Sýnir færslur með efnisorðinu feðalög/skemmtanir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu feðalög/skemmtanir. Sýna allar færslur

14 febrúar, 2016

Á leikskólahraða í Brúðkaup

Íris Blandon í hlutverki sínu
Það verður seint ofmetið að þegar fólk í fullu starfi leggur á sig óhemju viðbótarvinnu til að gleðja samborgara sína. Vissulega er þessi vinna skemmtileg og gefandi, en hún gefur ekkert af sér í aðra hönd. Launin eru bara ánægjan af því að taka þátt, að reyna sig og taka loks við klappinu í lokin. Það eru líka ágætis laun.
Ég var einusinni í þessum sporum og fæ enn smá fiðring þegar farið er að æfa næsta verk, ekki nægilegan samt til að vera með.

Á föstudagskvöld lögðum við fD ásamt hópi þeim sem hefur gefið sjálfum sér nafnið "Gullaldargellurnar"*  leið okkar í Aratungu til að sjá leikverkið Brúðkaup eftir  Guðmundar Ólafssonar, í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar, sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar og það var gaman.
Hér er ekki um að ræða leikdóm, enda þykist ég þess ekki umkominn að leggja mat á frammistöðu leikaranna, leikstjórans eða annarra. Að mínu mati stóðu leikararnir vel fyrir sínu og náðu að kalla fram hláturrokur okkar sýningargesta. Ég þakka fyrir mig.

Þessar leiksýningaferðir Gullaldargellanna eru orðinn fastur liður í tilveru okkar sem alveg má kalla "betri helminga" þeirra.  Þeim fylgir, að á undan  leiksýningunum er snæddur leikhúskvöldverður í veitingahúsi. Það stóð til einnig nú.   Þar var á borið fram einhver besta "ribeye" steik sem ég hef fengið, þegar hún var borin fram, 10 mínútum áður en tjaldið var dregið frá. Ég neita því ekki, að ég sakna þess að hafa ekki getað klárað steikina mína og notið "tira misu" í eftirrétt. Það var haft orð á því í hópnum að við yrðum bara að borða jafnhratt og vaninn var í leikskólanum á gullaldartímanum. Ekki fleiri orð um það.


*Gullaldargellurnar er lítill hópur kvenna sem starfaði saman í leikskólanum Álfaborg fyrir æ fleiri árum og telur að sá tími hafi markað gullöld þess leikskóla og þá aðallega vegna þeirra starfa þar, að sjálfsögðu.  Þetta er svipað því og þegar talað er um gullaldarlið Tungnamanna í körfubolta, sem ég tilheyrði að sjálfsögðu. Það góða lið gerði garðinn frægan um og upp úr 1980 og annað eins höfum við ekki átt í Tungunum síðan, þrátt fyrir að það hafi verið byggt heilt íþróttahús til að freista þess að ná svipuðum árangri í körfuknattleik aftur.

31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


17 júní, 2015

"Er þetta ekki ML-merkið?"

"Jæja vinur, hvað er títt..? Er þetta nokkuð búið að fljúga undir radarnum hjá þér..? Ég neita að trúa því en samt hendi ég þessu á þig til vonar og vara.."
Þessi skilaboð birtust mér gegnum samfélagsmiðila fyrir einhverjum vikum og fjölluðu um hvort ekki mætti reikna með að ég léti fé af hendi rakna svo unnt yrði að ljúka við vinnslu bolvískrar kvikmyndar sem hafði hlotið nafnið "Albatross". Sá sem skilaboðin sendi er fyrrum nemandi sem jafnframt reyndist fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni.
Auðvitað hafði þetta ekki "flogið undir radarinn" hjá mér, svo vel tengdur sem ég er á samfélagsmiðlum. 
Ég styrkti með mínum hætti, eins og ótrúlegur fjöldi annarra og vissi síðan ekkert af málinu fyrr en póstur tilkynnti mér að tveir miðar á forsýningu þann 16. júní stæðu mér til boða.

Í gær héldum við fD síðan í höfuðborgina og sinntum ýmsum erindum, svona eins og maður gerir. Áætlaður tími reyndist vel rúmur svo við vorum komin nánast vandræðalega tímanlega á sýningarstaðinn sem var hátíðasalur Háskólabíós. Þá vorum við búin að drepa tímann með því að rifja upp kynni af högum og melum í vesturbænum í góða stund.

Það dreif að fólk á sýninguna og þar kom að hópnum var hleypt inn í salinn. Hátíðasalurinn í þessu, eitt sinn flottasta kvikmyndahúsi landsins hefur séð betri tíma.

Sýningin hófst og ekki ætla ég mér nú að lýsa því sem fyrir augu bar í smáatriðum, utan það að í einni senunni hnippti fD í mig og spurði fyrirsagnar þessa pistils. Viti menn, klæddist ekki aðal íþróttabuxum sem falla í flokkinn ML-föt á mínum vinnustað. Ef mið er tekið af því, að það eru ein 13 ár síðan pilturinn brautskráðist frá skólanum, verður að draga þá ályktun að ML-föt séu sígild og endist áratugum saman.

Um myndina sjálfa er það að segja, að ég skemmti mér aldeilis ágætlega, skellti meira að segja nokkrum sinnum upp úr. Sú senan sem ég hló mest að var þegar vinnufélagar Tómasar (aðalpersónunnar) gáfu sig á tal við brasilíska fótboltakonu og annar þeirra kynnti hinn sem meistarabeitningamann  á sinni ensku.

Á heildina er hér á ferð afar skemmtileg gamanmynd og leikendurnir, ekki síst minn maður, standa sig með prýði. Það helsta sem ég vil finna að henni er, að í nokkrum tilvikum er hljóðið ekki nægilega skýrt og þar með missti ég af nokkrum skemmtilegum athugasemdum persónanna og þá helst þess sem "baggaði" sig sig látlaust og tanaði grimmt.  Ég fékk það á tilfinninguna að það hafi verið ansi margir Bolvíkingar í salnum og jafnframt að þeir hafi þekkt til "baggarans", því þeir hlógu að bröndurum hans þó svo ég hafi ekki skilið/heyrt hvað hann sagði.

Fólk á auðvitað að drífa sig á þessa ágætu mynd, en auðvitað eru Bolvíkingar og ML-ingar skyldugir til að bruna í bíó.  Myndin verður frumsýnd föstudaginn 19. júní.

ps. Aðalleikarinn sem nefndur er hér fyrir ofan heitir Ævar Örn Jóhannsson, kláraði ML 2003 og bræður hans tveir Hafsteinn (2010) og Daníel Ari (2013) fylgdu í kjölfarið. 

23 apríl, 2015

Hinumegin við girðinguna

Auðvitað er við hæfi að óska ykkur, ágætu lesendur, þess að sumarið megi verða ykkur gjöfult og gott (með mikilli sól á pallinum).
Þessi fyrsti morgunn sumars kveikti einhvern neista til að skjótast að Geysi og Gullfossi. Veðurblíðan í Laugarási var einstök, eins og ávallt, og ég henti mér í jakka (ekki tók ég húfu með, eða trefil, eða vettlinga), greip myndvél og tilheyrandi græjur og síðan lá leið okkar fD í norðurátt þar sem við blasir ægifagur, fannhvítur fjallahringur (reyndar ekki neinn hringur, heldur bara fjöll sem standa hlið við hlið á mörkum óbyggðar og byggðar, en það er bara flottara og venjulegra að segja fjallahringur).
Við Geysi var mannlaust (tveir túristar).
Það var einnig kalt á Geysi (ég ómögulega klæddur fyrir næðinginn). Þar var umhverfið heldur nöturlegt. Undanfarin ár hefur umhverfið sem geymir þetta einstaka svæði verið að drabbast niður, hellulögnin, þar sem hún er, er meira og minna úr lagi gengin, bandspotti sem afmarkar gönguleiðir hangir á skökkum steyputeinum, grasþúfur graslausar, útfellingar orðnar að dufti, runnið úr göngustígum, allt úttroðið og þunglyndisvaldandi. Geysir hefur verið niðurlægður.
Það var ekki laust við að einhver vonleysistilfinning kæmi yfir Kvistholtsbóndann við að ganga um þetta umhverfi eyðilagðrar náttúruperlu. Framundan eru heimsóknir hundraða þúsunda ferðamanna, sem eru fullir tilhlökkunar að líta gersemarnar, en við þeim mun blasa eyðilegging. Strokkur mun að vísu standa fyrir sínu, en skelfing er þarna lítið annað áhugavert.
Geysissvæðið er í mínum huga táknmynd græðginnar, sem flytur inn ferðamenn selur þeim mat, selur þeim drykk, selur þeim gistingu, selur þeim ferðir, selur þeim glingur.
Selur þeim ekki aðgang að náttúrunni svo unnt verði að auka þol hennar fyrir ágangi.
Já, græðgin lætur ekki að sér hæða.

Ég varð bjartsýnni við að fara út fyrir girðinguna og yfir veginn, en þar er allt að gerast. Hótel, veitingastaðir og verslun, allt snyrtilegt og vel við haldið. Fyrir norðan hótelið er búið að grafa fyrir mikilli stækkun, og þyrla lenti á þyrlupallinum í þann mund sem við áttum leið hjá. Það er ánægjulegt að sjá hve myndarleg og kröftug uppbyggingin er þarna megin við veginn.

Það er ekki sama hvorumegin vegar maður er við Geysi.

Hver getur krafist þess að eigendur landssvæðisins sem flestir ferðamenn sem til landsins koma sækja, taki til óspilltra málanna við að bjarga því sem bjargað verður? Svona gengur þetta ekki lengur.


Við lögðum leið okkar einnig að Gullfossi, en það er önnur saga.


22 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 þar sem Harpa er


Þá er best að ljúka þessum greinaflokki með því að gera lítillega upp einn megintilgang ferðar okkar fD til höfuðborgarinnar um síðustu helgi.

Tónlistarhúsið Harpa er margrætt á ýmsum vettvangi. Við komum inn í það hús, enda nauðsynlegt þar sem þar er sýnd þessa dagana Töfraflautan eftir hann Mozart. Við fyrstu sýn virkar þessi bygging ágætlega á mig, að innanverðu þó mér finnist rýmið fyrir utan salina vera ógnarstórt og undirlagt tröppum sem síðan reynast varla duga til að flytja fólksfjöldann sem er að koma af sýningu. Það var allavega talsverður tappi þegar leið lá niður af þriðju hæð.
Eldborgarsalurinn er ógurlega fínn og öll var þessi óperureynsla ágæt. 
Tenórar sýningarinnar áttu þó aldrei séns. Það vissi ég nú fyrirfram. Hér á bæ er bara um að ræða einn tenór sem telst sæmilega boðlegur. Ég reyndi að vísu að taka framlagi tenóranna opnum huga, en þeir náðu ekki því flugi sem ég hefði viljað sjá. 
Aría næturdrottningarinnar var afar glæsileg hjá Diddú. 
Bassinn, Sarastro,  fannst mér eiga í nokkru braski með dýpstu tónana - kannski voru þeir fyrir neðan það tíðnisvið sem heyrn mín ræður orðið við. 
Papageno var nokkurn veginn eins og hann á að vera - hæfilega kómískur. 
Þóra Einarsdóttir hefur afskaplega fallega rödd, en hún var Pamina. 
Sviðsetningin var mjög skemmtilega útfærð. 

Ég er með þessum skrifum ekki að þykjast vera einhver gagnrýnandi - það er nóg af þeim. Ég er bara svona að dufla við að vera gagnrýnandi.

09 október, 2011

Það slapp fyrir sextugt.

Það var fyrir um það bil 50 árum sem leiðir fólksins á myndinni lágu saman í Reykholtsskóla í Biskupstungum.

Eftir talsverð heilabrot áhugamanna um að freista þess að stofna til endurfunda, varð tvennt til þess að af samkundunni varð, með svo gæsilegum hætti sem raunin var:
a. Ef þetta gerðist ekki fyrir 60 ára aldurinn þá væri búið að tapa hópnum inn í starfsemi eldri borgara, en þaðan eiga menn víst ekki afturkvæmt svo glatt.
b. Tilkynnt var um áður óbirtar myndir frá barnaskólaárunum, sem þarna átti að sýna.

Í gær var samkoman góða. Flestir komu, en ekki allir, af ýmsum ástæðum. Gengin spor voru nú orðin nokkuð máð, en með góðum vilja mátti ferðast í tímanum til tíma gleði, leikja, harms, trega og gleymsku.
Þarna voru boðaðir árgangarnir sem fæddust 1952-54, sem hafa af einhverjum undarlegum ástæðum lítið hreyft sig úr stað á öllum þessum árum.
Myndir fyrir áhugasama
Fremri röð f.v. Páll M Skúlason, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Geirþrúður Sighvatsdóttir,
Guðrún Hárlaugsdóttir, Kristín Björnsdóttir.
Aftari röð f.v. Sveinn A Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pétur Hjaltason, Gunnar Sverrisson,
Ragnar Lýðsson,  Magnús Jónasson, Þorsteinn Þórarinsson.
Þarna vantaði, eftir því sem ég man, sem er líklega ekki alveg rétt, þessi:
Gróa Kristín Helgadóttir, Magnús Kristinsson, Loftur Jónasson,
Hjálmur Sighvatsson, Einar Jóhannsson.

07 apríl, 2011

Ekkert um já eða nei.....

...vegna þess hve mér blöskrar orðið ótrúlegt bullið sem mætasta fólk tekur þessa dagana þátt í og það í flestum tilvikum algerlega án þess að vita hvað það er að tala um.  En nóg um það.

Þessa dagana er ég dálítið að velta fyrir mér fyrrverandi höfuðborg hins heilaga rómverska ríkis, sem Karlamagnús stofnaði til árið 800, en þessi gaur hafði einsmitt aðsetur í þessari borg. Þessa borg þekkjum við nú reyndar best í tenglsum við einhver þekktustu réttarhöld 20. aldar. Þarna virðist vera afar margt að sjá og upplifa og það er tilhlökkunarefni, að ég verði í hópi vinnufélag sem hyggjast heimsækja þessar slóðir á komandi vori.
Tilefni ferðarinnar er að heimsækja lítinn bæ í Bæjaralandi sem heitir Sulzbach-Rosenberg, en við höfum nú um tveggja áratuga skeið, átt í samskiptum við menntaskólann þar. Þessi bær er í 50 km fjarlægð frá borginni, sem ég nefni ekki nafni sínu (þó ég efist ekki um að flestir sem þetta lesa séu búnir á að átta sig á nafni hennar). Í S-R munu heimamenn taka á móti okkur og ef ég þekki þá rétt munu þeir leggja sig fram um að gera okkur dvölina sem ánægjulegasta. Auk skólans í S-R, sem heitir Herzog Christian- August Gymnasium, munum við kynna okkur framhaldsskóla í öðrum bæ í nágrenninu, sem heitir Amberg. Stærstur hluti ferðarinnar á hins vegar að nýtast til að kynnast slóðum sem venjulegir ferðamenn leggja ekki leið sína að öðru jöfnu. Ég reikna með að einhverjir hlakki mest til bjórhátíðarinnar sem  bíður hópsins.

Við fD hyggjumst, í ljósi reynslu síðasta sumars, taka bíl á leigu í framhaldinu og renna í norðaustur átt, til landamæra Póllands, þar sem tenórinn, eini sanni og stækkandi fjölskylda hans, ala manninn.

Tilhlökkunarefni, allt saman.

Ofangreint er talsvert miklu ánægjulegra að hugsa um en t.d. eftirfarandi ömurleiki, sem hver apar nú upp eftir öðrum:

Fólk er byrjað að spyrja mig hvað ég ætla að kjósa í Icesave. Þannig að ég fór að spyrja mig. Var mér boðið á Elton John? Á 50cent? Fékk ég far í einkaþotu? Samþykkti ég að taka yfir Landsbankann? Tók ég mér ofurlán og eyddi því öllu í fasteignir vina minna? Á ég flottan bíl? Fékk ég að fara í laxveiði í boði bankanna? Svaf ég hjá Jónínu Ben? Svarið við þessu verður það sama og ég mun haka við á atkvæðaseðilnum!


eða þá þetta:


Nei, skilaði okkur fullveldi 1918.
Nei, skilaði okkur lýðveldi 1944.
Nei, skilaði okkur 200 mílna landhelgi 1976..............
Nei, forðar okkur frá þjóðargjaldþroti 2011 !!!



Finnst einhverjum vera málefnaleg umræða hér á ferð?


Hér má sjá sögulegan atburð frá borginni sem ég fjallaði um


Njótið. 


Kannski fáum við einn svona.  

30 ágúst, 2009

Enn af geitungadrápi - ásamt aukaafurð þess

Ég hef ekki látið af þessu og skal nú lítillega greint frá nýjasta afreki mínu á þessu sviði.

Lagt var upp í heimsókn til nýbakaðra Borgnesinga með fulltingi gamla unglingsins og akandi í grænu þrumunni hans. Ferðalagið sjálft gekk vel - svo vel reyndar, að mér þótti með fádæmum. Í upphafi ferðar var mér gert að segja til um hvenær áfangastað yrði náð og til að segja eitthvað nefndi ég 12.15 og var þá klukkan kl 10.15 - þegar ferðin hófst.
Eftir akstur um Grafnning, Kjósarskarð, Hvalfjarðarbotn, Dragháls og Skorradal ásamt viðkomu í Hreppslaug (áhugavert staðarheiti) var rennt í hlað við tiltekið hús í Borgarnesi, nákvæmlega þegar sekúnduvísirinn small og klukkan varð 12.15.00 eins og ég hafði auðvitað sagt. Ég var svo sem ekkert hissa á þessari einstöku rýmisvitund minni, en fannst nokkuð miður hve hrós fyrir þetta afrek reyndist takmarkað úr munni samferðafólks.

Ferðin sjálf átti nú aldrei að vera í einhverju aðalhlutvereki hér, heldur þeir atburðir sem gerðust þegar dýrindismáltíð hafði verið borin á borð fyrir okkur ferðalangana. Þannig var að drykkjarglösin voru sérlega fín, e.k. hvítvínsglös með grænunm fæti og úr þeim var drukkið lítilsháttar öl.

Þegar merihluti máltíðarinnar var liðinn birtist í borðstofunni stór og verklegur geitungur, sem renndi sér fimlega milli matargesta, sem auðvitað brugðust misvel við heimsókninni. Hófust umræður árasargjarna geitunga á þessum árstíma og drottningar sem væru farnar úr búunum og væru skaðræðiskvikindi. Allir töluðu með hálfkrepptum vörum og gættu þess að hreyfa hvorki legg né lið. Meðal hugmynda sem fram komu um að losna við kykvendið var að ná í ryksugu, opna út á svalir eða leita að töfraefninu því sem nýtist vel í Kvistholti (það var reyndar ekki til á þessum bæ).

Það er vel þekkt, að geitungum finnst ölið gott, og það kom loks í ljós þegar þessi renndi sér að einu hinna fínu ölglasa og settist á glasbrúnina. Þaðan hóf hann síðan göngu sína ofan í glasið til að dreypa á vökvanum. Það var þá sem snilldin tók völdin. Munnþurrka var sett yfir glasið og haldið fast. Með þessu var bara hálfur sigur unninn - enn lifði hann. Hinn góði maður, húsbóndinn á umræddu heimili, tók glasið og hugðist fara með það, með geitunginn innbyrðis, út á svalir og sleppa honum þar. Þetta töldu Kvisthyltingar (alræmdir geitungabanarnir) hreint ekki við hæfi. Svona kvikindi átti ekki að sleppa lifandi frá aðstæðum sem þessum.
Það varð úr, að ég fékk glasið í hendur; ofan í því grimmilegur geitungurinn og munnþurrkan lokaði fyrir möguleika hans á að sleppa. Hugmyndin hljóðaði einfaldlega upp á að ég þrýsti munnþurrkunni ofan í glasið þar til líf væri farið úr kvikindinu. Auðvitað, eins og mér er einum lagið, skoðaði ég verkferilinn allan, fram og til baka áður en ég hófst handa. Þegar ég taldi alla möguleika á að vinurinn slyppi, útilokaða, hóf ég að þrýsta munnþurrkunni ofan í glasið. Varlega og yfirvegað fyllti munnþurrkan smám saman kúlulaga glasið og stöðugt þrengdi að geitungnum. Hann gerðist órólegur og freistaði útgöngu, en ég gaf engin grið - þrýsti áfram - hann skyldi sko drepinn sá djöfull!
Ég þrýsti enn og nú gat félaginn sig hvergi hreyft lengur. Ég þrýsti áfram og hann var orðinn hálf klesstur upp við glasvegginn, en hreyfðist enn. Einn lokaþrýstingur skyldi nú enda þá óláns lífsgöngu sem þarna hafði verið um að ræða.
Skyndilega heyrði ég smell og leit á glasið, en ég hafði, sem sagt, litið upp á borðfélagana svona rétt áður en verkið skyldi fullkomnað. Hliðin var úr glasinu, en sannarlega var geitungurinn kraminn til ólífis. Í hálfa sekúndu velti ég því fyrir mér hvort ég kæmist upp með þetta þannig að húsbændur vissu ekki af, en varð auðvitað jafnskjótt ljóst, að um það væri ekki að ræða.
Þau brugðust auðvitað ljúfmannlega við þessu 'óhappi' - en ég veit ekki enn hvort hér var um að ræða ódýrt bónusglas eða ómetanlegan ættargrip og mun sennnilega aldrei fá neitt um það að vita.
Geitungurinn var allur - og það er mest um vert.

Geitunginn leit ég í glasi,
grimmur hann virtist og stór.
Með firna rólegu fasi
ég fargaði honum í bjór.


- ég tek fram að myndirnar eru ekki eftir mig - þó þær gætu vissulega verið það.

16 ágúst, 2009

Jú, einhverjir höfðu bætt á sig ýmsu.

Ég hef haldið því fram að fésbókin væri heldur ónauðsynlegt og gagnslaust fyrirbæri. Það er orðið svo að þarna virðast margir ekki hafa annað að gera en takast á við ýmiss konar persónuleikapróf og þeir eru auðvitað frjálsir að því - þó nú væri. Minn vandi er bara, að ég hef engan áhuga á að vita hversu mörg prósent vondur einhver 'vina' minna er, eða hvað það er sem þeir eru að finna þarna út um sjálfa sig og láta okkur hin vita.

Jæja - ég hef komist að því, eftir allt saman að bókin getur gert gagn. Í gær var blásið til hátíðar í Laugarási. Hún varð til með hópsmyndun á fésbókinni og var fyllilega tímabær. Það var sérlega gaman að sjá þarna ýmsa þá sem hér undu sér í einhverri fortíð. Þarna gafst færi á að rifja upp þann tíma sem hver og einn átti hér sameiginlegan með einhverjum öðrum. Vissulega vantaði talsvert á að fulltrúar allra tíma væru þarna, en því fleiri tilheyrðu öðrum og gátu því rifjað umm nokkuð nákvæmlega það sem á dagana dreif og þá aðallega það sem foreldrarnir vissu ekki af.
Kvöldið var grillkvöld og síðan þannig kvöld sem oft fylgir grillkvöldum. Allt var þetta í mesta bróðerni og margt skrafað.

Leiðsögumaður og aðalupprifjandi og örnefnasérfræðingurinn var Bjarni bóksali og gerði hlutverki sínu góð skil.
Frumkvöðlum að hátíðinni ber að þakka.

Myndir hef ég sett hér - svona fyrir áhugasama.

07 ágúst, 2009

Það hafði rignt um morguninn.....

.... en síðan létti til undir hádegið og skall á með úrvalsveðri til að heimsækja Akershus virkið (Akershus festning), sem stendur á hernaðarlega mikilvægum stað við höfnina í Osló. Þarna munu konungar Noregs hafa búið, líkega fram á 17. öld.


Það vildi svo vel til að þegar við stigum fæti inn í virkið voru að hefjast vaktaskipti varðmannanna sem gæta þessa merka staðar eins og sjáaldra augna sinna. Það varð fljótt ljóst, að ekki voru hér á ferð hermenn sem höfðu hlotið eldskírn sína í stríði, heldur virtust þetta allt vera svona rétt rúmlega grunnskólanemar.
Hér er hluti þeirra varðmanna sem mér virtist að biðu þess að vera leystir af.


Það fékk ég staðfest þegar annar hópur varðmanna kom marsérandi og stefndi átt til félaga sinna.


Það þarf varla að taka það fram, en búningar þessa unga fólks voru afar glæsilegir, örugglega nýkomnir úr hreinsun og pressun og skórnir sannkallaðir blankskór, nýpússaðir svo sólageislarnir endurspegluðust í augu talsverðs hóps viðstaddra, en ferðamönnum þykir alltaf gaman að fylgjast með vaktaskiptum varðamanna við konugshallir.

Loks stóðu hóparnir tveir andspænis hvorum öðrum og liðþjálfi steig fram og öskraði, eins og liðþjálfar eiga að gera, (ein, tveir og smella hælum!!! - eða eitthvað þvíumlíkt) skipanir um að nema staðar.


Þegar liðþjálfi segir hermanni að nema staðar, þá nemur hann staðar, hvar sem hann er staddur. Þegar hann segir hermanni að smella hælum, þá smellir hann hælum (stappar fast í jörðina). Örlög eins varðamannanna voru síður en svo eftirsóknarverð við þessar aðstæður. Þegar honum var skipað að stansa þá stóð hann ofan í polli og gat sig þaðan hvergi hrært. Þegar honum var síðan skipað að smella hælum, þá stappaði hann í miðjan pollinn og gusurnar gengu yfir gljáandi skóna og stífpressaðar buxurnar, ekki bara hans heldur einnig félaga hans. Þegar hér var komið áttu einhverjir hinna ungu varðmanna nokkuð erfitt með að halda alvöruþrungnum svip og áhorfendur skemmtu sér konunglega. Varðmaðurinn ungi laumaðist til þess, smátt og smátt og færa fótinn upp úr pollinum, eins og hér má sjá:



Þegar hér var komið varð nokkur bið á framhaldinu. Einhverjir varðmannanna marséruðu burtu en hinir stóðu áfram hreyfingarlausir um alllanga hríð. Eins og sjá má á Íslendingunum sem þarna voru viðstaddir, var þessi bið orðin nokkuð erfið. Þeir skimuðu í kringum sig eftir einhverjum vísbendingum í umhverfinu um framhald málsins.



Þar kom loks, að 4 varðmenn komu marsérandi til hinna sem fyrir voru.




Enn hóf liðþjálfi að öskra skipanir um að gera hin og þessi trix með byssunum, m.a. að setja á þær byssustingi (sem einn reyndar klúðraði nokkuð vel) - og að smella hælum (stappa niður fæti). Það var nákvæmlega það sem fremur illa þenkjandi áhorfendur höfðu beðið eftir.



|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
\/






04 ágúst, 2009

"Afhverju stendur 5. ágúst á miðanum?"

Stundin er 3. ágúst kl. 17.00.
Staðurinn er Gardemoen flugvöllur, einhvers staðar nálægt 60 km norðan Osló.
Tilefnið er heimferð eftir sérlega góða viku hjá Norsurunum okkar.
Næsta stopp er Kaupmannahöfn þar sem meiningin er að gista eina nótt áður en stefnan er tekin á landið góða um hádegi á morgun.

Það kannast væntanlega flestir við þá tilfinningu sem felst í því að sjá framundan einhvern endapunkt, t.d. að sumarfríið eigi að hefjast á föstudaginn. Við þær aðstæður á maður erfitt með að ímynda sér að þurfa fyrirvaralaust að bæta við einni vinnuviku. Slík tilhugsun er fremur óþægileg.

FD er, eins og hennar er von og vísa, að kanna eina ferðina enn, hvort flugið á morgun sé ekki örugglega kl. 12.50. Í leiðinni kíkir hún einnig á dagsetninguna, svona formsins vegna. Það er þá sem spurningin kemur; spurningin sem mótaði fyrirsögnina þessu sinni.

Það þarf varla að lýsa því sem gerist í framhaldinu. Við missum af því þegar flugvélin til Prag fylltist farþegum og flýgur á braut. Okkur finnst það ekkert mál þótt fluginu til Kaupmannahafnar seinki um s.s. hálftíma. Tilhugsunin um, að á morgun á sama tíma verðum við að renna í hlað í Kvistholti, gufar upp eins og regndropi á sólbökuðu malbiki.

--------------

Það hefur tekist furðu vel að vinna úr þessu áfalli, enda okkur ekki í kot vísað hjá Höfðum Íshæðinga. (þá bið ég hér með forláts á því að hafa stolist í tölvuna þeirra).

Nú er búið að endurstilla, búið að margtékka á brottfarartíma, búið að láta hagsmunaaðila vita.

Allt er klárt.

13 júlí, 2009

Undir vökulu auga Bárðar




Það kom að því að Kvisthyltingar leyfðu sér að fara í það, sem kalla má sumarleyfisferð að hætti nútíma Íslendinga. Íslensk sumarleyfisferð á sér ekki lengur stað í fjarlægum löndum, heldur heima við, með það að markmiði að kynnast betur sjálfum sér og fegurð landsins sem ól þig (þetta var ekki einu sinni væmið). Nú sökkvum við okkur ofan í pælingar um það, hver við erum og hvaðan við komum.


Ferð þessi var farin í félagi við fellihýsiseigendurna Siggu og Ingólf, en við snöruðum fína, rauða braggatjaldinu okkar, sem bar þess merki að það hefði verið notað síðast í hellidembu í Ásbyrgi árið 2000, inn í bíl. (Það mun hafa verið þá, eða aðeins fyrr, sem ákvörðun var tekin af minni hálfu um að slíkar ferðir skyldu heyra sögunni til.)

Áfangastaðurinn, þ.e. staðurinn þar sem tjaldinu var slegið upp af stórfenglegri kunnáttu, eða hitt þó heldur, var Arnarstapi á Snæfellsnesi, þar sem Bárður Snæfellsáss birtist í einhverri mynd á hverri þúfu, íslensk landnámshænsni vappa í kringum tjaldið og tína upp það sem fellur af borðum tjaldgesta og óþreytandi kríur vita varla hvað það er að slappa nú af smástund.
Þarna var foruppblásin vindsængin aluppblásin og allt gekk sinn gang, eins og gerist oftast þegar um er að ræða svona útileguferðir.

Eftir bara þolanlega góðan nætursvefn (hefði mátt vera hlýrra á tánum) tók við mikill skoðunarleiðangur um þjóðgarðinn sem þarna hefur verið fenginn staður. Þetta var hin ágætasta ferð með viðkomu á stöðum eins og Hellnum, Bárðarlaug, Laugarbakka, Djúpalónssandi, Lóndröngum, rótum Jökulsins, Skarðsvík, Öndverðarnesi, Gufuskálum, Hellissandi, Rifi,
Ólafsvík, Fróðárheiði (Jökulháls var lokaður allri umferð), Búðum (þar var 2007 brúðkaup í gangi) og Sönghelli.
Seinni tjaldnóttin var miklu betri og ég er nánast kominn á þá skoðun, að það geti verið óvitlaust að fara í fleiri ferðir af þessu tagi, svei mér þó.
Sunnudagurinn fór að stórum hluta í að aka undir sólabakstri, heim á leið með vikomu í brunarústunum á Þingvöllum. ég hef frekar blendnar skoðanir þegar að því kemur að gera upp við mig hvað ég tel að þar skuli gerast næst. Tvennt togast á: a. þarna verið byggt aftur hótel með veitingaþjónustu í nútímalegum stíl, þar sem byggingin hverfur inn í umhverfið, eða b. hreint ekkert verði byggt þarna aftur. Ef það verður byggt á Þingvöllum hús til þessara nota, þá verði því fyrir komið fyrir utan kjarnasvæðið.
Alltaf ömurlegt að sjá svona eyðileggingu.
Haldið var til heilmikillar ferðar
og heldur betur tekið á því fast.
Ekið var um unaðsríki Bárðar
og engu sleppt af nesinu vestast..

MYNDIR hér og hér

13 júní, 2009

Berlín - Kjörfurstastræti og allt það

Ekki var kórsöngur eina ástæða ferðar Kvisthyltinga til Berlínar, því þar býr frumburður okkar ásamt konu sinni og frumburði þeirra, sem við höfðum ekki séð um nokkurra mánaða skeið. Það þarf náttúrulega ekkert að fjölyrða um það, en það er voðalega gaman að fara í svona heimsókn og sjá hvernig ungfrú Júlía stækkar og þroskast með ógnarhraða. 
Þá skemmdi engan veginn fyrir að Oslómaðurinn skellti sér yfir í helgarferð.



Þessi dvöl okkar í Kjörfurstastræti hafði þær afleiðingar að:
- nú þekkjum við afa- og ömmubarnið betur en áður - heilmikill grallari hér á ferð.
- við fengum afar góða hreyfingu í gönguferðum til og frá og milli lestarstöðva, tónleikastaða og dvalarstaðs.
- við þekkjum nú lestakerfi Berlínar, ofanjarðar jafnt sem neðanjarðar bara nokkuð vel.
- við tókum síður þátt í útúrsjóðandi gleðskap kórfélaga vítt og breitt um þessa söguþrungnu borg. Þótt gleðin hafi haft sína kosti þá var valið ekki erfitt. "Been there, done that" - eða þannig.

Mæðgurnar urðu okkur samferða til föðurlandsins og dvelja í skagfirskri sveitasælu meðan tenórinn undirbýr krefjandi hlutverk sitt í Wagneróperu.

Í Kjörfurstastræti að koma
var kannski það besta við allt.


12 júní, 2009

Berlín - kórhluti

Það hefur verið minnst á það hér áður, að framundan væri ferð félaga í fyrrverandi Skálholtskórnum til Berlínar til að halda tvenna tónleika.
Þessari ferð er nú lokið.
Hún gekk jafn vel ef ekki betur en vonir stóðu til. 
Það var gaman að taka þátt í þessu dæmi.
Maður er orðinn hálfgerður heimsborgari eftir að vera búinn að öðlast hagnýtan skilning á lestakerfi borgarinnar.
Ég lenti í samtali við þýskann innistæðueiganda á Edge reikningi sem vonaðist til að ná sambandi við sendiherra landsins á tónleikum okkar - en það kom bara enginn sendiherra. (Hann var að vísu á stóru tónleikunum)

Á tónleikunum í Gethsemanekirkjunni, á laugardagskvöldi með 100 manna þýskum kór, þar sem fluttar voru tvær krefjandi messur með 30 manna hljómsveit fyrir 1000 manns, stóðu hinir íslensku tenórar sig gríðarlega vel, en tveir þeirra reyndust hafa litla blöðru eða mikla sýniþörf. Þetta birtist þannig að í örstuttu hléi tóku þeir sig til og tróðust úr efstu röð í gegnum allan hópinn, til að komast á snyrtinguna, að eigin sögn, en kannski voru þeir bara að vekja athygli á sér. Þeir uppskáru að minnsta kosti nokkur klöpp þegar þeir birtust aftur, eins og hljómsveitarstjórar, eða einsöngvarar, rétt í þann mund þegar næsta atriði hófst. Hverjir þeirra 5 sem hér sjást, voru þeir?:

Já, getið nú.

Aðrir íslenskir kórfélagar stóðu sig einnig vel, að því ég held.
Eftir þessa tónleika var nokkurskonar mótttaka þar sem íslenskum sönglögum og uppákomum fjölgaði eftir því sem leið á kvöld og nótt. 
Sögur fóru daginn eftir af léttum og kátum hóp, sem síðan naut lífsins (eða frelsisins, frá einhverju sem var heima) og skemmti starfsfólki hótelsins og hvort öðru og sjálfu sér fram undir morgun. Það er í góðu lagi.

Seinni tónleikarnir voru okkar eigin, með íslenskri tónlist að mestu í Elias-Kuppelsaal á mánudagskvöldi. Ég viðurkenni, að ekki leist mér á raddlegt ástand sumra félaganna á síðustu æfingunni, en úr því rættist furðu vel.
Fullt hús þarna líka og frábærar móttökur. Við hjónakornin auðvitað ósköp stolt af syninum, tenórnum, sem stóð sannarlega fyrir sínu. Við öll vorum líka stolt af öðrum einsöngvurum sem þarna tróðu upp, stolt af þessu fínu hljóðfæraleikurum sem voru í för, stolt af okkur sjálfum fyrir flottan hljóm. 
Allt í þessu fína með það allt saman.

Þeir voru nokkrir sem lögðu á sig ómælda vinnu í undirbúningi og framkvæmd. Þeir vita hverjir þeir eru og ég veit það líka. Þakka þeim.

Ári var þetta ágæt ferð
ei verður lengi' um það rifist.
Játa það bara, jess ég verð
að jákvæður, hafi ég hrifist.

10 apríl, 2009

Sex í sveit - a la Bisk

Fyrst og fremst finnst mér að virðingarvert að fólk skuli leggja það á sig, af áhuganum einum saman, að setja upp leikrit hér í sveit ár eftir ár. Ég veit það hinsvgar af fyrri reynslu minni og þátttöku í svona löguðu, að fyrir þetta fólk snýst þetta hreint ekki um kvöð, heldur einskæra ánægju; skemmtunin er ekki síður þeirra en okkar hinna sem fáum að fylgjast með afrakstrinum.
Heimaverandi Kvisthyltingar gerðu sér ferð í leikhús í gærkvöld. Leikdeild Umf. Bisk. sýnir þessa dagana hinn vel þekkta farsa: 'Sex í sveit'.
Eins og farsa er siður gengur þarna allt með einhverjum ólíkindum - söguþráðurinn er snúinn og undinn einhvernveginn utanum um hið vinsæla og klassíska þema, sem framhjáhald er.
Skemmst er frá að segja að þetta var hin ágætasta skemmtun og eins og vill verða við þær aðstæður þar sem maður þekkir alla leikendur meira og minna, eykur það umtalsvert við skemmtanagildið.
Frammistaða leikendanna var auðvitað misjöfn, en alltaf nógu góð. Besta valdið að farsatöktum fannst mér þau hafa, Sigurjón Sæland og Íris Blandon, en þetta svið leiklistarinnar er ekki hið auðveldasta að takast á við.
Þá fannst mér sérlega gaman á sjá Bjarna á Brautarhóli í hlutverki kraftajötuns.

Skemmtilegt hve margir lögðu leið sína í Aratungu í gærkvöldi.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...