17 júní, 2015

"Er þetta ekki ML-merkið?"

"Jæja vinur, hvað er títt..? Er þetta nokkuð búið að fljúga undir radarnum hjá þér..? Ég neita að trúa því en samt hendi ég þessu á þig til vonar og vara.."
Þessi skilaboð birtust mér gegnum samfélagsmiðila fyrir einhverjum vikum og fjölluðu um hvort ekki mætti reikna með að ég léti fé af hendi rakna svo unnt yrði að ljúka við vinnslu bolvískrar kvikmyndar sem hafði hlotið nafnið "Albatross". Sá sem skilaboðin sendi er fyrrum nemandi sem jafnframt reyndist fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni.
Auðvitað hafði þetta ekki "flogið undir radarinn" hjá mér, svo vel tengdur sem ég er á samfélagsmiðlum. 
Ég styrkti með mínum hætti, eins og ótrúlegur fjöldi annarra og vissi síðan ekkert af málinu fyrr en póstur tilkynnti mér að tveir miðar á forsýningu þann 16. júní stæðu mér til boða.

Í gær héldum við fD síðan í höfuðborgina og sinntum ýmsum erindum, svona eins og maður gerir. Áætlaður tími reyndist vel rúmur svo við vorum komin nánast vandræðalega tímanlega á sýningarstaðinn sem var hátíðasalur Háskólabíós. Þá vorum við búin að drepa tímann með því að rifja upp kynni af högum og melum í vesturbænum í góða stund.

Það dreif að fólk á sýninguna og þar kom að hópnum var hleypt inn í salinn. Hátíðasalurinn í þessu, eitt sinn flottasta kvikmyndahúsi landsins hefur séð betri tíma.

Sýningin hófst og ekki ætla ég mér nú að lýsa því sem fyrir augu bar í smáatriðum, utan það að í einni senunni hnippti fD í mig og spurði fyrirsagnar þessa pistils. Viti menn, klæddist ekki aðal íþróttabuxum sem falla í flokkinn ML-föt á mínum vinnustað. Ef mið er tekið af því, að það eru ein 13 ár síðan pilturinn brautskráðist frá skólanum, verður að draga þá ályktun að ML-föt séu sígild og endist áratugum saman.

Um myndina sjálfa er það að segja, að ég skemmti mér aldeilis ágætlega, skellti meira að segja nokkrum sinnum upp úr. Sú senan sem ég hló mest að var þegar vinnufélagar Tómasar (aðalpersónunnar) gáfu sig á tal við brasilíska fótboltakonu og annar þeirra kynnti hinn sem meistarabeitningamann  á sinni ensku.

Á heildina er hér á ferð afar skemmtileg gamanmynd og leikendurnir, ekki síst minn maður, standa sig með prýði. Það helsta sem ég vil finna að henni er, að í nokkrum tilvikum er hljóðið ekki nægilega skýrt og þar með missti ég af nokkrum skemmtilegum athugasemdum persónanna og þá helst þess sem "baggaði" sig sig látlaust og tanaði grimmt.  Ég fékk það á tilfinninguna að það hafi verið ansi margir Bolvíkingar í salnum og jafnframt að þeir hafi þekkt til "baggarans", því þeir hlógu að bröndurum hans þó svo ég hafi ekki skilið/heyrt hvað hann sagði.

Fólk á auðvitað að drífa sig á þessa ágætu mynd, en auðvitað eru Bolvíkingar og ML-ingar skyldugir til að bruna í bíó.  Myndin verður frumsýnd föstudaginn 19. júní.

ps. Aðalleikarinn sem nefndur er hér fyrir ofan heitir Ævar Örn Jóhannsson, kláraði ML 2003 og bræður hans tveir Hafsteinn (2010) og Daníel Ari (2013) fylgdu í kjölfarið. 

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...