16 maí, 2015

Með ásjónur engla

Í dag langaði mig að prófa nýja filterinn minn (Tiffen variable ND), en það þýðir bara það, að það myndefnið þarf að vera á hreyfingu til að ná fram tilteknum áhrifum. Fossar eru t.d. tilvaldir til þess arna. Ég veit bara um einn foss í nágrenninu og ég er nú búinn að komast að því að hann kallast Dynjandi og er í Brúará um það bil kílómetra fyrir ofan brúna. Ég hef reyndar ekki rannsakað til hlítar hvort þetta er rétt nafn þessa foss, eða flúða, en kalla hann bara Dynjanda þar til annað kemur í ljós.
Til að komast að fossinum er í fljótu bragði um tvær leiðir að ræða. Annarsvegar gengur maður frá brúnni, meðfram ánni þar til komið er að fossinum. Þessa leið fór ég einhverntíma í gamla daga.
Hina leiðina sá ég með því að fara á Google-maps. Sú leið virðist ótrúlega einföld: það liggur akvegurvegur frá Biskupstungnabraut og nánast alveg að fossinum.
Það þarf ekki að spyrja að því hvora leiðina ég valdi, og við fD lögðum í hann eftir að ég hafði tínt til græjurnar, sem verða stöðugt umfangsmeiri (og flottari).
Ég vissi að það var hlið þar sem ekið er inn á veginn niður að ánni, en hafði aldrei kannað hverskonar hlið það var. Nú veit ég það hinsvegar.
Þar sem ég beygði af aðalveginum, blasti við mjög sterkbyggt hlið og á því var skilti sem gaf skýrt til kynna að þarna væri um einkaveg að ræða. Það varð þá svo að vera, og við fD vorum þess albúin að yfirgefa Qashqai og ganga spölinn niður að ánni. Sannarlega var sá kostur og aka þennan spöl þó talsvert eftirsóknarverðari.
Í þann mund er við vorum að stíga frá borði, bar að bifreið innan af svæðinu handan hliðsins. Þegar hún nálgaðist opnaðist hliðið hægt og rólega og ég ákvað að reyna að ná sambandi við ökumannin til að kynna mér hve mikinn einkaveg væri þarna um að ræða. (Þetta gat verið einkavegur eins og sá sem liggur heim í Kvistholt og þetta gat líka verið einkavegur þar sem alvarleg viðurlög eru við akstri í óleyfi og jafnvel kölluð til lögregla. Hliðið benti til þess að einmitt sú gæti verið raunin).
Bílstjórinn, kona á ríflega miðjum aldri, stöðvaði bíl sinn hjá okkur og renndi niður hliðarrúðunni, þess albúin að tilkynna okkur að þarna færum við ekki í gegn. Í sama mund rann hliðið til baka og lokaði leiðinni. Spurningu minni um hvort það gæti verið möguleiki að við fengjum að aka veginn handan hliðsins svaraði hún sem svo:
"Þetta er einkavegur", hverju ég svaraði þannig að ég hefði fullan skilning á því, og svo framvegis og gaf til kynna að þá næði þetta ekki lengra. Konan horfði rannsakandi á okkur um stund en sagði svo:
"Þið eruð svo heiðarleg á svipinn að það hlýtur að vera óhætt að hleypa ykkur í gegn", og þar með ýtti hún á opnara (svona eins og notaðir eru á bílhurðir) og hliðið rann frá.
"Það gæti orðið vandamál hjá ykkur að komast út aftur, en það er yfirleitt hægt með því að........(hér vil ég ekki ljóstra upp um aðferðina). Ef það gengur ekki þá verðið þið að semja við einhvern um að hjálpa ykkur".
Spennan ætlaði ekki að verða endaslepp þennan daginn. Þar sem við erum spennufíklar, ekki síst fD, létum við slag standa og ókum þennan veg sem við alderi höfðum farið áður, könnuðum sem sagt ókunnar slóðir á 30 km hámarkshraða eins og tilskilið var, engin ástæða til að taka áhættuna á að verða tekinn fyrir of hraðan akstur. Qashqai var lagt  við sumarhús sem greinilega var mannlaust. Það, eins og ótrúlega mörg hús, sem við höfðum ekki áður haft vitneskju um, stóð á fögrum stað á bakka Brúarár og við blasti fossinn Dynjandi, sem venjulega væri nú bara kallaður flúðir frekar en foss.

50 m ganga var allt sem til þurfti til að komast að ánni. Græjurnar settar upp, stilltar og hvaðeina sem þurfti til myndatöku. Það var ágætur bónus að geta fylgst með og myndað straumandarpar og auka stegg sem létu fara vel um sig við bakkann okkar megin.
Segir ekki af myndatökunni fyrr en henni lauk, enda um að ræða enn eina æfinguna í að ná tökum á broti þeirra möguleika sem búa í græjunum.

Þegar konan ók frá okkur við hliðið fannst mér hún glotta, frekar en brosa, sem gæti þýtt að ráðið sem hún gaf okkur til að komast úr aftur væri ekkert sérstaklega gott.  Af þessum sökum fylgdi því nokkur spenna að aka veginn til baka á löglegum 30 km hraða, að hliðinu.
Hvernig skyldi enda vor för?
Á leiðinni sáum við nokkra einstaklinga horfa rannsakandi á löglegan akstur okkar og mér fannst ég geta greint af svipbrigðum þeirra og látbragði að við værum ekkert sérlega velkomin á þessum slóðum og að það gæti nú verið fróðlegt að sjá hvernig við færum að því að komast út.
Hliðið nálgaðist æ meir og spennan fór vaxandi.
Þar sem við vorum að verða komin að verklegu hliðinu tók það sig til og renndi sér kurteislega til hliðar og hleypti okkur í gegn og þar með hafði ráð konunnar dugað til.

Við heimkomu skoðaði ég afraksturinn til þess eins að komast að því að ég get gert betur, eins og ávallt.  Hvað væri líka varið í að ná einhverri fullkomnun á þessu sviði frekar en öðrum, ef út í það er farið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...