02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...