21 ágúst, 2016

Reynir Sævarsson og Skálholt 1974-5

Reynir Sævarsson (mynd: Kaja og Sævar)
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk í Laugarási, lést í Kaupmannahöfn að morgni 13. ágúst s.l. eftir erfið veikindi. Reynir fæddist 1959 og var því á 58. aldursári. Eftir að hafa gengið í Reykholtsskóla, lokið 9. bekk (Miðskóladeild) í Lýðháskólanum í Skálholti og stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, lá leið Reynis fyrst til Noregs þar sem hann vann eitt sumar við trjáfellingar. Hann nam síðan kvikmyndagerð um tíma, en lærði síðan frönsku í dönskum háskóla. Árangur hans í því námi leiddi til þess að franska ríkið bauð honum að stunda frönskunám í Frakklandi í eitt ár. Í kjölfar þess hóf hann þátttöku í hjálparstarfi á vegum Rauða krossins og ferðaðist um allan heim, en hann bjó sér heimili í Kaupmannahöfn. Árið 2002 veiktist hann alvarlega og varð þar með að gefa frekari starfaþátttöku upp á bátinn.
Kynni mín af Reyni stóðu nú svo sem ekki lengi, eða veturinn 1974-75, þegar hann var í  fyrsta nemendahópnum sem ég kenndi. Ég held að fyrsti nemendahópur hvers kennara hljóti að verða sá eftirminnilegasti og maður hlustar eftir því sem maður fréttir af þeim hópi síðan.
Í minningunni fór ekkert sérstaklega mikið fyrir Reyni. Hann var þarna að braska í gegnum táningsárin, eins og bekkjarfélagarnir. Hann var ljúfur nemandi, tranaði sér ekki fram, var jafnvel feiminn, en féll vel í hópinn, var góður námsmaður og sinnti sínu vel.
Foreldrar Reynis eru þau Karítas Óskarsdóttir og Sævar Magnússon. sem byggðu Heiðmörk. Börn þeirra urðu fjögur: Ómar, Reynir, Þór og Jóna Dísa (Sigurjóna Valdís).  Þór lést með sviplegum hætti árið 1993, svo ljóst má vera að mikið hefur verið lagt á heiðurshjónin Kaju og Sævar og systkinin.

Við andlát Reynis  hefur hugurinn reikað til vetursins í Skálholti, fyrir 42 árum. Margt er þar í móðu auðvitað, en þetta var ágætur vetur og ég á örugglega eftir að gera meira úr honum þótt síðar verði.

*********
Í Skálholti 1975: Þarna er afar góð vinkona okkar æ síðan,
Guðrún Ingólfsdóttir með okkur á mynd.
Þegar ég lauk stúdentsprófi frá ML vorið 1974 þurfti ég að gera upp við mig hvað ég ætlaði að gera til að skapa mér möguleika til framtíðar. Ég var ekki tilbúinn að skella mér beint í framhaldsnám, og það varð úr, að sr. Heimir Steinsson, þá rektor Lýðháskólans í Skálholti, tók áhættuna á því að  ráða mig, nýstúdentinn, til starfa. Þáverandi unnusta mín og síðar eiginkona, Dröfn Þorvaldsdóttir fékk einnig starf í mötuneyti skólans þennan vetur.

Vissulega var kennsla eitt þeirra starfa sem til greina komu hjá mér og ég taldi, að með því að kenna í Skálholti einn vetur myndi ég átta mig á hvort þessi starfsvettvangur gæti hentað mér.


Í Lýðháskólanum þennan vetur voru um 24 lýðháskólanemar, en einnig hafði skólinn tekið að sér að sjá um kennslu nemenda 9. bekkjar, en þeir Tungnamenn hefðu að öðrum kosti þurft að fara í Héraðsskólann á Laugarvatni og einhver(jir) tók(u) reyndar þann kost.  Það voru 14 nemendur í 9. bekk þennan vetur, 12 "Tungnamenn" og 2 sem höfðu tengsl við sveitina, en sem áttu fjölskyldur annarsstaðar. Þetta voru þær Svala Hjaltadóttir, sem mig minnir að hafi verið í skólanum í gegnum Ásakot, líklegast systurdóttir Vigdísar, þó ég þori ekki að fullyrða það, og Ásbjörg Þórhallsdóttir, systir Dóru, konu sr. Heimis.
Aðrir nemendur í bekknum voru þessir:
Atli V. Harðarson frá Lyngási.
Birgir Haraldsson frá Höfða.
Eiríkur Már Georgsson frá S-Reykjum þá, en síðar Vesturbyggð í Laugarási.
Grímur Þór Grétarsson frá S.Reykjum.
Guðmundur Hárlaugsson frá Hlíðartúni.
Guðmundur B. Sigurðsson frá Heiði.
Guðrún Sverrisdóttir frá Ösp.
Hallveig Ragnarsdóttir frá Ásakoti.
Inga Birna Bragadóttir frá Vatnsleysu.
Jón Ingi Gíslason frá Kjarnholtum.
María Sigurjónsdóttir frá Vegatungu.
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk.

Það er ákveðin eldskírn að kenna í fyrsta sinn, ekki síst þegar maður er aðeins 5 árum eldri en nemendurnir. Þessum bekk kenndi ég ensku og fyrirmyndir mínar við þá iðju hlutu að verða þeir Benedikt Sigvaldason, sem var skólastjóri og enskukennari í Héraðsskólanum á Laugarvatni og Björn Ingi Finsen, sem var enskukennarinn minn í ML. Ég hugsa að ég hafi frekar nýtt aðferðir Björns Inga, enda hafði ég ekki í mér ýmislegt það sem einkenndi kennsluaðferðir eða kennsluhætti Benedikts.
Ég kenndi Lýðháskólanemendunum auðvitað einnig, ensku og frönsku. Þeir voru enn nær mér í aldri og sumir jafnaldrar.

Samstarfsfólkið var hið ágætasta. Sr. Heimir var einstaklega hæfur í starfi. Hann hafði kynnst lýðháskólahugmyndinni  þegar hann kenndi við danskan lýðháskóla í þrjú ár áður en hann var ráðinn til starfa í Skálholti.  Dóra hélt utan um mötuneytisreksturinn, en annað starfsfólk var það sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Fimm úr þessum hópi eru nú látin, en við hin höldum áfram að eldast, svona rétt eins og gerist.

Í sem stystu máli má segja að þessi fyrsta reynsla mín af kennslu hafi orðið til þess að ég ákvað að nema ensku og uppeldisfræði við Háskóla Íslands. Kennslan varð síðan ævistarf mitt.


Bestu þakkir færi ég Jónu Dísu fyrir upplýsingar um lífshlaup bróður hennar.

1 ummæli:

Atli Harðarson sagði...

Bestu þakkir fyrir að minnast Reynis.

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...