21 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 pöbbana

Það er ekki svo sjaldan sem maður heyrir fólk tala um að það hafi farið á pöbbarölt og þá yfirleitt sem eitthvað jákvætt að mikilvægt þegar fólk heimsækir 101 um helgar.
Það var eitt markmið heimsóknar okkar fD að fara á svokallað pöbbrölt, allavega eins og okkar skilningur var á því orði: rölta á milli pöbba, kíkja inn hér og þar, renna úr bjór og halda síðan áfram. Þetta hljómar afskaplega skemmtilega eitthvað.

Þegar Töfraflautunni var lokið hafði veður breyst þó nokkuð: það var komið hvassviðri og rigningarhraglandi. Þar með var hugmyndin um rölt fyrir bí, nú snérist þetta meira um að drífa sig á milli pöbba (PÖBBADRÍF), eða réttara sagt, að drífa sig á milli pöbba sem fD tók í mál að fara á. T.d. vildi hún ekkert með Monte Carlo, taldi sig hafa heyrt eitthvað misjafnt um þann stað. 
Hún vildi ekki heldur fara inn á einhvern stað sem er á efstu hæð strætóhússins fyrrverandi á Lækjartorgi, hún vildi heldur sem minnst vita af því sem kynni að vera að finna í nýuppgerðum brunarústunum á sama torgi.
  Það var hún sem hafði frumkvæði að því að fyrsti pöbbinn sem ráðist var inn í ber nafnið B5 (frumlegt nokk) sem er á Bankastræti 5. Staður þessi var ekki fjölsóttur. Þarna inni, í frekur kuldalegum húsakynnum, þar sem var óþægilega hátt til lofts, innréttingarnar voru óaðlaðandi og engin tónlist, var eitthvað sem virtist vera samstarfsmannahópur ca. 8 manns, 8 StarWarsnördalegir karlmenn um þrítugt, og síðan einhver 3-4 pör fákunnandi útlendinga. Í stórmennsku minni bauð ég fD  upp á bjór, sem var þegið, ég pantaði, fékk og greiddi - hálfur lítri á mann. Þarna varð strax ljóst að úr þessu yrði ekki um að ræða neitt sem héti pöbbarölt - eða pöbbadríf - kannski pöbbaslag eða pöbbaskríð (æ, þetta er nú bull). Það tók langan tíma að ljúka þessu bjórglasi, ekki síst þar sem ég get ekki drukkið þennan vökva svo vel sé. Það er með engu móti hægt að halda því fram að þessi staður hafi hentað okkar aldri - hefðum getað verið foreldrar allra sem þarna voru.  Sá tími sem við eyddum þarna inni var ekki nýttur í neitt annað en að ljúka við bévítans bjórinn, sem tók nú tímann sinn. Tókst þó og ég uppþembdur.

Ekki taldist rétt að drífa sig á næsta pöbb fyrr en að lokinni hvíld í lúxusíbúðinni. Hvíldin gekk vel. Aftur héldum við fD út á lífið. Nú lá leiðin á pöbb sem kallast Ölstofa Kormáks og Skjaldar. Á þessari ölstofu eru ekki gluggar þannig að ekki vissum við hvað tæki við þegar inn var komið. Ég gekk ákveðnum skrefuð að útdyrunum og opnaði. Þarna var ekkert anddyri, maður var umsvifalaust kominn inn þar sem all var sem var. Þarna var mikll fólksfjöldi miðað við stærð húsnæðisins, sem er þannig hannað að á miðju gólfi er bar, sem er ótrúlega stór í hlutfalli við annað. Við veggina voru síaðn stólar og einhverjar borðnefnur og stólar. Milli útveggja og bars eru svona um það bil 1,5 metrar. Það getur verið að þarna sé eitthvað meir, en við fD gengum þarna einn hring í kringum barinn í gegnum kraðak fólks sem, enn og aftur hefði getað verið börnin okkar. Þarna eyddum við um það bil 5 mínútum. Þarna lauk pöbbaröltinu/drífinu.

Niðurstaða mín þessi eftir þessa reynslu:
Pöbbarölt er ofmetið - í það minnsta fyrir það fólk og aðstæður allar, sem hér var um að ræða.

2 ummæli:

  1. Mæli með Café Rosenberg á horni Frakkastígs og Hverfisgötu. Oft fínir tónlistarviðburðir- bókakynningar o.fl. notalegt að sitja þarna,
    H,Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...