19 ágúst, 2016

Jóna á Lind

Jónína Sigríður Jónsdóttir, eða Jóna á Lindarbrekku, lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, laugardaginn 13. ágúst. Útför hennar er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 - handrit
Atriði í 4 þáttum, skotið inn á milli annarra atriða.
Persónur: Manneskjan, sem er kona komin á steyp(ir)inn og rödd símans.
1. Manneskja kemur að síma og er að flýta sér. Tekur tólið af.
Síminn: (öskrar) Nei, þú færð ekkert samband hér!
Manneskjunni krossbregður og hún skellir tólinu aftur á.
2. Manneskjan kemur að símanum, varlega. Lyftir tólinu mjög varlega, við öllu búin. ekkert gerist.
Bíður eftir sóni og velur síðan fyrstu töluna.
Um leið fer tólið að lemja manneskjuna í andlitið.
Síminn: (hrópar) Var ég ekki búinn að segja þér að láta mig í friði, fæðingarhálfvitinn þinn!
Manneskjan missir tólið og grípur fyrir andlitið í skelfingu. Hleypur út.
3. Manneskjan kemur aftur, alveg miður sín og fer að reyna að tala um fyrir símanum.
Manneskjan: En barnið er alveg að koma. Ég verð að ná í sjúkrabíl!
Gengur síðan varlega að símanum, tekur tólið af, bíður eftir sóni, á alltaf von á hinu versta, velur fyrstu tölu, bíður, aðra tölu, bíður, þriðju tölu, bíður, fjórðu tölu, bíður. Smám saman fer manneskjan að slappa af. Velur fimmtu tölu og fær þá í sig gífurlegan rafstraum gegnum tólið. Kippist til, ógurlega og öskrar upp yfir sig. Tólið fellur. Manneskjan flýr og ógeðslegur hlátur heyrist frá símanum.
4. Manneskjan birtist, gengur að símanum. Geðveikislegt útlit og hlátur, setur símann á gólfið og hoppar síðan öskrandi á honum. Ef síminn brotnar ekki nægilega við þetta, hleypur manneskjan baksviðs og kemur aftur með slaghamar og mélar símann, ásamt því sem hún hrópar ókvæðisorð að honum.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 Aftari röð frá vinstri:
Sigríður Guttormsdóttir, Karítas Óskarsdóttir, Georg Franzson,
Brynja Ragnarsdóttir, Þóra Júlíusdóttir, Páll M. Skúlason,
Elinborg Sigurðardóttir, Jens Pétur Jóhannsson. Fremri  röð
frá vinstri: Gunnlaugur Skúlason, Jónína Sigríður Jónsdóttir,
Fríður Pétursdóttir, Matthildur Róbertsdóttir,
Guðmundur Ingólfsson. Dansmeyjar hægra megin:
Gústaf Sæland og Jakob Narfi Hjaltason.

Af einhverjum ástæðum, dettur mér alltaf þetta atriði úr þorrablótsdagskránni 1991 í hug þegar mér verður hugsað til Jónu á Lindarbrekku. Þarna var hún, hálfsjötug, að leika kasólétta konu sem ætlar að hringja á sjúkrabíl, en síminn er hreint ekki á því að veita henni færi á því. Jóna vílaði hreint ekki fyrir sér að taka að sér þetta hlutverk og skilaði því með slíkum ágætum að ég man það enn.
Atriði eins og þetta tengjast auðvitað einhverju sem gerst hafði innan sveitar árið á undan og ég man hreint ekki hvað það var með símamálin sem kallaði fram þennan þátt í skemmtidagskránni, en gaman fannst mér að finna þetta handrit í fórum mínum. Ég tel að það sé bara vel við hæfi að láta það fylgja hér, um leið og ég reyni að hripa niður einhverjar línur í minningu Jónu.

Jónu á Lindarbrekku, eða Jónínu Sigríði Jónsdóttur, hef ég þekkt alla ævi. Samskiptin milli okkar og fjölskyldna okkar í Laugarási voru einna nánust á fyrstu áratugum ævi minnar. Jóna og Guðmundur komu í Laugarás 1951, einum tveim árum áður en ég leit dagsljós fyrsta sinni. Þau fluttu í örlítið sumarhús á Lindarbrekku (29 m²), sem þau byggðu síðan við um 10 árum seinna, enda varla um annað að ræða þar sem börnunum fjölgaði stöðugt. Þau urðu fjögur, öll fædd á einum áratug, frá 1951-1961: Indriði, Jón Pétur, Katrín Gróa og Grímur.
Þegar Jóna og Guðmundur fluttu í Laugarás voru þar fyrir Knútur Kristinsson læknir og kona hans Hulda Þórhallsdóttir, Helgi, bróðir Guðmundar  og kona hans Guðný (Gauja) Guðmundsdóttir, en þau tóku við búskap á Laugarásjörðinni 1946, foreldrar mínir, Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir í Hveratúni, sem komu í Laugarás 1946, og Jón Vídalín Guðmundsson, bróðir Gauju og Jóna Sólveig Magnúsdóttir á Sólveigarstöðum, en þau komu rétt fyrir, eða um 1950.
Guðný í Hveratúni, Jóna á Lindarabrekku, Gauja í Helgahúsi,
Maja í Skálholti, Magga á Iðu.
Á þessum tíma og reyndar fram á sjöunda áratuginn má segja að þessir íbúar Laugaráss hafi verið ein fjölskylda; frumbýlingar sem stóðu saman, hjálpuðust að, var boðið í barnaafmælin, skiptust á jólagjöfum og þar fram eftir götunum. Á sjötta áratugnum reis hús fyrir dýralækni í Launrétt og þangað fluttu Bragi og Sigurbjörg og 1958 komu svo Hjalti og Fríður í Laugargerði.
Þarna var fámennur og þéttur hópur og það má bæta við fjölskyldunum á Iðu, í Skálholti og á Spóastöðum.
Fyrir mér var Jóna alltaf þessi hressa kona, afskaplega félagslynd og barngóð og ágætur húmoristi.
"Sæll komdu", sagði hún alltaf þegar hún heilsaði, en aldrei "Komdu sæll". Ég reikna með að þarna hafi verið um einhverja austfirsku að ræða, en Jóna var frá Neskaupstað. Hún kom á Laugarvatn um miðjan fimmta áratuginn, þar sem hún vann í skólamötuneytinu veturinn 1948-49 og kynntist eiginmanninum sem síðar varð. Hún var síðan í sumarvinnu hjá Helga í Laugarási áður en hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og trúlofaðist Guðmundi sínum.


Gæti verið saumaklúbbur í Hveratúni: f.v. Jóna á Lindarbrekku,
Fríður í Laugargerði, Ingigerður á Ljósalandi, Maja í Skálholti,
Gauja í Helgahúsi, Gerða í Laugarási (læknisfrú),
Guðný í Hveratúni, frú Anna í Skálholti, ??,
Renata í Launrétt, ??, Áslaug á Spóastöðum?
Þeir hverfa af sviðinu, hver á fætur öðrum, þessir fyrstu íbúar í Laugarási, en það er víst lífsins saga, eins og augljóst má vera. Þeim er reiknaður mislangur tími; sumir hafa horfið á braut alltof snemma, en aðrir lifa vel sprækir fram í háa elli.  Jóna átti eitt ár í nírætt þegar kallið kom, og flestum þykir það væntanlega ágætur aldur.

Árið 2012 varð það úr að hjónakornin á Lindarbrekku fluttu í þjónustuíbúð á Flúðum. Þaðan lá leið þeirra um þrem árum síðar á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og ég er viss um að þar áttu þau góða vist saman, hjá því úrvals fólki sem þar starfar.  Ég má til með að halda því fram hér, að þau hefðu gjarnan viljað ljúka ævigöngunni á sambærilegu heimili hér í Laugarási, en um það var ekkert val.
Guðmundur lifir Jónu sína, á 102. æviári.

Það get ég sagt með sanni, að með Jónu hverfur á braut hreint ágæt kona og úrvals nágranni. Henni þakka ég samfylgdina.

Í Litla Bergþór í desember 2010 birtist ágætt viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur við Guðmund og Jónu.

Guðmundur fagnar aldarafmæli sínu í apríl 2015.







Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...