20 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101

Á meðan helbláir fréttamenn lögðu útvarp allra landsmanna undir frásagnir af hverju einasta prumpi skoðanabræðra og systra sinna í Laugardalshöllinni, héldum við fD í höfuðborgina í þeim tilgangi að slá fimm flugur í einu höggi:
1. Dvelja á hóteli eina nótt.
2. Finna góðan veitingastað og snæða þar.
3. Fara á pöbbarölt
4. Líta augum innviði nýja tónlistarhússins okkar.
5. Sjá "Töfraflautuna"
Hver og einn þeirra þátta sem þarna er nefndur verðskuldar sannarlega, a.m.k. eins og eina færslu á þessu svæði, en ég reikna ekki með að ég nenni að standa í því. Þar fyrir utan var sumt það sem þarna gerðist ekki þess eðlis að það eigi erindi inn á svo víðlesið svæði og hér er um að ræða.

Ætli sé ekki svona rúm vika síðan ég fann íbúðahótel í miðborginni sem borgaði nánast með sér. Mér fannst að það hlyti að vera maðkur í mysunni. Um leið og ég var búinn að bóka og borga fór ég að ímynda mér allskyns hrylling um þetta hótel, sem ber nafnið "Room with a view". Bara það, að hótel skuli ekki bera íslenskt nafn, er í sjálfu sér ávísun á að eitthvað spúkí sé í gangi. Var kannski ekkert salerni í íbúðunum? Snéru herbergisgluggarnir út að aðaldyrum skemmtistaðar? Ætli vantaði kannski dýnur í rúmið?
Ég lét auðvitað ekkert á neinum svona pælingum bera við fD. Hún  vissi bara um glæsilegt íbúðahótel í sama húsi og Mál og Menning í hjarta höfuðborgarinnar, neðarlega á Laugavegi, í göngufæri frá Hörpunni.
Í gær var síðan brunað í bæinn. Niður Laugaveginn var ekið á eins til tveggja kílómetra hraða á klukkustund og þegar við loks komumst á hornið hjá M&M, þar sem átti að beygja upp til vinstri upp Vegamótastíg, þá ætlaði það nú varla að ganga vegna fólksfjöldans  Ég þarf nú ekki að taka það fram að það var ekkert um að ræða, að leggja bíl við Laugaveginn. Hótelið lofaði hinsvegar á síðunni sinni, að íbúð fylgdi frítt bílastæði. Bakvið hús M&M fann ég bílastæði hótelsins, sem gaf nú ekki beinlínis fyrirheit um glæsileika. Þetta var svona svæði á bakvið, eins og slík svæði eru. Þarna voru ruslatunnur, moldarhrúgur, hellubrot, stillansar, veggjakrot og fleira óaðlaðandi og pláss fyrir 5-6 bíla, eftir því hvernig lagt var. Og, viti menn, þarna var laust stæði, sem ég renndi inn í. Þarna bakvið húsið voru engin önnur merki um íbúðahótelið en lítið skilti þar sem þess var getið að þetta væri bílastæði þess. Því hófst  leit að "Room with a view". Við fD gengum niður á Laugaveg og inn í verslun M&M til að spyrjast fyrir um hvar væri helst að leita að dyrum. Búðin var, eins og aðrir hlutar Laugavegs, í kreppunni, full af fólki að skoða og kaupa bækur. Allir starfsmenn uppteknir og ég vildi ekki vera að ryðjast inn í spekingslegar umræðurnar með spurningu hvernig ég gæti fundið hótel sem var í þessu sama húsi.
Þar kom þó að mér tókst að ná sambandi við starfsmann á milli kúnna. Hann sagði að þegar við kæmum úr færum við til hægri þar til við kæmum að dyrum sem væru merktar hótelinu. Fyrir innan þær væri hægt að sjá möttökuna, en það þyrfti kóða til að komast inn. 
KÓÐA til að komast inn á hótel!!?? Mér var nú að verða hætt að lítast á blikuna.


Út fórum við og til hægri. Sviplaus framhlið húsanna þarna gaf lítið til kynna um að þarna væri hótelinngangur. Við nánari athugun gat ég greint nafn hótelsins í glerinu á dyrum þess. Þegar við rýndum í gegnum glervegginn mátti sjá möttökuna, langt inni í iðrum hússins. Við hliðina á dyrunum var síðan takkaborð, væntanlega til að slá inn áðurnefndan kóða. Þar mátt ennfremur sjá spjald þar sem bent var á að það þyrfti að slá inn töluna 11 til að ná sambandi við móttökuna. Það gerði ég og umsvifalaust opnuðust rennidyrnar og við gengum inn í 2007-lega móttökuna, sem reyndist svo forsmekkurinn að því sem beið okkar í íbúð 512. (slatti af myndum úr henni) 


Það reyndust ekki vera neitt afskaplega miklar ýkjur  sem segir á vefsíðunni:

Luxury Apartment Hotel in Reykjavik city center


Íbúðin reyndist hin flottasta og þegar við bætist síðan verðið sem við greiddum fyrir herlegheitin var þetta bara nánast stórfenglegt. Gluggar snéru frá Laugavegi, þannig að ekki urðum við vör að hliðarverkanir skemmtanalífsins. Við blöstu bæði Hallgríms- og Landakotskirkja auk ýmissa minnismerkja um bóluna.
Nú ættu þeir hjá "Room with a view" að huga að nafnbreytingu. Mér finnst t.d. nafnið. 
"Íbúð með útsýni" 
koma vel til greina. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...