17 mars, 2019

Kúba: Ekki strax .... en síðar.


Ég ætla mér að festa á þetta svæði einhverskonar frásögn af ferð minni til Kúbu nú í fyrri hluta mars. Það gerist hinsvegar ekki í dag, þar sem ég þarf fyrst að koma frá mér einhverjum þeirra hugrenninga sem þessi ferð hefur kallað fram. Ég vona að mér takist það án þess að virðast heittrúaður á einhvern hátt, enda væri slík afstaða hvorki mér né öðru til framdráttar.

Það er eiginlega verst að þær vangaveltur sem mig langar að reyna að koma frá mér, eru svo stórar, að ég átta mig ekki fyllilega á því hvernig ég á að fara að því. Ætli megi þó ekki segja að þær fjalli um líf okkar á jörðinni, hvorki meira né minna.

Einhver kann að velta fyrir sér litla stund, hvort nú hafi ég endanlega misst tökin. Ég hyggst hinsvegar ekki freista þess að bregðast við slíkum, mögulegum pælingum, heldur halda mínu striki, hvert sem það kann að leiða mig.

"The answer to the ultimate question of life, the universe and everything is 42." 
(Adams, D.: The Hitch Hiker's Guide to the Galaxy)

Já, það er engu líkara en ég ætli mér að takast á við þessa ógnarstóru spurningu, en svo er auðvitað ekki. Mig langar frekar að spyrja sem svo: 

Úr íslenskri ofgnóttarverslun
Hvað höfum við gert, hvert hefur það leitt okkur og hvert stefnir?
Þetta er svo sem alveg nógu stór spurning fyrir hvern sem er og svör við henni hljóta að taka mið af ótal umfangsminni spurningum.  

Maðurinn hefur, frá því hann varð að einhverskonar "nútímamanni" í það minnsta, búið yfir allskyns hæfileikum, þar á meðal samkennd, hófsemi, trúarþörf, getunni til að greina rétt frá röngu, sjálfsást, ást til annarra, að hugsa út leiðir til að leysa vandamál, græðgi, undirferli, að skara eld að eigin köku.  
Þetta voru nú bara nokkur atriði af handahófi, en sem gefa til kynna, að maðurinn er bæði góður og vondur. Hann býr yfir miklum andstæðum og það má segja að saga hans endurspegli það. 
Það hafa komið fram einstaklingar og hópar, sem telja sig bera fram hina einu réttu leið fyrir okkur, leiðina að hamingusömu lífi, annað hvort fyrir alla eða bara suma. Það hafa sprottið fram spekingar sem telja leiðina felast í því að allir séu jafnir og aðrir spekingar sem telja að einstaklingsfrelsið muni helst verða okkur til góðs og enn aðrir spekingar sem hafa sett fram kenningar um eitthvað þarna á milli. 
Á tóbaksræktarbúgarði í Viñales á vesturhluta Kúbu
Ég leyfi mér að fullyrða, að engar þessara kenninga hafa gengið, eða ganga upp. Hversvegna skyldi það nú vera?  
Mitt svar er nú, í einfaldleika sínum, allir þeir veikleikar sem mannskepnan býr yfir. Þar eru þrír eiginleikar sem standa upp úr (að mínu mati, að sjálfsögðu): trúgræðgi og valdafíkn
Græðgin og valdafíknin byggja á þeirri trú, að þessir eiginleikar leiði til lífshamingu eða lífsfyllingar. 


Til hvers lifum við?
Við fæðumst einhversstaðar á jörðinni. Það getur verið í Sýrlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Kúbu eða Íslandi. Það sem þá bíður okkar er líf í svona 60 til 80 ár. Við stöndum frammi fyrir því að takast á við þetta líf, og reynum að gera okkar besta til að það sé þess virði að lifa því, hvert með sínum hætti. 
Svo deyjum við.  
"So long, and thanks for all the fish". (Adams, D.)

Toronto úr CN-turninum
Líf okkar milli fæðingar og dauða getur verið til einskis, það getur stuðlað að bjartari framtíð þeirra sem koma á eftir okkur, en það getur einnig eyðilagt möguleika þeirra á hamingjuríku lífi, eða lífi, yfirleitt. 

Tilgangur lífs okkar getur aldrei orðið annar en að ala af okkur og móta framtíð komandi kynslóða. Allar okkar eignir og upplifanir um ævina eru í raun ekki til neins fyrir okkur sjálf, svona þegar upp er staðið. Þær geta hinsvegar haft áhrif á afkomendur okkar svo lengi sem jörðin verður byggileg.
En hve lengi verður hún það?
Ekki lengi ef okkur tekst ekki að hætta að hugsa í núinu.
Ekki lengi ef við hægjum ekki á okkur, hættum að hugsa um veraldleg gæði fyrst og fremst og byrjum í staðinn að hugsa inn á við, huga að því sem stendur okkur næst og velta fyrir okkur hvað það er sem raunverulega skapar lífshamingjuna, hætta að velta okkur upp úr hlutum sem, í hinu stóra samhengi skipta nákvæmlega engu.

Hendur í Havana
Kommúnistaríkið Kúba verður víst seint talið fyrirmyndarríki. 
Ég mun fjalla síðar um hvernig hún blasti við mér. 
Það jákvæða sem ég upplifði var, að mér fannst fólkið talsvert lífsglaðara en þekkist hjá okkur, það var meiri ró yfir lífinu, samskipti barna og foreldra nánari, samkennd meðal íbúanna meiri, hjálpsemi við brugðið. Mér fannst fólkið, á heildina litið, vera hamingjusamt, þó svo ekki virtist nú beinlínis mulið undir það.  

Svo flugum við í þrjár klukkustundir til Toronto í Kanada, sem segja má að sé alger andstæða að mörgu leyti. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um Kanadabúa út frá stuttri viðdvölinni. Um göturnar, í skugga háreistra glerveggja  stormaði fólk með heyrnartól og Starbucks kaffimál, í eign heimi á einhverri vegferð. Ég sá færri bros, en þeir Kanadabúar sem við þó hittum, virtust ánægðir með lífið, en það voru helst þjónustufólk og leigubílstjórar. 

Nei, ég á ekki neitt endanlegt svar, frekar en aðrir. 

Skilti rétt fyrir neðan Niagara fossana
Ég vil ljúka þessu og þar með afgreiða þessar vangaveltur mínar með því að spyrja þig, lesandi góður aðeins um hamingjuna (ef þér er sama um hana, skaltu bara láta eiga sig að lesa spurningarnar - þitt er valið): 
Finnurðu hamingju þína aukast og að þú finnir til aukinnnar lífsfyllingar þegar:
- þú getur valið milli 20 tannkremstegunda í Bónus?
- þú getur valið milli 50 sjónvarpsdagskráa?
- þú getur keypt nýjasta farsímann?
- þú færð mörg læk á Facebook?
- þú bjargar kvöldinu með því að leyfa börnunum þínum að "horfa"?
- þú ert búinn að setja inn illgirnislega athugasemd við einhverja frétt eða frásögn á netinu?
- þú losar þig við ruslið úr bílnum í vegarkanti?
- þú vinnur 10 tíma á dag?
- þú ferð út að borða þrisvar í viku?
- þú horfir á fréttir sem greina frá hörmungum fólks í Austurlöndum?
- þú lest fyrir bönin þín áður en þau fara að sofa á hverju kvöldi?
- þú spjallar við börnin þín við matarborðið?
- þú gefur fuglum í garðinum?
- þú leggst til hvílu eftir að hafa gert eitthvert góðverk?
- þú ferð til sólarlanda á hverju ári?
- þú getur keypt nautalund frá Ástralíu í Bónus?
- þú getur fengið frægan ost frá Frakklandi í búðinni. 
- þú getur sturtað klósettpappírnum í klósettið?
- þú getur gengið um götur og torg í merkjafötum?
- þú varst fremst(ur) í röðinni þegar bandríski kleinuhringjastaðurinn var opnaður á Laugavegi?

Ég get sannarlega haldið áfram lengi með þessar spurningar, en veit ekki hverju það myndi breyta. 
Þegar upp er staðið er það eina sem við, aumar manneskjurnar, getum gert, er að reyna að vera almennilegar manneskjur, sem tilheyra samfélagi og taka á sig samfélagslega ábyrgð. Ef okkur tekst það þá erum við á réttri leið.

Ytra prjál, hvaða nafni sem það nefnist, er lítið annað en sóun á auðlindum heimsins. 

Þá er ég búinn að koma þessu frá og í framhaldinu ætla ég að fjalla, með einhverjum hætti, um ferð mína til Kúbu fyrir skömmu, en þangað brá ég mér með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur (hér eftir fD) og góðri vinkonu okkar Ragnheiði Jónasdóttur (hér eftir fR). 
Ég hugsa að ég verði lengi að vinna úr þeirri upplifun sem það var að koma til Kúbu og þeim hugrenningum sem heimsóknin vakti. 

Hvernig var að að vera Vesturlandabúinn, sem hefur miklu meira en allt til alls, sem brá sér í heimsókn til kommúnístaríkisins Kúbu? 
Var þessi ferð kannski bara enn eitt dæmið um flottræfilshátt eða sjálfsupphafningu (Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn!) - tilraun til að geta svo sagt frá því þegar heim væri komið, hve sigldur maður er nú orðinn? 
Hver veit? 
Kannski.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...