Í dag gleðst þjóðin og syrgir. Fésbók og bloggheimar loga í stóryrðum sem eiga lítið skylt við vitiræna umræðu. Það er engu líkara en blessuð þjóðin, meira og minna, haldi að nú sé búið að ákveða að ganga í ESB. Ef svo er, þá veit ég ekki hvort þeirri sömu þjóð er treystandi til að taka málefnalega afstöðu til samningstillögu sem hún mun taka afstöðu til í fyllingu tímans.
Mér virðist eins og þeir sem tjá sig hvað mest, og þá yfirleitt gegn því að það verði einu sinni kannað hvort þetta Evrópusamband er yfirleitt eitthvað sem gæti hentað okkur, tjái sig með einstaklega ómálaefnalegum hætti þennan daginn, eins og lesa má út úr fyrirsögninni hér að ofan.
Þessi umræða um inngöngu í ESB er búin að vera í gangi afskaplega lengi og fyllilega kominn tími til að sótt verði um inngöngu og séð hvað kemur út úr því. Ef það er óásættanlegt, þá er ekkert annað að gera en hafna því. Ég fæ ekki sé að að það sé innistæða, á þessu stigi, fyrir öllum upphrópununum sem spýtast nú framan í mann ef maður vogar sér að opna netheima.
Það verður að fá svar svo maður þurfi ekki lengur að hlusta á hávaðann á báða bóga án þess að taka neina vitræna afstöðu til þessara mála. Það er fullt af fólki sem telur sig vita fullkomlega, Á BÁÐA BÓGA, hvað bíður okkar innan ESB. Hverju erum við svo sem nær með slíka umræðu og ekkert annað?
Upphrópanirnar hleypa í mig illu blóði, hvað sem öðru líður - ég er orðinn hundleiður á þessu bévítans karpi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli