08 júlí, 2009

Annar blær (2)

Með því að setja 2 í sviga er ég að vísa til færslu með sama nafni frá 20. apríl á síðasta ári. Þessa færslu skildu lesendur ekki, eins og sjá má af þeim athugasemdum sem skráðar voru. Of djúpt, enda ætlaðist ég til þess að það þyrfti töluvert innsæi til að skilja hvað um var að ræða.

Ástæða þess að ég vísa til þessarar færslu, sem er ríflega ársgömul er, að nú mun vera samskonar staða uppi og þá var. Munurinn er sá að nú hafa birst á opinberum vettvangi upplýsingar um hver staðan er, en það var ekki þá og því þörf á að vera dulúðugur í orðavali.

Nú eins og þá hefjast vangaveltur um hvernig þetta fari nú allt saman þó svo mestar líkur séu á að allt fari eins og best verður á kosið. Áhyggjurnar beinast væntanlega fyrst og fremst að gerendunum, sem nú sjá fram á að lífið breytist umtalsvert, sbr. 'It's the end of the world as we know it...'.

Jamm - lífið breytist í grundvallaratriðum, dýptin eykst og litunum fjölgar. Það gefst færi á að gleðjast yfir öðrum hlutum með allt öðrum hætti. Það þarf að fórna, en fórnirnar þær gefa margfaldan arð. Það þarf að forgangsraða með öðrum hætti, en samt er í rauninni rúm fyrir allt.

Þetta er það sem allt snýst í rauninni um, er það ekki?

--------------------------
--------------------------

Heimsókn til gamla unglingsins í dag fór í að ræða kveðskap. Ég þóttist þekkja stuðla, höfuðstafi og rím, ásamt hákveðum og lágkveðum og öllu þessu sem til heyrir. Jafnframt gat ég þess, að ég treysti mér vel til að sjá hvaða vísa væri rétt kveðin. Hinsvegar sagði ég sem satt er (eins og segja má um Jóhönnu og Steingrím þessa mánuðina): Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Hvað um það. Ég er nokkuð lélegur til gangs þessa mánuðina og er yfirleitt hálf haltrandi þegar ég kem í heimsóknirnar. Þessari lauk þannig að sá gamli sagði mér að klára þessa fyrstu línu fyrir morgundaginn:

Illt er að ganga' á einni löpp..................

Eins og vant er, kostaði þessi áskorun mikil heilabrot og þótti mér það ekki góð tilhugsun, að standast hana ekki.
Ég endaði á þessu og er ekki fyllilega ánægður:

Illt er að ganga' á einni löpp,
allt er skakkt og bogið.
Verkir hrjá mig, von er slöpp,
ég vildi' ég gæti flogið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...