Sýnir færslur með efnisorðinu Toronto. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Toronto. Sýna allar færslur

08 maí, 2019

Spjaldaður (997)

Það hefur æxlast þannig, að ég lendi oftar en ekki bak við myndavélar. Frá þessu átti sér stað umtalsverð breyting þar sem tríóið: ég, fD og fR lögðum leið okkar til Kúbu og Kanada í fyrri hluta marsmánaðar. Auðvitað tók ég aragrúa af myndum, en þarna varð sú breyting á að fR hafði tekið með sér forláta spjaldtölvu og myndaði af miklum móð, þar á meðal mig, alls óvanan slíkri meðferð.
Það sem meira er þá tók hún sig til fyrir skömmu og sendi mér afraksturinn, að því er mig varðaði.

Auðvitað eru myndirnar ágætar, í sjálfu sér, eins og vænta mátti, en mér fannst samt eitthvað ekki vera eins og ég hafði séð það fyrir mér. Þetta eitthvað er ég sjálfur. 
Það er ljóst, að ég verða að fara að venja mig við þá hugsun um eða sýn á sjálfan mig, að ég er ekki sá sem ég er, þar sem ég birtist á ljósmyndum, sem ég hef ekki sjálfur tekið og unnið úr.

Hvað um það, þegar svona tækifæri kemur upp í hendurnar á manni þá er ekki um annað að ræða en gera eitthvað úr því. Því birti ég hér fyrir neðan umræddar myndir, sem ég hef aðeins sett mín fingraför á. Í þeim birtist sú manneskja sem ég er, víst.

Fyrsta mynd: Indælt morgunverðarborð í Casilda.


Önnur mynd: Sama borð þar sem tríóið er saman komið.


Þriðja mynd: Sama borð, annar tími. Ég hef reyndar ekki reykt árum saman, sem samt....


Fjórða mynd: Havana í 1948 árgerð, þar sem mér var ætla að spjalla við bílstjórann af þekkingu um bifreiðina.


Fimmta mynd: Kirkja í Vinales. Maður fer inn í kirkjur þar sem þær eru. Já, það eru kirkjur á Kúbu.


Sjötta mynd: Endurmenntun í reykingum. Maður sleppir því ekki að prófa ekta Kúbuvindla.


Sjöunda mynd: Mávarnir við Niagarafossana voru harla vanir túristagerinu.


Áttunda mynd: Á Front Street í Toronto, fyrir framan Glenn Gould Studíóið situr sjálfur Glenn Gould á bekk. Glenn Gould (1932 - 1982) var kanadískur píanóleikari og einn þekktasti og virtasti píanóleikari 20. aldar. Hann var dáður fyrir túlkun sína á verkum J.S. Bach.


Þá höfum við það gott fólk. 
Nú þekki ég sjálfan mig betur og líklegast þið einnig. 











19 mars, 2019

Kúba: "Ferðin okkar?"

Það hafði vissulega hvarflað að mér, að það væri nú nógu gaman að leggja leið til Kúbu, en umræða um slíkt hafði aldrei náð neinu flugi, en þetta hafði vissulega komið til tals, ekki síst þegar fR nefndi það að við þrjú, sem hér er og verður um að ræða, þyrftum endilega að drífa okkur eitthvert saman.

Það var svo ekki fyrr en í lok nóvember, að skeyti barst á samfélagsmiðli frá fR. Þar var að finna hlekk á auglýsingu um ferð til Kúbu, ásamt tjákni sem vísar til einhverskonar  hálfkærings, en samt einhvern veginn ekki:
Þar sem þarna var ekkert spurningamerki og þar með ekki óvitlaust að líta á skilaboðin sem fullyrðingu með því að víxla "Er" og "þetta", kviknaði einhver neisti og hugurinn hvarf til menntaskólaáranna og Che Guevara og alls þess sem því fylgdi.  Þegar maður fær tækifæri til að upplifa drauma unglingsáranna svo skyndilega getur ýmislegt skeð. Þar sem ég leit þessi skilaboð varð mér á orði: "Jú, einmitt!"

Ég hóf að kynna mér þetta fyrirbæri 2GO ICELAND og þessar ferðir. Þarna á bakvið voru einhverjir tveir náungar, mögulega ævintýramenn, tilbúnir að leiða bláeyga landsbyggðarmenn á glapstigu. 
Við tókum þann pól í hæðina og nú væri einmitt kominn tími til að taka einhverja áhættu í lífinu og þar með fór ég á vefsíðuna kubuferdir.com  bókaði ferð fyrir okkur þrjú í ferð til Kúbu. Svo tók við bið eftir því sem gerðist næst.

Það reyndist vera hringing frá Guðna, nokkrum, Kristinssyni, öðrum forsprakka þessa fyrirtækis, sem ég síðan ættfærði og komst þannig að því að hann er frá Skarði í Landssveit og þar með Sunnlendingur og þar með nær því að vera í lagi. Við fórum yfir málin, greiðslur og fleira og þannig rúllaði þetta bara af stað og ég orðinn nokkru vissari um að ekki hefði verið um gönuhlaup hjá okkur að ræða.
Þetta myndi allt fara vel.
Síðan tók við bið fram til 1. mars. Jú, við ákváðum, að ráði heilbrigðisstarfsfólks að verða okkur úti um bólusetningu við hinu og þessu. Svei mér ef við erum ekki orðin fær um ferðalög um allan heim eftir þær. Það á víst ekkert að bíta á okkur. Reyndar fengum við síðar upplýsingar um að það væri ekkert endilega nauðsynlegt að fara í svona sprautur fyrir ferðalag til Kúbu, en hvað með það, svo sem?
Ég fjölyrði ekki frekar um aðdragandann að ferðinni, en gríp næst niður þar sem við þrjú, auk mín fylgdarkonurnar frú Dröfn Þorvaldsdóttir (fD) og frú Ragnheiður Jónasdóttir (fR) sátum með gutl í glasi og skyndibita í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vorum einhvernveginn ekki alveg viss um að þetta myndi gerast. Vorum meira að segja farin að gera áætlanir um að leigja okkur íbúð á Stokkseyri í hálfan mánuð frekar en að snúa til baka, ferðarlaus. Auðvitað voru þetta bara taugaveiklaðar pælingar í aðdraganda mikillar ferðar og að engu hafandi.

Sjálfsafgreiðslustandarnir á Pearson flugvelli (mynd af vef)
Flugvél Icelandair hóf sig á loft á réttum tíma, rúmlega 17 og stefnan var tekin í vesturátt, en áfangastaðurinn var Toronto í Kanada þar sem ætlunin var að gista eina nótt á flugvallarhóteli. Með í för var áðurnefndur Guðni, en hinn hluti tvíeykisins, hann Carlos var þegar staddur á Kúbu við að undirbúa móttöku 30 manna hópsins sem þarna var um að ræða.
Á Pearson flugvelli byrjaði ævintýrið fyrir alvöru, með óvissu þeirra sem vita ekkert hvað þeir eru komnir út í. 
Það var talsverð þrautaganga að komast að farangrinum, sem hófst á afar langri gönguför um rangala flugstöðvarinnar í endalausri röð af fólk. Við gengum þar til við komum í sal sem ég hef aldrei áður séð á flugvöllum, þar sem feikilegur fjöldi fólks var að bardúsa fyrir framan einhverjar vélar.  Það blasti við að við myndum þurfa að eiga samskipti við þær, svo við fylgdumst með hvað fólk var að gera. Það smellti á skjáhnappa, setti vegabréf sín inn í skanna, og síðan fór einhver armur af stað, sem reyndist vera búinn myndavél. Armurinn stillti sér upp í hæð við þann sem við vélina stóð og tók mynd. Í lokin prentaði vélin síðan út blað með myndinni, sem viðkomandi átti síðan að geyma vandlega og framvísa þegar gengið væri úr flugstöðinni.
Svo kom röðin að okkur og við smelltum á skjáhnappa. Svo bað vélin um að við settum vegabréfin á tiltekinn stað til skönnunar, sem við gerðum. Eftir nokkra umhugsun tilkynnti vélin hinsvegar að vegabréfið hefði þegar verið skannað og hætti við aðgerðina og engin mynd var tekin og við fengum ekkert blað útprentað og skipti þá engu hvert þriggja vegabréfanna var skannað.

Jæja, hvað tæki nú við? 
Ekki gátum við bara staðið þarna og séð til hvað gerðist næst og því var eina mögulega útgönguleiðin að koma okkur fyrir í röðinni sem lá úr skannasalnum að töskufæribandinu. Þarna á milli var í raun mjög stutt leið, en röðin hinsvegar ógnarlöng. Manni leið dálítið eins og lambi á leið til slátrunar (veit reyndar ekki hvernig því líður) þar sem röðin liðaðist milli banda, fram og til baka, einum fjórum sinnum. Þetta gekk þó furðu hratt og eftir heilsubótargöngu dagsins í þessum sirkus komum við að flokkunarkonu sem benti fólki á hvert það ætti að fara, eftir því hvort það hafði útprentaða miða eða engan miða, sem við höfðum auðvitað ekki: "Go to number 12" sagði hún við okkur miðalausa fólkið. Fyrir innan lúgu  sem merkt var 12, sat ábúðarmikil, dökk kona og ég greindi frá ástæðum þess að við vorum þarna stödd.  Þá tók við heilmikil yfirheyrsla, þar sem fjallað var um ástæðu komu okkar, lengd dvalar og hvort við værum með vopn, sprengjur, eiturlyf eða eitthvað annað illt, í farteskinu.  Þar kom, eftir hálfglottandi svör mín við spurningum um það hvort við værum hryðjuverkamenn eða eiturlyfjasmyglarar, stimplaði landamæravörður þessi á gulan miða og benti okkur áfram í átt að töskufæribandinu. 

Okkur var létt.

Ekki hef ég mörg orð um þá venjubundnu aðgerð fólks á flugvöllum að bíða eftir töskum á færibandi brottför úr töskusalnum og inn í Kanada, en það sem þá tók við var stutt ferð með flugvallarlest yfir á Alt hótel, sem var bara ágætt.  Það var ekki laust við þreytu eftir reynslu dagsins, og á íslenskan tíma var klukkan langt gengin í 12 á miðnætti, en þarna var 5 tíma munur á Íslandi og Toronto.

Í býtið næsta morgun, 2. mars, pökkuðum við og brunuðum síðan með lestinni á flugvöllinn, á degi sem átti eftir að verð áhugaverður. 

Pearson flugvöllur (mynd af vef)
Pearson flugvöllur er talsvert stór og þegar við bættist að til hans þekktum við ekkert, virkaði hann frekar yfirþyrmandi. Guðni hljóp á milli og leiðbeindi hópnum á sjálfafgreiðslustöðvum og benti síðan á hvar ógnarlöng röðin í sjálfvirka töskuafhendinguna byrjaði: "Þarna þar sem þú séð bláklæddu konuna". Ég sá reyndar nokkrar, en sú rétta fannst og við tók lö-ö-öng röð með allar töskurnar.  Töskumóttakan neitaði svo að taka við töskunum okkar svo við urðum að kalla til starfsmann, sem braust inn í tölvukerfið og nauðgaði töskunum okkar í gegn. Skyldu þær þá fylgja okkur til Kúbu?
Allt gekk nú harla vel í gegnum öryggisskoðunina utan þar misstum við dýrindis sólarvörn sem við höfðum gleymt að flytja á milli taska. Hvað með það, þetta átti nú ekki að verða nein sólarferð, þannig séð.
Ekki gátum við framfylgt þeim íslenska sið að skella í okkur drykk fyrir flugið, en Kanadamenn selja ekki áfenga drykki í flugstöðvum fyrr en kl. 11 á daginn. Við lifðum það af og síðan flugum við í rúma þrjá klukkutíma yfir landið hans Trömps með flugfélaginu West Jet áður en við lentum á áfangastaðnum, Varadero á norðanverðri Kúbu. 

Þar með vorum við komin í nýjan menningarheim, en frá því segir næst.

17 mars, 2019

Kúba: Ekki strax .... en síðar.


Ég ætla mér að festa á þetta svæði einhverskonar frásögn af ferð minni til Kúbu nú í fyrri hluta mars. Það gerist hinsvegar ekki í dag, þar sem ég þarf fyrst að koma frá mér einhverjum þeirra hugrenninga sem þessi ferð hefur kallað fram. Ég vona að mér takist það án þess að virðast heittrúaður á einhvern hátt, enda væri slík afstaða hvorki mér né öðru til framdráttar.

Það er eiginlega verst að þær vangaveltur sem mig langar að reyna að koma frá mér, eru svo stórar, að ég átta mig ekki fyllilega á því hvernig ég á að fara að því. Ætli megi þó ekki segja að þær fjalli um líf okkar á jörðinni, hvorki meira né minna.

Einhver kann að velta fyrir sér litla stund, hvort nú hafi ég endanlega misst tökin. Ég hyggst hinsvegar ekki freista þess að bregðast við slíkum, mögulegum pælingum, heldur halda mínu striki, hvert sem það kann að leiða mig.

"The answer to the ultimate question of life, the universe and everything is 42." 
(Adams, D.: The Hitch Hiker's Guide to the Galaxy)

Já, það er engu líkara en ég ætli mér að takast á við þessa ógnarstóru spurningu, en svo er auðvitað ekki. Mig langar frekar að spyrja sem svo: 

Úr íslenskri ofgnóttarverslun
Hvað höfum við gert, hvert hefur það leitt okkur og hvert stefnir?
Þetta er svo sem alveg nógu stór spurning fyrir hvern sem er og svör við henni hljóta að taka mið af ótal umfangsminni spurningum.  

Maðurinn hefur, frá því hann varð að einhverskonar "nútímamanni" í það minnsta, búið yfir allskyns hæfileikum, þar á meðal samkennd, hófsemi, trúarþörf, getunni til að greina rétt frá röngu, sjálfsást, ást til annarra, að hugsa út leiðir til að leysa vandamál, græðgi, undirferli, að skara eld að eigin köku.  
Þetta voru nú bara nokkur atriði af handahófi, en sem gefa til kynna, að maðurinn er bæði góður og vondur. Hann býr yfir miklum andstæðum og það má segja að saga hans endurspegli það. 
Það hafa komið fram einstaklingar og hópar, sem telja sig bera fram hina einu réttu leið fyrir okkur, leiðina að hamingusömu lífi, annað hvort fyrir alla eða bara suma. Það hafa sprottið fram spekingar sem telja leiðina felast í því að allir séu jafnir og aðrir spekingar sem telja að einstaklingsfrelsið muni helst verða okkur til góðs og enn aðrir spekingar sem hafa sett fram kenningar um eitthvað þarna á milli. 
Á tóbaksræktarbúgarði í Viñales á vesturhluta Kúbu
Ég leyfi mér að fullyrða, að engar þessara kenninga hafa gengið, eða ganga upp. Hversvegna skyldi það nú vera?  
Mitt svar er nú, í einfaldleika sínum, allir þeir veikleikar sem mannskepnan býr yfir. Þar eru þrír eiginleikar sem standa upp úr (að mínu mati, að sjálfsögðu): trúgræðgi og valdafíkn
Græðgin og valdafíknin byggja á þeirri trú, að þessir eiginleikar leiði til lífshamingu eða lífsfyllingar. 


Til hvers lifum við?
Við fæðumst einhversstaðar á jörðinni. Það getur verið í Sýrlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Kúbu eða Íslandi. Það sem þá bíður okkar er líf í svona 60 til 80 ár. Við stöndum frammi fyrir því að takast á við þetta líf, og reynum að gera okkar besta til að það sé þess virði að lifa því, hvert með sínum hætti. 
Svo deyjum við.  
"So long, and thanks for all the fish". (Adams, D.)

Toronto úr CN-turninum
Líf okkar milli fæðingar og dauða getur verið til einskis, það getur stuðlað að bjartari framtíð þeirra sem koma á eftir okkur, en það getur einnig eyðilagt möguleika þeirra á hamingjuríku lífi, eða lífi, yfirleitt. 

Tilgangur lífs okkar getur aldrei orðið annar en að ala af okkur og móta framtíð komandi kynslóða. Allar okkar eignir og upplifanir um ævina eru í raun ekki til neins fyrir okkur sjálf, svona þegar upp er staðið. Þær geta hinsvegar haft áhrif á afkomendur okkar svo lengi sem jörðin verður byggileg.
En hve lengi verður hún það?
Ekki lengi ef okkur tekst ekki að hætta að hugsa í núinu.
Ekki lengi ef við hægjum ekki á okkur, hættum að hugsa um veraldleg gæði fyrst og fremst og byrjum í staðinn að hugsa inn á við, huga að því sem stendur okkur næst og velta fyrir okkur hvað það er sem raunverulega skapar lífshamingjuna, hætta að velta okkur upp úr hlutum sem, í hinu stóra samhengi skipta nákvæmlega engu.

Hendur í Havana
Kommúnistaríkið Kúba verður víst seint talið fyrirmyndarríki. 
Ég mun fjalla síðar um hvernig hún blasti við mér. 
Það jákvæða sem ég upplifði var, að mér fannst fólkið talsvert lífsglaðara en þekkist hjá okkur, það var meiri ró yfir lífinu, samskipti barna og foreldra nánari, samkennd meðal íbúanna meiri, hjálpsemi við brugðið. Mér fannst fólkið, á heildina litið, vera hamingjusamt, þó svo ekki virtist nú beinlínis mulið undir það.  

Svo flugum við í þrjár klukkustundir til Toronto í Kanada, sem segja má að sé alger andstæða að mörgu leyti. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um Kanadabúa út frá stuttri viðdvölinni. Um göturnar, í skugga háreistra glerveggja  stormaði fólk með heyrnartól og Starbucks kaffimál, í eign heimi á einhverri vegferð. Ég sá færri bros, en þeir Kanadabúar sem við þó hittum, virtust ánægðir með lífið, en það voru helst þjónustufólk og leigubílstjórar. 

Nei, ég á ekki neitt endanlegt svar, frekar en aðrir. 

Skilti rétt fyrir neðan Niagara fossana
Ég vil ljúka þessu og þar með afgreiða þessar vangaveltur mínar með því að spyrja þig, lesandi góður aðeins um hamingjuna (ef þér er sama um hana, skaltu bara láta eiga sig að lesa spurningarnar - þitt er valið): 
Finnurðu hamingju þína aukast og að þú finnir til aukinnnar lífsfyllingar þegar:
- þú getur valið milli 20 tannkremstegunda í Bónus?
- þú getur valið milli 50 sjónvarpsdagskráa?
- þú getur keypt nýjasta farsímann?
- þú færð mörg læk á Facebook?
- þú bjargar kvöldinu með því að leyfa börnunum þínum að "horfa"?
- þú ert búinn að setja inn illgirnislega athugasemd við einhverja frétt eða frásögn á netinu?
- þú losar þig við ruslið úr bílnum í vegarkanti?
- þú vinnur 10 tíma á dag?
- þú ferð út að borða þrisvar í viku?
- þú horfir á fréttir sem greina frá hörmungum fólks í Austurlöndum?
- þú lest fyrir bönin þín áður en þau fara að sofa á hverju kvöldi?
- þú spjallar við börnin þín við matarborðið?
- þú gefur fuglum í garðinum?
- þú leggst til hvílu eftir að hafa gert eitthvert góðverk?
- þú ferð til sólarlanda á hverju ári?
- þú getur keypt nautalund frá Ástralíu í Bónus?
- þú getur fengið frægan ost frá Frakklandi í búðinni. 
- þú getur sturtað klósettpappírnum í klósettið?
- þú getur gengið um götur og torg í merkjafötum?
- þú varst fremst(ur) í röðinni þegar bandríski kleinuhringjastaðurinn var opnaður á Laugavegi?

Ég get sannarlega haldið áfram lengi með þessar spurningar, en veit ekki hverju það myndi breyta. 
Þegar upp er staðið er það eina sem við, aumar manneskjurnar, getum gert, er að reyna að vera almennilegar manneskjur, sem tilheyra samfélagi og taka á sig samfélagslega ábyrgð. Ef okkur tekst það þá erum við á réttri leið.

Ytra prjál, hvaða nafni sem það nefnist, er lítið annað en sóun á auðlindum heimsins. 

Þá er ég búinn að koma þessu frá og í framhaldinu ætla ég að fjalla, með einhverjum hætti, um ferð mína til Kúbu fyrir skömmu, en þangað brá ég mér með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur (hér eftir fD) og góðri vinkonu okkar Ragnheiði Jónasdóttur (hér eftir fR). 
Ég hugsa að ég verði lengi að vinna úr þeirri upplifun sem það var að koma til Kúbu og þeim hugrenningum sem heimsóknin vakti. 

Hvernig var að að vera Vesturlandabúinn, sem hefur miklu meira en allt til alls, sem brá sér í heimsókn til kommúnístaríkisins Kúbu? 
Var þessi ferð kannski bara enn eitt dæmið um flottræfilshátt eða sjálfsupphafningu (Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn!) - tilraun til að geta svo sagt frá því þegar heim væri komið, hve sigldur maður er nú orðinn? 
Hver veit? 
Kannski.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...