28 ágúst, 2016

Sósulitur og svartur ruslapoki eða skrautklæði


Það sem hér er til umfjöllunar á sér bræður í tveim pistlum frá ágústmánuði árið 2014 og þá má sjá hér og hér.
Það er nánast erfitt að hugsa til þeirra tíma þegar móttaka nýnema í framhaldsskóla á Íslandi tók mið af því sem gerist þegar ný hæna kemur inn í hænsnahóp. Ég held og vona að það hafi tekist að breyta þeim hefðum sem voru orðnar allof fastar í sessi og sem fólust í því að spyrja nýnema hvern fjandann þeir vildu upp á dekk og gera þeim ljóst að þeir væru ekki velkomnir. Þeir þyrftu að gangast undir píningar og niðurlægingu til að geta fengið inngöngu í samfélag nemenda í skólanum; leggja leið sína í gegnum einhverskonar hreinsunareld.
Auðvitað getur hver maður séð að með þessum aðferðum við að taka á móti nýjum samnemendum voru eldri nemendur fyrst og fremst að gera lítið úr sjálfum sér, þroska sínum og atferli. Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma þeirra hugsun til skila, til þess var óttinn við að víkja frá hefðinni of sterkur. Ég er viss um að margir áttuðu sig á þessu, en voru ekki tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að breyta.


Það er svo, að dropinn holar steininn og við kusum að fara tiltölulega mjúka leið til að breyta þeim hefðum sem tengdust "busun" eða móttöku nýnema. Einum af öðrum var þeim þáttum fækkað, sem í raun voru óásættanlegir og þar kom, haustið 2014 og endanlegur viðsnúningur varð og það sem áður kallaðist "dauðaganga" í umsjón ruslapokaklæddra, sósu- og matarlitaðra  ógnvalda, vék fyrir "gleðigöngu" sem er leidd áfram af dansandi, skrautklæddum fígúrum af ýmsu tagi. Það var fatnaðurinn og tónlistin sem í raun breytti öllu yfirbragðinu.  Stjórn nemendafélagsins sem tók þá erfiðu ákvörðun að móta þessa nýju nálgun, verður seint fullþakkað. Vissulega voru þau ekki endilega öll sátt og vissulega voru aðrir eldrinemendur misglaðir, en þeir tóku þátt í breytingunni.
Ég hef, starfsins vegna, fylgst allvel með þessum þætti í gegnum árin. Neita því ekki, að ég kveið nokkuð fyrir því fyrstu skiptin; fannst skelfilegt hve lágt var lagst á stundum og man þá tíma þegar einhverjir eldri nemendur voru búnir að setja í sig það sem ekki má og þá fannst mér þessi hefð vera komin á sitt lægsta plan.

Nú er móttöku nýnema lokið í þriðja sinn, með þeim jákvæðu formerkjum sem  mótuð voru haustið 2014.   Trú mín á að maðurinn sé eitthvað annað og meira en kjúklingur, hefur vaxið enn frekar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...