13 júlí, 2009

Undir vökulu auga Bárðar




Það kom að því að Kvisthyltingar leyfðu sér að fara í það, sem kalla má sumarleyfisferð að hætti nútíma Íslendinga. Íslensk sumarleyfisferð á sér ekki lengur stað í fjarlægum löndum, heldur heima við, með það að markmiði að kynnast betur sjálfum sér og fegurð landsins sem ól þig (þetta var ekki einu sinni væmið). Nú sökkvum við okkur ofan í pælingar um það, hver við erum og hvaðan við komum.


Ferð þessi var farin í félagi við fellihýsiseigendurna Siggu og Ingólf, en við snöruðum fína, rauða braggatjaldinu okkar, sem bar þess merki að það hefði verið notað síðast í hellidembu í Ásbyrgi árið 2000, inn í bíl. (Það mun hafa verið þá, eða aðeins fyrr, sem ákvörðun var tekin af minni hálfu um að slíkar ferðir skyldu heyra sögunni til.)

Áfangastaðurinn, þ.e. staðurinn þar sem tjaldinu var slegið upp af stórfenglegri kunnáttu, eða hitt þó heldur, var Arnarstapi á Snæfellsnesi, þar sem Bárður Snæfellsáss birtist í einhverri mynd á hverri þúfu, íslensk landnámshænsni vappa í kringum tjaldið og tína upp það sem fellur af borðum tjaldgesta og óþreytandi kríur vita varla hvað það er að slappa nú af smástund.
Þarna var foruppblásin vindsængin aluppblásin og allt gekk sinn gang, eins og gerist oftast þegar um er að ræða svona útileguferðir.

Eftir bara þolanlega góðan nætursvefn (hefði mátt vera hlýrra á tánum) tók við mikill skoðunarleiðangur um þjóðgarðinn sem þarna hefur verið fenginn staður. Þetta var hin ágætasta ferð með viðkomu á stöðum eins og Hellnum, Bárðarlaug, Laugarbakka, Djúpalónssandi, Lóndröngum, rótum Jökulsins, Skarðsvík, Öndverðarnesi, Gufuskálum, Hellissandi, Rifi,
Ólafsvík, Fróðárheiði (Jökulháls var lokaður allri umferð), Búðum (þar var 2007 brúðkaup í gangi) og Sönghelli.
Seinni tjaldnóttin var miklu betri og ég er nánast kominn á þá skoðun, að það geti verið óvitlaust að fara í fleiri ferðir af þessu tagi, svei mér þó.
Sunnudagurinn fór að stórum hluta í að aka undir sólabakstri, heim á leið með vikomu í brunarústunum á Þingvöllum. ég hef frekar blendnar skoðanir þegar að því kemur að gera upp við mig hvað ég tel að þar skuli gerast næst. Tvennt togast á: a. þarna verið byggt aftur hótel með veitingaþjónustu í nútímalegum stíl, þar sem byggingin hverfur inn í umhverfið, eða b. hreint ekkert verði byggt þarna aftur. Ef það verður byggt á Þingvöllum hús til þessara nota, þá verði því fyrir komið fyrir utan kjarnasvæðið.
Alltaf ömurlegt að sjá svona eyðileggingu.
Haldið var til heilmikillar ferðar
og heldur betur tekið á því fast.
Ekið var um unaðsríki Bárðar
og engu sleppt af nesinu vestast..

MYNDIR hér og hér

1 ummæli:

  1. Flottar myndir! Merkilegt að sjá að þrátt fyrir beiðni lögreglu að halda sig frá staðnum fór Kvistholtsliðið á staðinn og tók myndir :)

    En mjög táknrænt í lok mynda af rústunum að fáninn stendur þó enn, sem minnir á setningu í ljóði eftir Francis Scott Key: "and the rockets' red glare, the bombs bursting in air,Gave proof through the night that our flag was still there."

    Fallegt, þjóðlegt og táknrænt á margan hátt :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...