22 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 þar sem Harpa er


Þá er best að ljúka þessum greinaflokki með því að gera lítillega upp einn megintilgang ferðar okkar fD til höfuðborgarinnar um síðustu helgi.

Tónlistarhúsið Harpa er margrætt á ýmsum vettvangi. Við komum inn í það hús, enda nauðsynlegt þar sem þar er sýnd þessa dagana Töfraflautan eftir hann Mozart. Við fyrstu sýn virkar þessi bygging ágætlega á mig, að innanverðu þó mér finnist rýmið fyrir utan salina vera ógnarstórt og undirlagt tröppum sem síðan reynast varla duga til að flytja fólksfjöldann sem er að koma af sýningu. Það var allavega talsverður tappi þegar leið lá niður af þriðju hæð.
Eldborgarsalurinn er ógurlega fínn og öll var þessi óperureynsla ágæt. 
Tenórar sýningarinnar áttu þó aldrei séns. Það vissi ég nú fyrirfram. Hér á bæ er bara um að ræða einn tenór sem telst sæmilega boðlegur. Ég reyndi að vísu að taka framlagi tenóranna opnum huga, en þeir náðu ekki því flugi sem ég hefði viljað sjá. 
Aría næturdrottningarinnar var afar glæsileg hjá Diddú. 
Bassinn, Sarastro,  fannst mér eiga í nokkru braski með dýpstu tónana - kannski voru þeir fyrir neðan það tíðnisvið sem heyrn mín ræður orðið við. 
Papageno var nokkurn veginn eins og hann á að vera - hæfilega kómískur. 
Þóra Einarsdóttir hefur afskaplega fallega rödd, en hún var Pamina. 
Sviðsetningin var mjög skemmtilega útfærð. 

Ég er með þessum skrifum ekki að þykjast vera einhver gagnrýnandi - það er nóg af þeim. Ég er bara svona að dufla við að vera gagnrýnandi.

1 ummæli:

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...