Sýnir færslur með efnisorðinu ljóð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ljóð. Sýna allar færslur

26 maí, 2018

Kjördagur

Regnið lemur framrúðuna á Qashqai þar sem við fD leggjum leið okkar í átt að hálendinu. Það er eins og það reyni að koma í veg fyrir að við fáum sinnt erindi okkar, en rúðuþurrkurnar reyna aftur á móti að berjast gegn regninu og vísa þannig leiðina á áfangastaðinn.

Áfram.

Áfram silumst við, hugsi.

Fyrir framan er túristabíll og annar fyrir aftan, svona eins og fara gerir.

Vegurinn býður upp að holudans til að drepa tímann. Eitt feilspor í þeim dansi gæti orðið dýrt. Það kemur sér illa að hafa ekki lagt meira upp úr skíðamennsku, en aðrir kostir vega á móti.

Þetta er nú ekki nema um 12 km spotti við þessar aðstæður, nægur tími til að gera upp hug sinn. Nægur tími til að velta fyrir sér hver möguleikanna 5 skuli valinn, nema niðurstaðan verði sú að bæta þeim sjötta við.

Nei, það er lýðræðisleg skylda að velja einn þessara fimm.
Þó mér finnist að ýmsu leyti ósanngjarnt að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu, er eiginlega ekki um annað að ræða en nýta þann dýrmæta rétt sem sem ég hef til að tjá vilja minn.

Við nemum loks staðar á áfangastað - kjörstað.
Enn þessi nagandi efi, enn þessi leiðinda pæling um að þetta breyti engu, til eða frá. Er það úrhellið og holurnar sem valda, eða er einhver löngu kæfður uppreisnarandi að reyna að láta á sér kræla?

Hvað með það.
Það verður ekki snúið við úr þessu. Best að ákveða þetta bara á leiðinni inn.

Kominn inn, en engin niðurstaða.

"Gjörðu svo vel, Sigríður, þú er næst." tilkynnir ofurhress dyravörður með gleraugu og beinir máli sínu til eldri konu með grásprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður. Til þess að komast inn á kjörstaðinn þarf nefnilega dyravörð, sem leyfir manni að ganga inn á kjörstaðinn, ganga þar fyrir þrjá valinkunna sveitunga, sem finna á hvaða blaðsíðu maður er í kjörskránni, segja hvert öðru og skrá það loks með penna á blaðsíðu í einhverjum doðranti.

Sigríður hverfur inn um dyrnar, en út kemur í sama mund yngri karlmaður með þykkt rauðsprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður, heldur.

"Má ekki bjóða ykkur kaffi?", gellur í dyraverðinum. "Það verður smá bið. Það eru þrír á undan þér".
"Hversvegna geta ekki fleiri en tveir verið þarna inni í einu?" spyr ég dyravörðinn - augljóslega af nokkurri vanþekkingu á kjörfræðilegum núönsum..
"Það eru nefnilega bara tveir kjörklefar þarna inni," kom svarið um hæl.
"Þarna inni" er salurinn þar sem ég dansaði í gamla daga eins og enginn væri morgundagurinn, við dynjandi rokktóna hljómsveitarinnar ein, Mána, ásamt 3-600 unglingum. Nú er bara pláss þarna inni fyrir tvo kjörklefa.  Spurningin var samt fullkomlega tilgangslaus og annað svar hefði engu breytt.

Ég gleymi að þiggja kaffið. Ég er að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.
Einn oddvitinn er þarna á svæðinu, en það auðveldar mér ekkert að finna rétta svarið.

"Þá ert þú næstur", tilkynnir dyravörðurinn mér og ég geng fyrir hin valinkunnu og þau gera það sem þau gera.
"Þú þarft svo að brjóta saman seðilinn áður en þú setur hann í kassann og strax þegar þú ert búinn að gera við hann það sem þú ætlar að gera", er efnislega það sem einn þeira segir við mig í þann mund er hann réttir mér seðilinn og áður en ég tek við honum og geng inn í annan tveggja kjörklefa, sem híma út við vegg.
Innan tjalds í klefanum (það eru engar dyr, heldur bara tjald) er lítil hilla, útkrotað sýnishorn af kjörseðli og blýantsstubbur.

Nú var mér nauðugur einn kostur að beita lýðræðislegum rétti mínum, sem forforeldrar mínir börðust fyrir með svita og tárum.

Ég hef 5 möguleika í þessari stöðu.
Ég vel á endanum einn. Það þýðir ekki að vera með neinar málalengingar í því sambandi.

Ég vel einn.

Valið er mitt og um það tjái ég mig auðvitað ekki.
Ég finn ekki fyrir neinni sérstakri fullnægju eða stolti eftir að niðurstaðan er fengin.

Út, út.
Enginn tekur mynd af mér þar sem ég set seðilinn í kassann. Ég þykist hissa á þessu og geri við það athugasemd. 
Hin valinkunnu brosa þreytulega. Búin að heyra þennan þreytta brandara oft á þessum degi.

Komið við í búð á heimleið og keyptur ís. með lúxus súkkulaðiídýfu.

Allavega það.

-----------------------------
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því þá var hér á ferð prósaljóðið Kjördagur, eftir mig.


29 október, 2016

Dagurinn í dag

Þar sem ég er búinn að segja allt sem ég ætla að segja um þessar kosningar til Alþingis ætla ég bara að taka eitthvað annað fyrir.

Flest það sem mér dettur í hug á þessum þungbúna degi, eftir að hafa farið í hraustlega kraftgöngu klukkan 11, undir regnhlíf sem varla dugði til að koma í veg fyrir að ég yrði holdvotur og eftir að hafa komið til baka, stoltur yfir því að hafa gengið þrjá og hálfan kílómetra, stoltur yfir því að geta bara yfirleitt verið stoltur yfir einhverju, er fremur þunglamalegt. Ég ætla þó að freista þess að dæla þeim þyngslum ekki yfir annað fólk; fólk sem í sakleysi sínu hrasar inn á þessi skrif.
Þó þetta sé dagur sem kann að ráða úrslitum um hvernig lífi okkar næstu árin verður háttað og fátt jákvætt virðist þar vera í kortunum, þá er þetta einnig dagur fyrir ofurlítið ljóð.

Þetta er dagurinn í dag.


Dagurinn, þar sem einmana músarrindillinn hoppar og skoppar, rennblautur milli trjágreinanna og hefur ekki vit á að koma sér í skjól, ekki frekar en of stór hluti okkar hefur ekki vit á að kjósa rétt.

Dagurinn, þegar hálfaumkunarverðir túristar á bílaleigubíl stoppa við götukortið af Laugarási og botna hvorki upp né niður í því áður en þeir halda áfram inn í rigningun, svona eins og kjósendur sem nenna ekki að velta neinu fyrir sér.

Dagurinn, þegar ekki var slegið met í fjölda fólks í heilsubótargöngunni, svona eins og........já.

Dagurinn, þegar rennurnar á húsinu höfðu ekki undan að flytja regnvatnið alla leið niður í skurð, rétt eins og heilinn í okkur ræður ekki við að meðtaka allt áreitið sem hann verður fyrir, hvort sem hann vill eða ekki.

Dagurinn, þegar Laugarásbúar kíkja út úr skógarþykkninu til að kjósa yfir sig nýtt þing til næstu fjögurra ára. Það er eins gott að þeir kjósi nú rétt.

Dagurinn, þegar ég þurfti að velta fyrir mér stöðu fjölskyldna og skóla og vorkenndi bæði fjölskyldunum og skólunum.

Dagurinn, þegar álftirnar á Hvítá, einnig þessi vængbrotna, höfðu fært sig um set.

Dagurinn, þegar kjósendur þurfa að réttlæta atkvæðið sitt opinberlega á samfélagsmiðlum.

Dagurinn, þegar ég stillti sprittkertu upp á bakvið bing af hreindýramosa áður en ég tók mynd af herlegheitunum.

Dagurinn, þegar ég velti fyrir mér hvar best er að setja krossinn þannig að líkurnar á því að eitthvað jákvætt komi út úr því aukist.

Dagurinn, þegar mig langar dálítið í heitt kakó og rjómapönnukökur.

Dagurinn, þegar regninu slotar, droparnir úr yfirfullum rennunum þagna og fyrirheit eru gefin um að framtíðin verðir björt.

Þetta er svona dagur.


13 desember, 2013

Andvarp tenórsins


Það var spurning hvort ætti að taka til tvo stóla eða þrjá. 
Kórfólkið streymdi að. 
Hann tók þrjá. Það hlyti að fara að rætast úr þessu. 
Þarna kom einn. Þá voru þeir orðnir tveir.
Sópranarnir streymdu inn kirkjugólfið. 
Altarnir streymdu inn kirkjugólfið.
Meira að segja birtist hver bassinn á fætur öðrum. 
En það komu ekki fleiri tenórar
Það voru komnir tíu til  fimmtán sópranar, tíu til fimmtán altar og fimm bassar. 
Tenórarnir urðu bara tveir.
Einn stóllinn var auður.

Jæja, það þýddi ekkert að vorkenna sjálfum sér.
Það var ekki annað í boði en að standa sig.
Hreinsa úr kverkunum, liðka þindina, finna hvernig kjálkarnir mýktust.
Gæta þess samt að láta ekki á neinu bera. 
Tenórar láta ekki á neinu bera.
Þeir þurfa þess ekki því þeir búa yfir hinni einu rödd - röddinni hreinu, sem tónskáldin hafa úthlutað sínum fegurstu línum.

Svo var æft. 

Yfir sópranana tíu til fimmtán risu fögru tenórraddirnar tvær.
Yfir altana tíu til fimmtán flögruðu tenórraddirnar tvær.
Yfir bassana fimm gnæfðu tenórraddirnar tvær.
Þær renndu sér um tónstigann, af leiftrandi léttleika og fyrirhafnarleysi.
Þær hittu fyrir allt sem almættinu er kærast, og það brosti af velþóknun.
Röddina einu skiptir fjöldinn ekki máli. 
Það er fegurðin sem á alltaf síðasta orðið.
Það er léttleikinn, styrkurinn, stöðugleikinn.
Það er tenórinn.



21 september, 2013

Klukknahljómur á haustmorgni

Það er meira logn en venjulega á þessum haustmorgni í Laugarási.  Það liggur við að heyrist þegar hélan bráðnar undan hikandi geislum morgunsólar sem er æ seinna á ferðinni. Slitrur af kóngulóarvef í rennunum, sölnandi laufblað á pallinum, einmana fuglstíst í lundinum.
Klukknahljómur.
Lagt við hlustir.
Virðist vera alveg venjuleg hringing, bara á óvenjulegum tíma.
Ef ég væri í sumarleyfi á sólarströnd og gæti alla jafna sofið fram á morguninn, myndi ég líklega fara ófögrum orðum um þá sem stjórnuðu klukknatökkunun, en þar sem hið síðastnefnda er ekki raunin voru einu viðbrögð mín þau, að velta fyrir mér ástæðum. Líklega er þarna bara verið að hringja til morgunandaktar. Ætli mönnum sé það nokkuð of gott, ekki síst ef morgunninn er þeirra tími.

Látum klukkurnar hringja því þær munu þagna.
Leyfum haustinu að koma  því það vorar á ný.
Fögnum lækkandi sól því hún hækkar aftur á himninum.
Fáum okkur kaffisopa, því fyrsti bollinn er bestur.







23 september, 2012

Það skyldi þó ekki vera komið haust?

Haustið hefur nú aldrei verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér og ástæður þess eru sjálfsagt blanda af einhverju sem ég geri mér grein fyrir og öðru sem læðist að mér óafvitandi. Þau eru ekki mörg haustin á ævi minni sem hafa ekki falið í sér skólabyrjun, annðhvort með mig sem nemanda eða starfsmann. Kannski er það bara þessvegna sem mér finnst haustin ekkert kalla til mín ljúfum róm. Þau ískra frekar inn, með talsverðum hávaða. Það sem lifði og blómstraði yfir sumarmánuðina verður dauða og rotnun að bráð. Ekki neita ég þvi að haustlitirnir eru fjölbreyttir og gleðja augað að mörgu leyti, en það sem þeir standa fyrir og boða, er ávallt yfir og allt um kring. Það má segja að í haustinu takist á fegurðin og dauðinn......... en nú er ég sennilega kominn of djúpt.

Eftir að sumargestirnir eru farnir burtu til að sinna sínu, hljóðnar yfir Kvistholti. FD er búin að setja lokið yfir sandkassann, það er búið að bjarga grillinu inn í skot, en sumarhúsgögnin standa enn ófrágengin í fullvissu um viðvarandi lognið í Þorpinu í skóginum.

Ekki eru íbúarnir á þessum bæ neinir hávaðaseggir dags daglega og ekki truflar umferðarniður, vindgnauð, partístand hjá nágrönnum, eða hanagal og hundgá.

Hér ríkir kyrrðin ein, þar sem litbrigði haustsins eru smám saman að breytast í órætt litleysi vetrar.

Hvernig er það - ætli ég þurfi ekki að fara að huga að því að fjárfesta í vetrardekkjum?

18 ágúst, 2012

Að standa með sínu í þraut bæði' og pínu.

Lífið sem við mennirnir (bæði karlar og konur eru menn), lifa, er margslungið, eins og öllum má vera ljóst.  Við erum sagðir vera komnir að endimörkum greindarinnar.
Ég hef áður, í lítillæti mínu eða hroka, lýst þeirri skoðun minni, að greind sé ekki að plaga ríflega helming þessarar þjóðar.  Með því er ég ekki að fullyrða að hún sé neitt sérstaklega að birtast í mér frekar en ýmsum öðrum.

Það þekki ég af sjálfum mér, að þegar ég tek ákvörðun af einhverju tagi, þá stend ég með henni svo lengi sem stætt er, þó svo hún reynist hafa verið einstaklega vanhugsuð. Þetta getur átt við ótal atriði, smá og stór:

Ég hef keypt mér sokka, sem síðan reyndust detta í göt eftir eina eða tvær íverur. Ég henti þeim þegjandi og hljóðalaust, en viðurkenndi ekki að ég hefði átt að kaupa vandaðri sokka.
Ég hef keypt mér skyrtur sem síðan reyndust ekki hæfa vaxtarlagi mínu, í stað þess að viðurkenna að ég hefði betur athugað hvort þær væru aðsniðnar, og velt kaupunum betur fyrir mér að öðru leyti, hef ég þagað tilveru þeirra, þar sem þær hanga í fataskápnum, í hel.
Ég hef farið í bíó, í leikhús eða á tónleika, sem reyndust hreint ekki standa undir væntingum, en fjandinn fjarri mér að ég hafi farið að viðurkenna, að sýningin/tónleikarnir hafi veið hundléleg.
Ég hef keypt mér utanlandsferð sem var hálf glötuð, hún var samt frábær í frásögninni, og ég hélt áfram trúnaði við ferðskrifstofuna.
Ég hef stutt menn og málefni sem hafa reynst vera lítið annað en yfirborðið. Jafnvel þó þeir hafi skaðað hagsmuni mína hef ég staðið með þeim til að þurfa ekki að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér.
Ég hef úthúðað manneskju, sem síðan reyndist gull af manni, það hefur litlu breytt í afstöðu minni, því ég hef alltaf getað fundið einhverja galla á henni.

Ég hef, eins og við flest, tekið ákvarðanir af ýmsu tagi, sem hafa reynst rangar, og ekki fengið af mér að viðurkenna að væru rangar. Þess í stað hef ég staðið með þeim, en kosið að fara hljótt með stuðninginn eftir að ljóst varð hver raunin var.

Fyrir fleiri árum en ég kýs að nefna ákvað ég að kjósa tiltekið forsetaefni..........

14 apríl, 2012

Til huggunar ógiftum bændum

Í fórum gamla unglingsins fann ég nokkur blöð með vísum eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti. 
Þrátt fyrir ítrekað gúgl, finnst sálmur þessi ekki:

Einn lítill sálmur til huggunar nokkrum ógiftum bændum.
(Mig grunar hverjir sumir þeirra, sem hér ert ort um, eru, en þætti afskaplega gott að fá um þetta upplýsingar, því ég veit að þær eru til)

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því
ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð en öðrum kær.

Jón einn tel ég mektarmann
marga vegi ryður hann
aura því hann eignast sand
en enga hann fær í hjónaband.
Undarlegar eru stúlkur oft í bland.

Drengja hefur Siggi sveit
sá kann bæði margt og veit,
kvonbænir þó kennt ei fær
kunnað aldrei hefur þær
ellegar þá engin vill hann ógift mær.

Lindi eignast kindur kann
konu bara vantar hann.
Þær vilja honum ekki leggja lið
þótt liðugt dansi hann þær við.
Öfugt verður einhvernveginn átakið.

Gvendur var að gá að þeim
og gera sér ferð til þeirra heim,
en þær litu ekki við,
allavega gengu á snið
og svartan skugga settu yfir sjáaldrið.

Einar, bæði í hljóði og hátt,
huga snýr til meyja þrátt,
en þær brúka svona sið
að setja upp kamb og líta ei við.
Kynlegt er hvað kalt er stundum kvenfólkið.

Þraut er fyrir Þorsteins skinn
þrátt að steita piparinn
og bágt er meðan fullt er fjör
að fljóðin séu á blíðu spör.
Kannski hann giftist áður en hann kemst í kör.

Konu vantar Eirík enn
ætli það geti lagast senn
þó að það gangi þetta seint?
En þeir vita sem hafa reynt
að það er vont að eiga ekki eina, alveg hreint.

Dóri fær hjá drengjum lof
en drósa skorti hylli um of.
Veit ég ei hvað valda kann,
þær vilja ei slíkan dánumann.
Hann einhvern veginn aldrei á þeim lagið fann.

Páll er dauður æðum úr
ungar þó hann líti frúr.
Eitt sinn þó hann ungur var
eða það héldu meyjarnar,
en allt var sama, ekki nokkurn ávöxt bar.

Þyljið, piltar, þennan söng
þegar nótt er myrk og löng
og ykkur verður lífið leitt
og lundin bæði körg og þreytt.
Það er betra að eiga eina, en ekki neitt.

24 júlí, 2011

Skúrir í grennd


Ég á nú að vera nægilega viti borinn til að gera mér grein fyrir því, að þegar veðurspá spáir eindreginni rigningu, þarf ég að klæða  mig almennilega ef ég ætla út í heilsubótargöngu.

Ég klæddi mig ekki almennilega og skellti mér í heilsubótargöngu. 
Merkin hefði ég getað lesið út skýjafarinu og með því að fara á veður punktur is.

Það var milt og þægilegt veður þegar ég lagði af stað í átt að Höfða. 
Lét gott heita þegar ég var kominn langleiðina.

Þá byrjaði að rigna. 
Rólega í fyrstu og olli engum áhyggjum.
Óx nokkuð hratt og ég langt frá hinum endanlega áfangastað. 
Varð að hellidembu sem ekki linnti.

Vanhugsaður klæðnaðurinn reyndist lítil vörn og það leið ekki á löngu áður en ég fann fyrir fyrstu vætunni innan klæða. 
Ég reyndi að herða gönguna. 
Var jafnvel farinn að huga að því að leita skjóls. 

Hugsaði samt um hetjuskap minn að ganga þarna hnarreistur í haugrigningu.
Sannur Íslendingur sem lætur veðrið  ekki aftra sér frá samneyti við fugla himinsins og dýr merkurinnar.

Ég mætti nokkrum bílum á leit á grænmetismarkað. 
Fólkið horfði á mig, en ég gat ekki lesið úr andlitsdráttum þess hvað því fannst.

Ég komst heim við illan leik, en hnarreistur og stoltur af því að hafa lokið daglegri göngu.
Ég komst inn í hlýjuna með alla möguleika á að ná hita í kroppinn eftir ræskingu náttúrunnar.

Auðvitað er lærdómur:
Lestu merkin og gerðu viðeigandi ráðstafanir.
Við vitum að þar sem dökk ský hrannast upp á himni, þar eru líkur á úrkomu.
Það eru ekki bara dökk ský á himni.

(prósaljóð - ef einhver skyldi ekki átta sig á því)

11 júlí, 2011

Bland í

Það er afskaplega einkennilegt hve mikil áhrif tilteknar breytingar á lífsháttum geta haft í för með sér. Mannskepnan kemur sér upp allskyns hegðunarmynstri sem síast inn í undirmeðvitundina með þeim afleiðingum, að breytingar á lífsháttum  geta kostað nokkur átök.


Nú eru átök í Kvistholti, vont sem felur í sér von um gott. Klassísk átök góðs og ills, þar sem hið góða felur í sér þröngan og hlykkjóttan stíg en hið illa beinan og breiðan, upplýstan, 4ra akreina þjóðveg, þar sem þarf að greiða vegtoll.
Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvernig þessum átökum lyktar.

---------------------------

Það er orðið árlegt að litlir sumargestir tylla sér á pallinn um lengri eða skemmri tíma. Maríuerla hefur verið að fjölga sér hérna í nágrenninu og fyrir skömmu birtist eitt afkvæmið á pallinum og settist þar að eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það var ekki fyrr en ég var kominn með EOSinn í tveggja metra fjarlægð að þessi saklausi fugl himinsins byrjaði að teygja vængina til undirbúnings fyrir brottför. Hætti svo við úr því ég koma ekki nær. Hann var ekki búinn að átta sig á því að það eru til ill öfl í heiminum.

-----------------------------------
Það er nú varla hægt að tala um náttúruöflin sem ill eða góð. Þau eru bara eins og þau eru. Mér finnst nú eins og við mennirnir séum farnir að setja okkur á dálítið háan hest þegar ógnaröfl náttúrunnar eru annar vegar. Kannski er það raunveruleg örvænting vegna yfirvofandi hruns í ferðaþjónustunni og kannski er það kröfugerð þess sem ekki ber ábyrgð en vill reyna að slá sig til riddara, eða kannski er það hrein og bein firring sem veldur því að menn telja að  við, aumir menn, getum, eins og einhverjir töframenn, kviss-pang, brúað stórfljót á augabragði.


Við búum nú í þessu landi - það er eins og það er - svona er málum háttað hér.
Sýnum náttúruöflunum tiltekna virðingu.


Jæja - það kann að vera að við höfum til þess tæki og tól og verkkunnáttu, að græja eins og eina brú í einum grænum.

21 apríl, 2011

Það sem er, en er samt ekki

Þessi mynd fD felur kannski í sér tilvísun í þennan tíma árs. Það er farið að örla á
grænum lit, en enn er þó nokkuð í land. Þarna er jafnvel einstaka snemmsprottið blóm, 
vætan er að byrja að hafa áhrif á það sem koma mun. 
Er eðlan að reyna að koma í vegfyrir framrás vorsins,eða er hún þarna til að örva og hvetja? 
Kannski er hún táknmynd þjóðarsálarinnar þessi árin. Hver veit.

Sól felur sig vissulega á bak við skýjafjöld,
en ég veit hún er þarna og það er nóg.
Bleytuslabbinu get ég svo sem bölvað,
en veit að skúrir í apríl boða blómin í maí.

Það er mér alveg ljóst, að svona værðarvæll
er ekki alveg það sem ég þykist standa fyrir,
en líklegast er allt í lagi, svona við og við
að láta eftir sér að búa til þessi hughrif í sjálfum sér.

Þó að orrustur séu nú háðar um völd og fé
bæði í bakherbergjum og háreistum sölum,
er miklvægt að leggja hatur og vanþóknun 
til hliðar svona dag og dag, eða stund og stund.

Sannlega fylgir oft annatími hvíldardögum;
verkefnabunki, sem minnkar eiginlega aldrei.
Það má ekki láta það sem framundan skyggja á
það sem er hér og nú, heldur njóta stundarinnar.

Hvernig sem allt veltist þá fer það einhvernveginn
þó maður telji oft að svo verði ekki. 
Bak við skýin er alltaf sólarhnötturinn
og bíður þess að skýin vinni sitt þarfa verk.

Birtist síðan í samræmi við spár veðurfræðinga
og baðar regnvotan gróður lífsvekjandi ljósi.

Megi komandi sumar verða þolinmóðum lesendum allt það sem þeir vilja að fylgi þeim árstíma. 
Þakkir sendi ég þeim sem litið hafa inn á liðnum vetri.

24 desember, 2010

Að höndum fer......

Það blæs úti og hitinn skriðinn upp fyrir frostmark. Þorláksmessuliðir eru afgreiddir með skötusuðu utandyra á æskuheimilinu. Reykelsi bjargaði því sem bjargað varð í húslyktarmálunm á þeim bæ í kjölfar framkvæmdar þess einkennilega siðar. Hangikjötið hefur hlotið viðeigandi suðu, skreytiþörfinni hefur verið fullnægt, árleg þrifnaðargleði sem stundum hefur verið kallað "jólaskap", er líklega afstaðin. 
Framundan er dagur friðar og hugleiðinga, væntanlega, nema eitthvað ófyrirséð komi upp úr dúrnum.

Í herbergjum sínum hvíla nú þau sem deila munu jólum með okkur fD þessu sinni: ungfrúin á bænum, sem komin er heim frá borginni vestan Eyrasunds yfir hátíðarnar, og sá yngsti sem dvelur þennan veturinn í því sem sumir vilja kalla borg óttans.

Nokkru sunnar, í landamærabænum Görlitz má finna elsta afkomandann, þar sem hann ætlar að finna jólaandann á nýjum stað ásamt konu og dóttur, sem nú upplifir jólin fyrsta sinni með því móti að hún geti tjáð sig um það sem fyrir ber. 

Í austfirskum bæ dvelur sá næst elsti og nýtur jóla með sinni konu og syni, sem kom hér við eina dagstund eftir komuna frá þeim norður jóska bæ sem Álaborg nefnist. Þessi fjölskylda á leið í Laugarás til stuttrar dvalar áður en haldið verður aftur í ríki drottningar.

Svona ganga nú hlutirnir fyrir sig. Líklega ekki ósvipað og hjá mörgum öðrum sem komnir eru á þann aldur sem hér er um að ræða. Veruleiki sem hægt er að venja sig við og aðlagast. Þetta þýðir samt ekki að ævihlutverkinu sé að verða lokið, heldur aðeins að skipt er um gír; ekið áfram hægar og af meiri yfirvegun en oft áður.

Líklega er það ósköp eðlilegt að hugurinn hvarfli til liðinna jóla og ýmiss þess sem Kvisthyltingar hafa gengið í gegnum saman, súrt og sætt. Það ber að þakka fyrir þá sögu um leið og vonast er til að hún megi eiga sér framtíð þó í öðru formi verði.

---------------------------

Hvaða skilboð eru mest við hæfi á þessum tíma árs, til þess nafnlausa hóps sem lætur sig hafa það, að renna yfir það sem skráð er á þessa síðu, við og við?
Einfaldasta og eðlilegasta svarið er auðvitað að óska þess að allir þeir sem þeim hóp tilheyra, og fjölskyldur þeirra til sjávar og sveita, til fjalla og dala, hérlendis sem erlendis, njóti þess að geta haldið friðsæl og fagnaðarrík jól, hver með sínum hætti.

Það geri ég hér með.

13 nóvember, 2010

Jólamaturinn - prósaljóð


Ég er bara að njóta dagsins með félögum mínum.
Lenti í því morgun að verða vitni að því þegar frændi minn var skotinn.
Ég held að ég hafi ekki vit til þess að vera að velta mér mikið upp úr því.
Það voru einhverjir menn að þvælast þarna uppi á Laugarvatnsfjalli, klæddir í felubúninga, væntalega til að við sæjum þá ekki.
Auðvitað reyndum við að komast í burt þegar þeir nálguðust okkur.
Það er nú bara í eðli okkar.
Við erum nefnilega ekki eins og frændfólk okkar, sem maðurinn geymir í búrum og notar eins og hverja aðra þræla.
Við erum frjáls, en mennina langar samt að ná okkur og nota.
Þeir virðast vera svolítið skrýtnir.
Þegar við fundum skotin þjóta framhjá okkur hvað eftir annað í morgun, ákváðum við bara að fara eitthvað annað.
Við vorum þarna eitthvað um 30 saman í hóp og ætli við höfum ekki verið svona 14 sem flugum af stað í austurátt, hin lágu alblóðug á jörðinni - sum ennþá með lífsmarki.

Þegar við vorum búin að  fljúga í svona 10 mínútur sáum við trjálund.
Þarna var einnig hús, ljóst á litinn með brúnu þaki.
Við renndum okkur þar niður því við sáum enga byssumenn neins staðar í nágrenninu.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir rétt við húsið kom reyndar bíll akandi.
Ég ákvað að vera ekkert að fljúga strax af stað, svona til að sjá hvað gerðist.
Þegar bíllinn hægði á sér, í staðinn fyrir að reyna að keyra á mig, vissi ég að þetta yrði allt í lagi.
Það fór fólk úr bílnum og inn í húsið.
Skömmu síðar kom maðurinn út aftur, með eitthvað dökkt í höndinni.
Ég sá strax að þetta var ekki byssa.
Þetta var bara myndavél.
Mér sýndist að það stæði EOS550 framan á henni.
Þetta var í lagi.
Ég ákvað að stilla mér fallega upp hjá nýju sorptunnuskýlinu.
Ég heyrði smelli, aftur og aftur.
Þetta voru góðir smellir.
Ég stóð kyrr á meðan ég heyrði smellina.
Það sama gerðu félagar mínir.
Hér vorum við örugg.
Ég veit að við förum aftur héðan innan skamms.
Upp til fjalla.
Þar sem mennirnir með byssurnar bíða okkar.
Ég veit ekki hversvegna við gerum þetta.
Það er svo sem ekki skrýtið.
Við erum nú einu sinni bara rjúpur.

22 apríl, 2010

Lítilsháttar sumarljóð - ef svo má segja

Í ströngum skilningi verður ekki annað sagt en þessi morgunn fyrsta sumardags sé fremur kaldranalegur. Þunnar leifar af síðasta snjónum bera vott um það sem var. Birtan frá lampanum gula, sem ferðast um loftin og vorsöngvar á Rás 1, tjá það sem framundan er.

Ef síðustu mánuðir hafa verið vetrarmánuðir, þá var þar bara um að ræða vetur hugans, vetur óumræðilegrar, en vanmáttugrar reiði sem nær ekki að sefast. 
Vetur náttúrunnar hefur verið mildur og kurteis, eins og til að komast hjá því að gera illt verra.

Norðlægir heimskautavindar strjúka um vanga og fjallahringurinn er af lit eimyrjunnar í suðaustri, sem neyðir okkur til þess, í það minnsta, að velta því fyrir okkur hvort við mennirnir séum þess umkomnir að hreykja okkur með þeim hætti sem verið hefur.


Það er talað um fulltrúa fyrir hagsmuni á þjóðþinginu og í skilningsleysi velti ég því fyrir mér hvernig saman geti farið, þegar að kjörborðinu kemur, hagsmunir fulltrúa viðskiptalífsins og hagsmunir fólks sem vart á til hnífs og skeiðar. 
Skilningsleysi mitt er samofið vorkomunni og ég verð að gera ráð fyrir því, að með hlýjum vindum, fuglasöng og gróðursæld sumarsins, nái ég að greiða úr þverstæðum sem hafa leitt þjóðina mína að ystu þolmörkum, kannski vegna þess að fólk hafði ekki í huga hver er fulltrúi hvers.

Allt er  einhvernveginn samofið. Hvað er hvað, og hvur er hvurs, heldur áfram að vefjast fyrir okkur, aumum mönnum, sem erum eins og skógarþröstur á vori, sem þenur brjóst og sperrir stél, í þeirri fullvissu að hann sé eitthvað merkilegur - eitthvað merkilegri en náttúran að öðru leyti.
------------------------
Gleðilegt sumar, lesendur góðir og þakkir fyrir samfylgdina í vetur.

01 apríl, 2010

Að sitja kyrr á sama stað.....

...en sjá samt eldgosið.

Það er einbeitt ákvörðun mín að fara ekki að þvælast austur á bóginn til að komast í návígi við yfirstandandi eldos. Það stafar nú ekki endilega af áhugaleysi mínu þegar eldgos eru annars vegar, heldur eitthvað meira í nágrenni við það að ég nenni ekki að leggja á mig allt sem slíkri ferð myndi fylgja. Þar að auki upplifði ég Skjólkvíagosið 1970 og veit því hvernig upplifunin er af því að sjá glóandi kvikuna hendast upp í loft og fylgjast með hraunkantinum skríða óstöðvandi þá vegalengd sem honum er ætlað að fara, með tilheyrandi hljóðum.

Í kvöld var léttskýjað og 6° frost. Gosið sést vel frá þeim stað sem gamla Helgastaðabrekkan var. Þangað hélt ég með EOSinn minn og smellti af nokkrum myndum. Miklu færri þó en ég hefði getað eða viljað, en, eins og margir gosgestir, þá var ég bara ekki klæddur fyrir langa útiveru.

__________________

Rjúpan situr kyrr á sama stað og kúrir sig í afslöppun fyrir framan útidyrnar í Kvistholti, þess fullviss um að þaðan berst engin skothríð.















14 febrúar, 2010

Kraftmikið ljóð

Ég get ekki á mér setið að skella hér inn ljóði sem sú samdi, sem hefur gefið sér höfundarheitið Hirðkveðill, þegar kemur að bloggskrifum mínum. Ljóðið samdi hún (H. Ág.) í framhaldi af þessari færslu minni.

Fyrr verður enginn friður né sátt
en fangarnir sitja við gluggana þrátt
grýttir með eggjum - ég gaman hef að-
þótt geti vart leyft mér sápur og bað.

Þar sitja þeir stroknir með sífullan kvið
af saltkjöt' og flatkökum meðan að við
lifum á farsi og ferleg er nauð
að fá aðeins dagsgamalt harðneskjubrauð.

En gamanlaust vinur þá gremst mér það víst
að Guð skuli ekki í fangelsum hýst
hafa þá menn er oss hröktu í nauð
og höfðu af almúga pening' og brauð.

Hirðkveðill Kvistholts tjáir sig um tilfinningar gagnvart þeim sem sitja enn á sælum chaiselong - drekka kampavín og hafa snittur með - gott ef ekki humar!


-------------------------
Það er ekki amalegt að hafa svona hirðkveðil!

25 desember, 2009

Norsk innmat og Starbucks


Hvað er annað að gera á jóladegi en að njóta hans til hins ý/ítrasta. Maður hellir upp á jólakaffið frá Starbucks, skellir í sig norsk svinekjött og lammelaar með hangikjötinu. Svona fer maður að því að njóta þess að vera alþjóðlegur til munns og handa.

Á eftir mælir maður síðan blóðþrýsitinginn og kemst að því að hann gæti verið betri - þ.e.a.s. stundum (ég er búinn að tengja, með óvéfengjanlegum hætti saman sælgætisát og háþrýsting). Ákveður að gera ekkert, þó ekki væri nema til að reyna að lækka þrýstinginn.
Ilmurinn af hýasintunum fyllir loftið og í útvarpinu hljómar stemningstónlist.

Jóladagur

Af einhverjum ástæðum eru messuferðir orðnar fátíðar á þessum bæ, en það er úrval af slíku á öldum ljósvakans.

24 desember, 2009

Þá eru það jólin

Það er auð jörð, frost, en meinlaust veður að öðru leyti á sunnanverðu landinu, en von á stórviðrum á norðvesturhorninu. Þannig er staðan hið ytra þegar jólahátíð gengur í garð. Þó víða um lönd telji fólk, sem á annað borð veltir því fyrir sér hvort þessi þjóð er til eða ekki, að hér gangi málin fyrir sig með miklum hörmungum, þá er staðreyndin sú, að ef við tökum mið af stærstum hluta mannkyns, þá lifum við við allsnægtir. Við njótum við þess að búa í góðum, upphituðum húsum, með ljós í hverju herbergi og nóg að bíta og brenna. Það er engin raunverulega ástæða til þess að við sökkvum okkur ofan í bölmóð og sjálfsvorkunn. Við getum verið reið við einhverja þá sem við teljum að hafi valdið þessu ástandi, en reiði okkar beinist í ýmsar áttir þar til þetta hefur allt verið gert upp samkvæmt þeim reglum sem við, sem þjóð höfum sett okkur.

Ég ætla ekki að þykjast telja, að enginn eigi erfitt á þessu landi á þessum tímum. Auðvitað er það svo. Það áttu líka margir erfitt á þeim uppblásnu tímum sem við lifðum fyrir nokkrum árum. Það munu einnig margir eiga erfitt þegar þetta áfall er liðið hjá. Þannig er nú líf mannsins í fortíð, nútíð og framtíð. Við eigum ekki að þykjast vera í verri stöðu en flestar aðrar þjóðir.

Að setjast við tölvuna sína og fá þar útrás fyrir reiði sína, sem allir geta lesið sem lesa vilja, er að mörgu leyti jákvætt, en líka talsvert varasamt. Fordæming á fólki, gífuryrði, bölv og ragn hefur lítið með gagnlega umræðu að gera. Þetta er tjáningarmáti sem fór fram innra með fólki fyrir daga bloggs og fésbókar, en fær nú að flæða fyrir augu hvers sem lesa vill. Því stórkarlalegri ummæli sem eru viðhöfð, því minna mark er hægt að taka á þeim. Þetta ár hefur verið ár upphrópana, sem má jafnvel líkja við stríðsástand. Skotfærin eru orðin sem sögð eru, eða skrifuð. Sem betur fer eru þau bara orð. Þau gætu verið eitthvað enn verra.

Það er ekki langt í að nýtt og líklega strembið ár gangi í garð. Það eiga eftir að falla mörg vanhugsuð orð og margir eiga eftir að þurfa að neita sér um margt það, sem sjálfsagt hefur þótt. Það eitt vitum við, að áfram líður tíminn án þess að nokkur fái rönd við reist. Það kemur að því, fyrr eða síðar, að upp renni bjartari tíð en sú sem nú er uppi.

Meira verður ekki sagt um þessi mál hér og nú.

Fyrir hönd Kvisthyltinga óska ég öllum lesendum þessarar útrásar- og upplýsingasíðu, gleði og friðar á jólum. Reynið nú að gera sem minnst og njóta þess í stað þess, að vera til með ykkar fólki, hvar sem það nú dvelur.

Mér telst til, að nú séu að ganga í garð önnur jólin frá árinu 1978, sem Kvisthyltingar eyða ekki saman, allir með tölu. Tveir þeir eldri dveljast erlendis með litlu fjölskyldunum sínum, en tveir þeir yngri gista æskuheimilið enn á jólum. Svona er gangur lífsins.


07 nóvember, 2009

Það sem segja má um daginn.

Þar kom að því, og þó ekki, að ég finn mig hafa harla fátt fram að færa á þessum stað. Auðvitað á ég ekki við það að ég hafi ekkert að segja, fjarri því. Ég gæti fjallað í löngu máli um t.d. krepputengd mál, skólamál, uppeldismál, söngmál og útgáfumál. Það sem þessi mál eiga helst sameiginlegt í mínum huga er, að það er auðvelt að finna á þeim fremur neikvæðar hliðar. Það er nefnilega svo, að ef maður vill vera neikvæður þá er af nógu að taka. Það vita allir. Ég nenni bara ekki að ganga þá göngu um þessar mundir. Á göngunni þeirri er nóg af mannskap sem hægt er að vera sammála eða ósammála. Það sem þeir allir eiga sameiginlegt er, að þeir eru fulltrúar einhvers hagsmunahóps eða stefnu og þessvegna ekkert að marka þá, nema maður sé sammála og jafnvel ekki þá heldur.

Það er flóknara að sýna á sér jákvæðu hliðina þó vissulega sé þar af ýmsu að taka. Þar má t.d. nefna: krepputengd mál, skólamál, uppeldismál, söngmál og útgáfumál.
----------------------
Á þessum sólríka og milda laugardegi er verið að hamast við að ná sér eftir sérlega strembna vinnuviku og undirbúa sig með þeim hætti undir aðra svipaða sem hefst frá og með mánudagsmorgni. Þar sem ég hef það að markmiði að fjalla ekki um vinnuna hér, þá segi ég ekki orð um hana frekar .

Laugardagurinn þessi kallar ekki á neinar sérstakar athafnir, utan það sem er orðið hefðbundið á þessum bæ. Þar á milli er ekkert annað að gera en sem allra minnst og gera ráð fyrir að það dugi.
Það er á svona degi sem auðveldara er að komast að þeirri niðurstöðu, að það geti verið skynsamlegt að skella sér í göngutúr.

Laugardagurinn hefur það umfram marga daga, að daginn eftir er líka frí frá önnum hversdagsins.

Laugardagurinn felur í sér loforð um ákveðið frelsi til að gera eitthvað eða ekkert.

Laugardagurinn felur í sér flest það sem rétt er að ætlast til af einum degi.

Laugardagurinn er vel þolandi í yfirlætisleysi sínu og skorti á tilætlunarsemi.

Laugardagurinn er dagurinn, þessa vikuna, í það minnsta.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...