögulega gæti verið hált, enda hiti við frostmark. Þessir blettir voru helst í gegnum Þrastaskóg og undir Ingólfsfjalli. Í eitt skiptið fannst mér ég meira að segja finna fyrir því að Qashqai skrikaði örlítið dekk, sem varð til þess að ég tók ökuhraðann talsvert niður.
Við komumst skilmerkilega á Selfoss, settum töskur í fólksflutningabifreiðina sem þar beið okkar og síðan lagði ég Qashqai á öruggum stað. Á eftir okkur fylgdi nokkrir bílar og fólkið var bara í góðum gír og tók þessu spennandi upphafi ferðarinnar bara vel.
Svo komu ekki fleiri bílar, mínúturnar komu og fóru hver af annarri (það, sem sagt, leið og beið) og jafnframt styttist fyrirsjáanlegur tími í Fríhöfninni, en það var kannski fyrsta hugsunin, næsta hugsum fól í sér vangaveltur um hvað valdið gæti því að ekki komu fleiri bílar.
Svo brunaði sjúkrabíll með blá, blikkandi ljós framhjá.

(framhald síðar)

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...